L'Anse aux Meadows er staður á norðurodda eyjunnar Nýfundnalands í Kanada. Þar fundust um 1960 minjar norrænnar byggðar frá víkingatíma. Norsku fornleifafræðingarnir Helge Ingstad og Anne Stine Ingstad grófu rústirnar upp, og rituðu tveggja binda verk um niðurstöðurnar. Ekki er hægt að fullyrða hvort staðurinn er Vínland, sem sagt er frá í fornritum.

Kort sem sýnir hugsanlega siglingaleið frá Brattahlíð á Grænlandi til L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi.
Endurgerðar víkingabúðir á L'Anse-aux-Meadows.

L'Anse aux Meadows er eini staðurinn í Norður-Ameríku, utan Grænlands, þar sem víkingaminjar af þessu tagi hafa fundist. Eru þær vitnisburður um ferðir og búsetu Evrópubúa í Nýja heiminum mörg hundruð árum fyrir ferðir Kristófers Kólumbusar.

L'Anse aux Meadows er á heimsminjaskrá UNESCO.