Ástralía

land í Eyjaálfu
(Endurbeint frá Australia)

Ástralía eða Samveldið Ástralía (enska Commonwealth of Australia eða Australia) er land í heimsálfunni Eyjaálfu, sem einnig heitir Ástralía. Ástralía er eina ríki heims sem nær yfir heilt meginland. Landið er í Breska samveldinu og er konungur Bretlands, Karl 3., jafnframt konungur Ástralíu. Ástralía skiptist í sex fylki og tvö svæði, hvert með sína höfuðborg. Fjölmennasta borg Ástralíu er Sydney.

Samveldið Ástralía
Commonwealth of Australia
Fáni Ástralíu Skjaldarmerki Ástralíu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Advance Australia Fair
Staðsetning Ástralíu
Höfuðborg Canberra
Opinbert tungumál Enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Landstjóri Sam Mostyn
Forsætisráðherra Anthony Albanese
Sjálfstæði frá Bretlandi
 • Sambandsríki 1. janúar 1901 
 • Samþykkt Westminster-laganna 9. október 1942 
 • Ástralíulögin 3. mars 1986 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
6. sæti
7.692.024 km²
1,79
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
53. sæti
25.814.400
3,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 1.416 millj. dala (18. sæti)
 • Á mann 54.891 dalir (17. sæti)
VÞL (2019) 0.944 (8. sæti)
Gjaldmiðill Dalur (AUD)
Tímabelti UTC+8 til +10
Ekið er vinstra megin
Þjóðarlén .au
Landsnúmer +61

Nafnið

breyta

Alþjóðlega nafnið Ástralía er dregið af latneska orðinu australis sem þýðir suðrænt og hefur að minnsta kosti síðan á 2. öld verið notað yfir óþekkta heimsálfu í suðri (terra australis incognita). Breski landkönnuðurinn Matthew Flinders gaf meginlandinu nafnið Terra Australis en áður höfðu Hollendingar nefnt það Nova Hollandia eða Nýja-Holland.

Flinders breytti nafninu í Ástralía (Australia á ensku) á korti sem hann lauk við árið 1804 þegar hann var í haldi Frakka á Máritíus. Þegar hann kom aftur heim til Englands árið 1814 og gaf út verk sín neyddi breska flotastjórnin hann til að breyta nafninu aftur í Terra Australis. Það var svo árið 1824Lachlan Macquarie, landsstjóri Nýja-Suður-Wales, náði að sannfæra flotastjórnina um að breyta nafninu opinberlega í Ástralía eftir að hafa gert sér grein fyrir að það væri það nafn sem Flinders líkaði best við.

Margar mismunandi kenningar eru uppi um það hvenær og hvernig fólk kom fyrst til Ástralíu. Þær kenningar sem vilja rekja mannvist þar hvað lengst aftur halda fram að nútímamaðurinn hafi þróast þar. Þær kenningar njóta þó ekki mikillar hylli og er talið að besta ágiskunin sé að fólk hafi komið þangað fyrst fyrir um 53.000 árum. Elstu öruggu leifar um mannvist í Ástralíu eru 50.000 ára. Lítið er vitað með vissu um sögu Ástralíu frá þeim tíma fram að komu fyrstu Evrópumanna þangað, þar sem frumbyggjarnir þróuðu aldrei með sér ritmál. Portúgalar voru fyrstir Evrópumanna til að sjá heimsálfuna svo staðfest væri en könnun hófst ekki fyrr en á 17. öld. Fyrstir Evrópumanna til að setjast að í Ástralíu voru Bretar sem árið 1788 stofnuðu fanganýlendu þar sem nú er Sydney og utan um hana nýlenduna Nýja-Suður-Wales sem náði yfir allt meginland Ástralíu fyrir utan Vestur-Ástralíu, auk Tasmaníu. Eftir því sem bresk byggð breiddist út yfir hina nýju nýlendu, voru svo nýjar nýlendur klofnar frá, til að mynda Tasmanía (1825, en hún var þá kölluð Van Diemensland), Suður-Ástralía (1836), Victoria (1851) og Queensland (1859). Vestur-Ástralía varð bresk nýlenda árið 1829. Til að byrja með var þróun mjög hæg í hinum nýju nýlendum. Efnahagurinn byggðist aðallega á sauðfjárrækt og sölu afurða hennar, svo sem ullar. Árið 1851 fannst hins vegar gull í Ástralíu og síðan þá hefur námagröftur verið meðal helstu atvinnuvega landsins. Upp frá því uxu borgirnar við suður- og austurströnd landsins hratt og um tíma var Melbourne næststærsta borg breska heimsveldisins. Árið 1901 sameinuðust nýlendurnar sex í Samveldið Ástralíu, fullvalda ríki í konungssambandi við Bretland. Deilur risu hins vegar upp um hvar höfuðborg hins nýja samveldis skyldi vera (bæði Melbourne og Sydney gerðu tilkall til titilsins) en á endanum var sú ákvörðun tekin að Melbourne yrði höfuðborg þangað til Höfuðborgarsvæði Ástralíu yrði stofnað mitt á milli borganna tveggja. Það var gert árið 1911 og Samveldisþingið flutt þangað 1927.

