Vigdís Finnbogadóttir

4. forseti Íslands

Vigdís Finnbogadóttir (fædd 15. apríl 1930) var fjórði forseti Íslands og gegndi hún embættinu frá 1980 til 1996. Hún var fyrsta konan i heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja.

Vigdís Finnbogadóttir
Forseti Íslands
Í embætti
1. ágúst 1980 – 1. ágúst 1996
ForsætisráðherraGunnar Thoroddsen
Steingrímur Hermannsson
Þorsteinn Pálsson
Davíð Oddsson
ForveriKristján Eldjárn
EftirmaðurÓlafur Ragnar Grímsson
Persónulegar upplýsingar
Fædd15. apríl 1930 (1930-04-15) (93 ára)
Reykjavík, Íslandi
MakiRagnar Arinbjarnar (g. 1954; skilin 1961)
BörnÁstríður Magnúsdóttir (f. 1972)
ForeldrarFinnbogi Rútur Þorvaldsson og Sigríður Eiríksdóttir
HáskóliParísarháskóli
Háskólinn í Grenoble
Kaupmannahafnarháskóli
Háskóli Íslands
StarfFrönskukennari, leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur
Vefsíðavigdis.is

Fjölskylda breyta

Vigdís fæddist í Tjarnargötu 14 í Reykjavík og ólst þar upp fyrstu árin. Þegar hún var fjögurra ára fluttist fjölskyldan að Ásvallagötu 79 í Vesturbæ Reykjavíkur. Á sumrin var Vigdís í sveit í Eystra-Geldingaholti í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu.

Foreldrar Vigdísar voru hjónin Finnbogi Rútur Þorvaldsson (1891-1973) prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands og Sigríður Eiríksdóttir (1894-1986) hjúkrunarfræðingur og formaður Hjúkrunarfélags Íslands. Vigdís átti einn bróður, Þorvald Finnbogason stúdent en hann lést af slysförum árið 1952, aðeins tvítugur að aldri.

Árið 1954 giftist Vigdís Ragnari Arinbjarnar lækni en þau skildu sjö árum síðar. Árið 1972 varð Vigdís fyrst einhleypra kvenna á Íslandi til að ættleiða barn, er hún ættleiddi dóttur sína Ástríði Magnúsdóttur (f. 1972).[1]

Menntun breyta

Vigdís gekk í Landakotsskóla og Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949 og stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum með leikbókmenntir sem sérsvið við háskólana í Grenoble og Sorbonne í París í Frakklandi á árunum 1949-1953. Einnig stundaði hún nám í leiklistarsögu í Danmörku og Svíþjóð um nokkurra ára skeið. Hún lauk BA-prófi í frönsku og ensku við Háskóla Íslands árið 1968 og einnig námi í uppeldis- og kennslufræði.[2]

Starfsferill fram að forsetakjöri breyta

Vigdís starfaði sem ritstjóri leikskrár og blaðafulltrúi Þjóðleikhússins 1954-57, var frönskukennari við Menntaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Hamrahlíð á árunum 1962-1972. Hún sá um frönskukennslu í sjónvarpinu frá 1970-1971, kenndi franskar leikbókmenntir við Háskóla Íslands 1972-1980 og var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur sem þá var til húsa í Iðnó, frá 1972-1980. Vigdís var forseti Alliance française á Íslandi frá 1975-1976 og sat í stjórn Listahátíðar í Reykjavík 1976-1978. Vigdís var einn af stofnendum leikhópsins Grímu árið 1961 og þýddi einnig fjölda leikrita.

Samhliða þessum störfum vann Vigdís um árabil sem leiðsögumaður hjá Ferðaskrifstofu ríkisins og hafði þar umsjón með skipulagningu menningartengdrar ferðaþjónustu auk umsjónar með námskeiðum fyrir verðandi leiðsögumenn. [3]

Forsetaframboð breyta

 
Skjaldarmerki Vigdísar í konunglegu sænsku Serafim-orðunni.

Í áramótaávarpi sínu á nýársdag árið 1980 tilkynnti Kristján Eldjárn forseti Íslands að hann hyggðist ekki gefa kost á sér áfram.[4] Í kjölfarið fór fram umræða um mögulegan eftirmann Kristjáns og meðal þeirra sem nefnd voru var Vigdís Finnbogadóttir sem þá gegndi starfi leikhússtjóra Leikfélags Reykjavíkur en Vigdís varð þjóðþekkt nokkrum árum fyrr er hún annaðist frönskukennslu í Sjónvarpinu.

