Gunnar Smári Egilsson

Gunnar Smári Egilsson (f. 11. janúar 1961) er íslenskur stjórnmálamaður, blaðamaður, viðskiptamaður, útgefandi, ritstjóri og fjölmiðlamaður sem að var stofnandi og leiðtogi Sósíalistaflokks Íslands frá 2017 til 2024. Hann var einnig formaður framkvæmdastjórnar flokksins frá 2017 til 2025. Hann er núverandi stjórnarmaður og ábyrgðarmaður frétta hjá Samstöðinni. Gunnar Smári hefur stofnað og starfað í fjölmörgum miðlum, bæði á Íslandi og erlendis og hefur haft mikil áhrif á fréttaflutning í íslenskum miðlum. Hann ólst upp í Hafnarfirði.

Gunnar Smári Egilsson
Gunnar Smári árið 2017
Fæddur11. janúar 1961 (1961-01-11) (64 ára)
StörfBlaðamaður, útgefandi, ritstjóri, stjórnmálamaður
Þekktur fyrirSósíalistaflokk Íslands, Fréttablaðið og Samstöðina

Fjölmiðlaferill

breyta

Gunnar Smári hóf ferilinn sem blaðamaður á 8. áratug 20. aldar. Hann varð fljótlega þekktur fyrir skörp skrif sín og fókus á samfélagsmál. Hann var fyrst í ritstjórn Kvikmyndablaðsins árið 1982, og tók síðan við umsjón helgarblaðsins NT árið 1985 og vann auk þess hjá Tímanum. Frá 1986 til 1988 starfaði hann síðan hjá Helgarpóstinum. Hann hóf svo störf hjá DV árið 1988 og var ritstjóri Pressunar frá 1990 til 1993. Hann tók að sér að vera ritstjóri Heimsmyndar í nokkra mánuði árið 1993. Hann ritstýrði síðan Eintaki frá 1993 til 1994, þangað til að það sameinaðist Pressunni í Morgunpóstinn árið 1994, sem að Gunnar Smári ritstýrði. Hann skrifaði einnig í Alþýðublaðið árið 1996. Hann gaf út dagblaðið Fjölni árið 1997 og ritstýrði Fókus, fylgiblaði DV frá 1998. Gunnar Smári var einn af stofnendum Fréttablaðsins árið 2001 og starfaði þar fyrstu árin. Árið 2005 var hann ráðinn forstjóri Dagsbrúnar sem að rak Fréttablaðið, Stöð 2, Vísi, Bylgjuna og NFS.[1] Auk þess var hann einn af stofnendum og útgefendum Nyhedsavisen sem gefið var út í Danmörku að fyrirmynd Fréttablaðsins frá 2006 til 2008.[2] Árið 2019, hinsvegar talaði Gunnar Smári gegn Fréttablaðinu og bað fólk um að afþakka það eftir fréttaflutning um verkalýðshreyfinguna.[3] Eftir hrun hóf hann að skrifa í Fréttatímann sem að hann seinna keypti árið 2015 og tók við ritstjórninni hjá árið 2016 þangað til að miðillinn fór í gjaldþrot árið 2017. Hann var meðal annars gagnrýndur fyrir að hafa ekki greitt starfsmönnum Fréttatímans mánaðarlaun.[4]

Gunnar Smári hefur haft mikil áhrif á íslenska fjölmiðlaumhverfið. Með stofnun og starfi sínu á Fréttablaðinu og öðrum miðlum hefur hann haft bein áhrif á fréttaflutning í íslenskum miðlum.[3]

Stjórnmálaferill

breyta

Gunnar Smári var þekktur fyrir að vera mikill viðskiptamaður og kapítalisti og vann hann náið með fólki eins og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.[5] Árið 2003 í viðtali lýsti Gunnar Smári sér sem „sótsvörtum hægrimanni" sem að væri „miklu hægrisinnaðri en nokkurn tímann Sjálfstæðisflokkurinn". Árið 2008, var Gunnar Smári aðstoðarmaður Ólafs F. Magnússonar í nokkra mánuði.[1]

