Norðurslóðir

(Endurbeint frá Norðurhöf)

Norðurslóðir (einnig kallaðar Norðurhöf eða Norðurheimskautssvæðið) er heimshlutinn í kringum Norðurheimskautið. Innan norðurslóða eru hlutar af Rússlandi, Alaska (sem tilheyrir Bandaríkjunum), Kanada, Grænland (sem tilheyrir Danmörku), Ísland, norðurhéruð Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, en stærsti hluti svæðisins er hið ísi lagða haf Norður-Íshafið. Ekki er til nein algild skilgreining á norðurslóðum, en gjarnan er miðað við Norðurheimskautsbaug (66° 33’N), skógarmörk í norðri (trjálínu), 10°C meðalhita í júlí eða skilin milli kalda Íshafssjávarins og hlýrri sjávarstrauma í Norður-Atlantshafi. Vistfræðilega er Ísland á mörkum þess svæðis sem talið er til norðurslóða. Þau ríki sem eiga lönd innan norðurslóða vinna saman innan Norðurskautsráðsins.

Rauða línan sýnir svæði með 10°C meðalhita í júlí en algengt er að styðjast við það sem skilgreiningu á norðurslóðum.

Norðurslóðir einkennast af miklu víðerni, köldu og þurru loftslagi, miklum árstíðaskiptum með skammdegi á veturna og björtum nóttum á sumrin, hafís í norðurhöfum og sífrera í jörðu á stórum svæðum.

Íbúar breyta

 
Inúítafjölskylda á ljósmynd frá 1916

Norðurslóðir einkennast af afar strjálli og dreifðri byggð. Íbúar norðurslóða eru á bilinu 3 til 4 milljónir eftir því hvernig svæðið er skilgreint. Um 10% þeirra eru frumbyggjar sem skiptast í a.m.k. þrjátíu þjóðarbrot og eru flest þeirra í Rússlandi. Við lok síðustu ísaldar, eða fyrir 10 til 15 þúsund árum, tók fólk að setjast að á norðurslóðum. Búseta á Grænlandi hófst fyrir um fjögur þúsund árum. Byggðin hvarf þúsund árum síðar vegna breyttra veðurskilyrða og önnur þúsund ár liðu þar til Grænland byggðist að nýju. Á Grænlandi var um fimm alda skeið á síðmiðöldum norrænt samfélag sem talið er hafa liðið undir lok á 15. öld.

Inúítar búa í norðurhéruðum Norður-Ameríku og á ströndum Grænlands og skyldir þjóðflokkar, s.s. Aljútar og Yup'ik, í Alaska og Síberíu. Indjánaþjóðir eins og Atabaskar búa í Vestur-Kanada og í Alaska.

Á Grænlandi eru 55.000 íbúar sem flestir eru Kalallítar (Inúítar). Landið varð dönsk nýlenda á átjándu öld og fékk heimastjórn árið 1979. Í nóvember 2008 kusu Grænlendingar aukna sjálfstjórn í þjóðaratkvæðagreiðslu með 75,54% atkvæða og núverandi ríkisstjórn stefnir að algjöru sjálfstæði árið 2021.[1] Samar eru frumbyggjar norðurhéraða Noregs, Svíþjóðar og Finnlands.

 
Samar í Noregi um 1900.

Í norðurhéruðum Rússlands eru þjóðarbrotin Tjúktar, Komi, Kirjálar og Jakútar sem hvert um sig telur nokkur hundruð þúsund manns. Þau hafa öll sérstök sjálfstjórnarsvæði. Einnig eru 26 minni þjóðarbrot dreifð um Síberíu og er áætlað að þessum þjóðarbrotum tilheyri u.þ.b. 186.000 manns. Meðal þeirra eru Kantar sem búa meðfram Ob-fljótinu í vesturhluta Síberíu og Evenar sem halda hreindýr og búa í Austur-Síberíu nálægt Kyrrahafi.

