Lög
Lög í samfélagi manna eru þær reglur sem leyfa eða banna ákveðna hegðun eða mæla fyrir um það hvernig samskiptum milli einstaklinga og annarra lögaðila skuli háttað. Lögin eiga að tryggja að í meðferð yfirvalda ríki jafnræði á meðal fólks og þau mæla stundum fyrir um refsingar til handa þeim sem brjóta á viðurkenndum hegðunarreglum samfélagsins. Lög eru sett af löggjafa, sem getur eftir atvikum verið ríki, hérað eða sveitarfélag, og eiga að byggjast á meginreglum laga[1] og vera í samræmi við stjórnskipunarrétt og stjórnarskrá í viðkomandi ríki.[2] Lög geta verið munnlegur venjuréttur eða rituð í lögbækur. Lög eru ekki einu réttarheimildir sem koma við sögu í dómsmálum þar sem tekið er tillit til dómaframkvæmdar og fordæma auk reglugerða sem hafa þann tilgang að útfæra lög frekar.[3]
Sérlög eru lög með afmarkað gildissvið. Almenna reglan er að sérlög hafi forgang fram yfir almenn lög þar sem þau eru sértækari.[4] Bráðabirgðalög eru lög sem ætlað er að gilda aðeins í skamman tíma, til dæmis á milli þess sem löggjafinn kemur saman.[5] Herlög og neyðarlög eru lög sem sett eru til að bregðast við neyðarástandi eins og borgarastyrjöld eða náttúruhamförum og er líka ætlað að gilda í takmarkaðan tíma.[6] Alþjóðalög eru reglur sem byggjast á hefðum í alþjóðasamskiptum og alþjóðasamningum. Dæmi um alþjóðalög eru alþjóðlegur hafréttur.[7] Trúarréttur eru lög sem varða iðkun trúarbragða, eins og kirkjuréttur í kristni og sjaríalög í íslam.
Kínversk stjórnmálastefna sem byggir á að nota lög við stjórnun ríkis (bókstafshlýðni) kemur frá tíma hinna þúsund heimspekinga í Kína, helstu mótbárur gegn því að nota lög til að stjórna ríkinu komu frá fylgismönnum Konfúsíusar sem álitu hefðir sterkari undirstöðu allsherjarreglu en lög. Síðar varð konfúsíusarhyggja ríkjandi í Kína allt til valdatöku maóista á 20. öldinni.
Útgáfa
breytaVíðast hvar er útgáfu laga háttað þannig að þau sem lögin eiga við um hafi aðgang að þeim. Oft eru lögin birt á prenti í einhvers konar lögbirtingablaði sem löggjafinn gefur út. Oft eru lögin líka gefin út í prentuðum bókaröðum, lagasafni, þar sem lög eru flokkuð eftir efni, til dæmis í einkarétt, sifjarétt, refsirétt, stjórnlagarétt o.s.frv. Slík lagasöfn hafa tilhneigingu til að verða mjög stór með tímanum.
Tilvísanir
breyta- ↑ Baldur S. Blöndal (20.7.2022). „Hvað eru meginreglur laga?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Árni Helgason (23.12.2004). „Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Magnús Viðar Skúlason (16.4.2021). „Geta reglugerðir stangast á við lög? Hvort gildir þá reglugerðin eða lögin?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Baldur S. Blöndal (7.5.2021). „Hvaða lög teljast almenn lög og standa sérlög þeim alltaf framar?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Magnús Viðar Skúlason (15.3.2017). „Hvernig verða lög til?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Árni Helgason (5.10.2009). „Hver er munurinn á herlögum og neyðarlögum?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Árni Helgason (5.5.2009). „Hvaða lög gilda á úthafinu?“. Vísindavefurinn.