Kristján Eldjárn

3. forseti Íslands
(Endurbeint frá Kristján 11)

Kristján Þórarinsson Eldjárn (fæddur á Tjörn í Svarfaðardal 6. desember 1916 – dáinn 14. september 1982) var íslenskur fornleifafræðingur og þriðji forseti Íslands árin 19681980. Foreldrar hans voru hjónin Þórarinn Kr. Eldjárn, bóndi og kennari á Tjörn, og Sigrún Sigurhjartardóttir. Kristján lauk fyrrihlutaprófi í fornleifafræði frá Kaupmannahafnarháskóla en lærði síðan íslensk fræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi árið 1957 og nefnist ritgerð hans Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi.

Kristján Eldjárn
Forseti Íslands
Í embætti
1. ágúst 1968 – 1. ágúst 1980
ForsætisráðherraBjarni Benediktsson
Jóhann Hafstein
Ólafur Jóhannesson
Geir Hallgrímsson
Ólafur Jóhannesson
Benedikt Gröndal
Gunnar Thoroddsen
ForveriÁsgeir Ásgeirsson
EftirmaðurVigdís Finnbogadóttir
Persónulegar upplýsingar
Fæddur6. desember 1916
Tjörn í Svarfaðardal, Íslandi
Látinn14. október 1982 (65 ára) Cleveland, Ohio, Bandaríkjunum
MakiHalldóra Ingólfsdóttir
BörnÓlöf, Þórarinn, Sigrún, Ingólfur
ForeldrarÞórarinn Kr. Eldjárn og Sigrún Sigurhjartardóttir
HáskóliKaupmannahafnarháskóli, Háskóli Íslands
StarfFornleifafræðingur, þjóðminjavörður

Kristján var þjóðminjavörður og þjóðþekktur og vinsæll maður vegna þátta sinna í sjónvarpi um fornar minjar og muni í vörslu Þjóðminjasafnsins. Kristján var hispurslaus og alúðlegur í framgöngu og ávann sér miklar vinsældir þjóðarinnar. Hann sigraði mótframbjóðanda sinn, Gunnar Thoroddsen, í kosningunum 1968 með miklum atkvæðamun og var sjálfkjörinn eftir það.

Árið 1979 virtist stefna í að Kristján yrði að mynda utanþingsstjórn en hann komst hjá því þegar ríkisstjórn Benedikts Gröndals var mynduð.

Kona Kristjáns var Halldóra Ingólfsdóttir. Börn þeirra eru:

Ólöf Eldjárn þýðandi og ritstjóri
Þórarinn Eldjárn skáld og rithöfundur
Sigrún Eldjárn myndlistarmaður
Ingólfur Eldjárn tannlæknir

Fornleifafræði

breyta

Kristján Eldjárn fór í sinn fyrsta fornleifaleiðangur árið 1937 til Grænlands að grafa upp norrænan miðaldabæ í Austmannsdal. Kennari hans stóð í trú um að sveitastrákur frá íslandi ætti ekki í vandræðum með þær aðstæður sem þessi leiðangur byði upp á. Sumarið 1939 var mikilvægt ár í fornleifauppgreftri á Íslandi: Matthías Þórðarsson kom á fót norrænum rannsóknarleiðangri til Íslands en í honum voru fulltrúar allra norrænu þjóðanna nema Noregs. Niðurstöður úr þessum leiðangri voru tímamót í íslenskum fornleifarannsóknum og voru birtar í riti sem heitir Forntida gårdar i Island. Kristján var í hópnum undir stjórn Danans Aage Roussell sem sá um gröftinn í Stöng í Þjórsárdal. Í uppgreftrinum kom í ljós að þetta var einn best varðveitti bærinn.

Kristján hafði lokið fyrrihlutaprófi í norrænni fornleifafræði en fór ekki til Danmerkur til að ljúka við námið því augljóst var að stríð myndi byrja von bráðar. Sumarið 1940 fór Kristján að rannsaka Skálatótt í Klaufanesi í Svarfaðardal en þarna kom í ljós að hann að hann hefði mikinn áhuga að stjórna sínum eigin fornleifarannsóknum. Segja má að þessi fornleifauppgröftur sé fyrsti uppgröfturinn undir stjórn Íslendings sem stenst nútimakröfur. Ári síðar kom fyrsta grein Kristjáns í Árbók fornleifafélagsins.

Þótt Kristján væri sérfræðingur um víkingatímann stuðlaði hann að því að áherslur í íslenskri fornleifafræði urðu víðari. Hann tók þátt í uppgreftri á örreitiskotum frá síðmiðöldum, til dæmis Fornu-Lá í Eyrarsveit, og Sandártungu í Þjórsárdal. Kristján taldi viðfangsefni íslenskrar fornleifafræði ekki síst vera að kanna alþýðumenningu Íslands í gegnum aldirnar og sagði um uppgröftinn í Sandártungu: „Þrátt fyrir allt voru þessi hús það jarðneska skjól sem þjóðin bjó við um aldir og hjarði af. Rannsókn þeirra er rannsókn þjóðarsögunnar sjálfrar.“[1]

Árið 1945 varð Kristján starfsmaður fyrir Þjóðminjasafnið. Einungis voru tvær stöður í boði og varð hann aðstoðarmaður Matthíasar Þórðarsonar. Þetta var fjölbreytt starf og Matthías var byrjaður að eldast svo hann fékk mikla ábyrgð í starfinu frá fyrsta degi við margskonar verkefni. Þann 1. desember árið 1947 tók hann við keflinu af Matthíasi sem dró sig í hlé vegna aldurs. Þeta var tími mikilla breytinga því Þjóðminjasafnið var að færa sig um set í nýtt húsnæði á melunum. Þegar það hús var opnað árið 1949 var haldinn þróunarsýning Reykjavíkur, Reykjavíkursýningin.

Kristján var kjörinn í stjórn Árbókarinnar árið 1945 en ekki stendur á bókunum að Kristján sé ritstjóri fyrr en 1955-56. Hann hafði þá þegar skrifað tvær miklar greinar í Árbókina á árunum 1943-48. Ein þeirra greina var um hálendisbyggð sem lagðist af vegna Heklugossins 1104. Hin greinin var um kuml á Hafurbjarnastöðum en blástur hafði verið þar í gangi allt frá 1868 þar til að Kristján og Jón Steffensen rannsökuðu þau árið 1947.

Árið 1954-55 þegar var ákveðið að byggja dómkirkju á gamla kirkjustæðinu í Skálholti var ákveðið að skoða eldri kirkjugrunninn í leiðinni. Þessi uppgröftur var sá fyrirferðamesti sem Kristján sá um. Meðal samstarfsaðila hans var Hákon Christie sem var norskur arkitekt og sérfræðingur um miðaldakirkjur. Gísli Gestsson sá að mestu um rannsóknir en Jón Steffensen sá um beinarannsóknir. Ætlunin var að gefa út sjálfstætt rit um þennan fund. Kristján ætlaði að sjá um það verk en hann lauk því aldrei.

Kristján vildi ólmur finna hvort hinar fornu sagnir úr Íslendingabók og Landnámabók væru sannar um Papana og byrjaði rannsóknir þess efnis árið 1967. Kristján fór út í Papey árið 1969 aftur 1971 og tvisvar sinnum árið 1982 en þá hafði hann grafið upp allar minjar sem báru fyrir augum. Allt kom fyrir ekki því engar minjar voru fyrir hendi að Papar hefðu nokkurn tíman verið þar en þó fann Kristján minjar um búsetu á miðöldum í kringum 1200 sem voru norrænar í útliti.

Fornleifarannsóknir á erlendri grundu

breyta

Kristján vann í fornleifarannsóknum á Grænlandi 1937 og Vallhögum í Gotlandi 1947. Hann vann á Grænlandi 1962 að Þjóðhildarkirkjunni og einnig það ár vann hann að uppgreftri á fornrústum L'Anse aux Meadows.

Forsetatíð (1968–1980)

breyta
 
Kristján heilsar Ólafi 5. Noregskonungi.
 
Kristján ásamt Jóhanni Svarfdælingi.

Kristján bauð sig fram í forsetakosningum Íslands árið 1968. Kristján hafði verið tregur til að fara í framboð en menn á borð við Eystein Jónsson, Lúðvík Jósepsson og Stefán Jóhann Stefánsson nauðuðu í Kristjáni að bjóða sig fram þar til hann lét loks til leiðast.[2] Þessir menn vildu fyrir alla muni forðast það að Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og tengdasonur Ásgeirs Ásgeirssonar fráfarandi forseta, yrði kjörinn forseti. Gunnar mældist í fyrstu með langmest fylgi í skoðanakönnunum og þótti sjálfsagður arftaki Ásgeirs og Sveins Björnssonar á forsetastól. Eftir að þeir Kristján lýstu báðir formlega yfir framboðum sínum breyttust vindarnir hins vegar fljótt. Kristjáni var stillt upp sem alþýðlegum menntamanni sem nyti nánari tengsla við land og þjóð en atvinnustjórnmálamaðurinn Gunnar.[3] Á kjördag vann Kristján öruggan sigur gegn Gunnari með um tveimur þriðju atkvæða.

