Halldóra Eldjárn

(Endurbeint frá Halldóra Ingólfsdóttir)

Halldóra Kristín Ingólfsdóttir Eldjárn (24. nóvember 1923 – 21. desember 2008) var forsetafrú Íslands 1968–1980 og eiginkona Kristjáns Eldjárns forseta Íslands.

Halldóra er fædd og uppalin á Ísafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Ingólfur Árnason og kona hans Ólöf Sigríður Jónsdóttir. Halldóra lauk gagnfræðaprófi á Ísafirði og fór þaðan til náms í Verslunarskóla Íslands og lauk verslunarprófi þaðan árið 1942 með ágætiseinkunn. Að loknu námi starfaði Halldóra í nokkur ár við skrifstofustörf hjá Magnúsi Kjaran stórkaupmanni í Reykjavík.[1]

Árið 1947 gengu Halldóra og Kristján Eldjárn í hjónaband. Þau eignuðust fjögur börn en þau eru Ólöf Eldjárn (1947–2016) ritstjóri og þýðandi, Þórarinn Eldjárn (f. 1949) rithöfundur, Sigrún Eldjárn (f. 1954) rithöfundur og myndlistarkona, og Ingólfur Árni Eldjárn (f. 1960) tannlæknir.

Kristján gegndi embætti þjóðminjavarðar og frá 1950 var heimili fjölskyldunnar í íbúð í húsi Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu, allt þar til Kristján var kjörinn forseti Íslands árið 1968 og fjölskyldan flutti að Bessastöðum. Við þau tímamót ákvað Halldóra að taka bílpróf svo hún væri ekki öðrum háð varðandi ferðir til og frá Bessastöðum.[1]

Kristján og Halldóra bjuggu að Bessastöðum til ársins 1980 er Kristján lét af embætti forseta Íslands. Kristján lést árið 1982 en eftir andlát hans starfaði Halldóra í nokkur ár hjá Orðabók Háskóla Íslands.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Stefanía Haraldsdóttir, „Bankað upp á að Bessastöðum“ BA-ritgerð í sagnfræði, bls. 28-33 (2014).
  2. „Halldóra Eldjárn látin“. Morgunblaðið. 22. desember 2008.