Kristján frá Djúpalæk
Kristján frá Djúpalæk (16. júlí 1916 í Skeggjastaðahreppi í N-Múlasýslu – 15. apríl 1994 á Akureyri) var íslenskt skáld. Fullt nafn hans var Jónas Kristján Einarsson.
Æviágrip
breytaKristján var fæddur að Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu. Þetta landssvæði er austan Langaness og kallast Langanesströnd eða bara Ströndin af heimafólki og er við Bakkaflóa.
Foreldrar Kristjáns voru hjónin Einar Vilhjálmur Eiríksson (1871 – 1937), og Gunnþórunn Jónasdóttir (1895 – 1965).
Sem barn sinnti hann hefðbundnum sveitastörfum unglinga, gegndi ám, gekk rekann og hirti sprek og fjalir, rótarhnyðjur og smámor og bar það upp á malir til þurrkunar svo nota mætti það í eldinn. Og ef heppnin var með mátti stundum finna rauðmaga á klöppunum sem rotast höfðu í brimrótinu.
Veturinn 1936 – 1937 stundaði Kristján nám við Eiðaskóla í Eiðaþinghá, þá tvítugur að aldri. Vorið 1937 lést faðir hans og hélt hann þá heim að loknum prófum og vann hjá bróður sínum Sigurði við gerð íbúðarhúss sem var í byggingu á nýbýlinu Bjarmalandi sem er steinsnar frá Djúpalæk. Bæði Djúpilækur og Bjarmaland eru nú eyðibýli.
Haustið 1938 fór hann í Menntaskólann á Akureyri og var þar fram til vors að hann hætti skólagöngu. Á Eiðum hafði Kristján kynnst heimasætunni frá Staðartungu í Hörgárdal, Unni Friðbjarnardóttur, sem hann kvæntist síðar og bjó með til dauðadags.
Unnur og Kristján hófu búskap í Staðartungu árið 1938. Kristján þótti ekki sérstaklega hneigður til búskapar enda þau hjón brugðu búi árið 1943 og fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu næstu sex árin. Á þeim tíma vann Kristján aðallega verksmiðjuvinnu sem honum leiddist og hann þoldi illa. Hann fékk útrás við ljóðagerð og varð kunnur af henni og gerðist virkur verkalýðssinni. Þarna hófst einnig vinátta hans og Heiðreks Guðmundssonar skálds sem entist ævilangt.
Í lok árs 1949 fluttu Kristján og Unnur til Hveragerðis sem þá var listamannamiðstöð Íslands. Þar bjuggu þau í húsi sem kallað var Bræðraborg eða Frumskógar 6.
Um þetta leyti var hann orðinn þekktur sem ljóðskáld og dægurlagahöfundur og varð þekktari eftir því sem árin liðu. En frægðin dugði ekki til, það vantaði salt í grautinn eins og hjá fleiri listamönnum. Hann þurfti að sjá fyrir fjölskyldu og tók því að sér ýmsa vinnu; hann var barnakennari í Hveragerði og Þorlákshöfn, og vann einnig við garðyrkjustörf, húsamálun og ýmislegt fleira.
Á Hveragerðisárunum kynntust hjónin meðal annarra Jóhannesi úr Kötlum, Kristmanni Guðmundssyni, Gunnari Benediktssyni, séra Helga Sveinssyni og fleiri mönnum. Þarna bjuggu Kristján og Unnur til ársins 1961 og þar fæddist þeim einkasonurinn Kristján Krisjánsson heimspekingur sem nú er háskólakennari á Akureyri.[1]
Árið 1961 fluttu hjónin aftur til Akureyrar og í nokkur ár þar eftir tók Kristján að sér ritstjórn dagblaðsins Verkamannsins ásamt því að kenna í Grunnskóla Akureyrar og sinna ýmsum íhlaupastörfum auk vinnu við ritsmíðar sínar. Nokkur sumur sinnti hann veiðieftirliti með ám í Eyjafirði, Fnjóská, Hörgá og Eyjafjarðará.
Kristján fékk margs konar viðurkenningar fyrir ljóðlist sína, svo sem verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, verðlaun úr Rithöfundarsjóði Ríkisútvarpsins og úr Listasjóði Akureyrarbæjar og naut Listamannalauna allt frá 1948.