Nafn Vigdísar var fyrst nefnt opinberlega í lesendabréfi frá Laufeyju Jakobsdóttur sem birtist í Dagblaðinu 15. janúar 1980.[5] Í fyrstu var Vigdís ekki á því að gefa kost á sér en lét að lokum tilleiðast eftir hvatningu úr ýmsum áttum. Vigdís tilkynnti framboð sitt þann 1. febrúar 1980 og varð þar með fyrsta konan til að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.[6] Segja má að framboð Vigdísar megi að nokkru leyti rekja til kvennafrídagsins 24. október 1975 en dagurinn markaði þáttaskil í íslenskri kvennabaráttu en fjöldi kvenna lagði niður störf þennan dag til að vekja athygli á mikilvægi vinnuframlags kvenna bæði innan og utan heimilis. Áhrif kvennafrídagsins sáust víða í þjóðfélaginu og í fjölda fyrirtækja og stofnana lá starfsemi niðri. Mikil vitundarvakning varð á meðal kvenna í kjölfar dagsins og blés hann þeim baráttuanda í brjóst.

Vigdís hefur sagt í viðtölum að markmið með framboðinu hafi ekki endilega verið að ná kjöri heldur hafi hún fyrst og fremst vilja sýna fram á að kona ætti erindi í forsetaframboð ekki síður en karl.[7]

Kosningabaráttan breyta

Þrír frambjóðendur voru í kjöri auk Vigdísar en það voru þeir Albert Guðmundsson alþingismaður, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari og Pétur J. Thorsteinsson sendiherra. Fljótlega varð ljóst að baráttan stóð einkum milli Vigdísar og Guðlaugs.[8][9]

Kosningabaráttan þótti nokkuð hörð og mætti Vigdís annars konar viðmóti heldur en meðframbjóðendur hennar. Kynferði hennar og sú staðreynd að hún var einhleyp og einstæð móðir var tíðrætt umtalsefni.[10] Vigdís þurfti einnig að þola ýmsar nærgöngular spurningar, m.a. um brjóstakrabbamein sem hún hafði greinst með nokkrum árum fyrr. Á framboðsfundi var hún t.d. spurð að því hvort það myndi há henni í embætti að vera aðeins með eitt brjóst. Vigdís þótti svara vel fyrir sig er hún sagði: „það stóð nú aldrei til að hafa þjóðina á brjósti.“[11][12]

Vigdísi var einnig legið á hálsi fyrir að vera heldur vinstri sinnuð og sumir höfðu áhyggjur af því að þátttaka hennar í starfi Samtaka herstöðvarandstæðinga á árum áður myndi lita störf hennar í embætti forseta Íslands og jafnvel tefla varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna í tvísýnu.[13]

Svo fór að þann 29. júní 1980 var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna í heiminum sem kjörin var þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum. Vigdís hlaut 33,8% atkvæða en sá frambjóðandi sem næstur kom, Guðlaugur Þorvaldsson hlaut 32,3% og því munaði aðeins einu og hálfu prósentustigi á frambjóðendunum tveimur. Kjör Vigdísar vakti mikla athygli erlendis og greindu margir helstu fjölmiðlar heimsins frá kosningu hennar og þeirri staðreynd að kona hafði verið kjörin forseti í fyrsta sinn í lýðræðislegum kosningum. Vigdís var endurkjörin án atkvæðagreiðslu 1984 og 1992 en árið 1988 hlaut hún mótframboð frá Sigrúnu Þorsteinsdóttur húsmóður í Vestmannaeyjum en það var í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Íslands fékk mótframboð. Vigdís sigraði með fáheyrðum yfirburðum og hlaut 92,7% atkvæða.[14]

Forsetatíð breyta

 
Vigdís (í miðjunni) árið 1985 í heimsókn hjá Beatrix Hollandsdrottningu (til vinstri) og Júlíönu drottningarmóður.
 
Vigdís árið 1986 ásamt Ronald Reagan Bandaríkjaforseta á göngu fyrir utan Bessastaði.

