Tyrkland

ríki á mörkum Asíu og Evrópu
(Endurbeint frá Lýðveldið Tyrkland)

Tyrkland (tyrkneska: Türkiye) er land í Suðvestur-Asíu og Suðaustur-Evrópu sem nær yfir Anatólíu í Asíu og lítið landsvæði á Balkanskaga í Evrópu. Tyrkland á landamæri að Grikklandi og Búlgaríu í vestri, Georgíu í norðaustri, Armeníu, Aserbaísjan og Íran í austri, Írak í suðaustri og Sýrlandi í suðri. Einnig liggur Tyrkland að Svartahafi í norðri, Eyjahafi í vestri og Miðjarðarhafi í suðri. Ankara er höfuðborg Tyrklands en Istanbúl er stærsta borg landsins.

Lýðveldið Tyrkland
Türkiye Cumhuriyeti
Fáni Tyrklands Skjaldarmerki Tyrklands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Yurtta Barış, Dünyada Barış (tyrkneska)
Friður heima við, friður í heiminum
Þjóðsöngur:
İstiklâl Marşı
Staðsetning Tyrklands
Höfuðborg Ankara
Opinbert tungumál Tyrkneska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Recep Tayyip Erdoğan
Varaforseti Cevdet Yılmaz
Sjálfstæði
 • Yfirlýst 23. apríl 1920 
 • Viðurkennt 29. október 1923 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
36. sæti
783.356 km²
1,3
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar
17. sæti
85.279.553
105/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 2.320 millj. dala (13. sæti)
 • Á mann 28.346 dalir (45. sæti)
Gjaldmiðill tyrknesk líra
Tímabelti UTC +2 (+3 á sumrin)
Þjóðarlén .tr
Landsnúmer +90

Söguágrip

breyta

Landið þar sem Tyrkland er nú hefur verið byggt ýmsum anatólískum þjóðum frá því á fornsteinöld, auk Assyríumanna, Grikkja, Þrakverja, Frýgíumanna, Úrarta og Armena. Eftir landvinninga Alexanders mikla varð menning svæðisins hellenísk sem hélt áfram eftir að það varð hluti af Rómaveldi og síðar Austrómverska keisaradæminu. Á 11. öld hófu Seljúktyrkir að flytjast til svæðisins, en Seljúktyrkir voru þjóð sem átti uppruna sinn í mið-Asíu en flutti sig um set, fyrst til Persíu og svo til Anatólíu. Á 10. öld höfðu Seljúktyrkir snúist til Íslamstrúar vegna áhrifa múslima í Persíu. Sigur þeirra á Austrómverska keisaradæminu í orrustunni við Manzikert 1071 opnaði fyrir þeim möguleika á því að flytja sig til Anatólíu og markar því upphaf sögu Tyrkja í núverandi Tyrklandi. Seljúktyrkir stofnuðu í kjölfarið Soldánsdæmið Rûm sem ríkti yfir stærstum hluta Anatólíu fram að innrás Mongóla 1243. Eftir það skiptist ríkið í nokkur minni furstadæmi.

Frá lokum 13. aldar hófu Ottómanar að sameina þessi furstadæmi og enduðu á því að skapa heimsveldi sem náði yfir stærstan hluta Suðaustur-Evrópu, Vestur-Asíu og Norður-Afríku. Ottoman Tyrkir höfðu flust til Anatólíu í kjölfarið á Seljúktyrkjum og með veldi þeirra hófst saga ríkisins sem í dag er þekkt sem Tyrkjaveldi eða Ottomanveldið. Árið 1453 náðu Tyrkir Konstantínópel (núverandi Istanbúl), höfuðborg Austrómverska ríkisins, á sitt vald og gerðu að höfuðborg sinni. Ríkið náði hátindi sínum undir stjórn Súleimans mikla á 16. öld. Það var áfram stórveldi næstu tvær aldirnar þar til atburðir á 19. og 20. öld urðu til þess að það missti flest lönd sín í Evrópu. Þar með dró verulega úr styrk og ríkidæmi heimsveldisins. Eftir valdaránið í Tyrkjaveldi 1913 var landið undir stjórn þriggja pasja sem ákváðu að ganga til liðs við Miðveldin í Fyrri heimsstyrjöld. Í stríðinu voru framin þjóðarmorð á armenskum, assýrískum og grískum íbúum landsins. Eftir stríðið var löndum Tyrkjaveldis skipt upp. Mustafa Kemal Atatürk hóf þá sjálfstæðisstríð Tyrklands gegn setuliði Bandamanna. Soldánsdæmið var afnumið 1922 og lýðveldi stofnað árið eftir undir forsæti Atatürks. Atatürk réðist í miklar samfélagsumbætur sem margar voru undir áhrifum frá vestrænni heimspeki og stjórnmálahugsun.

