Diocletianus

Rómverskur keisari frá 284 til 305
(Endurbeint frá Díókletíanus)

Gaius Aurelius Valerius Diocletianus (22. desember 244 – 3. desember 312[1]) (oft nefndur Díókletíanus á íslensku) var keisari Rómaveldis á árunum 284 – 305. Diocletianus kom á stöðugleika innan Rómaveldis og er álitinn hafa endað hina svokölluðu 3. aldar kreppu. Það gerði hann með því að koma á ýmsum umbótum á löggjöf, skattheimtu og stjórnsýslu ríkisins. Einnig deildi hann völdum sínum með þremur öðrum keisurum þegar hann myndaði fjórveldisstjórnina, en henni var ætlað var að tryggja stöðugleikann til frambúðar. Síðasta kerfisbundna ofsóknin gegn kristnum í Rómaveldi átti sér stað í valdatíð Diocletianusar, en nokkrum árum eftir afsögn hans var kristni gerð lögleg í heimsveldinu.

Diocletianus
Rómverskur keisari
Valdatími 284 – 305
yfir Maximianusi (285 – 286)
með Maximianusi (286 – 305)
yfir Galeriusi (293 – 305)

Fæddur:

um 244

Dáinn:

um 312
Forveri Numerianus og Carinus
Eftirmaður Constantius og Galerius
Maki/makar Prisca
Börn Valeria
Fæðingarnafn Diocles
Keisaranafn Caesar Gaius Aurelius Valerius Diocletianus Augustus
Tímabil Fjórveldisstjórnin

Leiðin til valda

breyta

Diocletianus var líklega fæddur í Salona (núverandi Solin í Króatíu). Fæðingarár hans er óvíst en það var líklega í kringum 244. Hann var upphaflega nefndur Diocles og voru foreldrar hans af lágri stétt, faðir hans var annað hvort skrifari eða frelsaður þræll.

Diocles var herforingi í rómverska hernum undir keisaranum Carusi og fór með honum, árið 283, í herferð gegn Sassanídum í Persíu. Carus lést sama ár, eftir vel heppnaða herferð, er hann varð fyrir eldingu. Synir hans tveir, Numerianus og Carinus, urðu þá keisarar. Numerianus hafði farið með föður sínum til Persíu en hélt til Rómar eftir dauða hans. Á leiðinni fannst Numerianus látinn í vagni sínum og kenndi Diocles þá yfirmanni lífvarðasveitarinnar, Aper, um dauða hans. Herdeildirnar lýstu Diocles þá keisara og tók hann Aper af lífi fyrir framan hermennina. Eftir að hafa verið lýstur keisari tók Diocles sér nafnið Gaius Aurelius Valerius Diocletianus.

Carinus var staddur í vesturhluta Rómaveldis þegar Diocletianus var lýstur keisari en hélt austur með sínar herdeildir til þess að mæta honum. Þeir mættust í bardaga í maí 285 þar sem Carinus hafði stærri her. Carinus var hinsvegar óvinsæll á meðal sinna eigin hermanna sem drápu hann í miðjum bardaganum.

Valdatími

breyta

Maximianus útnefndur keisari

breyta

Stuttu eftir að hafa sigrað Carinus, og tryggt sína stöðu sem keisari yfir öllu Rómaveldi, útnefndi Diocletianus herforingjann Maximianus sem undirkeisara. Diocletianus var þó æðri keisarinn (augustus) og stjórnaði austurhlutanum en Maximianus var lægra settur (caesar) og stórnaði vesturhlutanum. Ástæðurnar fyrir útnefningunni voru þær að stöðugt aukin átök við germanska þjóðflokka, Sassanída og fleiri óvini Rómaveldis, sem og tíðar uppreisnir gegn keisurum á 3. öldinni höfðu gert að verkum að erfitt var fyrir einn keisara að halda völdum og tryggja frið í ríkinu.

Diocletianus hélt eftir þetta austur í herferð gegn Persum en samdi fljótlega frið við þá. Á sama tíma barðist Maximianus gegn uppreisn Carausiusar, sem hafði lýst sjálfan sig keisara yfir Bretlandi og hluta Gallíu. Á meðan á átökunum stóð, á árinu 286, tók Maximianus sér titilinn augustus og var því, að nafninu til, jafn valdamikill og Diocletianus. Maximianusi gekk illa að kveða niður uppreisn Carausiusar og þurfti að fresta innrás í Bretland en í staðinn fóru keisararnir í sameiginlega herferð gegn Alemönum, sem bjuggu í Germaníu norðan Rínar og Dónár.

Fjórveldisstjórn

breyta
 
Stytta af keisurunum fjórum í Feneyjum

Árið 293 breyttu Diocletianus og Maximianus stjórnskipulagi Rómaveldis og mynduðu hina svokölluðu fjórveldisstjórn. Þeir skipuðu þá hvor um sig einn undirkeisara (caesar) og voru keisarar Rómaveldis þar með orðnir fjórir. Diocletianus útnefndi Galerius, tengdason sinn, sem undirkeisara en Maximianus útnefndi Constantius Chlorus. Tilgangurinn með þessum breytingum var að tryggja að þegar keisari (augustus) létist eða léti af völdum, tæki undirkeisarinn við á friðsamlegan hátt.

