Sósíalismi, einnig nefndur félagshyggja, er yfirheiti fjölda hugmyndafræða og stjórnmálahreyfinga sem einkennast af hugmyndum um samneyslu og sameiginlegri eign samfélagsins á framleiðslutækjum, jarðnæði og/eða auðlindum. Markmið sósíalismans er venjulega að stuðla að auknu efnahagslegu jafnræði og draga úr stéttaskiptingu með því að stjórna þessum eignum með hag allra í samfélaginu fyrir brjósti.

Rauður fáni hefur lengst af verið eitt helsta tákn sósíalista.

Hugmyndafræðin mótaðist á 19. öld í andstöðu við kapítalisma sem sósíalistar töldu að væri ómannúðlegt og óréttlátt skipulag þar sem yfirstétt í valdi fjármagns drottnaði yfir vinnuaflinu. Nánara fyrirkomulag sósíalísks samfélags hefur alla tíð verið deiluefni og fyrir vikið eru undirgreinar sósíalismans allmargar og hafa þróast með ýmsum hætti í gegnum tíðina.

Stjórnmálahreyfingar sem kennt hafa sig við Sósíalisma

breyta

Af þeim stjórnmálahreyfingum sem hafa kennt sig við sósíalisma hafa þrjár verið útbreiddastar og áhrifamestar. Eru það kommúnismi, sósíaldemókratismi, eða lýðræðisjafnaðarstefna en oftast bara nefnd jafnaðarstefna (e. democratic socialism) og stjórnleysisstefna eða anarkismi.

Kommúnismi

breyta

Kommúnismi er hugmyndafræði sem leggur áherslu á sameign og að útrýma skuli misrétti og ójöfnuði kapítalismans, jafnvel þótt það krefjist byltingar. Kommúnistar undir forystu Vladimírs Leníns náðu völdum í Rússaveldi eftir októberbyltinguna 7. nóvember 1917 og héldu þeim til hausts 1991. Þeir stofnuðu Sovétríkin. Með stuðningi Sovétríkjanna tóku kommúnistar völd í nokkrum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld og stofnuðu svonefnd alþýðulýðveldi, en hafa víða tapað völdum eða breytt um stefnu. Kommúnistar náðu einnig völdum undir forystu Maó Zedong í Kína árið 1949 og hafa haldið þeim síðan. Kommúnistar ráða einnig yfir Norður-Kóreu, Kúbu og Víetnam. Helstu hugsuðir kommúnismans eru Karl Marx og Vladimír Lenín.

Á Íslandi starfaði Kommúnistaflokkur Íslands frá 1930 til 1938 og átti aðild að alþjóðasambandi kommúnista, Komintern. Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn var stofnaður árið 1938 með sameiningu Kommúnistaflokksins og hluta Alþýðuflokksins og starfaði til 1968 þegar Alþýðubandalagið var gert að formlegum stjórnmálaflokki.

Sósíaldemókratismi

breyta

Sósíaldemókratismi, eða jafnaðarstefna, er hugmyndafræði sem leggur áherslu á að lýðræði og almenn mannréttindi séu virt, auk þess sem reynt er að tryggja afkomuöryggi fjöldans og réttlátari tekjuskiptingu. Sósíaldemókratar vilja auka jöfnuð í samfélaginu með félagslegum umbótum innan ramma lýðræðis. Í Svíþjóð mótuðu jafnaðarmenn hugmyndina um „folkhemmet“, þjóðarheimilið, þar sem ríkið gegndi lykilhlutverki í velferð borgaranna. Í Bretlandi setti William Beveridge lávarður fram svipaðar hugmyndir um víðtækar almannatryggingar.

Alþýðuflokkurinn sem starfaði á Íslandi frá 1916 til 2000 kenndi sig við jafnaðarstefnu. Samfylkingin, stofnuð árið 2000 með samruna Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins, Þjóðvaka og Kvennalistans, starfar einnig í anda jafnaðarstefnu. Samfylkingin á aðild að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna eins og Alþýðuflokkurinn hafði áður gert.