Í formála að einni af ljóðabókum hans veltir Gísli Jónsson fyrrverandi menntaskólakennari fyrir sér þeim andstæðum sem toguðust á Kristjáni:
„Kristján frá Djúpalæk er í senn íslenskur sveitamaður og alheimsborgari. Alls konar andstæður hafa togast á um hann: útþrá, heimþrá; breytingagirni, fastheldni; uppreisn, auðmýkt; beygur, dirfska; innileiki, kaldhæðni; alvara, skop; afneitun, trúrækni. Af öllum þessum þáttum er persónuleik hans slunginn og verður því mörgum torskilinn. Hann er skáld myrkursins í leit að ljósinu, skáld lífsblómsins sem stendur skjálfandi andspænis dauðanum og veit þó að hann er „vinur, bróðir“.
En umfram allt er hann bara skáld.“
Vilhjálmur Vilhjálmsson tók saman fimm ljóð Kristjáns úr ljóðabókinni Þrílækir í lagið „Lífið er kvikmynd”.[2]
Leikfélag Akureyrar hélt sýningu byggða á ljóðasafni Kristjáns „Dreifar af dagsláttu”[3], í bókinni er brot úr ljóðum Kristjáns frá fyrri fimm ljóðabókum.[4]
Kristján lést 15. apríl 1994 og var jarðsunginn í Akureyrarkirkju þann 22. apríl.
Ritaskrá
breytaLjóðabækur
breyta- 1943: Frá nyrztu ströndum.
- 1945: Villtur vegar.
- 1948: Í þagnarskóg.
- 1950: Lífið kallar.
- 1953: Þreyja má þorrann.
- 1957: Það gefur á bátinn.
- 1960: Við brunninn.
- 1966: 7 x 7 tilbrigði.
- 1966: Í víngarðinum, (kvæðasafn)
- 1972: Þrílækir.
- 1975: Sólin og ég.
- 1977: Óður steinsins, The Song Of The Stone (ljóð við myndir).
- 1979: Punktar í mynd.
- 1981: Fljúgandi myrkur.
- 1986: Dreifar af dagsláttu, (kvæðasafn).
- 2007: Fylgdarmaður húmsins, (heildarkvæðasafn).
Þýðingar
breyta- Kardemommubærinn, um 1960 (ljóðaþýðingar).
- Dýrin í Hálsaskógi, um 1962 (ljóðaþýðingar).
- Síglaðir söngvarar, (ljóðaþýðingar)
- Galdrakarlinn í Oz, (ljóðaþýðingar)
- Tommi og fíllinn, (ljóðaþýðingar)
- Karamellukvörnin, (ljóðaþýðingar)
- Rauðhetta, (ljóðaþýðingar)
- Jólaævintýri Dickens, (ljóðaþýðingar)
- Börnin búa sig vel, 1993 (barnaefni).
- Börnin leika sér, 1993 (barnaefni).
- Börnin leika saman, 1993 (barnaefni).
- Börnin hjálpast að, 1993 (barnaefni).
- Dýrin baða sig, 1993 (barnaefni).
- Dýrin leika sér, 1993 (barnaefni).
- Dýrin næra sig, 1993 (barnaefni).
- Dýrin sofa, 1993 (barnaefni).
Önnur ritverk
breyta- Á varinhellunni, 1984. (bernskumyndir af Langanesströndum).
- Akureyri og norðrið fagra, 1974 (ljóðrænar myndskýringar).
- Píla pína, (ævintýri með söngvum).
- Vísnabók æskunnar (þýdd og endursamin.
- Ævintýri í Maraþaraborg
Tilvísanir
breyta- ↑ Um þennan einstaka skáldatíma Hveragerðis má meðal annars fræðast á vefsíðunni Listamenn í Hveragerði 1940-1965 og gistiheimilisins Frumskóga sem greina frá skáldalífi bæjarins sem hér er vísað í. Einnig má hér finna smellna grein um skólamál í Þorlákshöfn Geymt 21 febrúar 2005 í Wayback Machine sem Kristján ritaði þegar hann var kennari þar.
- ↑ „Listvinafélagið í Hveragerði | Erindi um Kristján frá Djúpalæk“.
- ↑ „Leikfélag Akureyrar: Sýnir leifar af dagsláttu“. Dagblaðið Vísir.
- ↑ „Nýtt kvæðasafn eftir Kristján frá Djúpalæk“. Morgunblaðið.