Norðausturleiðin (rússneska: Се́верный морско́й путь) er siglingaleið milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins meðfram norðurströnd Rússlands. Stærstur hluti leiðarinnar er í ísi lögðu Norður-Íshafinu og hlutar hennar eru aðeins lausir við ís tvo mánuði á ári.

Norðausturleiðin sýnd með rauðum lit.

Norðausturleiðin var, ásamt Norðvesturleiðinni, eftirsótt skipaleið þar sem hún styttir mjög ferðatímann frá Evrópu til Kína og Indlands, sérstaklega áður en Súesskurðurinn og Panamaskurðurinn voru opnaðir. Fyrstu könnunarleiðangrar á Norðurslóðum voru tilraunir til að finna þessar leiðir. Pómorar höfðu áður notað siglingaleið sem náði að ósum Jenisejfljóts. Meðal þeirra sem könnuðu Norðurslóðir í leit að Norðausturleiðinni voru Willem Barents, Henry Hudson, Semjon Desnjev og Vitus Bering en tveir þeir síðarnefndu náðu að sigla alla leiðina með hléum vegna íss.

Með tilkomu útvarpssenda, gufuskipa og ísbrjóta varð fyrst mögulegt að nýta Norðausturleiðina til reglulegra siglinga. Sovétríkin lögðu mikla áherslu á notkun hennar og formleg opnun skipaleiðar norður fyrir Rússland var 1935. Þessari skipaleið hefur hnignað frá upplausn Sovétríkjanna 1990.

Hafnir

breyta

Nokkrar hafnir á leiðinni eru íslausar allt árið. Þær eru (frá vestri til austurs): Múrmansk á Kólaskaga, Petropavlovsk á Kamtsjatka og Magadan, Vanino, Nakodka og Vladivostok í Kyrrahafinu. Aðrar hafnir eru yfirleitt nothæfar frá júlí fram í október eða er haldið opnum af kjarnorkuknúnum ísbrjótum.

Tengt efni

breyta