Brisbane er höfuðborg ástralska fylkisins Queensland. Íbúar Brisbane sjálfrar eru tæp milljón en um 1,7 milljónir búa í borginni og útborgum hennar til samans.Hún er sú höfuðborg ástralskra fylkja sem vex hraðast, sem dæmi óx hún um 10,5% á fimm árum frá 1998 til 2003. Borgin liggur með fram bökkum Brisbaneár rétt fyrir innan Moretonflóa í suðurhluta fylkisins. Borgin er nefnd eftir ánni sem er nefnd eftir Brisbane lávarði sem var landsstjóri Nýja Suður Wales árið 1823 þegar svæðið var fyrst kannað. Árið 1824 var fanganýlenda stofnuð í Redcliffe við fyrrnefndan flóa en aðeins ári síðar flutti hún suður stutt frá þar sem borgin er núna. Sú nýlenda var stofnuð sem eins konar fangelsi innan fangelsis, fyrir fanga sem brutu af sér meðan þeir voru að afplána dóma í Ástralíu. Lengi var almenningi bannað að flytjast nálægt fanganýlendunni og það var ekki fyrr en árið 1842 sem það var leyft, en þá óx íbúafjöldinn hratt. Þegar Queensland hlaut sjálfstæði frá Nýja Suður Wales árið 1859 var Brisbane gerð höfuðborg. Þróun var það var hins vegar enn mjög hæg og það var meira að segja reyndar ekki fyrr en 1902 að hún varð formlega borg. Margir skólar á háskólastigi eru á Brisbane-svæðinu, þeirra á meðal Queensland-háskóli og kaþólski háskólinn í Ástralíu. Þar eru að auki ýmsar rannsóknarstofnanir, en ríkisstjórn Queensland hefur markvisst verið að reyna að laða slíka starfsemi til fylkisins.

Brisbane að næturlagi. Horft yfir Brisbaneá.

Árið 2021 var tilkynnt að Brisbane muni halda Sumarólympíuleikana 2032.