Stjórnsýsla

breyta
 
Þinghúsið í Canberra.

Eins og fyrr hefur verið sagt, skiptist Ástralía í sjö meginstjórnsýsluumdæmi. Hvert og eitt þeirra hefur einhverja gerð af framkvæmda-, löggjafar- og dómsvaldi. Þau eru svo öll undirsett sambærilegum stofnunum fyrir allt samveldið. Með löggjafarvaldið fer Samveldisþingið (enska: Commonwealth Parliament), framkvæmdavaldið eins konar ríkisráð (enska: Executive Council of Australia) og dómsvaldið Hæstiréttur Ástralíu (enska: High Court of Australia). Þessar stofnanir eru allar til húsa í Canberra.

Formlega er æðsti handhafi framkvæmdavalds í Ástralíu landstjórinn (enska: Governor-General), sem er staðgengill konungs í landinu. Í raun fer hins vegar ríkisstjórnin með vald hans. Meirihluti þingsins velur forsætisráðherrann (oftast leiðtoga stærsta flokksins) sem aftur velur sér ríkisstjórn. Núverandi forsætisráðherra Ástralíu er Anthony Albanese. Landstjóri er Sam Mostyn.

Samveldisþingið fer með löggjafarvald fyrir Samveldið. Það skiptist í tvær deildir, fulltrúadeild og öldungadeild. Einnig telst drottningin formlega vera á þingi. Í öldungadeildinni eiga sæti tólf fulltrúar frá hverju fylki, og tveir frá hvoru svæði (territory). Fulltrúadeildin hefur um tvöfalt fleiri eða 150 þingmenn. Samkvæmt stjórnarskrá hafa báðar deildirnar sömu möguleika til að leggja fram lagafrumvörp (fyrir utan þau sem snúa að ríkisfjármálum) og þurfa báðar deildir að samþykkja öll frumvörp áður en þau geta orðið að lögum. Samkvæmt venju leggur ríkisstjórnin þó fram langflest frumvörp, yfirleitt í fulltrúadeild, en þau eru síðan samþykkt í öldungadeild.

Hæstiréttur Ástralíu er aðallega stjórnlagadómstóll, en líka efsta stigs áfrýjunardómstóll Ástralíu. Hann er skipaður sjö dómurum og forseti réttarins er Anthony Murray Gleeson.

Skipting í stjórnsýsluumdæmi

breyta
 
Kort sem sýnir landamæri ástralskra fylkja og svæða.

Samveldið Ástralía er sett saman úr sex fylkjum, sem eru aðilar að samveldinu, og nokkrum svæðum sem eru að hluta undir stjórn samveldisins en hafa þó mismikla sjálfstjórn. Öll fylkjanna eru á meginlandinu utan eitt, sem er Tasmanía. Tvö svæðanna eru á meginlandinu, en hin ekki. Fylki Ástralíu eru eftirfarandi:

Einungis tvö svæðanna eru á meginlandi Ástralíu. Þau eru:

Svæðin sem eru ekki á meginlandinu eru:

Þrjú síðastnefndu svæðin eru því sem næst óbyggð og þau þrjú byggðu utan meginlandsins mjög fámenn.

Náttúra

breyta

Sökum einangrunar Ástralíu er náttúra hennar mjög sérstök. Hún er því sem næst eini staðurinn í heiminum, þar sem pokadýr lifa villt og einnig áður fyrr sá eini þar sem eucalyptus-tré vaxa. Þegar Evrópubúar komu þangað fyrst, trúðu þeir ekki eigin augum, enda náttúran mjög ólík öllu því sem þeir áttu að venjast. Þegar þeir sáu breiðnefinn (enska: platypus) fyrst, trúðu engir þeim heima fyrir, þangað til náðist að fanga eintak og senda til Evrópu. Breiðnefurinn og mjónefurinn eru nefnilega einu tvö spendýrin í heiminum, sem verpa eggjum, og breiðnefurinn hefur þar að auki gogg og sundfit. Eftir að Evrópumenn settust þar að, hafa ýmsar þessara tegunda dáið út, þar sem þær áttu sér enga óvini í náttúrunni áður en maðurinn kom. Frægust þessara tegunda er Tasmaníutígurinn. Nú er hins vegar markvisst unnið að verndun innlendrar náttúru fyrir utanaðkomandi áhrifum.

