Fyrsta millitímabilið er tímabil í sögu Egyptalands hins forna sem nær frá lokum gamla ríkisins að upphafi miðríkisins eða frá því um 2184 f.Kr. til 2055 f.Kr.. Tímabilið nær yfir sjöundu, áttundu, níundu, tíundu og elleftu konungsættirnar. Það hófst eftir lát Pepys 2. en hann ríkti lengur en nokkur annar konungur Egypta. Síðustu ár hans á valdastóli einkenndust af upplausn þar sem héraðshöfðingjar tókust á við stjórn landsins upp á eigin spýtur og ríkið liðaðist í sundur. Fyrsta millitímabilið stóð þar til einn af konungum elleftu konungsættarinnar, Mentuhotep 2., sameinaði efra og neðra Egyptaland á ný.
Ekki er vitað með vissu hvers vegna miðstjórnarvaldið hrundi á þessu tímabili en ein kenning segir að í kjölfar hnattrænnar kólnunar hafi vatnsmagn Nílar minnkað sem hafi valdið þurrkum og hungursneyð.
Níunda og tíunda konungsættin náði að sameina neðra Egyptaland og ríkti frá borginni Herakleopolis. Um svipað leyti tókst annarri konungsætt, elleftu konungsættinni, að sameina efra Egyptaland og ríkti frá Þebu. Talið er að til átaka hafi komið milli þessara konungsætta um völdin í landinu öllu en það er ekki vitað með vissu. Að lokum tókst Mentuhotep 2. af elleftu konungsættinni að sameina efra og neðra Egyptaland undir sinni stjórn sem markar upphaf miðríkisins.