Á árunum 293-294 barðist Diocletianus gegn Sarmatíum norðan Dónár, og á svipuðum slóðum gegn öðrum germönskum þjóðflokkum frá 295 til 296, í bæði skiptin með góðum árangri. Með þessu náði hann að tryggja stöðugleika á landamærum ríkisins við Dóná. Árin 297 til 298 þurfti Diocletianus að kveða niður uppreisnir tveggja valdaræningja, Domitiusar Domitianusar og Aureliusar Achilleusar, sem báðir höfðu lýst sig keisara í Egyptalandi, vegna óánægju með breytingar á skattheimtu. Galerius var á árunum 295-298 í stríði við Sassanída sem í upphafi gekk illa en endaði þó með því að hann hertók Ctesiphon, höfuðborg Sasanída, í stuttan tíma og árið 299 sömdu hann og Diocletianus um frið við Sassanídana með skilmálum sem voru mjög hagstæðir Rómverjum.

Ofsóknir gegn kristnum

breyta

Síðustu og jafnframt mestu ofsóknir á hendur kristnum mönnum í Rómaveldi áttu sér stað í valdatíð Diocletianusar. Ofsóknirnar hófust árið 303 og höfðu í för með sér aftökur á kristnum og eyðileggingu á kirkjum. Mismunun gegn kristnum hafði þó hafist áður því kristnum var frá 299 ekki heimilt að gegna opinberum störfum eða herþjónustu nema þeir færðu fórnir til hinna hefðbundnu rómversku guða. Galerius mun hafa verið helsti hvatamaðurinn að ofsóknunum, sem var fylgt eftir af mun meiri hörku í austurhluta Rómaveldis en í vesturhlutanum. Galerius batt svo opinberlega enda á ofsóknirnar árið 311 en aðeins tveimur árum síðar gerðu Konstantínus og Licinius kristna trú löglega í Rómaveldi.

Umbætur

breyta

Valdatíð Diocletianusar er álitin hafa endað hina svokölluðu 3. aldar kreppu sem einkendist af stöðugum átökum og sífellt versnandi efnahag innan Rómaveldis. Til að stemma stigu við þessum vandamálum reyndi Diocletianus að koma á ýmsum endurbótum í ríkinu, m.a. endurbætti hann skattheimtu og lét slá verðmeiri mynt. Einnig gaf hann út tilskipun um hámarksverð á vörum, sem var ætlað að slá á verðbólgu í ríkinu. Þessi tilskipun hafði ekki tilætluð áhrif og var fljótlega virt að vettugi.

Fjórveldisstjórnarskipulagið hafði í för með sér að Rómaveldi var í raun skipt í fjóra hluta þar sem hver keisari stjórnaði sínu svæði, með eigin höfuðborg og eigin hirð. Diocletianus gerði Níkómedíu (núverandi Izmit í Tyrklandi) að sinni höfuðborg en hinar höfuðborgirnar voru Sirmium (Sremska Mitrovica í Serbíu), Medíólanum (Mílanó) og Ágústa Treverorum (Tríer). Við þessar breytingar dró úr vægi Rómaborgar, en hún hélt þó öldungaráðinu. Ennfremur hafði hver keisaranna stjórn yfir sínum hluta hersins, sem var stækkaður umtalsvert.

Afsögn

breyta

Á árunum 304 og 305 versnaði heilsa Diocletianusar og leiddi það til þess að þann 1. maí 305 lét hann af embætti sem keisari og sama dag lét Maximianus einnig af embætti. Galerius og Constantius tóku við af þeim og Maximinus Daia og Flavius Valerius Severus voru útnefndir sem undirkeisarar.

Diocletianus lifði það sem eftir var ævi sinnar í höll sinni í Split í núverandi Króatíu. Hann skipti sér lítið af stjórn ríkisins eftir að hafa sagt af sér, en árið 308 hitti hann þó Maximianus og keisarana þegar þeir reyndu að bjarga fjórveldisstjórnarskipulaginu. Það hrundi þó eigi að síður nokkrum árum síðar. Diocletianus lést svo árið 312.

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Dánarár Diocletianusar er ekki vitað með vissu en hann er talinn hafa látist um 311-316. Hornblower og Spawforth (ritstj.), Oxford Classical Dictionary (Oxford: Oxford University Press, 3. útg. 1996) og Shipley o.fl. (ritstj.), The Cambridge Dictionary of Classical Civilization (Cambridge: Cambridge University Press, 2006) segja dánarárið vera u.þ.b. 312.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
  • „Hvers vegna klofnaði Rómverska keisaradæmið í austur- og vesturhluta?“. Vísindavefurinn.


Fyrirrennari:
Numerianus og Carinus
Keisari Rómaveldis
(284 – 305)
Eftirmaður:
Constantius og Galerius