Tyrkland er eitt af stofnríkjum Sameinuðu þjóðanna, gerðist snemma aðili að Atlantshafsbandalaginu, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Heimsbankanum, og stofnaðili OECD, OSCE, BSEC, OIC og G-20. Eftir að verða eitt af fyrstu aðildarríkjum Evrópuráðsins 1949 fékk Tyrkland aukaaðild að evrópska efnahagssvæðinu, gerðist aðili að evrópska tollabandalaginu 1995 og hóf aðildarviðræður við Evrópusambandið árið 2005. Þær viðræður voru stöðvaðar af Evrópusambandinu árið 2017 vegna þróunar stjórnar Tyrklands í átt til alræðis. Tyrkland hefur verið stórveldi í sínum heimshluta, meðal annars vegna staðsetningar sinnar. Það er veraldlegt, miðstýrt ríki sem áður bjó við þingræði en breyttist í forsetaræði með stjórnarskrárbreytingu árið 2017 sem tók gildi í forsetakosningum árið 2018. Núverandi stjórnarleiðtogi er Recep Tayyip Erdoğan sem hefur unnið að því að auka íslömsk áhrif og afnema eldri samfélagsumbætur, þar með taldar umbætur sem Atatürk stóð fyrir.

Samfélag

breyta
 
Kort

Um 70-80% landsmanna teljast vera Tyrkir. Stærsta þjóðabrotið sem býr í Tyrklandi eru Kúrdar, sem eru um 20% landsmanna. Aðrir minnihlutahópar eru Sjerkesar, Albanar, Arabar, Bosníumenn og Lazar. Opinbert tungumál landsins er tyrkneska, sem er algengasta tyrkíska mál heimsins, en í Tyrklandi eru líka töluð kúrdíska, bosníska, arabíska, zazíska og kabardíska.

Höfuðborg Tyrklands er Ankara en Istanbúl er stærsta borgin og efnahagsleg höfuðborg landsins.

Íslam eru stærstu trúarbrögðin, en 82% þjóðarinnar aðhyllist þau.

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta

Tyrkland er miðstýrt, óskipt ríki sem er helsta einkenni tyrkneskrar stjórnsýslu. Önnur stjórnsýslustig hafa lítið sem ekkert sjálfstæði gagnvart ríkisvaldinu í Ankara. Sýsluskiptingin er hugsuð sem farvegur fyrir opinbera þjónustu á hverjum stað. Sýslurnar og bæirnir heyra undir sveitarstjóra og bæjarstjóra sem skipaðir eru af stjórninni. Aðrir opinberir starfsmenn eru ýmist skipaðir af stjórninni eða kosnir í sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélög í Tyrklandi eru með lögþing sem taka ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins.

Innan þessa ramma er Tyrklandi skipt í 81 sýslu. Hver sýsla skiptist í umdæmi sem eru alls 923. Tyrklandi er skipt í 7 landfræðileg héruð og 21 undirhérað til að auðvelda utanumhald og tölfræði. Héruðin eru ekki stjórnsýslueining. Sumir fræðimenn hafa gagnrýnt miðstjórnarfyrirkomulagið fyrir að hindra góða staðbundna stjórnsýslu. Það veldur oft togstreitu í bæjum þar sem meirihluti íbúa tilheyrir minnihlutahópi eins og í héruðum Kúrda. Skref sem stigin hafa verið í átt til aukinnar valddreifingar frá 2004 hafa reynst mjög umdeild. Evrópusáttmáli um sjálfsstjórn sveitarfélaga hefur drifið þessa þróun áfram.


