Gnúpverjahreppur
Gnúpverjahreppur (einnig nefndur Eystri-Hreppur) var sveitarfélag í austanverðri Árnessýslu en sameinaðist Skeiðahreppi 9. júní 2002 og saman mynduðu þeir Skeiða- og Gnúpverjahrepp.
Orðsifjar
breytaNafn sitt dregur hreppurinn af Gnúpi, eða Núpi. Þar hefur verið kirkjustaður frá því um 1200[1] og hefur stafsetningin eitthvað bjagast í gegnum árin.
Þegar talað var um „Hreppa og Skeið“ var átt við Gnúpverja- og Hrunamannahrepp sem Hreppa, og Skeiðahrepp sem Skeið. Gnúpverja- og Hrunamannahreppur hafa einnig verið kallaðir „Gullhreppar“ vegna heita vatnsins á svæðinu. Til að aðgreina Hreppana tvo voru þeir nefndir Eystri- og Ytri-Hreppur, Gnúpverjahreppur sem sá eystri og Hrunamannahreppur sem sá ytri. Þeir ganga enn þá undir þessum nöfnum að einhverju leyti, sérstaklega af hálfu Árnesinga.
Landslag
breytaLandslagið í Gnúpverjahreppi einkennist af holtum og þurrlendi. Fremst í hreppnum er svokölluð Sandlækjarmýri sem þekur landsvæðið milli Skarðsfjalls og Sandlækjarholts fram að Þjórsá í austri. Innar í hreppnum rennur Kálfá og hefur hún upptök sín í Skáldarbúðarásum og ósar í Þjórsá við Stóra-Hof og Bólstað. Þverá rennur í djúpur gili fram af Flóamannaafrétti og rennur í Þjórsá fyrir neðan bæinn Fossnes. Aðrar merkar ár í hreppnum eru Sandá, Fossá og Rauðá, allar í Þjórsárdal.
Frá Þjórsárholti fram með Þjórsá að Kálfárós nefnist landið Heiði, eða Hofsheiði. Land þetta er þurrlent, liggur á hrauni og allt sléttlent. Í heiðinni er meðal annars Skaftholtsréttir og íbúðahverfið sem hefur byggst upp í kringum Árnes.
Milli bæjanna Haga og Ásólfsstaða gengur fjallið Hagafjall endilangt milli Þverár og Þjórsár. Út úr því stendur höfðinn Gaukshöfði. Frá honum er víðsýnt. Hann markar upphaf Þjórsárdals, og er Búrfell eystra landmerki dalsins. Á svokölluðum Sámstaðamúla liggur Sprengisandsvegur upp á hálendið. Milli hans og Búrfells er síðan Bjarnalón, inntakslónið fyrir Búrfellsvirkjun.
Inn af Þjórsárdal er síðan að finna Gnúpverjaafrétt og Skeiðamannaafrétt. Norðan Sandafells er Sultartangalón, kennt við Sultartanga syðst á Búðarhálsi. Sultartangalón er inntakslón Sultartangavirkjunar.
Nyrst í sveitinni er síðan Hofsjökull og inn við hann Þjórsárver og Arnarfell hið mikla með mikilli náttúrufegurð.
Atvinna
breytaFjárrækt
breytaÍ Gnúpverjahreppi hefur alltaf verið mikil sauðfjárrækt en hún hefur þó eitthvað dregist saman í umfangi á síðustu árum. Heimildi eru um að uppúr 1881 hafi verið starfrækt fjárræktarfélag í hreppnum en það hefur síðar lognast út af. Núverandi félag var stofnað 1946. Eftir fjárskiptin um miðja síðustu öld (1950-'52) tóku bændur úr hreppnum fé úr Þingeyjarsýslum, svo sem úr Kelduhverfi.
Skaftholtsréttir standa í heiðinni fyrir framan Skaftholt og eru þær taldar vera frá 12. öld og þar með elstu hlöðnu réttir á Íslandi. Margan manninn hefur í gegnum tíðina lagt leið sína í Skaftholtsréttir, einkum eftir að þær voru fluttar af fimmtudegi á föstudag. Haustið 2005 var stofnað réttavinafélag til þess að hægt væri að endurhlaða réttirnar, en þær fóru illa í Suðurlandsskjálftunum 2000. Almenningurinn var strax endurhlaðinn eftir skjálftana, en lagfæring dilkanna slegin á frest og hluti þeirra hlaðinn árið 2006.
Nautgriparækt í Gnúpverjahreppi hefur aukist síðustu ár, en Nautgriparæktarfélag Gnúpverja er eitt elsta búfjárræktarfélag á Íslandi, stofnað 1904. Bændur eru einnig meðlimir í Búnaðarfélagi Gnúpverja. Ekki hefur farið mikið fyrir hrossarækt í hreppnum, en þó ber að nefna hross á borð við Gulltopp frá Eystra-Geldingaholti, Ögra frá Háholti og Nökkva frá Vestra-Geldingaholti, en tveir síðastnefndu hafa báðir verið fluttir utan til kynbóta.
Önnur atvinna
breytaÍ hreppnum eru tvær vatnsaflsvirkjanir, Búrfellsvirkjun og Sultartangavirkjun. Auk þess eru áform um að virkja við Núpsfjall með svokallaðri Núpsvirkjun og að virkja fossinn Búða í Holtavirkjun en þessar tvær virkjanir eru ekki komnar á aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Fyrstu ár Búrfellsvirkjunar var þar blómlegt atvinnulíf en með bættri tækni og meiri sjálfstýringu hefur heldur fækkað í starfsliðinu þar. Nú sinna starfsmenn Landvirkjunar öllum virkjunum á Þjórsár-Tungnársvæðinu í einu.
Í hreppnum hefur verið starfrækt hænsnasláturhús hýsir nú flúðasiglingafyrirtæki sem fer með ferðamenn í flúðasiglingar á Þjórsá og Markarfljóti. Ábótinn ehf rekur internetveitu sem veitir býlum í hreppnum internet-tengingu, auk þess sem þar eru að finna nokkur ferðaþjónustufyrirtæki, sjoppuna og bensínstöðina Árborg og félagsheimilið Árnes, kennt við Árnes í Þjórsá.
Þjórsárskóli er að hluta til í Gnúpverjahreppi. Hann hét áður Gnúpverjaskóli, áður en hann sameinaðist Brautarholtsskóla og þar áður Ásaskóli. Kennsla 4-7. bekkjar fer fram við í Þjórsárskóla í Gnúpverjahreppi hinum forna, en kennsla 1-3. bekkjar í Brautarholti. Eldri nemendur fara út að Flúðum í Flúðaskóla.
Býli í Gnúpverjahreppi
breytaNúverandi býli
breyta
|
|
|
|
Eyðibýli
breyta- Stöng
- Steinastaðir
- Hamrar
- Skammbeinsstaðir
- Bali
- Drundur
- Ófeigsstaðir
- Gata
Heimildir
breyta- ^ „Stóri-Núpur in Gnúpverjahreppur“. Sótt 19. febrúar 2006.
- „Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps, greinagerð“ (PDF). Sótt 23. febrúar 2006.
- Hjörtur E. Þórarinsson, Jónas Jónsson og Ólafur E. Stefánsson (ritstj.) (1988). Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Búnaðarfélag Íslands, Reykjavík.
- Oddgeir Guðmundsson, Jón Guðmundsson og Júlíus Jónsson (ritstj.) (1980). Sunnlenskar byggðir. Búnaðarsamband Suðurlands. Selfossi.