Jóhannes úr Kötlum

Íslenskt ljóðskáld, rithöfundur og stjórnmálamaður (1899-1972)

Jóhannes úr Kötlum (Jóhannes Bjarni Jónasson) (4. nóvember 1899 - 27. apríl 1972) var rithöfundur og ljóðskáld, þýðandi, farkennari og alþingismaður. Jóhannes samdi hvortveggja bundin ljóð og prósaljóð, sem og nokkrar skáldsögur.

Æviferill

breyta

Jóhannes fæddist að Goddastöðum í Laxárdal í Dölum en ólst upp frá sex mánaða aldri í Ljárskógaseli í sömu sveit. Foreldrar hans voru hjónin Jónas Jóhannesson og Halldóra Guðbrandsdóttir. Skammt frá Ljárskógaseli rennur áin Fáskrúð og þar eru svonefndir Katlar, fossar, hyljir og klettar, þar sem Jóhannes lék sér mikið í bernsku. Þegar hann gaf út fyrstu ljóðabók sína kenndi hann sig við þetta svæði og nefndi sig Jóhannes úr Kötlum.

Hann stundaði nám við lýðskólann í Hjarðarholti á árunum 1914 - 1916. Jóhannes tók kennarapróf árið 1921 og stundaði kennslu við ýmsa skóla í Dalasýslu frá 1917 til 1932. Þá flutti hann til Reykjavíkur og kenndi einn vetur við Austurbæjarskólann en einbeitti sér síðan að ritstörfum og ritstjórn, fyrst í Reykjavík og síðan í Hveragerði, en fluttist aftur til Reykjavíkur 1959 og bjó þar til æviloka.

Hann var formaður Félags byltingarsinnaðra rithöfunda 1935 til 1938. Dvaldist sumurin 1939 og 1940 á Kili sem eftirlitsmaður sauðfjársjúkdómanefndar. Jóhannes var virkur í starfi Sósíalistaflokksins og var alþingismaður Reykvíkinga 1941. Þá var hann umsjónarmaður við Skagfjörðsskála Ferðafélags Íslands í Þórsmörk á sumrum 1955 til 1962. Jóhannes var virkur ´baráttumaður í Samtökum hernámsandstæðinga.

Jóhannes kvæntist 24. júní 1930 Hróðnýju Einarsdóttur (12. maí 1908 – 6. september 2009). Börn þeirra voru Svanur (1929), Inga Dóra (1940) og Þóra (1948).

Skáldaferill

breyta

Jóhannes úr Kötlum var eitt helsta skáld sinnar samtíðar og mjög afkastamikill höfundur. Eftir hann liggja 20 ljóðabækur og 5 skáldsögur. Hann þýddi fjölda bóka, ritaði greinar í blöð og tímarit og flutti erindi um stjórnmál og menningarmál. Fyrsta ljóðabók hans kom út 1926 og nefndist Bí, bí og blaka og sú síðasta, Ný og nið, kom út 1970.

Ljóð Jóhannesar eru mjög fjölbreytt að efni og formi, allt frá barnaljóðum, baráttuljóðum og ættjarðarljóðum í hefðbundnum stíl til módernisma. Náttúran á sterk ítök í ljóðum hans og er oft nátengd tilfinningum og lífsviðhorfum Jóhannesar. Hann var alls staðar þátttakandi, hafði ríka réttlætiskennd og var einarður í skoðunum.

Viðurkenningar

breyta

Jóhannes úr Kötlum hlaut 2. verðlaun fyrir hátíðarljóð sín á Alþingishátíðinni 1930 og 1. verðlaun ásamt Huldu fyrir lýðveldishátíðarljóð sitt, Land míns föður 1944. Hann var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs af Íslands hálfu 1966 fyrir bókina Tregaslag. Hann hlaut Silfurhestinn, bókmenntaverðlaun gagnrýnenda dagblaðanna, árið 1971 fyrir bókina Ný og nið, en sú bók var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1973. Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs Geymt 14 nóvember 2006 í Wayback Machine.

Jóhannes úr Kötlum var heiðursfélagi Rithöfundafélags Íslands.

Helstu verk Jóhannesar

breyta

Ljóðabækur

breyta
 • Bí bí og blaka – útg. 1926 – Reykjavík; Prentsmiðjan Acta
 • Álftirnar kvaka – útg. 1929 - Reykjavík; Prentsmiðjan Acta
 • Ég læt sem ég sofi – útg. 1932 - Reykjavík; Prentsmiðjan Acta
 • Jólin koma – útg. 1932 - Reykjavík; Þórhallur Bjarnarson
 • Ömmusögur - 1933 – Reykjavík; Þórhallur Bjarnarson
 • Samt mun ég vaka – útg. 1935 - Reykjavík – Heimskringla
 • Hrímhvíta móðir - útg. 1937 - Reykjavík – Heimskringla
 • Hart er í heimi - útg. 1939 - Reykjavík – Heimskringla
 • Eilífðar smáblóm - útg. 1940 - Reykjavík – Heimskringla
 • Bakkabræður - 1941 – Reykjavík; Þórhallur Bjarnarson
 • Sól tér sortna - útg. 1945 - Reykjavík – Heimskringla
 • Ljóðið um Labbakút - 1946 – Reykjavík; Þórhallur Bjarnarson
 • Ljóðasafn I-II - útg. 1949 - Reykjavík – Heimskringla
 • Sóleyjarkvæði - útg. 1952 - Heimskringla
 • Hlið hins himneska friðar – útg. 1953 – Reykjavík; Jóhannes úr Kötlum
 • Sjödægra – útg. 1955 – Reykjavík; Mál og menning
 • Vísur Ingu Dóru – útg. 1959 – Reykjavík
 • Óljóð - útg. 1962 - Reykjavík – Heimskringla
 • Tregaslagur - útg. 1966 - Reykjavík – Heimskringla
 • Mannssonurinn - útg. 1966 - Reykjavík – Heimskringla
 • Ný og nið - útg. 1970 - Reykjavík – Heimskringla
 • Ljóðasafn I-VIII – útg. 1972 – 1976 - Reykjavík – Heimskringla
 • Ljóðasafn IX - útg. 1984 – Reykjavík; Mál og menning
 • Saga af Suðurnesjum - útg. 1987 – Reykjavík; Mál og menning
 • Úrval kvæða og ritgerða - útg. 1992 – Reykjavík; Mál og menning
 • Segja vil ég sögu af sveinunum þeim – útg. 1998 – Akureyri; Jólagarðurinn
 • Ljóðaúrval - útg. 2010 - Reykjavík; Mál og menning

Ljóðaþýðingar

breyta
 • Annarlegar tungur (Anonymus) - 1948 Anonymus: Reykjavík – Heimskringla

Skáldsögur

breyta
 • Og björgin klofnuðu – útg. 1934 – Akureyri; Þorsteinn M. Jónsson
 • Fuglinn segir (smásögur fyrir börn) útg. 1938 – Reykjavík; Heimskringla
 • Verndarenglarnir – útg. 1943 – Reykjavík; Heimskringla
 • Dauðsmannsey – útg. 1949 – Reykjavík; Heimskringla
 • Siglingin mikla – útg. 1950 – Reykjavík; Heimskringla
 • Frelsisálfan – útg. 1951 – Reykjavík; Heimskringla

Þýðingar

breyta
 • Kak I eftir Vilhjálm Stefánsson og W. Irving – Þýðing unnin með Sigurði Thorlacius – útg. 1934 – Akureyri; Þorsteinn M. Jónsson
 • Kak II eftir Vilhjálm Stefánsson og W. Irving – Þýðing unnin með Sigurði Thorlacius – útg. 1935 – Akureyri; Þorsteinn M. Jónsson
 • Mamma litla I – útg. 1935 – Akureyri; Þorsteinn M. Jónsson
 • Mamma litla II - útg. 1936 – Akureyri; Þorsteinn M. Jónsson
 • Himalajaförin eftir H. Queling – útg. 1938 - Akureyri; Þorsteinn M. Jónsson
 • Salamöndrustríðið eftir K. Capek – útg. 1946 – Reykjavík; Mál og menning
 • Fimm synir eftir Howard Fast – útg. 1954 – Reykjavík; Mál og menning
 • Saga af sönnum manni eftir B.Polevoj – útg. 1955 - Reykjavík; Mál og menning
 • Vegurinn til lífsins I eftir A. S. Makarenko – útg. 1957 - Reykjavík; Mál og menning
 • Vegurinn til lífsins II eftir A. S. Makarenko – útg. 1958 - Reykjavík; Mál og menning
 • Frú Lúna í snörunni eftir Agnar Mykle – útg. 1958 – Reykjavík; Bláfellsútgáfan

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta