Hörgárdalur

dalur frá Eyjafirði á Norðurlandi-Eystra

Hörgárdalur er langur dalur sem liggur frá Eyjafirði til suðvesturs og nær út að sjó innarlega í firðinum. Í dalsmynninu og inn að mótum Hörgárdals og Öxnadals er dalurinn víður og búsældarlegur en innar verður hann þröngur, enda umlukinn háum fjöllum, og undirlendi minna. Hörgá rennur um dalinn.

Möðruvallakirkja í Hörgárdal
Hörgárdalur

Norðurmörk dalsins eru um holtarana sem gengur frá Hörgárósum upp að Möðruvallafjalli og liggja síðan eftir fjallstindum. Fjöllin vestan dalsins eru mörg mjög há, þau hæstu á fimmtánda hundrað metra, en á milli þeirra skerast inn djúpir dalir og hamraskálar. Í dalbotninum eru breiðar eyrar, grónar að hluta. Vestan árinnar er gróið undirlendi og grösugar hlíðar og standa bæir þar nokkuð þétt. Byggðarlagið austan Hörgár frá ósum og fram að mynni Öxnadals kallast Þelamörk.

Fyrir innan dalamótin þrengist Hörgárdalur. Vesturhlíðin er þar grafin af þverdölum og skörðum og um sum þeirra liggja gamlir fjallvegir. Jöklar eru víða í dalbotnum. Helstu þverdalirnir eru Barkárdalur og Myrkárdalur. Fremsti bær í Hörgárdal er Flögusel og þar fyrir framan sveigir dalurinn meira til vesturs. Úr dalbotninum er farið upp á Hjaltadalsheiði, sem áður var nokkuð fjölfarin leið til Hóla í Hjaltadal.

Möðruvellir eru helsta höfuðbólið í Hörgárdal og sögustaður að fornu og nýju. Hörgárdalur er nú hluti af Hörgársveit.

Nafn dalsins er dregið af orðinu hörgur (heiðið blóthús eða blótstallur)[1].

Heimildir breyta

  • „Vefur Hörgársveitar - Sveitarlýsing“.
  1. „Málið - Hörgur“. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt Júní 2023.