Viður

efni unnið úr trjám og öðrum plöntum

Viður er efni sem tré og runnar eru gerð úr. Hann er heppilegur til ýmissa nota, svo sem til húsbygginga. Viður er lífrænt efni, náttúruleg trefjablanda úr sterku beðmi sem er umlukið grind úr ligníni. Viður er stundum skilgreindur þröngt sem sá viðarvefur sem er í trjástofnum,[1] en stundum þannig að hann nái líka yfir vefi sem finnast í rótum plantna. Viðurinn styður við lifandi plöntur þannig að þær geta vaxið hátt upp og staðið óstuddar. Æðar í viðarvefnum flytja líka vatn og næringarefni frá rótunum til laufblaða og vaxtarsprota á trénu. Orðið viður er oft notað um önnur jurtaefni með svipaða eiginleika og efni sem eru unnin úr viði, viðarkurli eða viðartrefjum.

Viðardrumbur

Menn hafa hagnýtt við í þúsundir ára sem eldsneyti og byggingarefni, og sem efnivið í verkfæri, húsgögn og pappír. Síðustu áratugi hefur viður líka verið notaður við framleiðslu á lífplasti eins og sellófani og sellulósaasetati.

Árið 2020 var áætlað að heildarmagn skóga á heimsvísu væri 557 milljarðar rúmmetra.[2] Viður er útbreidd kolefnishlutlaus endurnýjanleg auðlind sem hefur verið nýtt sem endurnýjanleg orkulind. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlaði að heildaruppskera af nýjum viði hefði verið um 4 milljarðar rúmmetra árið 2018.[3] Stór hluti af því er sagað í timbur til notkunar í byggingariðnaði. Talið er að eftirspurn eftir viði sem byggingarefni muni vaxa mikið á næstu áratugum vegna aukinnar meðvitundar um kolefnisfótspor annarra byggingarefna, eins og steypu og stáls.[4]

Notkun

breyta

Gólfefni

breyta

Viðargólf eru gólf sem gerð eru úr söguðum plönkum sem lagðir eru niður hlið við hlið til að mynda samfellt yfirborð. Parket er viðarefni af ýmsu tagi sem lagt er ofan á gólf sem yfirborðsefni. Viðargólf eru oftast gerð úr harðviði eða samsettum efnum. Þar sem viðurinn dregur í sig raka úr umhverfinu þarf að hafa borðin styttri og mjórri til að tryggja stöðugleika.

Gegnheil harðviðargólf er hægt að endurnýja í nokkur skipti með því að slípa þau niður. Slík gólf eru til dæmis algeng í íþróttahúsum.

Unninn viður

breyta

Unninn viður er alls kyns byggingarefni sem gert er úr samlímdum viði til notkunar í ákveðnum tilgangi. Unninn viður er notaður víða í byggingariðnaði og öðrum iðnaði. Unninn viður er gerður með því að líma saman viðartrefjar, spæni, kurl eða planka, til að skapa stærri og stöðugri byggingareiningar.

Dæmi um unninn við er límtré, spónlagt límtré, krossviður, OSB-plötur, MDF-plötur, spónaplötur og önnur plötuefni. Oft er þetta gert með því að taka við sem ekki hentar til bygginga, brjóta hann niður með vélum eða leysiefnum, og blanda saman við lím af ýmsu tagi. Pappír er framleiddur með svipuðum aðferðum og uppleyst beðmi er notað í ýmis gerviefni.

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Hickey, M.; King, C. (2001). The Cambridge Illustrated Glossary of Botanical Terms. Cambridge University Press.
  2. FAO. 2020. Global Forest Resources Assessment 2020: Main report Geymt 5 nóvember 2022 í Wayback Machine. Rome.
  3. Global Forest Resources Assessment 2020: Main Report (Report). FAO. bls. 111.
  4. Hurmekoski, E., Kunttu, J., Heinonen, T., Pukkala, T., & Peltola, H. (2023). „Does expanding wood use in construction and textile markets contribute to climate change mitigation?“. Renewable and sustainable energy reviews. 174: 113152.
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.