Pol Pot
Saloth Sar, betur þekktur sem Pol Pot, var fæddur 19. maí 1925 og dó 15. apríl 1998. Hann var leiðtogi Rauðu khmeranna í Kambódíu frá 1963 til 1979 og er þekktastur fyrir dauða óhemjumargs fólks í stjórnartíð sinni, sem var frá 1975 til 1979. Rauðu khmerarnir reyndu að framfylgja sýn sinni um samyrkjuvæðingu, en meðal þess sem hún átti að fela í sér var að borgarbúar flyttu út í sveitir og ynnu þar við landbúnað eða í betrunarvinnu. Þeir töldu sig geta byrjað siðmenninguna upp á nýtt og tóku því upp tímatal sem átti að hefjast með valdatíð þeirra. Sú valdatíð var ekki löng, en því mannskæðari. Þrælkunarvinna, vannæring, hrun í heilbrigðiskerfinu og beinar aftökur kostuðu á bilinu 750.000 - 1.700.000 manns lífið (sumir segja á bilinu 300.000 til 3.000.000) -- í landi sem hafði 14 milljónir íbúa árið 2006. Meðal þeirra sem voru ofsóttir voru menntamenn og aðrir „borgaralegir óvinir“, sem taldir voru hættulegir og andsnúnir umbreytingunum.
Pol Pot | |
---|---|
ប៉ុល ពត | |
Forsætisráðherra Hinnar lýðræðislegu Kampútseu | |
Í embætti 25. október 1976 – 7. janúar 1979 | |
Forseti | Khieu Samphan |
Forveri | Nuon Chea (starfandi) |
Eftirmaður | Pen Sovan (1981) |
Í embætti 14. apríl 1976 – 27. september 1976 | |
Forseti | Khieu Samphan |
Forveri | Khieu Samphan (starfandi) |
Eftirmaður | Nuon Chea (starfandi) |
Aðalritari miðnefndar Kommúnistaflokks Kampútseu | |
Í embætti 22. febrúar 1963 – 5. desember 1981 | |
Forveri | Tou Samouth (1962) |
Eftirmaður | Embætti lagt niður |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 19. maí 1928 Prek Sbauv, Kampong Thom, Kambódíu, franska Indókína |
Látinn | 15. apríl 1998 (72 ára) Anlong Veng, Oddar Meanchey, Kambódíu |
Stjórnmálaflokkur | Kommúnistaflokkur Kampútseu |
Maki | Khieu Ponnary (g. 1956–1979) Mea Son (g. 1986–1998) |
Börn | 1 |
Starf | Stjórnmálamaður, byltingarmaður |
Undirskrift |
Árið 1979 réðust Víetnamar inn í Kambódíu og komu Rauðu khmerunum frá völdum. Pol Pot slapp undan réttvísinni og flúði inn í frumskóg, þar sem hann bjó, í haldi annarra rauðra khmera sem höfðu steypt honum frá völdum innan hreyfingarinnar, þar til hann bar beinin 72 ára að aldri, af náttúrlegum ástæðum að því er sagt var.
Uppruni
breytaPol Pot var af sæmilega vel stæðu fólki kominn, og af kambódískum og kínverskum ættum, í Kambódíu, sem þá var frönsk nýlenda. Hann gekk í kaþólskan skóla í Phnom Penh sem barn, en komst til náms í París í Frakklandi eftir stríð. Þar lagði hann stund á rafmagnsfræði frá 1949 til 1953. Í Frakklandi komst hann í samband við víetnamska þjóðfrelsissinna og andheimsvaldastefnu franska kommúnistaflokksins, sem höfðaði mjög til hans.
Snýr heim
breytaHann stóð sig ekki vel í skóla, og eftir að hafa fallið í þrígang sneri hann heim til Kambódíu í ársbyrjun 1953. Þar tók hann það að sér fyrir félag sína sem enn voru í Frakklandi, að meta ýmsa uppreisnarhópa. Sá sem honum leist best á hét Khmer Viet Minh og var nátengdur Norður-Víetnam. Hann klofnaði árið 1954 og héldu allir Víetnamarnir aftur til Víetnams, ásamt nokkrum fjölda Kambódíumanna sem Víetnamar hugðust beita fyrir sig í frelsisstríði Kambódíu seinna meir. Hinn hópurinn, sem Pol Pot var í, varð eftir í Kambódíu.