Vigdís lagði áherslu á að vera ópólitískur forseti og forðaðist að blanda sér í deilumál á vettvangi stjórnmálanna. Í ræðum og ávörpum lagði hún áherslu á þau gildi sem sameina fólk og segja má að einkunnarorð hennar í embætti hafi verið upphafsorðin í ljóði Snorra Hjartarsonar, Land, þjóð og tunga og helstu hugðarefni hennar hafi endurspeglast í þeim kjörorðum. Skógrækt og landgræðsla voru Vigdísi ofarlega í huga og hún var ötull talsmaður landræktar. Á ferðum sínum um landið fékk hún börn og unglinga gjarnan til liðs við sig í gróðursetningu. Unga kynslóðin var henni hugleikin og í ræðum minnti hún oft á mikilvægi þess að hlú að æskunni og hvatti þá sem eldri eru til að vera góðar fyrirmyndir. Síðast en ekki síst lagði hún áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um íslenska tungu.[15]

Í forsetatíð Vigdísar varð sú breyting á embættinu að starfsvettvangur forseta Íslands varð ekki nánast eingöngu innanlands eins og verið hafði, heldur ferðaðist Vigdís í mun meira mæli út fyrir landsteinana en forverar hennar. Henni var boðið í heimsóknir víða erlendis og hún lagði kapp á að nýta athyglina sem kjör hennar vakti í þágu lands og þjóðar. Í opinberum erindagjörðum Vigdísar erlendis voru gjarnan skipulagðir viðburðir þar sem íslensk framleiðsla var kynnt, listafólk var gjarnan með í för og íslenskir matreiðslumenn sem matreiddu úr íslensku hráefni. Á þessum tíma var umfjöllun um Ísland í erlendum fréttamiðlum af skornum skammti og þekking umheimsins á landi og þjóð takmörkuð, en kosning Vigdísar varpaði nýju ljósi á land og þjóð. Rúmum 20 árum eftir að Vigdís lét af embætti hlaut hún heiðursverðlaun útflutningsverðlauna forseta Íslands fyrir stuðning sinn við íslenskan útflutning og framleiðslu, með þeim orðum að „það hefði verið mikið lán fyrir íslenskan útflutning að njóta atbeina hennar.“[16]

Erfiðasta árið á embættisferli Vigdísar var árið 1995 þegar snjóflóð féllu á Súðavík og á Flateyri með 9 mánaða millibili með þeim afleiðingum að 34 létust. Vigdís þótti sýna af sér mikla manngæsku á þeim minningarathöfnum sem haldnar voru um þá sem létust. Þar sýndi hún þeim sem misst höfðu ástvini samúð og hvatti íslensku þjóðina til þess að sýna samstöðu með Vestfirðingum á þessum erfiðu tímum.[17]

Þrátt fyrir þann ásetning Vigdísar um að blanda sér ekki í pólitísk deilumál á forsetastóli, varð aðkoma hennar að tveimur málum nokkuð umdeild. Annað tengist lagasetningu sem batt enda á verkfall flugfreyja á kvennafrídaginn árið 1985 og hins vegar staðfestingu hennar á lögum um aðild Íslands að EES-samningnum árið 1993.[18]


Að lokinni forsetatíð breyta

Eftir að Vigdís lét af embætti forseta Íslands hefur hún unnið að ýmsum málum, einkum tengdum menningu, tungumálum og umhverfisvernd. Hún er velgjörðarsendiherra UNESCO (Menningarmálastofnunnar Sameinuðu Þjóðanna) og árið 1997 var hún ein af stofnendum Heimsráðs kvenleiðtoga Council of Women World Leaders og var fyrsti formaður þess. Ráðið hafði aðsetur við John F. Kennedy School of Government við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Í heimsráðinu sitja starfandi og fyrrverandi forsetar og forsætisráðherrar úr röðum kvenna. Frá 2001 hefur rannsóknarstofnun Háskóla Íslands í erlendum tungumálum verið kennd við Vigdísi, (Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum) og árið 2017 var nýtt húsnæði stofnunarinnar við Brynjólfsgötu í Reykjavík vígt en húsið ber heitið Veröld - hús Vigdísar.