Lýðfræði

breyta

Ástralir eru flestir komnir af Evrópumönnum. Að hluta til af föngum, sem sendir voru þangað, og fangavörðum þeirra, en aðallega fólki sem fluttist þangað á 19. öld og í upphafi þeirrar tuttugustu, þá einkum í tengslum við gullæðið. Aðeins eitt prósent Ástrala er kominn af frumbyggjum, en þeim var markvisst fækkað þegar Evrópumenn fluttust þangað. Flestir frumbyggjar búa nú í Nýja-Suður-Wales og Queensland, en á strjálbýlli svæðum landsins eru einnig sérstök verndarlönd frumbyggja. Innan marka eins slíks er hinn frægi klettur Uluru (einnig þekktur sem Ayers-klettur). Sjö prósent Ástrala eru innflytjendur frá Asíu. Um þrír fjórðu Ástrala eru kristnir, þar af eru biskupakirkjan og kaþólska kirkjan með sinn fjórðunginn hvor.

Menning og fjölmiðlar

breyta

Löngu áður en að Evrópumenn komu til Ástralíu var þar komin upp blómleg menning frumbyggja en með komu Evrópumanna náði menning þeirra yfirhöndinni og hefur haldið henni síðan. Á undanförnum árum hefur þó verið lagt meira og meira upp úr menningu frumbyggja, þar sem hefðbundnar aðferðir þeirra, til dæmis við tónlistar- og myndlistarsköpun eru gjörólíkar þeim evrópsku. Evrópskættuð menning er þó enn, eins og fyrr segir, sterkust í Ástralíu. Mikil gróska er þar í klassískri tónlist og hver fylkishöfuðborg hefur sína starfandi sinfóníuhljómsveit. Þaðan kemur líka mikið af flytjendum dægurtónlistar og eru sumir þeirra heimsfrægir, svo sem hljómsveitirnar Bee Gees og AC/DC og einnig nýrri hljómsveitir eins og Jet og The Vines. Kvikmyndagerð er mikil í Ástralíu, þó hún veki sjaldan heimsathygli. Nú til dags er Ástralía þó þekktust í kvikmyndaheiminum fyrir að vera vinsæll tökustaður og að þaðan koma margir leikarar sem síðan hafa slegið í gegn í Hollywood. Matarmenning Ástrala er af evrópskum rótum runnin, en hefur þróast í samræmi við loftslagið: Þar eru grillveislur (Barbie, á áströlsku) mikilvægt menningarfyrirbæri og oft eru mikil matarboð látin snúast í kring um slíkt.

Í Ástralíu eru reknar fimm sjónvarpsstöðvar sem ná til alls landsins, þar af tvær ríkisreknar (ABC og SBS), og þrjár áskriftarsjónvarpsstöðvar sem einnig ná til alls landsins. Í öllum helstu borgum kemur út dagblað og tvö dagblöð, The Australian og The Australian Financial Review, koma út á landsvísu. Flestir prentmiðlar, þar á meðal öll helstu dagblöð, eru annaðhvort í eigu News Corporation (fyrirtækis Rupert Murdochs) eða fyrirtækja á vegum John Fairfax. Út af þessari fákeppni er Ástralía í 31. sæti á lista Fréttamanna án landamæra yfir frelsi blaðamanna.

Heimildir og Ítarefni

breyta
  • Davison, Graeme, John Hirst og Stuart Macintyre (ritstj.). The Oxford Companion to Australian History. (Melbourne, Vic.: Oxford University Press, 1999).
  • Denoon, Donald o.fl. A History of Australia, New Zealand, and the Pacific. (Oxford: Blackwell, 2000).
  • Germaine, Max. Artists & Galleries of Australia. (Roseville, Vic.: Craftsman House, 1990).
  • Hughes, Robert. The Fatal Shore: The Epic of Australia's Founding. (Knopf, 1986).
  • Johnson, Vivien. Papunya Painting: Out of the Desert. (Canberra: National Museum of Australia, 2007).
  • Jupp, James. The Australian People: An Encyclopedia of the Nation, Its People, and Their Origins. (Cambridge: Cambridge University Press, 2001).
  • Macintyre, Stuart. A Concise History of Australia. (Cambridge: Cambridge University Press, 2000).
  • Powell J.M. An Historical Geography of Modern Australia: The Restive Fringe. (Cambridge: Cambridge University Press, 1988).
  • Robinson G.M., R.J. Loughran og P.J. Tranter. Australia and New Zealand: Economy, Society and Environment. (Oxford: Oxford University Press, 2000).
  • Smith, Bernard og Terry Smith. Australian painting 1788–1990. (Melbourne, Vic.: Oxford University Press, 1991).
  • Teo, Hsu-Ming og Richard White. Cultural History in Australia. (UNSW Press, 2003).

Tenglar

breyta

erlendir