Saga sósíalismans

breyta

Fyrstu sósíalistarnir í nútímaskilningi eru venjulega taldir Saint-Simon markgreifi í Frakklandi og Robert Owen í Bretlandi. Á fyrri hluta 19. aldar gagnrýndu þeir báðir ójöfnuð og röktu hann til einkaeignarréttar á framleiðslutækjum og uppskiptingu fólks í stéttir. Á miðri 19. öld settu Karl Marx og Friedrich Engels fram kerfisbundnar kenningar um eðlislægar mótsagnir kapítalismans sem yrðu honum að falli. Eftir það tækju öreigarnir völdin. Í upphafi 20. aldar klofnaði hreyfing sósíalista í sameignarsinna og lýðræðisjafnaðarmenn. Vladimir Lenín hélt fast við kenningar Marx og Engels og kvað öflugan kommúnistaflokk geta tekið völdin hvort sem hann hefði sigrað í kosningum eða ekki. Eduard Bernstein taldi hins vegar að sósíalistar ættu að vinna að umbótum innan lýðræðislegra stofnana og að kenningar Marx þyrfti að endurskoða. Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar urðu lýðræðisjafnaðarmenn áhrifameiri í Vestur-Evrópu og tóku upp hugmyndirnar um blandað hagkerfi og velferðarþjónustu.

Sósíalismi á Íslandi

breyta

Þorsteinn Erlingsson skáld var einn fyrsti yfirlýsti sósíalistinn á Íslandi og Jón Trausti spáði því að sósíalisminn myndi deyja út með Þorsteini árið 1914, en sú spá stemmdi ekki. Ólafur Friðriksson hafði kynnst hugsjónum sósíalismans í Kaupmannahöfn og kynnti þær á Íslandi eftir að hann sneri heim frá Kaupmannahöfn. Hann var lengi ritstjóri Alþýðublaðsins. Hann skrifaði ritgerðina „Jafnaðarstefnuna“ í Eimreiðina 1926. Rithöfundarnir Þórbergur Þórðarson og Halldór Kiljan Laxness höfðu áhrif á útbreiðslu sósíalískra hugmynda með verkum sínum, svo sem Bréfi til Láru (1924) og Alþýðubókinni (1929).

Eftir klofning Alþýðuflokksins 1930 létu kommúnistar meira að sér kveða í fræðilegri kynningu en lýðræðisjafnaðarmenn. Gylfi Þ. Gíslason var áberandi í að koma sjónarmiðum jafnaðarmanna á framfæri, meðal annars í ritinu Jafnaðarstefnan (1949). Brynjólfur Bjarnason skrifaði um sameignarstefnu í anda Marx og Leníns.

Frá því að Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn var lagður niður árið 1968 við stofnun Alþýðubandalagsins var ekki starfandi stjórnmálaflokkur undir sérstöku merki sósíalískrar hugmyndafræði uns Alþýðufylkingin var stofnuð árið 2013. Hún hefur verið virk í kosningum og boðið fram í öllum þeim tíðu alþingiskosningum síðan hún var stofnuð en ekki komið manni á þing. Sósíalistaflokkur Íslands var síðan stofnaður þann 1. maí árið 2017 en einn aðalhvatamaður að stofnun hans var Gunnar Smári Egilsson blaðamaður og fyrrum ritstjóri.

