Sinfóníuhljómsveit

Sinfóníuhljómsveit er hljómsveit fjölmennari en tuttugu og inniheldur bæði klassísk blásturs- og strengjahljóðfæri auk slagverks. Sveitir fjölmennari en um fimmtán sem innihalda aðeins strengjahljóðfæri eru kallaðar strengjasveitir og sveitir fjölmennari en um fimmtán sem innihalda aðeins blásturshljóðfæri eru kallaðar lúðrasveitir. Það má segja að sinfóníuhljómsveit sé í raun sambræðingur strengja- og lúðrasveita þótt lúðrasveitir séu oftast fjölmennari en blásaraflokkurinn í sinfóníuhljómsveit, en það er vegna hljóðstyrks blásturshljóðfæra, sem er mun meiri heldur en hljóðstyrkur strengjahljóðfæra. Stundum eru sinfóníuhljómsveitir kallaðar fílharmóníuhljómsveitir, þær eru að engu leiti öðruvísi en sinfóníuhljómsveitir. Nafnið er bara notað ef það eru tvær sinfóníuhjómsveitir á sama stað sem vilja draga nafn sitt af staðnum, til dæmis Sinfóníuhljómsveit Berlínar og Berlínarfílharmónían.

Sinfóníuhljómsveit

Saga sinfóníuhljómsveitarinnar

breyta

Saga sinfóníuhljómsveitarinnar á rætur sínar að rekja til loka 17. aldarinnar eða barokktímabils klassískrar tónlistar. Á barokktímabilinu komu fram fyrstu drög að föstum hljómsveitum, áður höfðu hljóðfærin yfirleitt spilað sjálfstætt eða bara í þeim hópum sem hentaði hverju sinni. Tvær megingerðir voru af barokk hljómsveitum, annars vegar minni sveitir sem voru 8-14 manns og hinsvegar stærri sveitir sem voru um 20 manns. Þetta voru þá yfirleitt tvær fiðlur, lágfiðla, selló, kontrabassi, fagott og sitthvað fleira en umfram allt var yfirleitt orgel eða semball. Stærri hljómsveitir þekktust varla, þó vakti ítalski fiðluleikarinn og tónskáldið Arcangelo Corelli athygli fyrir að nota allt að 40 manna strengjasveitir í flutningi á nokkrum verka sinna.

Á klassíska tímabilinu komu fram ný hljóðfæri á borð við píanó og klarínett. Þau urðu vinsæl en fengu ekki öruggt sæti í sinfóníuhljómsveitinni fyrr en á rómantíska tímabilinu, einnig fjölgaði fiðlum og ýmsum hljóðfærum og önnur hljóðfæri bættust í hópin. Erfitt er að setja tölu á hversu margir voru í hljómsveitinni en oft var hljóðfæraleikarakostur frekar naumur og var þá notast við það sem var á staðnum. Blásarar voru fáir en t.a.m. í fyrstu sinfóníum Haydns og konsertum Mozarts er aðeins notast við tvö horn og tvö óbó. Trompet, flauta, fagott og slagverkshljóðfæri voru einungis notuð í stærri verkum klassíska tímabilsins sbr. Júpíter sinfóníu Mozart nr. 41 sem var hans síðasta verk skrifað fyrir sinfóníuhljómsveit.

Undir lok klassíska tímabilsins eða um miðja 19. öld átti Beethoven stóran þátt í að stækka hljómsveitina og undirbúa rómantísku hljómsveitina. Beethoven tók í notkun málmblásturshljóðfæri eins og básúnu og gaf þeim einleiksparta sem hafði ekki tíðkast áður. Einnig fékk bassaklarinett einleiksparta ásamt því að fjölga hljóðfærum til að magna styrk þeirra og í fimmtu sinfóníunni er kontrafagott notað í fyrsta sinn. Á rómantíska tímabilinu komu fram flest hljóðfærin og stækkaði hljómsveitin um vel helming. Endanleg mynd kom á franska hornið, túban kom fram á sjónarsviðið, enskt horn og harpan fengu líf. Hljómsveitin stækkaði og bæði komu ný hljóðfæri og fjöldi fyrri hljóðfæra jókst. Þessi þróun tók mikið stökk með Sálumessu Hector Berlioz, en um 150 manna sinfóníuhljómsveit ásamt yfir 250 manna kór frumflutti verkið. Berlioz var einnig fyrsta tónskáldið sem samdi beint á blað fyrir sinfóníuhljómsveitina og var mesti frumkvöðull rómantíska tímabilsins í hugmyndaríkri notkun á bæði nýjum og gömlum hljóðfærum. Um 1900 kom fram stærsta mynd sinfóníuhljómsveitarinnar og voru þá 171 hljóðfæraleikarai og 850 söngvarar í bæði kór og einsöng í 8. sinfóníu Mahlers. Uppröðun sinfóníuhljómsveita hefur ekki verið breytt eftir þetta en þær hafa verið í mismunandi stærðum og gerðum innan þess sem áður hefur komið fram.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta