Þágufall

málfræðilegt fall almennt notað með tilliti til hvers eitthvað er gert
Föll í málfræði
Íslensk föll
Nefnifall
Þolfall
Þágufall
Eignarfall
Ávarpsfall
Tímaeignarfall
Föll í öðrum tungumálum

Áhrifsfall
Ávarpsfall
Deildarfall
Eignarfall
Eignartilvísunarfall
Fjarverufall
Forsetningarfall
Íferðarfall
Íverufall
Nefnifall
Nærverufall
Samanburðarfall
Samvistarfall
Staðarfall
Sviptifall
Tilgangsfall
Tækisfall
Úrferðarfall
Verufall
Virðingarfall
Þágufall
Þolfall
Þollsfallsleysingisfall

Þágufall (skammstafað sem þgf.) er fall (nánar tiltekið aukafall) sem almennt er notað til að gefa til kynna með tilliti til hvers eitthvað er gert. Í þeim málum sem hafa þágufall er þágufallið oftast notað fyrir óbeint andlag. Frumlag ópersónulegra sagna er oft í þágufalli. Ofnotkun þágufalls er nefnd þágufallssýki.

Í sumum tungumálum hefur þágufallið tekið yfir hlutverk ýmissa falla sem dottið hafa úr málinu. Í íslensku er það til að mynda notað í stað tækisfalls, sem líklega datt úr forvera tungunnar löngu fyrir landnám. Dæmi um slíka notkun er setningin „Hann var stunginn rýtingi,“ þar sem rýtingi er notað eins og um tækisfall sé að ræða. Þá er talað um tækisþágufall. Sjá nánar um notkun þágufalls í íslensku hér að neðan.

Hvernig þágufall er hugsað

breyta

Þágufall táknar í raun og veru í hvers þágu (eða óþágu) eitthvað verður. Latínumenn tala um dativum commodi (þægindafall) og dativum incommodi (óþægindafall) í þessu sambandi. Í Hávamálum segir:

Gráðugur halur,
nema geðs viti,
etur sér aldurtrega.

Þarna myndi sér flokkast sem óþægindafall.

Í Gylfaginningu Snorra Sturlusonar er frægt dæmi um þægindafall (dativum commodi). Gangleri spyr hvort Einherjar drekki vatn í Valhöll. Hár svarar þá:

Annað kann eg þér þaðan segja. Geit sú, er Heiðrún heitir, stendur uppi á Valhöll og bítur barr af limum trés þess, er mjög er nafnfrægt, er Léraður heitir, en úr spenum hennar rennur mjöður sá, er hún fyllir skapker hvern dag. Það er svo mikið að allir Einherjar verða fulldrukknir af. Þá mælti Gangleri: Það er þeim geysihagleg geit.

Þeim í svari Ganglera er þægindafall.

Þágufall í íslensku

breyta
Föll í íslensku
Nefnifall
Þolfall
Þágufall
Eignarfall

Þágufall er fall í íslensku sem fallorð geta tekið. Hægt er að finna þágufall með því að setja „frá“ fyrir framan fallorðið. Þágufallið af persónufornafninu „ég“ er þá „mér“ (sbr. frá mér).

Í íslensku er þágufall m.a. notað fyrir óbeint andlag en getur aukafallsliður í þágufalli haft sérhæfðari notkun, þ.á m.:

  • Staðarþágufall: Gefur til kynna staðsetningu. Dæmi: „Á hverfisfundinum sagði Jón Jónsson, Reykjarvíkurvegi 2, Hafnarfirði, að ...“ Það að leita einhvers dyrum og dyngjum.
  • Tímaþágufall: Gefur til kynna hvenær eitthvað gerist. Dæmi: „Stúlkan las öllum stundum.“ (ath. muninn á tímaþágufalli og tímaþolfalli í íslensku; þágufallið gefur til kynna hvenær eitthvað gerist eða innan hvaða tímabils en þolfallið gefur til kynna hversu lengi eitthvað varir. Sbr. „Stúlkan las allan daginn“).
  • Tækisþágufall (eða verkfærisþágufall eða verkfærisfall): Tækisþágufall er forsetningalaust og merkir „með hverju“ eitthvað er gert. Dæmi af þessu eru miklu fleiri í fornu máli en nýju, en tækisþágufallið lifir þó góðu lífi í nokkrum orðtökum og föstum orðasamböndum. Dæmi: Að taka einhvern höndum, taka djúpt í árinni (tækisþágufallið felur forsetninguna „með“, að taka djúpt í (með) árinni). „Jón var stunginn rýtingi“.
  • Háttarþágufall: er náskylt tækisfallinu og segir það „með hverjum hætti“ eitthvað gerist. Dæmi: „Þeir unnu baki brotnu“; „þeir unnu hörðum höndum“. Fara huldu höfði. Ganga „þurrum fótum“ yfir á eða láta öllum „illum látum“. Einnig „þunnu hljóði“ í málshættinum „þegja þunnu hljóði“ úr Hávamálum.
  • Mismunarþágufall (eða þágufall mismunarins): Gefur til kynna mismun á einhverju sem borið er saman. Dæmi: „Jón er miklu stærri en Halldór.“ Hann er meiri en ég, svo að munar miklu.
  • Samanburðarþágufall (eða þágufall samanburðarins): Gefur til kynna eitthvað sem eitthvað annað er borið saman við. Dæmi: „Enginn er öðrum fremri í þessu“; „Maður á að hlusta á sér vitrari menn.“ Eitthvað er deginum ljósara. Annað er sýnu betra.