Hefðbundið viðurværi íbúa norðurslóða eru veiðar og kvikfjárrækt (t.d. fiskveiðar, selveiði, hvalveiðar, sauðfjárrækt og hreindýrarækt). Vegna kulda eru fá svæði á norðurslóðum sem henta til akuryrkju en aftur á móti er á vissum árstímum mikil veiði, bæði á landi, í vötnum og í hafi. Vegna þessa var hlutfall dýraafurða hærra í fæðu íbúa norðurslóða en fólks í öðrum heimshlutum og þess sér enn merki í fæðuvali.

Náttúra breyta

 
Rjúpa í vetrarbúningi

Lífríki norðurslóða spannar mörg lífbelti og búsvæði; barrskógar eru í suðri, freðmýrar og fjalllendi um miðbik svæðisins og ísjaðar í norðri. Tiltölulega fáar dýrategundir lifa á norðurslóðum en oft eru tegundirnar margbreytilegar. Eitt einkenni norðurslóða er gríðarleg stofnstærð sumra tegunda svo sem fiska (t.d. loðnu og síldar), sjófugla (haftyrðils og lunda) og spendýra eins og læmingja og hreindýra. Frumframleiðsla á norðurslóðum er mikil þó að vaxtartíminn sé stuttur. Miklar sveiflur eru í fæðu dýra eftir árstíma og stofnstærð sumra dýrategunda sveiflast mikið milli ára. Þannig er stofnstærð rjúpu afar breytileg og stofnstærð dýra sem éta rjúpu, s.s. fálka, sveiflast í takt við það. Einnig sveiflast stofnstærð snæuglu eftir því hve mikið er af læmingjum sem eru aðalfæða hennar. Hreindýr, hvítabirnir, sauðnaut, selir, heimskautarefir og snæuglur eru einkennisdýr norðurslóða.

Um 360 fuglategundir halda til á norðurslóðum þar af 75 á Íslandi. 40 fuglategundir eru staðfuglar, 35 tegundir færa sig milli svæða á norðurslóðum, en langstærsti hlutinn, eða 280 tegundir, eru farfuglar sem aðeins dvelja þar að sumri til.

Náttúruauðlindir breyta

 
Fiskiþorpið Reine í Lófóten í Norður-Noregi, norðan við heimskautsbaug.

Sums staðar á norðurslóðum eru miklar náttúruauðlindir; olíu- og gaslindir eru á norðurströnd Alaska, í Nunavut í Kanada og á vatnasviði Petsjorafljótsins í Rússlandi vestan Úralfjalla. Miklar nikkel- og koparnámur eru á Kóla- og Taímírskaga í Rússlandi, demantanámur í Jakútíu í Rússlandi og vesturhéruðum Kanada og kolanámur á Svalbarða.

Á norðurslóðum eru einhver mestu fiskimið heims. Mikið af ferskvatnsbirgðum heimsins er á norðurslóðum. Stórar ár falla til sjávar á norðurslóðum og í þeim eru stundaðar fiskveiðar. Fallorka þeirra er auk þess nýtt til raforkuframleiðslu. Einnig eru árnar nýttar til að fleyta til sjávar trjám úr nyrstu hlutum barrskógabeltisins. Stundum rekur trjáboli yfir Íshafið og enda þeir sem rekaviður á öðrum nálægum svæðum, t.d. á Íslandi.

Loftslagsbreytingar breyta

 
Vetrarís á Beauforthafi.

Á norðurslóðum sjást loftslagsbreytingar á jörðinni skýrar og hraðar en víðast annars staðar og gefa rannsóknir á norðurslóðum vísbendingu um hvers megi vænta annars staðar á jörðinni. Rannsóknir á borkjörnum úr Grænlandsjökli hafa sýnt tengsl milli hlýnandi veðurfars og hækkandi koltvísýrings. Spáð er hlýnun í heiminum á næstu áratugum og gæti hlýnun á norðurslóðum orðið meiri, sem lýsti sér m.a. í meiri rigningu og hækkun sjávarmáls. Rannsóknir virðast benda til að hraði loftslagsbreytinga sé mestur á heimskautasvæðum jarðarinnar. Því er spáð að barrskógabeltið stækki til norðurs og freðmýrar minnki um allt að helming á einni öld en mögulegt verði að stunda skógrækt og kornrækt víðar en nú er.

