St. Gallen

(Endurbeint frá Saint-Gall)

St. Gallen (franska: Saint-Gall, ítalska: Saint-Gall) er sjöunda stærsta borgin í Sviss og er höfuðborg samnefndrar kantónu. St. Gallen var áður fyrr undir yfirráðum klaustursins þar í borg, en áhrif þess náðu víða um norðanvert Sviss. Klausturríkið var ekki afnumið fyrr en 1796 er Frakkar stofnuðu helvetíska lýðveldið og var St. Gallen innlimað í lýðveldið. Klaustrið og klausturbókasafnið eru á heimsminjaskrá UNESCO.

St. Gallen
Skjaldarmerki St. Gallen
Staðsetning St. Gallen
KantónaSt. Gallen
Flatarmál
 • Samtals39,41 km2
Hæð yfir sjávarmáli
675 m
Mannfjöldi
 (2013)
 • Samtals74.581
Vefsíðawww.stadt.sg.ch

Borgin St. Gallen er norðaustast í Sviss, rétt sunnan við Bodenvatn og rétt austan við landamærin að Austurríki. Næstu borgir eru Bregenz í Austurríki til austurs (20 km), Konstanz í Þýskalandi til norðvesturs (30 km) og Zürich til vesturs (um 50 km). Borgin liggur á tæplega 700 metra háu hæðardragi og er því ein hæsta borg Sviss.

Orðsifjar

breyta

St. Gallen heitir eftir írska kristniboðanum og dýrlingum Gallusi sem boðaði kristni í héruðunum í kringum Bodenvatn á 7. öld e.Kr. Eftir dauða hans var stofnað klaustur sem ber nafn hans, St. Gallen (heilagur Gallus). Því ber borgin gjarnan gæluheitið Gallusarborgin (Gallusstadt).

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki borgarinnar er svartur björn með gylltar klær, augabrýr og eyru. Varir, tungan og reðurinn eru rauð. Áberandi er gyllta hálsbandið, en það er til marks um helgisögu heilags Gallusar og björninn. Friðrik III konungur veitti borginni leyfi til að bera þetta skjaldarmerki árið 1475 fyrir aðstoð borgarbúa í Búrgúndastríðinu. Merkið hefur haldist sem skjaldarmerki borgarinnar æ síðan.

Saga St. Gallen

breyta

Upphaf

breyta
 
Heilagur Gallus

Upphaf borgarinnar má rekja til heilags Gallusar, en hann var írskur kristniboði og hafði verið lærisveinn heilags Columban á Írlandi. Gallus kom til héraðsins sunnan við Bodenvatn í upphafi 7. aldar til að kristna germani. Þjóðsagan segir að hann hafi dottið í þyrnirunna og tekið það sem merki æðri máttarvalda að hér ætti hann að staðnæmast og setjast að. Önnur saga segir að hann hafi mætt skógarbirni sem ógnaði honum. En Gallus hafi setið við varðeld og notið skjóls af honum. Hann gaf birninum brauð og skipaði honum að hverfa á braut. Eftir það hafi björninn farið burt og sást aldrei til hans aftur. Árið 612 stofnaði Gallus einsetuheimili þar sem þessir atburðir áttu sér stað. Á þessum tíma var lítil byggð þar í grennd, enda allt skógi vaxið. En hann og nokkrir lærisveinar hafi ferðast um og kristnað germanska íbúa héraðsins. Gallus læknaði veikt fólk, þar á meðal dóttur hertogans af Sváfalandi. Gallus lést árið 640 að talið er (aðrir telja það hafi verið 620) og varð einsetuheimilið autt og yfirgefið. Greftrunarstaður hans varð að pílagrímsstað og sóttur heim af kristnu fólki. Árið 719 stofnaði germanski presturinn Otmar klaustur yfir gröf Gallusar og kallaði það St. Gallen (heilagur Gallus) honum til heiðurs. Hann sjálfur varð fyrsti ábótinn. Skömmu síðar var Benediktsreglan tekin upp í klaustrinu og hélst það svo allt til endaloka klaustursins árið 1805. Klaustrið liggur á Jakobsleiðinni til Santiago de Compostela á Spáni. Margir lærðir munkar og listamenn, sem flúðu að heiman sökum árása víkinga í strandhéruðum Vestur-Evrópu leituðu ásjár í klaustrinu.