Margar ópersónulegar sagnir taka frumlag í þágufalli. Dæmi: „Mér líkar þetta vel“.

Í öðrum tungumálum

breyta

Þágufall var eitt sinn algengt meðal indóevrópskra tungumála.

Tungumál sem hafa eða höfðu þágufall eru m.a.:

Þágufall í forngrísku

breyta

Auk þess að vera notað fyrir óbein andlög og fyrir frumlag margra ópersónulegra sagna hefur þágufall ýmisskonar hlutverk í grísku. T.d.:

  • Dativus commodi / incommodi: Gefur til kynna í hvers þágu / óþágu eitthvað er gert.
  • Dativus ethicus: Persónufornöfn í þágufalli geta gefið til kynna undrun, aðfinnslu eða væga óræða tilvísun og eru oft ekki þýdd.
  • Dativus instrumentalis: Tækisþágufall; gefur til kynna með hverju eitthvað er gert.
  • Dativus modi: Háttarþágufall; gefur til kynna hvernig eitthvað er gert.
  • Dativus causae: Þágufall orsakarinnar; gefur til kynna orsök einhvers.
  • Dativus temporis: Tímaþágufall; gefur til kynna hvenær eitthvað gerist.
  • Dativus loci: Staðarþágufall; gefur til kynna hvar eitthvað er eða gerist.
  • Dativus differentiae. Þágufall minsmunarins; gefur til kynna mun á einhverju sem borið er saman.
  • Dativus societivus; gefur til kynna þátttöku.
  • Dativus comitativus; gefur til kynna fylgni
  • Dativus agentis; Þágufall gerandans; gefur til kynna geranda.
  • Dativus possessivus: Eignarþágufall; gefur til kynna eiganda einhvers.

Þágufall í latínu

breyta
Föll í latínu
Nefnifall
Ávarpsfall
Þolfall
Eignarfall
Þágufall
Sviptifall
Staðarfall

Í latínu er þágufall m.a. notað á eftirfarandi hátt:

  • Sem óbeint andlag. Dæmi: hanc pecuniam mihi dat („Hann gefur mér þennan pening“).
  • Dativus commodi / incommodi: Gefur til kynna í hvers þágu / óþágu eitthvað er gert. Dæmi: Rem publicam nobis servavit („Hann bjargaði ríkinu fyrir okkur“).
  • Dativus possessivus: Gefur til kynna eiganda þess, sem stýrandi orð stendur fyrir: Dæmi: Est mihi filius (orðrétt: „mér er sonur“, þ.e. „ég á son“).
  • Dativus finalis: Gefur til kynna tilgang. Dæmi: Veni operi faciendo („Ég kom til að vinna verkið“).
  • Dativus agentis: Gefur til kynna geranda. Dæmi: Haec nobis agenda sunt („Við verðum að gera þessa hluti“).
  • Dativus ethicus: Persónufornöfn í þágufalli geta gefið til kynna undrun, aðfinnslu eða væga óræða tilvísun og eru oft ekki þýdd. Dæmi: Quid mihi Celsus agit? („Hvað er hann Celsus eiginlega að gera?“).
  • Dativus separativus: Sagnir sem merkja að fjalægja eða svipta taka oft með sér þágufall. Dæmi: Gladium mihi rapuit („Hann hrifsaði af mér sverðið“).

Frumlag ópersónulegra sagna er oft í þágufalli.

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta


Tenglar

breyta