Weimar er fjórða stærsta borgin í þýska sambandslandinu Þýringalandi með 63 þúsund íbúa (31. des. 2013). Weimar var áður fyrr höfuðborg hertogadæmisins Sachsen-Weimar frá 1572-1816. Borgin er sennilega þekktust fyrir Weimar-lýðveldið sem stofnað var í leikhúsi borgarinnar 1919. Í Weimar eru ýmis mannvirki á heimsminjaskrá UNESCO.

Weimar
Skjaldarmerki Weimar
Staðsetning Weimar
SambandslandÞýringaland
Flatarmál
 • Samtals84,26 km2
Hæð yfir sjávarmáli
208 m
Mannfjöldi
 • Samtals63.315 (31 desember 2.013)
 • Þéttleiki751/km2
Vefsíðawww.weimar.de Geymt 14 febrúar 2012 í Wayback Machine
 
Horft yfir miðborg Weimar. Fyrir miðju mynd er Herderkirkjan. Til vinstri er kastalinn.

Weimar liggur við ána Ilm nokkuð miðsvæðis í Þýringalandi. Næstu borgir eru Erfurt til vesturs (20 km), Jena til austurs (20 km) og Leipzig til norðausturs (60 km).

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki borgarinnar er svart ljón á gulum grunni. Allt í kring eru 14 rauð hjörtu. Ljónið var tákn greifanna frá Orlamünde, en uppruni þess er hjá dönsku prinsessunni Soffíu sem giftist þangað um aldamótin 1200. Skjaldarmerkinu var síðast breytt 1975 í tilefni af 1.000 ára afmæli borgarinnar.

Orðsifjar

breyta

Elstu heiti borgarinnar eru Wimares og Wimari en það merkir heilagt vatn. Wi er dregið af germanska orðinu weihe, sem merkur helgaður, heilagur. Mar er dregið af mare, sem merkir vatn, sjór.[1]

Saga Weimars

breyta

Upphaf

breyta

975 kemur heitið fyrst við skjöl ritað af Otto II keisari. Ártal þetta er viðurkennt í dag sem stofnár borgarinnar. Öruggt þykir að bærinn mun hafa haft góðar varnir, því 984 sat Otto III keisari um hann, en náði ekki að vinna hann. Það tókst landgreifanum Ludwig III (Ludowinger-ætt) hins vegar en hann eyddi bænum veturinn 1173-74. Aftur var setið um bæinn 1214. Að öðru leyti kom bærinn lítið við sögu. Weimar hlaut ekki borgarréttindi fyrr en 1410. Árið 1424 nær gjöreyðilagðist borgin í miklum bruna. 1552 gerði hertoginn Johann Friedrich borgina að höfuðborg hertogadæmisins Sachsen-Weimar en það stóð allt til 1918. Litlar sögur fara af því hvernig borginni reiddi í 30 ára stríðinu.

Blómaskeið

breyta

Íbúar voru frjálslegir og hertogarnir einnig. 1816 veitti Carl August hertogi þegnum sínum stjórnarskrá, en hún var sú fyrsta á þýskri grundu. Á þeim tíma voru listir í hávegum hafðar í borginni. Þar voru listamenn eins og Goethe og Friedrich Schiller. Þessi tími er gjarnan kallaður gullnu árin. 1842 var Franz Liszt gerður að hljómsveitarstjóra þar og 1849 dvaldi Richard Wagner í skamman tíma í borginni. Stofnaður var listaskóli, söfn, kór og lestrarfélög. Árin frá miðbik 19. aldar fram að aldamótum eru gjarnan kölluð silfurárin. Listir og iðnbylting fara þar hönd í hönd.

Weimar-lýðveldið

breyta
 
Við stofnun Weimar-lýðveldisins í Þjóðleikhúsinu í Weimar.

Eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri 1918 sagði Vilhjálmur II keisari af sér og skildi landið eftir í höndum ríkisráðsins. Það ákvað að efna til þjóðarsamkomu í janúar 1919. Fjórir staðir komu sterklega til greina sem fundarstaður, þar sem Berlín var of ótrygg: Bayreuth og Nürnberg í Bæjaralandi og Jena og Weimar í Þýringalandi. Valið féll Weimar í skaut. Þjóðarsamkoman var haldin 6. febrúar til 11. ágúst 1919 í Þjóðleikhúsinu í Weimar. Samkoman samþykkti þar ný lög er gerðu ráð fyrir að Þýskaland yrði að lýðveldi í stað keisararíkis. Friedrich Ebert var kosinn ríkisforseti og valdi hann Philipp Scheidemann sem forsætisráðherra. Eftir þessa gjörninga var lýðveldið formlega stofnað og hlaut það heitið Weimar-lýðveldið, eftir fundarstaðinn. Lýðveldi þetta stóð til valdatöku nasista 1933. Strax 1920 varð Weimar gerð að höfuðborg héraðsins Þýringalands, sem þá var nýstofnað.