Kambódía fékk sjálfstæði árið 1954. Stjórnmálaflokkarnir glímdu um völdin, en konungurinn, Norodom Sihanouk, tefldi þeim hverjum gegn öðrum — deildi og drottnaði. Hann beitti her og lögreglu til að bæla niður stjórnmálaöfl sem honum þóttu of öfgafull. Eftir kosningasvindl 1955 misstu margir vinstrimenn vonina um valdatöku eftir friðsömum og lýðræðislegum leiðum. Kommúnistaflokkurinn taldi sig þó ekki nógu sterkan til að geta hafið skæruhernað eða uppreisn. Á þessum tíma var Pol Pot tengiliður Demókrataflokksins og Pracheachon-flokksins við neðanjarðarhreyfingu kommúnista.
Kemst til metorða innan flokksins
breytaSumarið 1962 átti að halda þingkosningar, og í ársbyrjun voru helstu lykilmenn Pracheachon teknir fastir og útgáfa flokksins stöðvuð. Í júlí 1962 var ritari kommúnistaflokksins, Tou Samouth, svo handtekinn, og var drepinn meðan hann var í varðhaldi. Þar með var Pol Pot raunverulegur leiðtogi flokksins, og árið eftir var hann valinn ritari meiðnefndar hans. Þá var hann kominn í felur, því hann var eftirlýstur vegna stjórnmálastarfs síns. Hann leitaði til Norður-Víetnams eftir hæli og stuðningi.
Árið 1964 fékk Pol Pot Norður-Víetnamana til að hjálpa sér að koma upp bækistöðvum í Kambódíu. Síðan kom miðnefndin saman og gaf út yfirlýsingu þar sem hún kallaði eftir vopnaðri baráttu gegn ríkisstjórninni. Í yfirlýsingunni var lögð áhersla á að landið yrði „óháð“ öðrum löndum, sem má skilja sem sterka þjóðernisstefnu. Á meðan þróuðu Rauðu khmerarnir hugmyndafræði sína í bækistöðvunum við víetnömsku landamærin: Þeir sögðu skilið við marxískar hugmyndir og lýstu smábændur hina „sönnu“ vinnandi öreigastétt og hjarta byltingarinnar. Auk þess tileinkaði flokkurinn sér þætti úr Theravada-búddisma. Enginn miðnefndarmanna kom úr stétt verkalýðs, heldur voru þeir allir uppaldir í hálf-lénsku bændasamfélagi. Það kann að skýra áherslur þeirra.
Eftir ofsóknir af hálfu konungsins árið 1965, óx hreyfing khmeranna hratt, og fékk liðsauka frá mörgum, einkum úr menntastétt, sem flúðu borgirnar til að ganga til liðs við þá. Í apríl sama ár fór Pol Pot til N-Víetnam til að fá samþykki fyrir því að hefja beina uppreisn. Víetnamar neituðu að styðja hana, vegna samninga sinna við Kambódíustjórn. Þegar Pol Pot sneri aftur árið eftir, kallaði hann saman flokksfund sem tók ýmsar mikilvægar ákvarðanir. Meðal annars var nafninu breytt í Kommúnistaflokk Kampútseu (Kampútsea er annað nafn á Kambódíu). Einnig voru gerðar áætlanir um boðleiðir og svæðisbundinn undirbúning byltingarinnar. Snemma árs 1966 brutust út átök milli smábænda og stjórnvalda vegna hrísgrjónaverðs. Khmerarnir voru óviðbúnir, en átökin drógust á langinn svo þeir gátu á endanum nýtt sér þau.