Ríkisborgin

breyta

Á 9. öld var klaustrið stækkað að mun og myndaðist þá einnig mikil byggð í kringum það. Klaustrið sjálft varð að miðstöð menntunar og lista. Mikið bókasafn myndaðist þar, sem opið var munkum og öðrum sem námu þar ýmis fræði. Árið 926 réðust Ungverjar á bæinn St. Gallen. Íbúar höfðu fengið aðvörun í tæka tíð og yfirgáfu bæinn. Bókasafnið og listaverk voru færð annað til geymslu. Þegar Ungverjar komu þar að var bærinn og klaustrið yfirgefið. Aðeins ein kona, hin trúaða mær Wiborada, óskaði að verða eftir og var hún drepin af Ungverjum. Hún var gerð að dýrlingi eftir það. Þegar Ungverjar hurfu, sneru íbúar og munkar til baka og byggðu staðinn upp að nýju. Árið 937 brann klaustrið til kaldra kola. Munkarnir höfðu þá með naumindum tekist að bjarga bókasafninu og öðrum helgigripum og listaverkum. Klaustrið var endurreist og fékk bærinn nú einnig múra og virki til að geta varist óvinum. St. Gallen breyttist þar með í borg, en ekki er ljóst hvenær nákvæmlega bærinn fékk borgarréttindi í þýska ríkinu. Klaustrið átti víðtæk réttindi og var ábótinn samtímis ríkisfursti yfir stórt landsvæði, mjög til ama öðrum veraldlegum furstum í héruðunum í kring. Árið 947 kemur í fyrsta sinn fram hugtakið furstaábóti. 1180 varð St. Gallen að ríkisborg, þ.e. að hún var sett beint undir þýska konunginn eða keisarann. Fulltrúi konungs lenti oft upp á kant við furstaábótann. Næstu aldir einkenndu átök milli íbúa St. Gallen og furstaábótans. Ábótinn vildi auka völd sín, en íbúarnir losna undan yfirráðum hans. 1349 braust svarti dauðinn út í borginni og létust margir úr veikinni. gyðingum í borginni var kennd um þessa óárán og voru þeir í kjölfarið grimmilega ofsóttir. Sumir voru reknir í burtu, aðrir voru brenndir og drepnir. Eignir þeirra voru gerðar upptækar. Gyðingahatrið varð svo rótgróið í íbúunum að fyrsti trúarhópur gyðinga eftir þetta myndaðist ekki í St. Gallen fyrr en árið 1850. 1353 sótti Karl IV konungur borgina heim. Furstaábótinn notaði tækifærið og reyndi að kaupa sér frekari völd hjá honum og gaf konungi höfuðið á Otmar, stofnanda klaustursins og nokkrar líkamsleifar heilags Gallusar. Þetta flutti Karl konungur með sér til Prag, en líkamsleifar þessar týndust í óróa trúarbragðastríðanna næstu alda.

