Sigrún Sigurhjartardóttir
Sigrún Sigurhjartardóttir húsfreyja á Tjörn í Svarfaðardal (f. 2. ágúst 1888, d. 5. febrúar 1959). Hún var dóttir Sigurhjartar Jóhannessonar bónda á Urðum í Svarfaðardal og fyrri konu hans Soffíu Jónsdóttur sem ættuð var frá Litlulaugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Eftir grunnnám heima í Svarfaðardal stundaði Sigrún nám við Kvennaskólann á Akureyri 1905-1907. Einnig sótti hún nám við hússtjórnardeild Kvennaskólans í Reykjavík veturinn 1910-1911 og lauk námskeiðum í fatasaumi, útsaumi og fleiri kvenlegum menntum.
Eiginmaður Sigrúnar var Þórarinn Kr. Eldjárn bóndi og kennari. Þórarinn og Sigrún tóku við búsforráðum á Tjörn af föður Þórarins, sr. Kristjáni Eldjárn, árið 1913 og ráku búið til 1959, síðustu árin í sambýli við Hjört son sinn, sem þá tók við allri jörðinni.
Sigrún og Þórarinn áttu fjögur börn sem upp komust. Þau voru:
- Þorbjörg (f. 6. mars 1914), húsfreyja í Reykjavík
- Kristján Eldjárn (f. 6. desember 1916, d. 14. september 1982), þjóðminjavörður og forseti Íslands
- Hjörtur Friðrik (f. 24. febrúar 1920, d. 1. apríl 1996), bóndi á Tjörn
- Petrína Soffía (f. 17. febrúar 1922 d. 9. júlí 2003), húsfreyja á Akureyri
Þau ólu einnig upp fósturson, systurson Sigrúnar, Þórarinn Pétursson (1926-1996).
Sigfús Sigurhjartarson alþingismaður var hálfbróðir Sigrúnar.
Heimildir
breytaHjörtur E. Þórarinsson 1977. Sigrún Sigurhjartardóttir, Tjörn. Í: Gísli Kristjánsson (ritstj), Móðir mín húsfreyjan. Bókaútgáfan Skuggsjá, bls. 257-271.