Aðdragandi uppreisnarinnar
breytaSnemma árs 1967 ákvað Pol Pot að hefja uppreisnina, sama hvort Víetnamar samþykktu að veita henni virkan stuðning eða ekki. Hún hófst svo með árás á herstöð þann 18. janúar 1968. Það var í Battambang-héraði, sem hafði verið einn helsti vettvangur undangenginna átaka. Árásinni var hrundið, en khmerarnir tóku mikið magn vopna sem herfang, og notuðu þau svo til að stökkva lögreglunni á flótta frá þorpum. Sumarið 1968 byrjaði Pol Pot að breyta flokksskipulaginu frá sameiginlegri stjórn yfir í sterka leiðtogastjórn. Hann kom sér m.a. upp sérstökum vistarverum í bækistöðinni og sínum eigin lífvörðum.
Hreyfingin hafði ekki fleiri en 1500 óbreytta hermenn, en voru studdir margfalt meiri fjölda þorpsbúa, og þótt þeir væru illa vopnum búnir gátu þeir samt háð stríð í tólf af nítján héröðum landsins. Þeir tóku nýja stefnu í áróðri, og hættu að tjá andstöðu sína við konunginn sem slíkan, heldur beindu þeir spjótum sínum í staðinn að hægrisinnuðum stjórnmálaöflum.
Í janúar 1970 var Sihanouk konungur staddur erlendis og skipaði ríkisstjórn sinni að sviðsetja mótmæli gegn Víetnömum. Þau fóru úr böndunum, og var m.a. sendiráðum bæði N-Víetnam og S-Víetnam rústað af mótmælendum. Konungurinn fordæmdi þá mótmælin og kenndi ónafngreindum „öflum“ um að hafa verið á bak við þau. Þessi vanhugsaða leikflétta fékk ríkisstjórnina og þjóðþingið til að ákveða að setja konunginn af valdastóli. Samstarfi við Norður-Víetnama var rift í kjölfarið. Phạm Văn Đồng fór fyrir hönd N-Víetnama og átti fund við Sihanouk í Kína, þar sem hann féllst á að mynda bandalag við khmerana. Á sama tíma sömdu þeir við Pol Pot um að þiggja aðstoð N-Víetnama og vinna með konunginum. Þegar Pol Pot kom aftur til Kambódíu í maí 1970, færðist uppreisnin mjög í aukana. Í millitíðinni höfðu norður-víetnamskir hermenn ráðist á kambódíska hermenn og lagt stóran hluta landsins undir sig áður en þeir voru hraktir til baka.
Í október 1970 gaf miðnefndin út ályktun um að Kambódía skyldi verða fullkomlega óháð öðrum löndum og að Víet Minh hefðu svikið kambódíska kommúnista á sjötta áratugnum. Hún markar upphaf and-víetnamskrar stefnu sem átti eftir að einkenna stjórnartíð Pol Pot þegar hann seinna náði völdum. Það voru samt áfram norður-víetnamskir hermenn og suður-víetnamskir skæruliðar sem sáu um mestalla baráttuna við kambódísk stjórnvöld. Rauðu khmerarnir störfuðu næstum því eins og þeim til aðstoðar. Pol Pot nýtti tækifærið og fjölgaði í liði sínu, auk þess sem þjálfun og hugmyndafræðilegt uppeldi fengu meira vægi en verið hafði. Nýir liðsmenn voru teknir inn óháð uppruna sínum, en khmerarnir höfnuðu samt stúdentum (menntamönnum) og millistéttarbændum -- þótt forystumennirnir væru reyndar næstum allir úr þessum stéttum. Þeir eftirsóttustu voru fátækir smábændur.
Uppreisnin vinnur sigra
breytaSnemma árs 1972 fór Pol Pot um landið, þá hluta sem voru á valdi khmeranna og Víetnama, og hafði umsjón með 35.000 manna fastaher með 100.000 manna varaliði sem var að taka á sig mynd. Þeir fengu 5 milljón dollara styrk frá Kína á ári, til vopnakaupa og komu sér auk þess upp óháðum tekjum með gúmmíplantekrum. Jafnframt byrjuðu þeir að „jafna“ fólkið á yfirráðasvæði sínu: Allir bændur skyldu hafa yfir jafnstórum landskika að ráða; aukin áhersla var lögð á aga og samræmi; skartgripir voru bannaðir; þjóðernisminnihlutahópar (eins og Cham-þjóðin) voru látnir aðlagast kambódískri menningu, t.d. í klæðaburði o.fl. Almennt séð komu þessar aðgerðir sér vel fyrir fátæka bændur, en illa fyrir aðra, t.d. flóttamenn úr borgum.