Árið 2014 stofnaði Gunnar Smári Fylkisflokkinn, hóp af fólki sem kallaði eftir því að Ísland myndi sameinast við Noreg, með því að verða af 20. fylki Noregs. Gunnar skrifaði margar greinar sem kölluðu eftir því að leggja niður forsetann og setja upp fylkisstjóra í staðinn, að íslenskan yrði eitt af ríkismálum Noregs, og að íslenski fáninn yrði að fylkisfána.[6]

Gunnar Smári var einn af fjölmörgum stofnaðilum Sósíalistaflokks Íslands, sem var stofnaður 1. maí árið 2017. Hann var kosinn formaður framkvæmdastjórnar flokksins og pólitískur leiðtogi.[7] Flokkurinn barðist gegn fátækt og fyrir betri kjörum launþega.[8] Vegna fyrrum hægri stjórnmálaskoðana og feril í viðskiptum, þar sem að hann starfaði náið með Jóni Ásgeiri og ferðaðist um á einkaþotum, hefur Gunnar Smári oft verið gagnrýndur fyrir að hafa orðið að leiðtoga sósíalista.[9] Hann leiddi flokkinn í alþingiskosningunum 2021 þar sem að flokkurinn hlaut 4,1% atkvæða og náði ekki þingsæti. Fyrir alþingiskosningarnar 2024 sagði hann af sér sem leiðtogi flokksins og tók borgarfulltrúinn Sanna Magdalena Mörtudóttir við. Í mars 2025 sakaði forseti ungra sósíalista Gunnar Smára um ofríki og andlegt ofbeldi.[10] Í lok maí 2025 var Gunnar Smári kosinn úr stjórn flokksins og var Sæþór Benjamín Randalsson kosinn formaður framkvæmdastjórnar flokksins í staðinn.[11]

Tilvísun

breyta
  1. 1,0 1,1 „„Sótsvartur hægrimaður" verður sósíalisti - RÚV.is“. RÚV. 13 apríl 2017. Sótt 26 maí 2025.
  2. „Fréttablaðið - 110. tölublað (23.04.2004) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 26 maí 2025.
  3. 3,0 3,1 Hilmarsdóttir, Sunna Kristín (18 febrúar 2019). „Gunnar Smári hvetur fólk til þess að afþakka Fréttablaðið - Vísir“. visir.is. Sótt 26 maí 2025.
  4. Vilhjálmsson, Ingi Freyr (28 apríl 2017). „Skuldaskil Gunnars Smára Egilssonar við sósíalismann og Fréttatímann“. Heimildin. Sótt 26 maí 2025.
  5. „Fréttablaðið - 110. tölublað (23.04.2004) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 26 maí 2025.
  6. „Fylkisflokkurinn vekur athygli ytra“. Vísir. 24 júlí 2014. Sótt 14 júní 2024.
  7. „Skráning – Sósíalistaflokkurinn“. Sósíalistaflokkurinn. Sótt 30. desember 2022.
  8. „Gunnar Smári stofnar Sósíalistaflokk Íslands“. RÚV. 11 apríl 2017. Sótt 30. desember 2022.
  9. Ritstjórn (10. september 2021). „„Sósíalistaforingi í einkaþotu – Gunn­ar Smári lét sig hverfa". Fréttatíminn. Sótt 26 maí 2025.
  10. Sigurðsson, Grétar Þór (12. mars 2025). „Gunnar Smári boðar til skyndifundar eftir ásakanir um launaþjófnað og ofríki - RÚV.is“. RÚV. Sótt 26 maí 2025.
  11. Ragnarsson, Jón Ísak (24 maí 2025). „Gunnar Smári féll í stjórnar­kjöri: Úrsagnir og upp­nám á aðal­fundi Sósíal­ista­flokksins - Vísir“. visir.is. Sótt 26 maí 2025.