Sameinuðu þjóðirnar

(Endurbeint frá )

Sameinuðu þjóðirnar eru alþjóðasamtök stofnuð 1945 sem nú hafa 193 aðildarríki. Öll almennt viðurkennd sjálfstæð ríki í heiminum, að Vatíkaninu undanskildu, eru nú meðlimir. Vatíkanið á eina varanlega áheyrnarfulltrúann og getur sóst eftir fullri aðild ef það kýs svo. Höfuðstöðvar samtakanna eru í New York-borg, þar sem aðildarríkin koma saman á reglulegum fundum til að taka ákvarðanir um margs konar mál sem samtökin koma að. Samtökin reka aukahöfuðstöðvar í Genf, Naíróbí og Vínarborg, auk Haag þar sem Alþjóðadómstóllinn er.

Sameinuðu þjóðirnar

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna.
SkammstöfunSÞ (íslenska); UN (enska)
UndanfariÞjóðabandalagið
StofnunSem hernaðarbandalag: 1. janúar 1942
Sem alþjóðasamtök: 24. október 1945
GerðMilliríkjastofnun
HöfuðstöðvarFáni Bandaríkjana New York-borg, Bandaríkjunum
Meðlimir193 ríki; 2 áheyrnarríki
Opinber tungumálArabíska, enska, franska, kínverska, rússneska og spænska
AðalritariAntónio Guterres
Vefsíðawww.un.org
www.unric.org/is

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar eftir lok síðari heimsstyrjaldar af sigurvegurum stríðsins í þeirri von að samtökin myndu koma í veg fyrir frekari stríð í framtíðinni vegna sameiginlegra öryggishagsmuna aðildarríkja. Núverandi uppbygging samtakanna ber vott um þær aðstæður sem uppi voru þegar þau voru stofnuð; sérstaklega sér þeirra stað í Öryggisráðinu, þar sem fimm ríki hafa fast sæti og neitunarvald. Þau eru: Alþýðulýðveldið Kína (leysti af hólmi Lýðveldið Kína), Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Rússland (leysti af hólmi Sovétríkin).

Sameinuðu þjóðirnar skiptast í sex stofnanir: allsherjarþingið, öryggisráðið, efnahags- og félagsmálaráðið, gæsluverndarráðið, aðalskrifstofuna og alþjóðadómstólinn. Að auki eru fjölmargar undirstofnanir, áætlanir og sjóðir; til dæmis Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Alþjóðabankastofnanirnar og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Alþjóðleg félagasamtök geta haft formlegt ráðgjafarhlutverk gagnvart Sameinuðu þjóðunum eða undirstofnunum þeirra.

Valdamesti og mest áberandi embættismaður Sameinuðu þjóðanna er aðalritarinn sem nú er portúgalski stjórnmálamaðurinn og diplómatinn António Guterres. Hann tók við embættinu 1. janúar 2017 og var endurkjörinn 8. júní 2021. Samtökin eru fjármögnuð með fjárframlögum frá aðildarríkjum.

Sameinuðu þjóðirnar, starfsmenn og undirstofnanir þeirra, hafa nokkrum sinnum unnið friðarverðlaun Nóbels þótt skoðanir séu skiptar um áhrifamátt þeirra. Margir telja Sameinuðu þjóðirnar mikilvægar fyrir frið og þróunarstarf, meðan aðrir telja samtökin áhrifalítil, hlutdræg og spillt.

Uppbygging

breyta

Sameinuðu þjóðirnar eru hluti af kerfi Sameinuðu þjóðanna sem nær yfir flókið net stofnana og annarra aðila. Mikilvægustu stofnanirnar eru aðalstofnanirnar fimm sem kveðið er á um í stofnsáttmálanum: Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, Efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC), Alþjóðadómstóllinn og Aðalskrifstofa Sameinuðu þjóðanna.[1] Sjötta aðalstofnunin, Gæsluverndarráð Sameinuðu þjóðanna, hætti starfsemi 1. nóvember 1994 þegar síðasta verndarríkið, Palaú, fékk sjálfstæði.[2]

