Annað millitímabilið er tímabil í sögu Egyptalands sem nær frá endalokum Miðríkisins um 1640 f.Kr. fram að upphafi Nýja ríkisins um það bil 1570 f.Kr.. Á þessum tíma leystist miðstjórnarvald faraóanna upp og Neðra Egyptaland féll í hendur hirðingjaþjóðflokks sem Egyptar nefndu Hyksos og ríktu frá Memfis og Avaris, meðan Efra Egyptaland var í höndum fursta sem ríktu frá Þebu. Hyksos-konungar mynda fimmtándu konungsættina í konungalistunum, en deilt er um hvort sextánda konungsættin telji Hyksos-konunga eða egypska konunga. Sautjánda konungsættin er mynduð af furstum sem ríktu yfir Þebu. Síðustu konungar þeirrar ættar gerðu uppreisn gegn Hyksos-konungunum og lögðu grundvöllinn að myndun Nýja ríkisins.