Stríð

breyta

Í upphafi 15. aldar vildu íbúar héraðsins Appenzell losna undan yfirráðum furstaábótans í St. Gallen. Þeir urðu fyrir áhrifum af hinu nýstofnaða sambandsríki Sviss. Ábótinn vildi ekki sleppa tekjum úr þessu héraði og 1403 dró til orrustu er ábótinn safnaði liði og réðist inn í Appenzell. Borgin Herisau var lögð í rúst, en áður en herinn náði til borgarinnar Appenzell, var hann fyrir fyrirsát og gjörtapaði orrustu gegn bændaher héraðsins. Ábótinn sneri sér síðan til Friðriks IV hertogans af Austurríki. Hann sendi herlið, en það tapaði fyrir sameinuðum her bænda frá ýmsum borgum, þar á meðal borgurum St. Gallen. Appenzell leysti sig þannig frá yfirráðum ábótans og gerði bandalag við Sviss. Klaustrið missti mikil völd og við lá að það var lagt niður. Nýr ábóti, Ulrich Rösch, átti mestan þátt í að endurvekja yfirráð klaustursins, enda mikill atorkumaður. Þetta passaði alls ekki í kramið hjá borgarbúum St. Gallen. Til átaka kom milli borgarbúa og ábóta. Hinn síðarnefndi bað sambandsríkið Sviss um liðsauka, sem kom á vettvang með 8.000 manna lið og sátu í kjölfarið um borgina. Í borginni voru einungis 400 menn vopnum búnir, en liðsauki þeirra frá Appenzell mætti ekki. Fljótt gáfust borgarbúar upp gegn ofureflinu. Borgarstjórinn var brenndur á báli og ábótinn fékk aukin völd. Rætt var um að taka St. Gallen upp sem nýja kantónu í Sviss, en það var látið ógert í það sinnið.

Siðaskiptin

breyta
 
St. Gallen árið 1642. Klaustursvæðið er neðst til vinstri, en nýja Karlshliðið sést þar fyrir framan trjágarðinn.

1526 urðu siðaskiptin í borginni að tilstuðlan borgarstjórana og húmanistans Joachim von Watt. Þremur árum seinna sendi borgin fulltrúa á ríkisþingið í Speyer, þar sem þeir mótmæltu yfirráðum Kaþólsku kirkjunnar og ákvörðun keisara að banna nýju trúna. Þegar mótmælendur sneru til baka voru borgarbúar allir staðráðnir að halda nýju trúnni. Þetta skapaði enn frekari vandamál, enda var furstaábótinn vitanlega kaþólskur. Mikillar misklíðar gætti milli klaustursins og borgarinnar. Þetta leystist ekki fyrr en ábótinn fékk að smíða nýtt borgarhlið fyrir sjálfan sig og kaþólikka. Hlið þetta fékk heitið Karlshliðið. Auk þess var reistur múrveggur í kringum klaustrið. Kaþólikkar og mótmælendur urðu því aðgreindir, en friðurinn hélst þó. Með tilkomu siðaskiptanna upphófst mikill blómatími í borginni með vefnaði. St. Gallen varð að einni mestu vefnaðarborg Mið-Evrópu og seldust afurðirnar allt til Parísar, Feneyja og Prag.

30 ára stríðið

breyta

30 ára stríðið hófst 1618. Nú bar svo við að aðalmótherjar stríðsins voru kaþólikkar og mótmælendur. Borginni St. Gallen var því vandi á höndum, þar sem meirihluti borgarbúa voru mótmælendur, en innan klaustursins voru menn kaþólskir. Snemma ákváðu borgarbúar og ábóti að taka ekki þátt í stríðinu, heldur að taka saman höndum og varna því sameiginlega að St. Gallen yrði fyrir skakkaföllum. Því var unnið saman að því að treysta á varnarmúra borgarinnar. Sett voru matarlög sem skömmtuðu öllu fólki mat meðan stríðið geisaði, enda ríkti þá víða hungursneyð. Báðir aðilar buðu fram sameiginlegan her til að styrkja landamæri Sviss og nærliggjandi héraða, þar sem öryggi St. Gallen var betur tryggt ef engir herir kæmu inn í héraðið. Einu sinni, 1635, fékk franskur her þó að gista í borginni á leið til átakasvæða. 1646 hertók sænskur her undir forystu Gustav Wrangel borgina Bregenz við Bodenvatn. Bauð þá borgin St. Gallen upp á sameiginlegan her til að sitja um Bregenz til að hrekja Svía á brott, þrátt fyrir að Svíar væru mótmælendur. En ekki kom til átaka. Yfirmenn sænska hersins sóttu guðsþjónustur í St. Gallen og gáfu borginni hluta af herfangi sínu, áður en þeir hurfu á brott. Þegar samið var í stríðslok 1648 í friðarsamningunum í Vestfalíu, var Sviss opinberlega viðurkennt sjálfstætt ríki. Héraðið St. Gallen var einnig formlega leyst úr sambandi við þýska ríkið og varð sjálfstætt. Fram að tilkomu Frakka í lok 18. aldar var rólegt yfir borginni St. Gallen. Þó réðist 1712 her frá Zürich inn í klaustrið og rændi þaðan verðmætum og listmunum. Flestum þeirra var skilað, en ósætti hefur ríkt milli borganna sökum þessa allt til ársins 2006, þar sem Zürich hefur neitað að skila hinu fræga hnattlíkani ábótanna.

