Kuml er orð notað yfir gröf þess er jarðaður var að heiðnum sið. Helsta einkenni kumla er haugfé. Haugfé er það sem lagt var í gröfina með þeim sem jarðaður var. Haugfé gat verið áhöld, skart, vopn, hestar og hundar og svo framvegis. Á Íslandi hafa kuml fundist á meira en 160 stöðum en heildarfjöldi kumla sem fundist hafa eru fleiri en 320.[1] Engar íslenskar ritaðar heimildir eru til um heiðna greftrunarsiði frá þeim tíma er heiðni var við lýði. Því eru fornleifafræðilegar rannsóknir á kumlum einu heimildirnar sem hægt er að styðjast við. Kuml eru oft fleiri en eitt á sama stað og kallast þá sá staður kumlateigur. Flest kuml eru frá tímum fyrstu byggðar á Íslandi þegar heiðni var enn við lýði og þar til heiðinn siður lagðist af með kristnum sið. Kristján Eldjárn var einn helsti brautryðjandi á sviði kumlarannsókna á Íslandi. Hann stundaði vettvangsrannsóknir á kumlum um árabil og varði doktorsritgerð sína frá Háskóla Íslands Kuml og haugfé árið 1956. Það rit var umfangsmesta fræðirit á sviði kumlarannsókna sem komið hafði út á Íslandi.

Haugfé breyta

Haugfé er það sem lagt var í gröfina með þeim sem jarðaður var. Haugfé gat verið áhöld eins og met, brýni, eldtinnur, klömbur, önglar, járnkrókar, mannbroddar, sigðar og fleira. Skart gat til dæmis verið hringar, hnappar, nælur, sölvistölur og fleira. Helstu gerðir vopna voru axir, spjót, sverð og hnífar. Hnífar geta þó talist til áhalda. Hestar voru stundum heigðir með eða án reiðtygis. Það kom einnig fyrir að hundar voru heigðir. Stundum finnst lítið eða ekkert haugfé í kumlum þar sem mörg kuml hafa verið rænd fyrr á tímum eða þar sem litlar leifar kumlsins eru eftir til dæmis vegna uppblásturs, landbrots eða framkvæmda.

Kumlateigur breyta

Kuml eru oft fleiri en eitt á sama stað og kallast sá staður þá kumlateigur. Á Íslandi hafa kuml fundist á meira en 160 stöðum en heildar fjöldi kumla sem fundist hafa eru fleiri en 320 talsins. „Um þriðjungur fundarstaða eru grafreitir með fleiri en einu kumli“.[2] Flest kuml sem fundist hafa á Íslandi hafa fundist við uppblástur, landbrot eða við hverslags framkvæmdir sem rjúfa jörð.

Kristján Eldjárn breyta

Árið 1956 lauk Kristján Eldjárn doktorsprófi frá Háskóla Íslands með doktorsritgerðinni Kuml og haugfé. Í ritgerðinni notar hann orðið kuml yfir „legstað heiðins manns yfirleitt hvort sem nokkur haugur einkennir hann eða ekki“. [3] Orðið „kuml“ hafði lítið verið notað frá því í öndverðu er það var notað yfir hauga, bautasteina, minnisvarða og allar sjánlegar leifar legstaðar ofanjarðar.[4] Eftir að ritið Kuml og haugfé kom út var orðið kuml almennt meira notað. Í endurskoðaðri útgáfu af bókinni Kuml og haugfé sem kom út árið 2000 í ritstjórn Adolfs Friðrikssonar var safnað saman öllum kumlfundum sem vitað var að hefðu fundist á Íslandi til ársins 1999. Bókin er því umfangsmesta rit sem komið hefur út um kuml hérlendis og þótt víðar væri leitað.

Tilvísanir breyta

  1. Adolf Friðriksson (2004). Árni Björnsson & Hrefna Róbertsdóttir (ritstjóri). Hlutavelta tímans. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands. bls. 57.
  2. Adolf Friðriksson (2004). Árni Björnsson & Hrefna Róbertsdóttir (ritstjóri). Hlutavelta tímans. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands. bls. 57-58.
  3. Kristján Eldjárn (2000). Adolf Friðriksson (ritstjóri). Kuml og haugfé. Reykjavík: Mál og menning. bls. 13.
  4. Karl Martin Nielsen (1953). Kuml.