Sigríður Eiríksdóttir

Sigríður Eiríksdóttir (16. júní 1894 – 23. mars 1986) var íslensk hjúkrunarkona og formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna í 36 ár. Hún var jafnframt formaður Hjúkrunarfélags Líknar frá 1931 til 1956 og var fyrst Íslendinga formaður Samvinnu hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum (SSN).[1]

Sigríður lauk hjúkrunarnámi í Kaupmannahöfn árið 1921 og stundaði framhaldsnám í Hróarskeldu og Vín. Í nóvember 1922 hóf Sigríður störf hjá Líkn. Fyrstu tvö árin við bæjarhjúkrun og eftir það sem hjúkrunarkona Berklavarnarstöðvarinnar. Árið 1924 fór Sigríður til Kaupmannahafnar á vegum Líknar til þess að kynna sér berklavarnarstöðvar.

Sigríður vann í mörg ár sem stundakennari í heilsufræði og hjúkrun við Kvennaskólann í Reykjavík og Húsmæðraskólann. Hún var einnig varabæjarfulltrúi í Reykjavík á árunum 1950-1954 og fulltrúi í Heimsfriðarráðinu. Hún hlaut ýmis verðlaun og viðurkenningar á ferli sínum, m.a. Florence Nightingale-orðuna, heiðursmerki Alþjóða Rauða krossins, og riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.[1]

Eiginmaður Sigríðar var Finnbogi Rútur Þorvaldsson (22. janúar 1891 - 6. janúar 1973) prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands.

Sigríður og Finnbogi Rútur eignuðust tvö börn, Vigdísi Finnbogadóttur, fv. forseta Íslands, f. 15. apríl 1930 og Þorvald Finnbogason, stúdent, f. 21. desember 1931, d. 2. ágúst 1952

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Merkir Íslendingar: Sigríður Eiríksdóttir“. Morgunblaðið. 16. júní 2014. Sótt 24. mars 2018.

Heimildir

breyta

Lýður Björnsson, Saga Hjúkrunarskóla Íslands 1931-1986. (Reykjavík, 1990)

Margrét Guðmundsdóttir, Verðir heilbrigðinnar. Hjúkrunarfélagið Líkn 1915-1935. Söguspegill. Afmælisrit Árbæjarsafns. Ritstjóri Helgi M. Sigurðsson. (Reykjavík,1992). bls. 258-279.