Savojaættin

(Endurbeint frá Savojaætt)

Savojaættin (ítalska: Casa Savoia) er aðalsætt kennd við héraðið Savoja í norðvesturhluta Ítalíu og suðausturhluta Frakklands. Upphaf ættarinnar er rakið til greifans Húmberts 1. (1003 – 1047/8). Greifarnir af Savoja náðu yfirráðum yfir mikilvægum fjallvegum yfir Alpafjöll. Sonur Húmberts, Ottó af Savoja, giftist Adelaide af Tórínó og eignaðist þannig bæina Tórínó, Susa, Ivrea, Pinerolo og Caraglio í Fjallalandi. 1416 var Savoja gert að hertogadæmi. Frakkar lögðu Fjallaland undir sig 1494 og landlaus ættin settist þá að í Tórínó. 1553 hóf Emmanúel Filibert hertogi að ná löndum ættarinnar aftur á sitt vald. Efnahagslegur uppgangur varð í löndum ættarinnar á 17. öld með þróun iðnaðar í Tórínó og verslunar í Nice. Í kjölfar Spænska erfðastríðsins fékk ættin Konungsríkið Sardiníu og varð við það konungsætt. Við sameiningu Ítalíu 1861 lét ættin eftir lönd sín í Frakklandi en varð þess í stað konungar Ítalíu.

Skjaldarmerki Savojaættarinnar

Í kjölfar Síðari heimsstyrjaldar var ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslu að gera Ítalíu að lýðveldi. Í stjórnarskrá Ítalíu var auk þess lagt bann við því að afkomendur síðasta konungsins, Húmberts 2. í beinan karllegg stigju fæti á ítalska jörð. Banninu var aflétt 2002 en um leið hafnaði Viktor Emmanúel, prins af Napólí öllu tilkalli til krúnunnar samkvæmt samkomulagi við ítalska ríkið.