Gagnrýni á sósíalisma

breyta
  • John Stuart Mill benti á það í bókinni Essay on Liberty (Frelsinu) 1859, að lítið yrði eftir af einstaklingsfrelsinu þegar ríkið ætti og ræki flest eða öll atvinnufyrirtæki. Sósíalistar svara því til að það sé ekki lengur á dagskrá. Þeir vilji tryggja almenn mannréttindi en um leið viðurkenna víðtækari mannréttindi en frjálshyggjumenn, til dæmis réttinn til heilsugæslu og skólagöngu.
  • Ludwig von Mises leiddi rök að því í bókinni Die Gemeinwirtschaft (Sameignarskipulaginu) 1922, að ríkiseign á framleiðslufyrirtækjum og víðtækur áætlunarbúskapur, eins og flestir sósíalistar þess tíma hugsuðu sér, fengi ekki staðist. Því að handhafar ríkisvaldsins gætu aldrei aflað sér nægilegra upplýsinga til að meta ólíka kosti saman en á markaðnum væri þetta gert með frjálsum viðskiptum, ekki síst á fjármagni. Margir sósíalistar hafa svarað því til að rök Mises kunni að vera gild, enda hafa hugmyndum um víðtækan áætlunarbúskap minnkað fylgi meðal þeirra.
  • Friedrich A. von Hayek varaði við því í bókinni The Road to Serfdom (Leiðinni til ánauðar) 1944, að víðtæk beiting ríkisvaldsins til lausnar málum gæti hleypt af stað þróun í átt til lögregluríkis. Til þess að valdhafarnir gætu skipulagt atvinnulífið yrðu þeir fyrst að skipuleggja mennina. Sósíalistar svara því til að sterkt ríkisvald sé ekki það sama og alræði ríkisvaldsins og hafi þeir ekki sömu vantrú á því og frjálshyggjumenn.
  • Milton Friedman og aðrir Chicago-hagfræðingar segja að rannsóknir þeirra sýni að margvísleg ríkisafskipti nái ekki yfirlýstum tilgangi sínum og hafi jafnvel þveröfugar afleiðingar. Samkeppnislöggjöf hafi ekki stuðlað að aukinni samkeppni og margvíslegar aðgerðir ríkisins til að raska þeirri tekjuskiptingu sem verður til í frjálsum viðskiptum hafi aðallega gagnast mið- og yfirstétt. Til dæmis niðurgreiðslur á opinberri þjónustu, sem mið- og yfirstétt nýtir frekar en þeir sem verst eru settir. Sósíalistar svara að gera verði ríkisafskiptin markvissari og almennari en ekki hverfa frá þeim.
  • Robert Nozick hélt því fram í bókinni Anarchy, State, and Utopia (Stjórnleysi, ríki og staðleysur), að tekjuuppskipting á vegum ríkisins eins og sósíalistar hugsuðu sér, merkti að menn væru látnir vinna fyrir aðra en það stríddi gegn náttúrlegum rétti þeirra. Menn ættu að vera frjálsir að því að ráðstafa sjálfsaflafé sínu jafnvel þótt það leiddi til ójafnrar tekjuskiptingar. Sósíalistar svara að Nozick leggi allt of þröngan skilning í náttúrlegan rétt manna.

Heimildir á íslensku

breyta
  • Arnór Hannibalsson gagnrýnir íslenska sósíalista í Kommúnismi og vinstri hreyfing á Íslandi (1964).
  • Arnór Hannibalsson vinnur úr gögnum um íslenska sósíalista í rússneskum söfnum í Moskvulínan (2000). Bókin skiptist í tvo hluta, og er annar um kommúnistaflokk Íslands og Komintern, hinn um afskipti Halldórs Kiljans Laxness af sósíalistahreyfingunni íslensku.
  • Árni Snævarr og Valur Ingimundarson segja sögu sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi í Liðsmenn Moskvu (1992). Fyrri hlutinn er yfirlit um samskipti íslenskra sósíalista og ráðamanna Ráðstjórnarríkjanna, seinni hlutinn um samskiptin við austur-þýska kommúnista.
  • Brynjólfur Bjarnason lýsir „Jafnaðarstefnu fyrir daga Marx“ í Rétti 1929.
  • Brynjólfur Bjarnason gerir grein fyrir stefnu íslenskra marxista í Sósíalistaflokkurinn - stefna hans og starfshættir (1952).
  • Gunnar Árnason lýsir skoðunum þjóðernisjafnaðarmanna í smáritinu Socialisminn (1935-1936).
  • Gylfi Þ. Gíslason gerir grein fyrir skoðunum lýðræðisjafnaðarmanna í Jafnaðarstefnan (1977).
  • Jón Ólafsson vinnur úr gögnum um íslenska sósíalista í rússneskum söfnum í Kæru félagar (2000).
  • Úrvalsrit Karls Marx og Friðriks Engels hafa komið út í tveimur bindum á íslensku (1968).
  • Richard Pipes gagnrýnir sameignarstefnu í Kommúnisminn (2004).
  • Svavar Gestsson: Sjónarrönd - jafnaðarstefna, viðhorf. Iðunn, Reykjavík 1995
  • Þorleifur Friðriksson segir frá tengslum Alþýðuflokksins við erlenda jafnaðarmenn í Gullna fluga. Saga átaka í Alþýðuflokknum og erlendrar íhlutunar um íslensk stjórnmál (1987).
  • Þorleifur Friðriksson segir meira frá tengslum Alþýðuflokksins við erlenda jafnaðarmenn í Undirheimar íslenskra stjórnmála. Reyfarakenndur sannleikur um pólitísk vígaferli (1988).
  • Þór Whitehead segir sögu upphafs kommúnistahreyfingarinnar íslensku í Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921-1934 (1979).
  • Í Svartbók kommúnismans er ýmsum ódæðum kommúnistastjórna á tuttugustu öld lýst.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta

Tenglar í íslenskar vefsíður

breyta

Tenglar í erlendar vefsíður með sósíalisma

breyta

Tenglar í erlendar vefsíður á móti sósíalisma

breyta