Kambódía

ríki í Suðaustur-Asíu
(Endurbeint frá Kambodía)

Kambódía er land í Suðaustur-Asíu með landamæri að Taílandi í vestri, Laos í norðri og Víetnam í austri. Í suðri á landið strandlengju að Taílandsflóa.

Konungsríkið Kambódía
ព្រះរាជាណាចក្រកម្ពុជា
Preăh Réachéanachâkr Kâmpŭchea
Fáni Kambódíu Skjaldarmerki Kambódíu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
ជាតិ សាសនា ព្រះមហាក្សត្រ
Chéat, Sasna, Preăh Môhaksăt
Þjóð, trú, konungur
Þjóðsöngur:
Nokoreach
Staðsetning Kambódíu
Höfuðborg Phnom Penh
Opinbert tungumál Kambódíska
Stjórnarfar þingbundin konungsstjórn

Konungur Norodom Sihamoni
Forsætisráðherra Hun Manet
Sjálfstæði frá Frakklandi
 • Yfirlýst 1949 
 • Viðurkennt 9. nóvember 1953 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
88. sæti
181.035 km²
2,5
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
73. sæti
15.552.211
87/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 76,635 millj. dala (102. sæti)
 • Á mann 4.645 dalir (141. sæti)
VÞL (2019) 0.594 (144. sæti)
Gjaldmiðill ríal (KHR)
Tímabelti UTC+7
Þjóðarlén .kh
Landsnúmer +855

Opinbert nafn landsins á khmer er Preăh Réachéanachâkr Kâmpŭchea (umskrifað með latneskum bókstöfum), þ.e. Konungsríkið Kambódía. Í daglegu tali nefna landsmenn landið „Kampútsea“. Á vesturlöndum er hins vegar nafnið „Kampútsea - Kampuchea“ tengt stjórnatíma Rauðu khmeranna 1975–79.

Íbúafjöldi er rúmlega 13 miljónir.[1] Höfuðborg og jafnframt stærsta borg landsins er Phnom Penh.

Flestir íbúar Kambódíu eru theravada búddhistar en þar búa auk þess allmargir múslimar sem nefndir eru Cham, Kínverjar, Víetnamar og aðrir minnihlutahópar.

Landslag og atvinnulíf einkennist mjög af tveimur miklum vatnakerfum, Mekong-fljótinu og Tonle Sap-fljótinu. Fyrir utan að hrísgrjónaræktunin er mjög háð þessum vatnakerfum eru fiskveiðar í þeim ein aðalundirstaða í mataræði almennings.

Fyrir utan landbúnað og fiskiveiðar eru helstu atvinnugreinar í Kambódíu saumur á fatnaði til útflutnings, ferðaþjónusta og byggingarstarfsemi.

Íslenska nafnið Kambódía er komið af franska nafninu Cambodge sem er afbökun á nafni innlendra Kampútsea (stafað á ensku og frönsku og fleiri málum Kampuchea). Það þýðir afkomendur Kambu en það er samkvæmt fornri sköpunarsögu Khmera sjálfur forfaðir þeirra. Nafnið Kampútsea hefur verið notað í það minnsta frá 12. öld og er enn það nafn sem íbúarnir nota.

Á tuttugustu öld var oft skipt um opinbert nafn allt eftir stjórnmálaástandi hvers tíma. Meðan landið var undir franskri stjórn var það einungis hérað í Frönsku Indókína, protectorat français sur le Cambodge. Eftir sjálfstæðið árið 1953 hét landið opinberlega á frönsku Royaume du Cambodge (Konungsríkið Kambódía) fram til ársins 1970. Frá árinu 1970 fram til ársins 1975 kallaði stjórn Lon Nol landið République khmère (Lýðveldi Khmera).

Rauðu Khmerarnir kölluðu landið Kampuchéa Démocratique (Lýðræðislega Kampútsea) frá árinu 1975 fram til ársins 1979. Eftir innrás Víetnama árið 1979 og fram til árins 1989 kölluðu ráðamenn landið République populaire du Cambodge (Alþýðulýðveldið Kambódía). Frá árinu 1989 til árins 1993 hét landið État du Cambodge (Kambódíska ríkið). Og frá 1993 heitir það að nýju Royaume du Cambodge (Konungsríkið Kambódía).[2]

Í hátt í 2000 ár hefur menningarheimur suðaustur Asíu einkennst af sterkum straumum frá Kína annars vegar og Indlandi hins vegar. Lengi vel var Kambódía miðstöð í þessum menningarheimi, móttakandi áhrifa og umskapandi og áhrifavaldur. Allt frá hindúískum og búddískum konungsríkjum Funan og Chenla á fyrstu frá á áttundu öld eftir Krist og hinu mikla Angkor-veldi á níundu öld og fram að lokum fimmtándu aldra réðu valdamenn Kambódíu yfir stærsta hluta þess svæðis sem nú er Taíland, Víetnam og Laos. Khmer-veldið stóð sem hæst á 12. öld á stjórnartíma Jayavaram VII og má enn sjá merki þess í musterisbygginunum miklu í Angkor Wat og Bayon, hins vegar er ekki mikið eftir af höfuðborg ríkisins Angkor Thom sem á sínum tíma var stærsta borg í heimi.

 
Musterið Angkor Wat

Frá 16. öld fór veldi Kambódíu hnignandi og lögðu annars vegar konungar Taílands og hins vegar konungar Víetnam undir sig stóran hluta þess sem áður heyrði til landsins og var búið khmer-talandi íbúum. Seint á nítjándu öld og að hluta til rétt eftir aldamótin 1900 lögðu Frakkar undir sig landið og gerðu að nýlendu, hluta af svo nefndri Frönsku Indókína. Japanir hernámu landið í seinni heimstyrjöldinni. Síðan tók við margra áratuga barátta, fyrst fyrir sjálfstæði frá Frakklandi, sem náðist árið 1953. Þá tók fljótlega við borgarastyrjöld og barátta við bandarískt herlið í því sem nefnt hefur verið Seinna Indókínastríðið en þekktara er meðal almennings sem Víetnamstríðið. Helsti ráðamaður í Kambódíu á árunum frá árinu 1954 fram til árins 1970 var Sihanouk prins. Árin 1975 til 1979 réðu Rauðu khmerarnir (Khmer Rouge) yfir öllu landinu. Þetta var harðsnúin kommúnistahreyfing undir forystu Pol Pots sem ætlaði að hreinsa landið frá erlendum áhrifum og skapa jafnréttisríki sveitamanna. Sú umbyltingartilraun endaði með blóðbaði, áætlað er að minnsta kosti 1,5 milljónir kambódíumanna hafi verið drepnir eða dáið úr hungri og illri meðferð á valdatíma rauðu khmeranna [3] og býr landið enn að afleiðingum þessara hörmunga. Her Víetnama réðist inn í Kambódíu árið 1979 og tókst að hrekja Rauðu khmerana frá völdum en settu fylgismenn sína á valdastól. Skæruliðabardagar héldu þó áfram í stórum hluta landsins þar til Rauðu khmerarnir endanlega gáfust upp árið 1999. Í landinu ríkir nú formlega lýðræðislegt stjórnskipulag en þrátt fyrir miklar framfarir á mörgum sviðum er spilling af öllu tagi mikið vandmál á öllum sviðum þjóðfélagins.[4] Hun Sen hefur verið helsti ráðmaður Kambódíu allt frá innrás Víetnama 1979. Frá 1979 til 1990 var hann utanríkisráðherra en tók einnig við embætti sem forsætisráðherra árið 1985. Hann var forsætisráðherra til ársins 2023 en lét þá embættið ganga til sonar síns, Hun Manet.

Landfræði

breyta
 
Kort af Kambódíu

Kambódía er heldur stærra en Ísland að flatarmáli eða um 180.000 km², um 450 km frá norðri til suðurs og um 580 km frá austri til vesturs. Miðhluti landsins einkennist af mikilli setlagasléttu í kring um Tonle Sap vatnið og samnefnt fljót og efri hluta Mekongfljótsins. Í norður hækkar landið í um 500 m hæð í Dangrek fjallgarðinum þar sem landamærin við Taíland liggja. Austan við Mekong í norðri hækkar landið upp í skógi þakið fjallasvæði sem halda áfram inn í Laos og Víetnam. Í suðvesturhluta landsins eru tvö hálendissvæði, Krâvanh (Kardimommu) fjöllin og Dâmrei (Fíla) fjöllin. Fyrir norðaustan Fílafjöllin er hæsta fjall í Kambódíu, Phnom Aôral, sem rís í 1813 metra hæð. Mjótt láglendissvæði er meðfram Taílandsflóa.

 
Þorp við Tonle Sap á rigningartímanum

Vatnakerfi Mekong-fljóts og Tonle Sap-fljóts eru mjög afgerandi fyrir landslag og náttúru. Mekong-fljótið á upptök á hásléttu Tíbets og rennur út í Suður-Kínahaf, Khone fossarnir eru á landmærum Laos og Kambódíu og loka fyrir skipaferðir fyrir ofan og neðan fossana. Mekong-fljótið rennur í 510 km suður og síðan suðaustur í gengum Kambódíu. Mekong-fljótið og Tonle Sap-fljótið mætast við Phnom Penh. Á regntímanum, sem oftast stendur yfir frá miðjum maí fram í byrjun október eykst vatnsmagnið í Mekong svo gífurlega að straumur Tonle Sap-fljóts snýst við og vatnið rennur upp í vatnið Tonle Sap. Við það stækkar vatnið frá 3100 km², sem það er á þurrkatímum, upp í 7800 km². Þegar hættir að rigna snýst straumurinn við á nýtt. Þetta árlega fyrirbæri gerir vatnasvæði Tonle Sap að afar merkilegu og sérstöku lífríki. bæði er þar mikill fjöldi fiskitegunda og mikið magn af fiski.

Veðurfar

breyta

Monsúnvindar stjórna veðurfari í Kambódíu og eru þar tvær megin árstíðir. Frá miðjum maí fram í októberbyrjun er ráðandi suðvestan vindar sem bera með sér mikla úrkomu. Frá miðjum nóvember fram að miðjum mars er vindáttin einkum úr norðaustri og er þá oftast frekar léttskýjað og lítil úrkoma. Það er frekar heitt allt árið um kring, í kaldast mánuðinum, janúar, er meðalhiti um 28 °C og um 35 °C í apríl. Mikill munur er á úrkomu í landinu, um 5000 mm á fjallasvæðum suðvestanlands en einungis 1270–1400 mm á láglendissvæðinu í miðju landinu. Þrír fjórðu hlutar árlegar úrkomu fellur á rigningartímanum.

Lífríki

breyta
 
Fíll og tígrisdýr, teikning frá 1911

Láglendissvæðið sem nær yfir stóran hluta Kambódíu er að miklu leiti þakið hrísgrjónaökrum og annarri akuryrkju. Þar eru þó einnig skógarsvæði og graslendur. Eftir því sem hærra dregur taka við skógarsvæði og gresjur þar sem grastegundir vaxa sem ná allt að 1,5 m hæð. Hálendissvæðin í norðri og suðri eru þakin miklum skógum þar sem trén verða allt að 45 m á hæð.

Í skógarsvæðunum í norðaustur lifði til skamms tíma mikill fjöldi villtra dýra eins og á nálægum svæðum í Laos og Víetnam. Styrjaldir og óheft veiði hefur gengið hart á flest stofna dýra á þessu svæði. Þar má þó enn finna Asíu fíla (Elephas maximus), Indókínverska tígrisdýrið (Panthera tigris corbetti), hlébarðar (Panthera pardus), svartbirni (Ursus thibetanus), sólbirni (Helarctos malayanus), hinn risavaxna gáruxa (Bos gaurus) og fjöldi hjartardýrategunda. Nashyrningum, bæði af tegundunni Rhinoceros sondaicus og Dicerorhinus sumatrensis, er hins vegar búið að útrýma. í skógunum er að finna fjölda fuglategunda, meðal annars hinir villtu forfeður taminna hænsna, bankívahænsnin (Gallus gallus).

Íbúar

breyta

Andstætt öðrum löndum í Suðaustur-Asíu hefur yfirgnæfandi meirihluti íbúa Kambódíu (um 90 %)[5] sama móðurmál og telja sig til sömu menningar og eru þeir nefndir Khmer. Aðrir þjóðflokkar eru Víetnamar, Kínverjar, Cham (múslimar) og þar að auki allmargir hópar frumbyggja.

Tungumálið khmer sem er móðurmál flestra íbúa Kambódíu er eitt helsta mál í mon-khmer tungumálfjölskyldunni sem er undirætt af ástró-asísku tungumálaættinni. Af frumbyggjamálunum eru katu, mnong og stieng mon-khmer mál en jarai og rhade eru ástrónesísk.

Trúarbrögð

breyta
 
Búddha-munkar á bæn

Flestir af þjóð Khmera eru Theravada búddistar eða um 95 % íbúa. Fram að árinu 1975 var búddismi opinber ríkistrú í Kambódíu. Rauðu khmerarnir bönnuðu með öllu öll trúarbrögð og helgiathafnir og myrtu fjölda munka og eyðilögðu að mestu skipulag búddismans í landinu. Sú stjórn sem Víetnamar komu að völdum studdi búddisma þó svo að það væri mjög takmarkaður stuðningur en theravada búddismi var endurreist sem opinber ríkistrú árið 1993. En 20 ára lægð hefur verið erfið að yfirvinna, trúin er langt því frá jafn áhrifarík og hún var fyrir árið 1975 hvorki í heimssýn almennings né í menningar og menntamálum.

Frumbyggjaþjóðflokkarnir fylgja forfeðradýrkun og andatrú en Víetnamarnir og Kínverjarnir eru flestir fylgjandi mahayana-búddisma og dóisma. Einnig eru sumir Víetnamarnir kaþólskir eða fylgja Cao Dai. Minnihlutahópurinn Cham eru múslimar af sunní-gerð.[6]

Menntun

breyta

Sögulega séð hefur formleg menntun í Kambódíu einungis farið fram í búddamusterunum og þar með einungis ætluð karlmönnum. Samkvæmt hefð theravada búddista eiga allir karlmenn að helga sig trúnni um tíma og gerðu það allflestir drengir í nokkra mánuði þó svo að einungis fáeinir gerðust munkar ævilangt. Margir drengir fara enn í trúarnám í musteri þó það sé ekki nema nokkrar vikur eða mánuði.

Á tíma frönsku nýlendustjórnarinnar voru einungis fáeinir skólar í landinu og einungis miðaðir að börnum aðalsmanna og kennsla öll á frönsku. Það var hins vegar ekki fyrr en eftir að landið fékk sjálfstæði 1953 sem tekið var við að byggja upp nútíma skólakerfi þó svo að einungis lítill hluti barna færu í skóla.

Eftir valdatöku Rauðu khmeranna 1975 var öll formleg menntun lögð af, öllum menntastofnunum lokað og flestir kennarar drepnir og þeir sem undan komust flúðu flestallir land.

Það var því mikið átak að hefja uppbyggingu skólakerfisins að nýju á níunda og tíunda áratug tuttugustu aldar. Nú er svo komið að um 90% allra barna eru innrituð í sex ára skyldugrunnskóla en einungis um 50% þeirra ljúka skólaskyldunni. Enn færri halda áfram upp á mennta- og iðnskólastig.[7] Það er þó mikil uppbygging á öllum skólastigum. Á síðustu árum hefur sprottið upp fjöldi stofnana sem kalla sig háskóla en gæði kennslu í flestum þeirra er ekki sérlega mikil.

Ólæsi er enn mikið vandamál en samkvæmt könnunum eru nærri 40% allra kvenna eldri en 15 ára ólæsar og um 30% karla.[8]

Efnahagslíf

breyta
 
Hrísgrjónarækt

Kambódía er eitt af fátækustu löndum heims og um 40 % íbúa þéna undir fátækramörkunum 1,35 bandaríkjadollar á dag 2006.[9] Langflestir íbúar landsins lifa af landbúnaði og fiski og stunda um 70 % allra fullorðinna sjálfsþurftarbúskap.[10] Hrísgrjónarækt er þar í sérflokki, aðalfæða og var lengi aðalútflutningsvara. Hrísgrjónaakrar þekja stærstan hluta ræktaðs lands en talið er að einungis 13 % flatarmáli landsin sé ræktanlegt. Enn er að finna víða um land mikið magn af sprengjum frá Víetnamstríðinu svo nefnda og er það stórt vandamál í akuryrkju.

Um 1970 voru um þrír fjórðu hlutar alls lands í Kambódíu þaktir skógi en um árið 2000 hafði skóglendi minnkað í um það bil helming landsins.[11] Þrátt fyrir að yfirvöld reyni opinberlega að hindra og stjórna skógarhöggi er enn þá mikið höggvið af skógi á svæðunum nálægt Taílandi annars vegar og Víetnam hins vegar. Þetta er mikið vandamál og hluti af almennri spillingu í landinu.[12]

Kambódía hefur haft mikinn efnahagsvöxt síðasta áratuginn eða um 5 % á ári. Það er einkum textíliðnaður og ferðamannaþjónusta sem hefur vaxið. Textíliðnaðurinn er nánast eingöngu fatasaumur og var fataútflutningur 2008 94 % af heildarútflutningi landsins.[13] Stærsti hluti textíliðnaðar í Kambódíu er í eign kínverskra fyrirtækja en um tveir þriðjuhlutar framleiðslunnar er flutt út til Bandaríkjanna.