Umhverfismál og náttúruvernd hafa verið Vigdísi hugleikin og hún hefur við ýmis tækifæri veitt liðsinni sitt á vettvangi umhverfismála. Vigdís hefur einnig tekið þátt í starfi Stjórnarskrárfélagsins og hefur hún m.a. lýst stuðningi sínum við tillögu Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár.[19]

Vigdís hefur í gegnum tíðina hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Hún var sæmd stórkrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu íslensku þjóðarinnar árið 1996 og hún hefur hlotið heiðursdoktorsnafnbætur við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og við tuttugu erlenda háskóla.[20] Á 80 ára afmæli sínu árið 2010 var Vigdís gerð að heiðursborgara Reykjavíkur.[21]

2014-2015 var sett upp sýningin „Ertu tilbúin frú forseti?“ í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ. Á sýningunni var sýndur fatnaður og fylgihlutir úr eigu Vigdísar Finnbogadóttur.[22]

Tenglar breyta

Bækur um Vigdísi Finnbogadóttur breyta

Viðtöl við Vigdísi Finnbogadóttur breyta

Tilvísanir breyta

  1. „Vigdís Finnbogadóttir - fjölskylda“. Sótt 21. maí 2019.
  2. „Vigdís Finnbogadóttir - menntun“. Sótt 21. maí 2019.
  3. „Vigdís Finnbogadóttir - starfsferill“. Sótt 21. maí 2019.
  4. Morgunblaðið, „Forseti Íslands herra Kristján Eldjárn: Þrjú kjörtímabil eru hæfilegur tími í embætti“, 3. janúar 1980, (skoðað 21. maí 2019)
  5. Dagblaðið, „Vigdís verði forseti“, 15. janúar 1980 (skoðað 21. maí 2019)
  6. Dagblaðið, „Vigdís gefur kost á sér í forsetaframboð“, 1. febrúar 1980 (skoðað 23. maí 2019)
  7. „Sannaði að konur eru líka menn“, Fréttatíminn, 19. júní 2015 (skoðað 12. mars 2020)
  8. Morgunblaðið, „Frambjóðendur til forsetakjörs“. 29. júní 1980. (skoðað 23. maí 2019)
  9. Dagblaðið, „Vigdís hefur naumt forskot á Guðlaug“ 12. maí 1980, (skoðað 23. maí 2019)
  10. „Vigdís Finnbogadóttir - framboð“. Sótt 21. maí 2019.
  11. Visir.is, „Það stóð nú aldrei til að hafa þjóðina á brjósti“, (8. nóvember 2016, skoðað 22. maí 2019)
  12. Björn Reynir Halldórsson. „Hvaða aðstæður urðu til þess að kona gat orðið forseti á Íslandi 1980?“ Vísindavefurinn, 24. mars 2015. (Sótt 22. maí 2019)
  13. Morgunblaðið, „Ég er talin vinstri sinnuð af því ég vil ekki kyngja því, sem mér líkar ekki.“ 21. júní 1980 (skoðað 23. maí 2019)
  14. Morgunblaðið, „Vigdís Finnbogadóttir forseti endurkjörin með 92,7% atkvæða“, 28. júní 1988, (skoðað 21. maí 2019)
  15. „Vigdís Finnbogadóttir - Land, þjóð og tunga“. Sótt 21. maí 2019.
  16. Ruv.is, „Guðni sæmdi Vigdísi heiðursverðlaunum“, 19. apríl 2017, (skoðað 22. maí 2019)
  17. Dagur, „Sorg þeirra er okkar sorg“, 27. október 1995, (skoðað 21. maí 2019)
  18. Guðni Th. Jóhannesson, „Getur kona verið forseti?“, Visir.is, 17. júní 2012 (skoðað 22. maí 2019)
  19. Jónas Atli Gunnarsson, „Vigdís: „Vilji íslenskra kjósenda var að innleiða þessa stjórnarskrá““, Kjarninn, (skoðað 12. mars 2020)
  20. „Vigdís Finnbogadóttir - orður og viðurkenningar“. Sótt 22. maí 2019.
  21. „Vigdís Finnbogadóttir heiðursborgari Reykjavíkur“. Sótt 21. maí 2019.
  22. Visir.is, „Fataskápur frú Vigdísar forseta“, 6. febrúar 2014 (skoðað 24. maí 2019)


Fyrirrennari:
Kristján Eldjárn
Forseti Íslands
(19801996)
Eftirmaður:
Ólafur Ragnar Grímsson