Höfuðstaðurinn St. Gallen

breyta

1798 hertóku Frakkar Sviss og stofnuðu helvetíska lýðveldið. Allt svæðið í eigu St. Gallen, ásamt héraðinu Appenzell, var innlimað í lýðveldinu. St. Gallen og Appenzell mynduðu saman kantónuna Säntis. Í fyrstu var borgin Appenzell höfuðborg kantónunnar, en aðeins nokkrum mánuðum seinna var höfuðstaðurinn færður til borgarinnar St. Gallen. Klaustrinu var lokað og munkarnir reknir burt. Furstaábótinn hafði áður flúið til Vínarborgar, með öllu góssi klaustursins. Fyrir St. Gallen markaði þetta endalok ábótaríkisins og upphafið að svissneskri borg. Strax árið 1803 endurskipulagði Napoleon þessa nýju kantónu. Kantónurnar Säntis og Linth voru sameinaðar og fengu heitið St. Gallen. Appenzell var leyst úr kantónunni og varð það að eigin kantónu. Þessi ráðstöfun hefur haldist allt fram á þennan dag. Eftir fyrri ósigur Napoleons 1814 lá við að hin nýja kantóna leystist í sundur, enda mynduðust eigin sjálfstæðishreyfingar í hverju héraði. Þessu tókst þó að afstýra, en enn sem komið er er kantónan sundurslitin og án meginkjarna.

Nýrri tímar

breyta
 
Fyrsta járnbrautarstöðin í bænum

Á 19. öld óx vefnaðariðnaðurinn enn. St. Gallen varð að einni mestu vefnaðarborg heims. Í upphafi 20. aldar voru 18% af útflutningsvörum Sviss vefnaðarvörur frá St. Gallen. Tugir þúsunda manna störfuðu í þessum atvinnuvegi og fjölgaði borgarbúum úr 11 þúsund árið 1850 í tæp 38 þúsund árið 1910. 1856 fékk borgin járnbrautartengingu og var þá hægt að koma afurðum fljótar og betur til kaupenda. En í kreppunni miklu á millistríðsárunum hrundi vefnaðariðnaðurinn algjörlega. Tugir þúsunda manna urðu atvinnulausir. Starfsfólk í vefnaði í St. Gallen fækkaði úr 30 þúsund niður í fimm þúsund. Þrettán þúsund manns yfirgaf borgina í leit að nýrri atvinnu. Eftirstríðsárin voru einkennandi fyrir flutning útlendinga til borgarinnar, aðallega Ítali og íbúar fyrrum Júgóslavíu. 27% borgarbúa í dag eru af erlendu bergi brotnir. Þar af eru Júgóslavar langfjölmennastir (33% allra útlendinga), en næstir koma Þjóðverjar og Ítalir.

