Liechtenstein

(Endurbeint frá Lichtenstein)

Furstadæmið Liechtenstein (þýska: Fürstentum Liechtenstein) er fjalllent smáríki í mið-Evrópu, á milli Sviss og Austurríkis. Landið er aðeins 160 ferkílómetrar að stærð. Höfuðborg Liechtenstein heitir Vaduz og opinbert tungumál er þýska.

Furstadæmið Liechtenstein
Fürstentum Liechtenstein (þýska)
Fáni Liechtenstein Skjaldarmerki Liechtenstein
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Für Gott, Fürst und Vaterland (þýska)
Fyrir guð, fursta og föðurland
Þjóðsöngur:
Oben am jungen Rhein
Staðsetning Liechtenstein
Höfuðborg Vaduz
Opinbert tungumál Þýska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Fursti Hans-Adam 2.
Forsætisráðherra Daniel Risch
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
215. sæti
160 km²
2,7
Mannfjöldi
 - Samtals (2020)
 - Þéttleiki byggðar
211. sæti
38.869
232/km²
VLF (KMJ) áætl. 2006
 - Samtals $2.850 mill. millj. dala
 - Á mann $83.700 dalir
Gjaldmiðill Svissneskur franki (CHF)
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .li
Landsnúmer +423

HeitiBreyta

Liechtenstein merkir „bjartur steinn“. Landið dregur nafn sitt af Liechtenstein-kastala í Austurríki sem er ættaróðal Liechtenstein-ættar. Ættin hefur ríkt yfir furstadæminu frá því á 13. öld.

 
Staðsetning og kort.

SagaBreyta

Liechtenstein var stofnað 1342 sem greifadæmi. Það fékk nafn sitt árið 1719. Á 18. og 19. öld var landið sjálfstætt konungsríki í hinu heilaga, rómverska keisaradæmi og tengt Habsborgurum í Austurríki efnahagslega. Árið 1984 voru samþykkt lög sem veittu konum kosningarétt.

Liechtenstein gerði varnarbandalag við Austurríki 1852-1918. Síðar tengdist Liechtenstein Sviss með viðskiptasambandi. Svissneskur franki er gjaldmiðill landsins og tollur og póstþjónusta eru sameiginleg þó Liechtenstein gefi út eigin frímerki. Liechtenstein gekk í EFTA árið 1991. Liechtenstein er eitt tækni- og iðnvæddasta ríki heims og meðaltekjur með þeim allra hæstu í heimi.

NáttúraBreyta

Upp í hæðum Alpanna eru beitilönd og á Rínarsléttunni er stundaður landbúnaður.

LýðfræðiBreyta

Lífslíkur í Liechtenstein eru um 75 ár á meðal karla og 82 ár meðal kvenna. Innfæddir íbúar Liechtenstein eru afkomendur Germana (Alemanna), sem settust þarna að 500 e.kr. Um 87% íbúanna eru rómversk-kaþólskrar trúar.

StjórnsýslaBreyta

Liechtenstein er þingbundið furstadæmi. Núverandi fursti er Hans-Adam II sem ríkt hefur síðan 1989. Á þingi landsins starfa 25 þingmenn sem eru kosnir á fjögurra ára fresti. Furstinn tilnefnir forsætisráðherrann að tillögu þingsins.

EfnahagslífBreyta

 
Horft í suður í átt að miðbæ Vaduz.

Þrátt fyrir takmarkaðar náttúruauðlindir er Liechtenstein eitt af fáum löndum heims með fleiri skráð fyrirtæki en íbúa. Þetta stafar af því að landið var til skamms tíma vinsælt skattaskjól.[1] Landið býr við frjálsan markaðsbúskap með þróaðan iðnað og fjármálageira. Lífsgæði íbúa eru sambærileg við það sem best gerist hjá stærri nágrönnum í Evrópu.

Liechtenstein er í tollabandalagi með Sviss og notar svissneska franka sem gjaldmiðil. Landið flytur inn um 85% af orkunotkun sinni. Liechtenstein er aðili að evrópska efnahagssvæðinu í gegnum aðild sína að EFTA frá því í maí 1995.

Stjórn Liechtenstein vinnur að því að samræma efnahagsstefnu sína stefnu Evrópusambandsins. Árið 2008 var atvinnuleysi í Liechtenstein 1,5%. Aðeins eitt sjúkrahús er í Liechtenstein, Liechtensteinisches Landesspital í Vaduz. Árið 2014 áætlaði CIA World Factbook að kaupmáttarjöfnuð verg landsframleiðsla væri 4,97 milljarðar dala. Árið 2009 var landsframleiðsla á mann áætluð 139.100 dalir, sú hæsta í heimi.[2]

Iðnfyrirtæki í Liechtenstein framleiða meðal annars rafeindatæki, textíl, mælitæki, málmtækni, aflvélar, festiskrúfur, reiknivélar, lyf og matvæli. Þekktast alþjóðlega fyrirtækið og stærsti vinnuveitandi Liechtenstein er tækjaframleiðandinn Hilti sem framleiðir bora, naglabyssur og fleira. Landbúnaður er stundaður víða í bæði Oberland og Unterland og Liechtenstein framleiðir hveiti, bygg, maís, kartöflur, mjólkurvörur, kjöt og vín.

ÍbúarBreyta

Íbúar Liechtenstein voru 39.315 31. desember 2021[3] svo landið er fjórða fámennasta land Evrópu, á eftir Vatíkaninu, San Marínó og Mónakó. Íbúar tala aðallega þýsku, þótt einn þriðji sé aðfluttur, aðallega frá Þýskalandi, Austurríki og þýskumælandi kantónum Sviss. Hluti íbúa er frá öðrum kantónum Sviss, Ítalíu og Tyrklandi. Erlent vinnuafl er 2/3 af mannafla í landinu.[4]

Lífslíkur í Liechtenstein eru 82 ár (84,8 hjá konum og 79,8 hjá körlum). Ungbarnadauði er 4,2 andlát á 1.000 fæðingar miðað við árið 2018.

MenningBreyta

Vegna smæðar sinnar hefur Liechtenstein orðið fyrir menningaráhrifum frá nágrannalöndunum, einkum öðrum þýskumælandi héruðum eins og Austurríki, Baden-Würtemberg, Bæjaralandi, Sviss og sérstaklega Týról og Voralberg. Sögufélag furstadæmisins Liechtenstein leikur stórt hlutverk við varðveislu sögu og menningar landsins.[5]

Listasafnið Kunstmuseum Liechtenstein er stærsta safn landsins. Það er alþjóðlegt safn með nútímalist og samtímalist sem á nokkuð safn þekktra verka. Byggingin er eftir svissnesku arkitekana Morger, Degelo og Kerez og er ein þekktasta byggingin í Vaduz. Hún var vígð í nóvember 2000 og myndar svartan kassa úr litaðri steypu og svörtu basalti. Safnið er jafnframt þjóðlistasafn Liechtenstein. Helstu verkin úr einkalistasafni furstans af Liechtenstein, sem er eitt af merkustu listasöfnum heims, eru til sýnis í Liechtenstein-safni í Vínarborg.[6]

Önnur mikilvæg söfn eru Þjóðminjasafn Liechtenstein (Liechtensteinisches Landesmuseum) með fasta sýningu sem fjallar um sögu landsins, auk sérsýninga. Í landinu eru líka frímerkjasafn, skíðasafn og safn sem sýnir sveitalíf fyrir 500 árum.

Landsbókasafn Liechtenstein er skylduskilasafn fyrir allar bækur sem gefnar eru út í landinu.

Frægustu sögulegu byggingar landsins eru Vaduz-kastali, Gutenberg-kastali, Rauða húsið og rústir Schellenberg. Á þjóðhátíðardegi Liechtenstein er öllum borgurum landsins boðið í kastala þjóðhöfðingjans. Stór hluti íbúa tekur þátt í hátíðarhöldunum þar sem ræður eru fluttar og boðið upp á bjór.[7]

Tónlist og leiklist eru mikilvægur hluti af menningu landsins. Mörg tónlistarfélög starfa þar, eins og Liechtenstein Musical Company, árlegir gítardagar og Josef Gabriel Rheinberger-félagið.

TilvísanirBreyta

  1. „Billionaire Tax Haven Liechtenstein Loses on Bank Reforms". . 2. maí 2013. Skoðað 3. ágúst 2017.
  2. „Liechtenstein“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Sótt 3. ágúst 2017.
  3. „Bevölkerungsstand: Bevölkerungsstand per 31. Dezember 2021“ (þýska). Amt für Statistik Fürstentum Liechtenstein. Sótt 22. júlí 2022.
  4. „WT/TPR/S/280 • Switzerland and Liechtenstein“ (PDF). WTO. Sótt 26. janúar 2015.
  5. „Der Verein“. Historische Verein für das Fürstentum Liechtenstein. Sótt 7.8.2022.
  6. „History of the family and the collections“. Liechtenstein: The Princely Collections. Sótt 7.8.2022.
  7. Letzing, John (16. apríl 2014). „Liechtenstein Gets Even Smaller“. The Wall Street Journal. Sótt 21. júní 2018.

TenglarBreyta

   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.