Sem forseti hafði Kristján jafnan ekki afskipti af stjórnmálum landsins og taldi sig ekki hafa rétt til þess að synja lögum staðfestingar nema í algerum neyðartilfellum.[4] Kristján féllst á umdeilda beiðni Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra um þingrof árið 1974 þrátt fyrir að vafamál væri hvort forseta bæri skylda til þess að verða að ósk forsætisráðherrans um þingrof í óþökk alþingis.[5]

Þrátt fyrir að reyna að viðhalda hlutleysi forsetans í stjórnmálum neyddist Kristján til þess að grípa inn í stjórnarmyndunarviðræður árið 1979 eftir langa stjórnarkreppu og röð stuttlífra ríkisstjórna. Kristján gerði leiðtogum Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins ljóst að ef þeim tækist ekki að mynda ríkisstjórn sem gæti staðist vantrauststillögur á alþingi myndi Kristján beita forsetavaldi sínu til að stofna utanþingsstjórn. Jóhannes Nordal Seðlabankastjóri féllst á að vera forsætisráðherra utanþingsstjórnarinnar og Kristján undirbjó tilkynningu um stofnun hennar. Ekkert varð þó úr stofnun þessarar stjórnar því Sjálfstæðismenn féllust á síðustu stundu á að styðja minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndals.[6] Þessi stjórn entist aðeins í tæpa fjóra mánuði og því kom það aftur til tals árið 1980 að Kristján skyldi stofna utanþingsstjórn. Stjórnarkreppunni lauk loks án þess að stofna þyrfti utanþingsstjórn þegar Gunnari Thoroddsen, hinum gamla keppinauti Kristjáns um forsetastólinn, tókst að mynda meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins.

Á nýársdag árið 1980 tilkynnti Kristján að hann hygðist ekki gefa kost á sér í fjórða sinn. Um þá ákvörðun sína sagði hann: „Enginn hefur gott af því að fara að komast á það stig að halda að hann sé ómissandi.“[7]

Helstu verk eftir Kristján Eldjárn Þórarinsson

breyta
  • Kléberg á Íslandi (1949-50),
  • Rannsóknir á Fornu-Lá í Eyrarsveit og Sandártungu í Þjórsárdal (1949-50),
  • Rannsóknir á Bergþórshvoli (1951-52),
  • Fornmannagrafir á Sílastöðum (1954),
  • Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi (doktorsritgerð, varði hana árið 1957),
  • Að sauma síl og sía mjólk (1960),
  • Bærinn á Gjáskógum í Þjórsárdal (1961),
  • Forn útskurður frá Hólum í Eyjafirði (1967),
  • Forn altarisbrík frá Stað á Reykjanesi (1968),
  • Miðalda útskurður frá Skjaldfönn (1969),
  • Forn tá-bagall frá Þingvöllum (1970),
  • Þrír atgeirar (1971),
  • Upphaf vörupeninga á Íslandi (1972),
  • Hraunþúfuklaustur (1973),
  • Minningargreinar Árna Magnússonar um merka kirkjugripi (1976),
  • Örnefni og minjar í landi Bessastaða (1981)

Bækur eftir Kristján Eldjárn

breyta
  • Gengið á reka (1948),
  • Staka steina (1959),
  • Hundrað ár í Þjóðminjasafni (1962),
  • Hagleiksverk Hjálmars í Bólu (1975),

Tilvísanir

breyta
  1. Adolf Friðriksson (25. maí 2011). „Hver var Kristján Eldjárn og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar?“. Vísindavefurinn. Sótt 19. apríl 2024.
  2. Fyrstu forsetarnir. bls. 129.
  3. Fyrstu forsetarnir. bls. 133.
  4. Fyrstu forsetarnir. bls. 142.
  5. Fyrstu forsetarnir. bls. 146.
  6. Fyrstu forsetarnir. bls. 154.
  7. Fyrstu forsetarnir. bls. 164.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Ásgeir Ásgeirsson
Forseti Íslands
(19681980)
Eftirmaður:
Vigdís Finnbogadóttir