Íþróttir

breyta

Knattspyrnufélagið FC St. Gallen er elsta knattspyrnufélagið í Sviss, stofnað 1879. Það hefur tvisvar orðið svissneskur meistari, 1904 og 2000. Auk þess varð félagið bikarmeistari árið 1969 og deildarbikarmeistari 1978.

Handboltafélagið TSV St. Otmar St. Gallen er eitt besta handboltafélag Sviss. Það hefur sjö sinnum orðið svissneskur meistari, síðast 2001, og er margfaldur bikarmeistari. Kvennaliðið LC Brühl er besta kvennaliðið í Sviss og hefur 26 sinnum orðið svissneskur meistari og sjö sinnum bikarmeistari.

Viðburðir

breyta
 
Íslenska hljómsveitin Mezzoforte árið 2010
  • Barnahátíðin St. Galler Kinderfest er hátíð skólabarna sem haldin hefur verið síðan 1824. Upphaf þess má rekja til þess er Gregoríus IV páfi sótti klaustrið í St. Gallen heim á 9. öld. Hann var þá svo hrifinn af börnunum, að hann gaf þeim frídag til skemmtunar, íþrótta og leikja. Upphaflega voru aðeins börn í hátíðinni, en á síðari tímum er þetta nokkurs konar borgarhátíð með þátttöku nær allra borgarbúa. Hér er meira eða minna um skrúðgöngu í skrúðklæðum að ræða. Sýnd eru aðallega afurðir vefnaðarins, en einnig búningar, fánar og ýmislegt annað sem einkennir góða skrúðgöngu. Gengið er að sviði, þar sem sýndir eru dansar, leikin er tónlist og borðaður matur, ekki síst St. Galler Bratwurst, frægustu pylsu borgarinnar. Hátíðin er haldin þriðja hvert ár og er hún næst haldin vorið 2012.
  • Römpel-Feuer er heiti á hátíð sem haldin er kvöldið fyrir gamlárskvöld í borgarhverfinu Straubenzell. Gengið er um þröngar göturnar með ógnvekjandi dúkku, en hún á að hræða burt allt illt á nýja árinu. Eftir gönguna er kveikt í brennu, Römperfeuer, sem er hápunktur hátíðarinnar.

Vinabær

breyta

St. Gallen viðheldur tengslum við aðeins einn vinabæ:

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Klausturkirkjan er einkennisbygging borgarinnar St. Gallen
  • Klausturkirkjan í St. Gallen var reist 1755 og leysti þar með eldri kirkju af hólmi. Kirkjan var sótt af munkunum í klaustrinu, sem og furstaábótanum í gegnum aldirnar. Hún er í barokkstíl og er afar skreytt að innan. Turnarnir eru 68 metra háir. Undir kirkjunni er gröf heilags Gallusar og er hluti af höfuðkúpu hans til sýnis í kirkjunni. Í grafhvelfingunni eru einnig grafir heilags Otmars, stofnanda klaustursins, sem og flestra furstaábótanna sem ríkt hafa í St. Gallen. Klausturkirkjan var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1983.
  • Klausturbókasafnið í St. Gallen var stofnað skömmu eftir stofnun klaustursins, en þá var klaustrið miðstöð lærdóms og lista. Bókasafn þetta er það elsta í Sviss og eitt elsta og stærsta klausturbókasafn heims. Þar er að finna 2100 handskrifaðar bækur, 1650 bækur með lausstafaprenti og 160 þús aðrar bækur. Bókasafn þetta var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1983.
  • Karlshliðið (Karlstor) er eina borgarhliðið sem enn stendur uppi. Það var reist af furstaábótanum Ulrich Rösch á árunum 1569-70 á tímum siðaskiptanna. Ábótinn komst ekki úr borginni nema með því að nota almenn borgarhlið. En þar sem hann var kaþólskur, var borgarbúum illa við hann, og fékk hann því að búa til sitt eigið borgarhlið út frá klaustrinu. Í dag er lögreglustöð í húsinu, en á efri hæðum eru fangaklefar.

Heimildir

breyta