Heimstyrjöld og eftirstríðsárin

breyta
 
Inngangshliðið í Buchenwald útrýmingarbúðirnar

1937 reistu nasistar útrýmingarbúðirnar Buchenwald í úthverfi borgarinnar. Þær voru starfræktar allt til stríðsloka 1945. Á þeim tíma voru um 250 þús manns vistaðir þar til lengri eða skemmri tíma. Talið er að um 56 þús þeirra hafi verið drepnir eða látið lífið á annan hátt. Búðirnar eru opnar almenningi í dag og eru minnisvarði um hrylling nasismans og helförina. Weimar varð þrisvar fyrir loftárásum bandamanna: 9. febrúar, 27. febrúar og 10. mars 1945. Skemmdir urðu miklar en þó ekki í líkingu við aðrar borgir. Weimar var á sovéska hernámssvæðinu og var höfuðborg Þýringalands til 1952, er landið var leyst upp. Við sameiningu Þýskalands 1990 tók Erfurt við sem höfuðborg Þýringalands. 1993 kusu Sameinuðu þjóðirnar Weimar sem menningarhöfuðborg Evrópu fyrir það ár. 1996 var byrjað á að setja ýmis mannvirki í borginni á heimsminjaskrá UNESCO. 2004 brann hertogabókasafnið í borginni. Við það eyðilögðust um 50 þús bækur, sumar frá 16. öld.

Viðburðir

breyta
  • Laukmarkaðurinn í Weimar (Weimarer Zwiebelmarkt) er þjóðhátíð borgarinnar. Fyrstu heimildir um laukmarkaðinn eru frá 1653. Hátíðin er haldin árlega aðra helgi í október en þá troða 300 listamenn upp víða í miðborginni og alls staðar boðið er upp á mat, drykk og aðra vöru. Um 350 þúsund manns sækja hátíðina heim árlega.
  • Árlega í byrjun júlí eru haldnir útitónleikar í almenningsgarði sem helgaðir eru tónlist ákveðins lands. Tónlistarmennir eru á fleka í tjörn en alls komast um 3.000 manns fyrir allt í kring. 2007 var þemað ungverskt tónlist, 2008 frönsk og 2009 bandarísk.

Vinabæir

breyta

Weimar viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta
  • (1816) Carl Zeiss uppfinningamaður og stofnandi Zeiss iðnfyrirtækisins

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Kastalinn í Weimar

Auk bygginganna hér að neðan eru mýmörg hús í Weimar sögutengd og friðuð. Þar má nefna heimili þjóðskáldsins Goethe, Franz Liszt og Friedrichs Schiller. Auk þess eru Buchenwald útrýmingarbúðirnar opnar almenningi.

  • Kastalinn í Weimar er í miðborginni. Hann var reistur 1424-39 af Vilhjálmi hinum kjarkmikla eftir að eldri kastali varð eldinum að bráð í borgarbrunanum 1424. 1535 var hann gerður upp í endurreisnarstíl af kjörfurstanum Johann Friedrich I. Helmingur kastalans brann niður 1618. Til stóð að endurreisa þær álmur en sökum 30 ára stríðsins var einungis kirkja reist. 1708-17 spilaði Johann Sebastian Bach þar á orgel. 1728 fékk kastalaturninn barokkútlit en hann er enn í dag einkennismerki borgarinnar. 1774 brann kastalinn aftur. Það var þjóðskáldið Johann Wolfgang von Goethe sem var yfirmaður endurreisnarverksins. Það var gert 1796-1803 og lagði Goethe fallegan kastalagarð í kringum byggingarnar. 1918 undirritaði hertoginn Wilhelm Ernst skjal í kastalanum þar sem hertogadæmið Sachsen-Weimar var lagt niður. Síðan 1923 er nær allur kastalinn orðinn að safni opinn fyrir almenningi. Hann var settur á heimsminjaskrá UNESCO 1996.
  • Herderkirkjan er helsta kirkja borgarinnar. Hún var reist 1498-1500 ofan á rústum eldri kirkju. Kirkjan er helguð postulunum Pétri og Páli. Helstu dýrgripir hennar eru altarismálverk eftir Cranach feðgana og málverk af Marteini Lúther. 1945 skemmdist kirkjan töluvert í loftárásum. Hún var löguð og lauk því verki 1953. Heitið er tilkomið af hinum þekkta presti Johann Gottfried Herder sem þjónaði í kirkjunni 1776-1803. Kirkjan var sett á heimsminjaskrá UNESCO 1996.
  • Ráðhúsið í Weimar stendur við aðalmarkaðstorgið. Núverandi bygging var reist 1841 í nýgotneskum stíl eftir að fyrirrennarinn brann 1837. Einungis súlnaröðin við aðalinnganginn stóð uppi og fékk hún að standa. Í turninum er klukknaspil sem fer í gang fjórum sinnum á dag.
  • Rómverska húsið er í stórum garði við ána Ilm í borginni. Þetta hús er eins og rómverskt hof að utan og því ber það þetta heiti. Það var reist 1791-98 sem garðhús fyrir hertogann Carl August. Það var Goethe sjálfur sem bar upp hugmyndina um þetta húsaform og hóf sjálfur verkið. Eftir andlát Carls August var húsið sjaldan notað. 1922 eignaðist Þýringaland húsið. Í dag er húsið safn og geymir ýmislegt um sögu Ilmgarðsins. Húsið var sett á heimsminjaskrá UNESCO 1996.

Myndasafn

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 271.

Heimildir

breyta