Fjórar af fimm aðalstofnunum eru staðsettar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York-borg. Alþjóðadómstóllinn hefur aðsetur í Haag.[3] Flestar undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru í nágrenni við höfuðstöðvar Sþ í Genf,[4] Vín,[5] og Naíróbí.[6] Aðrar stofnanir hafa aðsetur víða um heim. Sex opinber tungumál Sameinuðu þjóðanna, sem eru notuð á alþjóðlegum fundum og á skjölum, eru arabíska, enska, franska, kínverska, rússneska og spænska.[7] Samningur um réttindi og friðhelgi Sameinuðu þjóðanna veitir Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra friðhelgi frá landslögum þar sem þær starfa, til að tryggja hlutleysi þeirra gagnvart gistiríki og aðildarríkjum.[8]

Neðan við aðalstofnanirnar sex starfar fjölbreytt safn aðila og stofnana, sem sumar eru eldri en Sameinuðu þjóðirnar sjálfar og njóta nær algers sjálfstæðis.[9] Meðal þessara aðila eru undirstofnanirnar, rannsóknarstofnanir og menntastofnanir, áætlanir og sjóðir.[10]

Allar stofnanir Sameinuðu þjóðanna fylgja Noblemaire-meginreglunni svokölluðu sem kveður á um laun sem séu aðlaðandi fyrir ríkisborgara í löndum þar sem laun eru hæst, og sem tryggja jöfn laun fyrir jafngild störf, óháð uppruna starfsfólks.[11][12] Í reynd hefur Alþjóðleg embættismannanefnd, sem fer með mál starfsfólks Sameinuðu þjóðanna, vísað til hæstu launa opinberra starfsmanna í hverju landi.[13] Laun starfsfólks eru skattlögð af samtökunum og stofnanir þeirra hafa umsjón með skattlagningunni.[11][14]

Aðildarríki

breyta

Öll almennt viðurkennd ríki heims, fyrir utan Vatíkanið, eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum.[15] Nýjasta aðildarríkið er Suður-Súdan sem gerðist aðili 14. júlí 2011.[16] Stofnskrá Sameinuðu þjóðanna setur eftirfarandi skilyrði fyrir aðild:

 
1) Þátttaka í hinum sameinuðu þjóðum er heimil öllum friðsömum ríkjum, sem takast á hendur skuldbindingarnar í þessum sáttmála og að áliti bandalagsins eru hæf og fús til að fullnægja þessum skuldbindingum.

2) Allsherjarþingið tekur ákvörðun um inngöngu hvers slíks ríkis eftir tillögu frá öryggisráðinu.[17]

 
 
Í valdatíð Sukarnos varð Indónesía fyrsta og eina landið sem hefur sagt upp aðild að Sameinuðu þjóðunum.

Auk aðildarríkja eiga tvö lönd fasta áheyrnaraðild að allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna: Vatíkanið og Palestínuríki.[18] Cookseyjar og Niue, sem bæði eru í frjálsu sambandi við Nýja-Sjáland, eru fullgildir aðilar að nokkrum af sérhæfðum stofnunum Sþ og hafa þar fullan rétt til samninga samkvæmt aðalskrifstofunni.[19]

Indónesía er fyrsta og eina landið sem hefur sagt aðild sinni að Sameinuðu þjóðunum upp, til að mótmæla því að Malasía fengi tímabundið sæti í öryggisráðinu árið 1965 þegar löndin áttu í átökum.[20] Indónesía stofnaði CONEFO Sameinuðu þjóðunum til höfuðs, en þau samtök urðu skammlíf og Indónesía gerðist aftur aðildarríki árið 1966.