Siglingar breyta

 
Ísbrjótur ryður leið gegnum ísi lagt haf.

Siglingar um Norður-Íshafið eru gríðarlega erfiðar sökum rekíss og vegna aukinnar útbreiðslu heimskautsíssins á veturna. Þetta gerir að verkum að ekki er öruggt að sigla um hafið nema á vissum árstímum á sérútbúnum skipum og í fylgd ísbrjóta. Áður fóru Inúítar um á kajökum, norrænir menn á knörrum og Pómorar á tvímastra skipum með ráseglum (kotsj) en siglingar þeirra voru bundnar við styttri leiðir sem hægt var að komast yfir á einu sumri. Fyrsta hrina könnunar Norður-Íshafsins, frá 16. öld til 19. aldar, var drifin áfram af áhuga á að finna nothæfa leið frá Evrópu og austurströnd Ameríku norður fyrir Norður-Ameríku annars vegar (Norðvesturleiðin) og Rússland hins vegar (Norðausturleiðin).

Eftir margar misheppnaðar tilraunir til að finna Norðvesturleiðina varð Roald Amundsen fyrstur til að ná að sigla hana í einni atrennu árið 1906. Frekari tilraunir hafa síðan leitt í ljós að fyrir vöruflutninga er þessi leið ekki áhættunnar virði. Vestari hluti Norðausturleiðarinnar var mikið notaður af Evrópubúum (Rússum, Dönum, Svíum og Hollendingum) frá því á miðöldum og Pómorar við Hvítahaf náðu allt austur til ósa Jenisejfljóts. Fyrstur til að komast austur fyrir Tjúktaskaga var Semjen Desnjev á 17. öld en ekki tókst að sigla alla leiðina í einni ferð fyrr en 1878 þegar finnsk-sænski landkönnuðurinn Adolf Erik Nordenskiöld sigldi austur eftir henni allri. Hann þurfti þó að bíða fastur í ísnum yfir veturinn. Vandamálið við Norðausturleiðina er hvað hún er löng og að við hana eru einungis sjö hafnir sem eru lausar við ís allt árið um kring. Það gæti þó átt eftir að breytast.

Samfara hnattrænni hlýnun og þar með bráðnun heimskautaíssins opnast möguleikar á siglingaleið allt árið um Norður-Íshaf. Sjóleiðin milli austurstrandar Norður-Ameríku og Asíu (Kína) er þrettán þúsund sjómílur að lengd ef siglt er um Miðjarðarhaf og Súesskurð en yrði níu þúsund sjómílur ef farin væri sjóleið um Ísland og gegnum Norður-Íshafið. Við opnun Norðausturleiðarinnar milli Asíu og Evrópu gæti Ísland orðið umskipunarland á vesturenda siglingarleiðarinnar þar sem Ísland liggur landfræðilega vel við sem miðstöð dreifingar til Evrópu og Ameríku. Siglingar milli ríkja innan norðurslóða svo sem milli Vestfjarða og Grænlands yrðu einnig greiðari.

Mengun breyta

Tiltölulega lítil mengun er á svæðinu og mesta mengunin á uppruna sinn utan svæðisins. Eiturefni sem safnast saman í fitu sjávarspendýra hafa fundist í fólki frá norðurslóðum. Helsta áhyggjuefni núna er mengun af völdum kvikasilfurs, blýs og kadmíums. Kvikasilfur safnast í fitu dýra og borið hefur á uppsöfnun kvikasilfurs hjá fólki á norðurslóðum sem lifir á fituríku sjávarfangi. Geislavirkni á norðurslóðum stafar af því að þar voru gerðar tilraunir með kjarnorkusprengjur.

Tilvísanir breyta

  1. „Sjálfstæði frá Dönum fyrir 2021“. 26. nóvember 2008.

Heimildir breyta

Tenglar breyta