Ob
Ob (rússneska: Обь (Obʹ)) er fljót í Rússneska sambandsríkinu, nánar tiltekið í Vestur Síberíu. Eitt mesta vatnsfall jarðar; 3,650 kílómetrar að lengd, vatnasvið er 2,99 milljónir ferkílómetra. Upptökin eru í Altajfjöllum, rennur norður og norðvestur um Síberíu og fellur í Obflóa. Fljótið er ísi lagt 5-6 mánuði á ári en annars mikilvæg siglingarleið. Mest þverá Ob er Írtysh. Samanlögð leið þeirra er 5,567 kílómetrar. Þannig mælt er fljótið það fjórða lengsta í heimi.
Efsti hluti Ob rennur í norðvestur í Altajfjöllum, síðan í norðaustur framhjá borgunum Barnaul og Novosibirsk og sameinast ánni Tom.
Um miðbikið streymir Ob til norðvesturs um mýrarskóga Síberíu og þar falla í það árnar Chulym, Ket, og Írtysh. Við áramót Ob og Írtysh er 78 metra há stífla og uppistöðulón nýtt til árveitu. Mikil vatnsorkuver eru í Ob fljóti.
Neðst greinist fljótið í tvær kvíslar, Stóra-Ob og Litla-Ob og rennur þá norður og austur út í Obflóa, sem gengur suður úr Norður-Íshafinu. Flóinn er um 800 kílómetra langur en ekki nema um 60 kílómetrar á breidd. Breidd fljótsins eykst eftir því sem neðar dregur og nálægt ósum er það um 40 kílómetra breitt.
Dalurinn, sem miðhluti fljótsins rennur eftir, fer á kaf í flóðum á hverju ári, vegna þess að leysingar eru fyrr á ferð suður í Altaifjöllum en þar, 200 kílómetrum norðar.
Fljótið leggur að mestu í 5 til 6 mánuði á hverju ári, en þrátt fyrir það er það mikilvæg samgönguæð.
Helstu hafnarborgir við fljótið eru Novosibirsk, Barnaul, Kamen-na-Obi og Mogochin. Stórt vatnsorkuver er í Novosibirsk. Mestu olíu- og gaslindir Rússlands eru meðfram miðhluta fljótsins.
Mikil mengun neðst í fljótinu hefur gjöreytt stórum fiskistofnum, sem áður voru veiddir þar í miklum mæli.
Heimild
breytaTengill
breyta- Ob Geymt 30 mars 2006 í Wayback Machine