Konstanz
Konstanz er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Hún er háskóla- og hafnarborg við Bodenvatn og er með rúmlega 81 þúsund íbúa (31. desember 2013).
Konstanz | |
---|---|
Sambandsland | Baden-Württemberg |
Flatarmál | |
• Samtals | 55,65 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 405 m |
Mannfjöldi (2013) | |
• Samtals | 81.141 |
• Þéttleiki | 1.458/km2 |
Vefsíða | www.konstanz.de Geymt 7 september 2014 í Wayback Machine |
Lega
breytaKonstanz liggur við Bodenvatn syðst í Þýskalandi, einmitt á þeim stað þar sem vatnið er mjóst. Borgin skiptir Bodenvatn í tvo aðskilda hluta og rennur Rínarfljót milli hlutanna í gegnum borgina. Suðurmörk borgarinnar eru samtímis landamærin að Sviss.
Orðsifjar
breytaBorgin var stofnuð af Rómverjum og hét þá Civitas Constantia (Borg Konstantíns), til heiðurs keisaranum Konstantíns Chlorus. Þetta heiti var notað af germönum eftir þetta og fyrst breytt í Constantia, síðan Konstanz.
Skjaldarmerki
breytaSkjaldarmerki borgarinnar er svartur kross á hvítum grunni. Efst er feit rauð rönd. Rauði liturinn er blóðröndin sem merkir blóðréttinn (líkamlegar refsingar) í þessari fyrrum fríborg. Krossinn er fenginn að léni frá rauða biskupakrossinum en biskupar réðu yfir borginni áður.
Saga Konstanz
breytaMiðaldir
breytaÞað voru Rómverjar sem stofnuðu borgina um 300 e.Kr. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær þeir hurfu þaðan en árið 525 kemur heitið Constania fyrst fyrir í gotneskri ferðabók. Árið 585 varð Konstanz biskupaborg en þá standa þjóðflutningarnir miklu yfir. Að minnsta kosti tveir biskupanna hafa verið teknir í tölu dýrlinga, þar á meðal Konrad frá Konstanz (um 900-975). Í upphafi 13. aldar náðu borgarbúar að losa sig undan biskupunum að hluta og varð Konstanz þá að halfgerðri fríborg í ríkinu. Konstanz var mikilvægur viðkomustaður ferðamanna og verslunarmanna á leið yfir Alpana. Hún tryggði einnig örugga leið yfir Bodenvatn. Á 14. öld tók Basel við sem viðkomustaður verslunar og því tók Konstanz að hnigna.
Kirkjuþing og siðaskipti
breyta1414 kallaði Sigismundur keisari til kirkjuþingsins mikla í Konstanz. Þingið þurfti að glíma við erfið vandamál. Þau helstu voru að binda enda á klofninginn innan kaþólsku kirkjunnar og finna lausn á óróa Hússítana í Bæheimi. Þingið stóð yfir í fjögur ár með hléum. Bæði vandamál tókst að leysa. Á þessum tíma hafði kaþólska kirkjan klofnað undir þremur páfum sem ríktu samtímis. Þetta þýddi einnig spennu í kaþólska heiminum, þar sem furstar og konungar fylgdu ekki alltaf sama páfa. Sigismund kallaði páfana til Konstanz en aðeins Jóhannes XXIII mætti. Hinir sendu fulltrúa. Lausnin fólst í því að setja alla þrjá páfa af og kalla nýjan. Nýr páfi varð Martin V. Þetta reyndist eina páfakjörið norðan Alpa í sögunni. Einn páfanna sætti sig við orðinn hlut, tveir ekki og fóru þeir í útlegð. Síðara vandamálið var ekki síður alvarlegt. Fylgismenn Jan Hus í Bæheimi höfðu kastað kaþólskri trú og þar með einnig hafnað keisaranum óbeint. Þetta leiddi til Hússítastríðana. Sigismund keisari kallaði Hus á þingið í Konstanz og veitti honum friðhelgi meðan fundað væri. En fundurinn varð honum óhagstæður. Keisari afturkallaði friðhelgina og var Hus brenndur á báli í miðborg Konstanz. Ösku hans var dreift í Rínarfljót. Seinna á 15. öld sótti Konstanz um inngöngu í svissneska bandalagið en beiðninni var hafnað á grundvelli þess að hinir eiðsvörnu óttuðust offjölgun borga. Konstanz hefði að öllum líkindum orðið höfuðborg kantónunnar Thurgau. Í kjölfarið af höfnuninni gekk borgin í sváfabandalagið. 1527 urðu siðaskiptin í borginni. Biskuparnir fluttu þá til Meersburg við Bodenvatn. 1548 barðist borgin í trúarstríðinu milli mótmælenda og kaþólikka (Schmalkaldischer Krieg). Mótmælendur biðu lægri hlut og borgin var því neydd til kaþólskrar trúar á ný. Borgin missti auk þess fríborgastatus sinn. Biskuparnir sneru hins vegar ekki aftur.
Nýrri tímar
breytaÍ 30 ára stríðinu sátu Svíar um borgina 1633 en fengu ekki unnið hana. Eftir stríð hnignaði borgin nokkuð og kemur lítið við sögu eftir það. Árið 1806 var Konstanz innlimað í stórhertogadæminu Baden. Árið 1809 sátu Austurríkismenn um borgina í Napoleonstríðunum, en fengu heldur ekki unnið hana. Árið 1863 fékk borgin járnbrautartengingu og við það dafnaði atvinnulífið á nýjan leik. Það ár voru borgarmúrarnir rifnir niður til að skapa meira byggingasvæði. Borgin kom ekkert við sögu í heimstyrjöldunum báðum á 20. öld. Frakkar hertóku borgina 26. apríl 1945 bardagalaust og var hún á hernámssvæði þeirra. Franskur her dvaldi í Konstanz allt til 1979.
Byggingar og kennileiti
breyta- Dómkirkjan í Konstanz er elsta bygging borgarinnar sem enn er í notkun. Elstu hlutar hennar eru frá árinu 1000. Kirkjan var notuð sem aðalsalur kirkjuþingsins mikla 1414-1418.
- Kirkjuþingshúsið (Konzilgebäude) er þekktast fyrir páfakjörið í kirkjuþinginu mikla 1414-1418, en það er eina páfakjör sögunnar norðan Alpa. Húsið er frá síðari hluta 14. aldar.
- Imperia heitir styttan mikla í innsiglingu hafnarinnar í Konstanz.