Leonardo da Vinci
Leonardo di ser Piero da Vinci (15. apríl 1452 – 2. maí 1519) var ítalskur endurreisnarmaður; málari, myndhöggvari, arkitekt, vísindamaður, stærðfræðingur, verkfræðingur og uppfinningamaður sem kom inn á ýmis svið, svo sem líffærafræði, tónlist, náttúrufræði, rúmfræði, kortagerð og grasafræði. Hann var lengi fyrst og fremst þekktur sem myndlistarmaður, en hefur síðar orðið frægur fyrir umfangsmiklar og ítarlegar stílabækur þar sem hann teiknaði og skrifaði um ýmis efni, eins og líffærafræði, stjörnufræði, grasafræði, kortagerð, málun og steingervingafræði. Vegna snilligáfu sinnar hefur Leonardo verið nefndur sem dæmi um hinn fullkomna húmanista endurreisnartímans.

Leonardo da Vinci fæddist utan hjónabands árið 1452, hugsanlega í þorpinu Vinci nálægt Flórens á Ítalíu. Foreldrar hans voru lögmaðurinn Piero Frusino di Antonio da Vinci og verkakonan Catarina. Faðir Leonardo kvæntist fjórum sinnum og eignaðist hann tólf hálfsystkini. Hann var í litlu sambandi við þau, meðal annars vegna mikils aldursmunar, og lenti í deilum við þau vegna arfs föður síns þegar hann lést. Leonardo gerðist lærlingur hjá myndlistarmanninum Andrea del Verrocchio í Flórens. Síðar starfaði hann lengi sem hirðmálari hjá Ludovico Sforza í Mílanó. Eftir það sneri hann aftur til Flórens um stutt skeið og fór svo til Rómar þar sem hann starfaði fyrir Leó 10. páfa, ásamt bæði Michelangelo og Raffaello Sanzio. Eftir fund páfa og Frans 1. Frakkakonungs í Bologna árið 1516, gekk Leonardo í þjónustu hans og flutti í herragarðinn Clos Lucé í Amboise þar sem hann bjó til dauðadags. Hann vann ýmis verk fyrir konung eins til dæmis ljónastyttu sem gat gengið. Leonardo da Vinci lést 67 ára árið 1519 vegna heilablóðfalls. Góður vinur hans, Francesco Melzi, fékk stærsta hlutann af arfi hans, bæði reiðufé, málverk og ýmsa persónulega muni. Leonardo er grafinn í kapellu heilags Húberts í kirkju í höllinni Château d'Amboise í Frakklandi.
Leonardo hefur verið nefndur sem helsti meistari listasögunnar og upphafsmaður háendurreisnarinnar á 16. öld. Þrátt fyrir að innan við 25 málverk séu þekkt eftir hann, þar á meðal mörg ókláruð og umdeild verk, er hann talinn áhrifamesti listamaðurinn í vestrænni myndlist. Þekktasta verk hans, Mona Lisa, er talið frægasta málverk heims og Síðasta kvöldmáltíðin er eitt þekktasta kristilega trúarmálverk allra tíma. Þekktasta skissan hans er teikningin Vitrúvíski maðurinn sem er mynd af mannslíkamanum og er algeng táknmynd í ýmsu samhengi. Málverkið Salvator Mundi seldist á uppboði árið 2017 fyrir 450,3 milljónir dala, sem var heimsmet í málverkasölu á opinberu uppboði.
Leonardo da Vinci er ekki síður minnst fyrir fjölmargar uppfinningar sem hann teiknaði í stílabækur sínar og fæstar urðu að veruleika. Meðal þeirra er hugmynd að „bardagavél“ (eins konar frumgerð skriðdreka), ýmsar tegundir flugvéla, hugmyndir um hagnýtingu sólarorku með linsum, reiknivél og tvöfaldur skipsskrokkur. Tiltölulega fáar af uppfinningum hans voru í raun mögulegar, þar sem bæði málmfræði og verkfræði voru að stíga sín fyrstu skref á þeim árum sem hann lifði. Sumar af uppfinningunum urðu þó að veruleika, eins og vél til að vinda þráð upp á kefli og tæki til að mæla togstyrk víra. Hann gerði mikilvægar uppgötvanir á sviðum líffærafræði, verkfræði, vökvaaflfræði, jarðfræði, ljósfræði og núningsfræði, en gaf þær ekki út, svo þær höfðu lítil áhrif á þróun vísindanna eftir hans dag.
HeimildirBreyta
- Fyrirmynd greinarinnar var „Leonardo da Vinci“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. nóvember 2017.
- Verk eftir Leonardo da Vinci hjá Project Gutenberg
- „Hvað voru uppfinningar Leonardós da Vincis margar og hverjar voru þær?“ á Vísindavefnum
- „Lagði Leonardó da Vinci eitthvað af mörkum til stærðfræðinnar?“ á Vísindavefnum
- „Af hverju er svona erfitt að lesa minnisbækur Leonardó da Vinci?“ á Vísindavefnum
- „Af hverju er málverkið af Mónu Lísu svona frægt? Eru til fleiri gerðir af því en ein?“ á Vísindavefnum