Ferðamannaþjónusta er í hröðum vexti og eru það einkum ferðamenn frá Suður-Kóreu og Víetnam á ferð en auk þess vaxandi fjöldi vesturlandabúa. Árið 2005 komu um 1,4 milljónir ferðamanna til landsins en árið 2008 komu 2,1 milljón. Langflestir þessara ferðamanna fara til Siem Reap til að skoða Angkor Wat en einnig margir á sólarstrendur í Sihanoukville.[14]

Samgöngur

breyta
 
Umferð á Þjóðvegi númer 1

Vegir í Kambódíu voru afar illa farnir eftir sprengjuárásir bandaríkjahers á sjötta og sjöunda ártug 20. aldar og ekki bætti skæruhernaður og borgarstyrjöld sem stóð allt fram á tíunda áratuginn. Aðalumferðaræðar hafa tekið miklum framförum síðustu tíu árin og eru nú helstu vegir malbikaðir og geta borið mikla umferð. Bílaeign vex ört þó svo að mótorhjól séu mun algengari, bæði til fólks og vöruflutninga. Meirihluti íbúa hafa þó engin vélknúin faratæki heldur fara fótgangandi eða nota reiðhjól.

Einungis tvær járnbrautir eru í landinu, hefjast þær báðar í Phnom Penh og gengur önnur til Sihanoukville en hin til Sisophon skammt frá landamærunum að Taílandi. Lestarnar fara stopult og eru á allan hátt óáreiðanlegar.

Vatnakerfi Mekong og Tonle Sap fljótanna hafa verið helstu flutningaleiðir landsins og gegna enn mikilvægu hlutverki. Mekong-fljótið er skipafært allt frá árósum í Suður-Kínahafi og upp að Khone Pha Pheng fossunum á landamærunum við Laos. Það fer þó allt eftir árstíma hversu stórum skipum er fært upp fljótin. Í Kambódíu eru tvær meginhafnir, Phnom Penh og Sihanoukville. Phnom Penh er þar sem fljótin Bassac, Mekong og Tonle Sap mætast. Höfnin þar getur tekið 8000 tonna skipum á rigningartímanum og allt að 5000 tonna skipum á þurrkatímanum.[15]

Í landinu eru fjórir stærri flugvellir. Sá stærsti er í Siem Reap í næsta nágrenni við Angkor Wat og þjónar hann yfirgnæfandi meirihluta ferðamanna til landsins. Pochentong flugvöllurinn í Phnom Penh er næst stærstur en flugvellirnir í Sihanoukville og Battambang eru mun minni.

Tilvísanir

breyta
  1. General Population Census of Cambodia 2008 - Provisional population totals, National Institute of Statistics, Ministry of Planning, released 3rd September, 2008
  2. Une brève histoire du Cambodge, höfundur François Ponchaud, útgefandi Siloë, ISBN 2-84231-417-4.
  3. Engar ábyggilegar heimildir um fjölda eru til um þetta og allar tölur eru byggðar á ágiskunum og líkum. Manntal hefur einungis farið fram þrisvar í sögu Kambódíu, 1962 og töldust íbúar þá vera 5,7 milljónir, 1998 og voru þeir þá 11,4 milljónir og síðast árið 2008 og voru íbúar þá orðnir 14,2 milljónir. Sjá [1] Geymt 7 mars 2016 í Wayback Machine National Institute of Statistics
  4. _sale_low_res_english.pdf Cambodia Country for Sale, skýrsla frá Global Witness[óvirkur tengill]
  5. CIA - The World Factbook
  6. Country Reports
  7. „UNESCO Institute for Statistics“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. september 2019. Sótt 3. maí 2016.
  8. Literacy for Life, EFA Global Monitoring Report, UNESCO, 2006, ISBN 92-3-104008-1
  9. Key Indicators for Asia and the Pacific 2008, ADB, ISSN 0116-3000
  10. „Caritas“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. júní 2013. Sótt 3. maí 2016.
  11. [2] Skýrsla FAO um skógi og timburframleiðslu
  12. „Cambodia's Family trees“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 31. október 2007. Sótt 3. maí 2016.
  13. Council for the Development of Cambodia
  14. „Statistics & Tourism Information Department, Ministry of Tourism“. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. febrúar 2002. Sótt 3. maí 2016.
  15. Evelyn Goh, Developing the Mekong: Regionalism and Regional Security in China – Southeast Asian Relations (Routledge, 2007). ISBN 978-0-415-43873-5

Tenglar

breyta