Landafræði

breyta
 
Landslagskort af Tyrklandi.

Tyrkland er Evrasíuland með landsvæði bæði í Asíu og Evrópu. Það á landamæri að Grikklandi og Búlgaríu í norðvestri, Georgíu í norðaustri, Armeníu, Aserbaísjan og Íran í austri; og Írak og Sýrlandi í suðri. Eyjahafið liggur að landinu vestan- og suðvestanverðu og eru þar fjölmargar eyjar sem flestar tilheyra Grikklandi. Þegar siglt er til norðurs úr Eyjahafinu á milli asíska og evrópska hluta Tyrklands er fyrst farið um Dardanellasund inn í Marmarahaf, sem er lítið innhaf, og úr því um Bosporussund inn í Svartahaf, sem er stórt innhaf. Að sunnanverðu á landið strönd að Miðjarðarhafi.

Asíuhluti Tyrklands, sem er 97% landsins, greinist frá Evrópuhlutanum við Bospórussund, Marmarahaf og Dardanellasund. Evrópuhluti Tyrklands, Austur-Þrakía, er 3% landsins. Tyrkland er ferhyrningslaga, yfir 1600 km á lengd og 800 km á breidd. Það liggur milli 35. og 43. breiddargráðu norður og 25. og 45. lengdargráðu austur. Landið er 783.562 km² að stærð. Þar af eru 755.688 km² í Asíu og 23.764 km² í Evrópu. Tyrkland er 37. stærsta land heims. Þrjú stór innhöf liggja að því: Svartahaf í norðri, Eyjahaf í vestri og Miðjarðarhaf í suðri. Marmarahaf er lítið innhaf á milli Eyjahafs og Svartahafs í norðvestri.

Austur-Þrakía, Evrópuhluti Tyrklands, liggur að landamærum Grikklands og Búlgaríu. Asíuhlutinn er að mestu leyti Anatólíuskaginn eða Litla-Asía. Á skaganum er miðhálendisslétta og mjóar strandlengjur. Í norðri eru Köroğlu-fjöll og Pontusfjöll og í suðri eru Tárusfjöll. Austur-Tyrkland, sem er á vesturhluta Armenska hálendisins, er fjalllendara. Þar eru upptök margra fljóta, eins og Efrat, Tígris og Aras. Þar er líka fjallið Ararat, hæsta fjall Tyrklands, 5.137 metra hátt, og Vanvatn, stærsta stöðuvatn landsins. Suðaustur-Tyrkland er norðurhluti Efri Mesópótamíu.

Tyrkland skiptist í 7 landfræðileg héruð: Marmarahérað, Eyjahafshérað, Svartahafshérað, Mið-Anatólíuhérað, Austur-Anatólíuhérað, Suðaustur-Anatólíuhérað og Miðjarðarhafshérað. Flókin jarðsöguleg þróun í þúsundir ára hefur skapað fjölbreytt landslag Tyrklands. Jarðskjálftar eru nokkuð algengir og eldgos eiga sér stað. Bospórussund og Dardanellasund liggja á Norður-Anatólíumisgenginu sem liggur síðan eftir endilangri norðurströnd Anatólíu frá austri til vesturs. Síðasti stóri jarðskálftinn á misgenginu var jarðskjálftinn í İzmit 1999, 7,6 stig að stærð.

Lífríki

breyta
 
Sumelaklaustur í Pontusfjöllum.

Líffjölbreytni er mikil í Tyrklandi. Í Anatólíu eru margar nytjajurtir sem hafa verið ræktaðar frá upphafi landbúnaðar upprunar, og villtir forfeður margra helstu matjurta mannkyns vaxa enn í Tyrklandi. Dýraríkið er jafnvel enn fjölbreyttara en jurtaríkið með um 80.000 dýrategundir (yfir 100.000 ef undirtegundir eru taldar með), en til samanburðar eru um 60.000 dýrategundir í allri Evrópu.

Norður-Anatólíuskógurinn er vistsvæði sem nær yfir stærsta hluta Pontusfjalla í Norður-Tyrklandi meðan Kákasusskógurinn nær yfir austurhluta fjallgarðsins. Á því svæði er að finna evrasísk dýr eins og evrasíuspörhauk, gullörn, gammörn, gnýörn, svartorra, glóbrá og bjargfeta. Á mjórri ströndinni milli Pontusfjalla og Svartahafs eru Svartahafs- og Kolkisskógarnir sem eru meðal fárra dæma um tempraða regnskóga í heiminum. Tyrknesk fura finnst í Tyrklandi eins og öðrum Austur-Miðjarðarhafslöndum. Nokkrar villtar túlípanategundir vaxa í Anatólíu og blómið var fyrst flutt til Evrópu frá Tyrkjaveldi á 16. öld.

Það eru 40 þjóðgarðar í Tyrklandi, 31 fólkvangar, 80 verndarsvæði og 109 náttúruvætti. Dæmi um þjóðgarða eru Gallipoli-þjóðgarðurinn, Nemrut-þjóðgarðurinn, Trójuþjóðgarðurinn, Ölüdeniz-þjóðgarðurinn og Polonezköy-þjóðgarðurinn.

Angóraköttur, angórakanína og angórageit draga nafn sitt af tyrknesku borginni Ankara. Annað tyrkneskt kattarafbrigði er vanköttur. Tyrknesk hundaafbrigði eru anatólíufjárhundur, kangalhundur, aksaray malaklisi-hundur og akbaş-hundur.

Anatólíuhlébarði er útdauð hlébarðategund, náskyld persneskum hlébarða. Síðasti anatólíuhlébarðinn var drepinn í Beypazarı árið 1974. Persneskur hlébarði finnst enn í suðausturhéruðum Tyrklands. Kaspíatígur lifði í austustu héruðum Tyrklands fram yfir miðja 20. öld, en síðasta dýrið dó í Uludere 1970 svo vitað sé. Evrasíugaupa og evrópskur villiköttur eru aðrar kattartegundir sem lifa í skógum Tyrklands.

Loftslag

breyta
 
Köppen-loftslagsbelti í Tyrklandi.

Í strandhéruðum Tyrklands sem liggja að Eyjahafi og Miðjarðarhafi ríkir milt Miðjarðarhafsloftslag með þurr og heit sumur og raka og svala vetur. Í strandhéruðum við Svartahaf er milt úthafsloftslag með heit og rök sumur og kalda og raka vetur. Mest úrkoma í Tyrklandi fellur við strönd Svartahafs. Það er eina hérað Tyrklands sem fær úrkomu allt árið um kring. Í austlægustu strandhéruðunum er ársúrkoma 2.200 mm sem er það mesta í landinu.

Við Marmarahaf, milli Eyjahafs og Svartahafs, er millibilsloftslag með heit, í meðallagi rök, sumur og kalda og raka vetur. Snjór fellur við strönd Marmarahafs og Svartahafs á nær hverju ári en bráðnar venjulega fljótt. Snjókoma er sjaldgæf við strönd Eyjahafs og mjög sjaldgæf við Miðjarðarhafsströndina.

Fjalllendið við ströndina kemur í veg fyrir að Miðjarðarhafsloftslagið nái inn til landsins. Á hásléttunni ríkir því meginlandsloftslag með skýrt aðgreindum árstíðum. Í austurhlutanum eru vetur mjög harðir og frostið getur orðið allt að 40 gráður. Snjór getur verið jarðfastur í 120 daga á ári. Í vestri er meðalhiti á veturna um 1 gráða. Sumrin eru heit og þurr og hitinn nær oft 30 gráðum yfir daginn. Árleg úrkoma er um 400 mm en breytileg eftir hæð yfir sjávarmáli. Mestu þurrkahéruðin eru Konyasléttan og Malatyasléttan þar sem ársúrkoma er oft undir 300 mm. Mest úrkoma er að jafnaði í maí en minnst í júlí og ágúst.

Tilvísanir

breyta

Myndasafn

breyta