G77 er lauslegt bandalag þróunarríkja innan Sþ, sem á að styðja við sameiginlega efnahagslega hagsmuni meðlima og mynda samningsblokk innan Sþ. G77 var sett á fót af 77 ríkjum en í nóvember 2013 voru þátttakendur orðnir 133.[21] Hópurinn var settur á stofn með sameiginlegri yfirlýsingu 77 ríkja 15. júní 1964 á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun (UNCTAD). Hópurinn hélt sinn fyrsta fund í Algeirsborg árið 1967 þar sem hann samþykkti Algeirsborgarskrána og lagði grunn að sameiginlegum stofnunum.[22] Á 8. áratugnum tóku þróunarlöndum upp samþykkt um Nýskipan efnahagsmála og vinna hópsins breiddist út innan stofnana Sþ. Svipaðir hópar þróunarríkja starfa líka innan annarra stofnana Sþ, eins og G24 sem starfar innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ísland

breyta

Alþingi Íslendinga samþykkti 25. júlí 1946 að sótt yrði um aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum. Þann 9. nóvember 1946 voru aðildarumsóknir Íslands, Svíþjóðar og Afganistans samþykktar. Þann 19. nóvember 1946 var Ísland boðið velkomið og Thor Thors varð fyrsti Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Tilvísanir

breyta
  1. Fasulo 2004, bls. 3–4.
  2. Fasulo 2004, bls. 8.
  3. „United Nations Visitors Centre“. United Nations. 2017. Afrit af uppruna á 6. nóvember 2017. Sótt 2. nóvember 2017.
  4. „United Nations Office at Geneva“. United Nations Office at Geneva. Afrit af uppruna á 30. október 2013. Sótt 6. nóvember 2013.
  5. „Welcome to the United Nations Office at Vienna!“. United Nations Office at Vienna. Afrit af uppruna á 5. nóvember 2013. Sótt 6. nóvember 2013.
  6. „Welcome to the United Nations Office at Nairobi“. United Nations Office at Nairobi. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. febrúar 2011. Sótt 6. nóvember 2013.
  7. „General Assembly of the United Nations – Rules of Procedure“. UN Department for General Assembly. Afrit af uppruna á 19. desember 2010. Sótt 15. desember 2010.
  8. „Jerusalem Court: No Immunity for UN Employee for Private Acts—Diplomatic/Consular Law and Sovereign Immunity in Israel“. Diplomaticlaw.com. 23. mars 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. júní 2012. Sótt 27. apríl 2010.
  9. Fasulo 2004, bls. 4.
  10. Fasulo 2004, bls. 4–7.
  11. 11,0 11,1 Salaries Geymt 3 júlí 2015 í Wayback Machine, United Nations website
  12. ILO: Noblemaire principle Geymt 14 ágúst 2014 í Wayback Machine, Judgement 986, consideration 7, and Judgment 831, Consideration 1.
  13. The Noblemaire principle Geymt 17 maí 2017 í Wayback Machine, ICSC
  14. Americans Working at the U.N Geymt 22 apríl 2017 í Wayback Machine, World, New York Times, 28 September 2009
  15. „UN welcomes South Sudan as 193rd Member State“. United Nations. 28. júní 2006. Afrit af uppruna á 3. ágúst 2015. Sótt 4. nóvember 2011.
  16. „United Nations Member States“. United Nations. Afrit af uppruna á 28. október 2017. Sótt 2. nóvember 2017.
  17. „Sáttmáli hinna Sameinuðu þjóða og Samþykktir milliríkjadómsins“. Stjórnarráð Íslands. Sótt 16. mars 2022.
  18. „Non-member States“. United Nations. 7. ágúst 2015. Afrit af uppruna á 25. október 2017. Sótt 2. nóvember 2017.
  19. „Repertory of Practice“. United Nations. Afrit af uppruna á 25. október 2017. Sótt 2. nóvember 2017.
  20. Gutierrez, Natashya (22. ágúst 2016). „What happened when Indonesia 'withdrew' from the United Nations“. Rappler. Afrit af uppruna á 1. nóvember 2016. Sótt 8. september 2018.
  21. „The Member States of the Group of 77“. Afrit af uppruna á 6. júní 2012. Sótt 7. nóvember 2013.
  22. „About the G77“. Group of 77. Afrit af uppruna á 12. nóvember 2013. Sótt 5. nóvember 2013.

Heimildir

breyta

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
   Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.