Árið 1972 byrjuðu Víetnamar að draga lið sitt út úr átökunum við Kambódíustjórn. Pol Pot sendi út yfirlýsingu í maí 1973, þess efnis að einkaeign væri bönnuð og öll þorp skyldu skipulögð í sameignarkommúnum. Her khmeranna vann á. Á miðjum regntímanum árið 1973 gerðu þeir stórt áhlaup á Phnom Penh, sem stjórnarherinn hratt með miklu mannfalli hjá khmerum. En um mitt árið réðu þeir um tveim þriðju landsins og hálfum íbúafjöldanum. Þegar Víetnamar áttuðu sig á hvað þeir voru orðnir voldugir fóru þeir að koma meira fram við Pol Pot eins og jafningja.
Síðla árs 1973 ákvað Pol Pot að hefja það sem kalla má umsátur um höfuðborgina. Lokað var fyrir aðdrætti og náið var fylgst með öllum sem vildu fara út úr henni. Khmerarnir litu á umsátrið öðrum þræði sem nokkurs konar sóttkví, þar sem borgarbúarnir væru spilltir og gætu „smitað“ sveitafólk. Á sama tíma hófu þeir hreinsanir á yfirráðasvæðum sínum. Fyrrverandi embættismenn voru teknir fyrir, og einnig allir sem höfðu menntun, og margir lokaðir inni í þar til byggðum fangelsum. Cham-fólk gerði uppreisnartilraun til að reyna að verjast. Hún var bæld niður með mikilli hörku.
Þegar Rauðu khmerarnir höfðu tekið bæinn Kratie árið 1971, hafði þeim brugðið við að sjá hvað lífið þar var fljótt að fara í sama farveg og hafði verið -- það er að segja, að hverfa frá sósíalísku skipulagi. Eftir ýmsar tilraunir ákváðu þeir því að tæma borgirnar; reka borgarbúana út í sveitir og láta þá vinna þar á ökrum. Pol Pot skrifaði á þeim tíma: „Ef við færum allar þessar fórnir, og auðvaldið er samt áfram við völd, hver er þá tilgangurinn með byltingunni?“ Fjöldi fólks var rekinn frá Kratie og frá Kompong Cham árið 1973, og árið eftir rýmdu þeir Oudong, umtalsvert stærri borg. Á sama tíma hlaut stjórn Rauðu khmeranna viðurkenningu 63 af ríkjum heims, og munaði mjóu að hún tæki sæti Kambódíu hjá Sameinuðu þjóðunum.
Sigur í sjónmáli
breytaÍ september 1974 kallaði Pol Pot miðnefnd flokksins saman og kynnti henni hugmyndir sínar fyrir næstu skref baráttunnar. Í fyrsta lagi vildi hann rýma borgirnar fljótlega eftir sigurinn, sem nálgaðist. Í öðru lagi skyldu peningar verða teknir úr umferð. Loks skyldu víðtækar hreinsanir eiga sér stað. Fyrr á árinu hafði háttsettur maður innan flokksins, að nafni Prasith, verið hreinsaður úr honum — með því að fara með hann út í skóg og skjóta hann, án þess að gefa honum neitt tækifæri til að verja mál sitt. Eftir það var fjöldi annarra hreinsaður með ýmsum hætti — og flestir áttu það sameiginlegt að vera af taílensku bergi brotnir.
Í janúar 1975 bjuggu Rauðu khmerarnir sig undir lokaatlögu gegn ríkisstjórninni. Á blaðamannafundi í Beijing kynnti bandamaður þeirra, Sihanouk konungur, sérstakan „dauðalista“ Pol Pots — með nöfnum þeirra sem yrðu teknir af lífi eftir sigurinn. Það voru 23 nöfn, þar á meðal allir æðstu leiðtogar ríkisstjórnarinnar og hersins. Nú kom líka samkeppnin milli Víetnamanna og Kambódíumannanna aftur upp á yfirborðið; Norður-Víetnömum var mikið kappsmál að vinna Saígon áður en Rauðu khmerarnir ynnu Phnom Penh, og töfðu meira að segja vopnasendingar til Khmeranna í því skyni. Í september 1975 skipaði ríkisstjórnin nýtt ríkisráð, sem hún fól að semja við Rauðu khmerana um uppgjöf. Fyrir ráðinu fór Sak Sutsakhan, sem var tvímenningur við Nuon Chea, aðstoðarritara khmeranna. Viðbrögð Pol Pot voru þau að bæta öllum í ríkisráðinu við dauðalistann sinn. Loks féll ríkisstjórnin og lagði niður vopn þann 17. september 1975.
Hin lýðræðislega Kampútsea
breytaRauðu khmerarnir tóku Phnom Penh þann 17. apríl 1975. Ný ríkisstjórn var mynduð og nafni landsins breytt: Hin lýðræðislega Kampútsea skyldi það heita. Sihanouk konungur var aftur settur á hásætið, þótt hann væri valdalaus. Skipað var fyrir, að Phnom Penh skyldi rýmd í snatri, ásamt öðrum stærri borgum. Sú skýring var gefin að von væri á loftárásum frá Bandaríkjamönnum. Þótt rýming borga hafi staðið yfir í mörg ár, var Phnom Penh svo miklu stærri að það gerbreytti aðstæðum og erfiðara var að hýsa, fæða og klæða þennan mikla fjölda borgarbúa til sveita. Þar sem verkalýður í borgum — sem marxistar telja vera byltingaraflið — var frekar fámennur í Kambódíu, tóku Rauðu khmerarnir þá maóísku stefnu upp, að líta á fátæka bændur sem undirstöðu byltingarinnar. Þess vegna sáu þeir lífið til sveita í miklum ljóma og vildu að þannig skyldu allir lifa.
Ofsóknir hófust gegn búddamunkum, fólki með vestræna menntun (fyrir utan flokksforystuna), fólki með menntun almennt, fólki með tengsl við Vesturlönd eða Víetnam, fólki sem leit út fyrir að vera menntað - t.d. sem notaði gleraugu, gegn fötluðum og lömuðum og gegn minnihlutahópum, t.d. fólki sem var ættað frá Kína, Laos eða Víetnam. Sumir voru lokaðir inn í hinum alræmdu S-21 búðum til yfirheyrslu, sem gjarnan fól í sér pyntingar, aðrir voru einfaldlega teknir af lífi. Margir þeirra voru ásakaðir um að vinna fyrir CIA, KGB eða Víetnam. Talið er að um 17.000 manns hafi mátt dúsa í S-21, en aðeins er vitað um 12 sem lifðu dvölina af.
Mannfall
breytaÁrið 1976 voru landsmenn flokkaðir í (a) fólk með full réttindi, (b) fólk sem hafði von um að öðlast full réttindi og (c) ómaga. Þeir síðastnefndu voru kallaðir svo vegna þess að þeir höfðu flestir verið settir niður á sveitirnar eftir að hafa verið reknir frá borgunum. Þeim síðastnefndu voru skammtaðar tvær skálar af hrísgrjónasúpu á dag, svo þeir voru við hungurmörk. Í ríkisútvarpinu tilkynntu khmerarnir að aðeins þyrfti tvær milljónir fólks til að manna landið eins og þeir sáu það fyrir sér. Annarra yrði ekki saknað. Þegar fólk var tekið af lífi var það oft látið taka sína eigin gröf fyrst, og síðan ráðinn bani með bareflum til þess að spara kúlur. Ofsóknir gegn minnihlutahópum færðust líka í vöxt: Öll trúarbrögð voru bönnuð og minnihlutahópum var tvístrað og bannað að stunda menningu sína. Khmerarnir neituðu að þiggja neyðaraðstoð, og varð það síst til þess að bæta ástandið.
Reynt var að gera sem flest sameiginlega: Sameignarskipulagi var komið á, skólar voru reknir með samvinnuskipulagi, börn voru alin upp sameiginlega og máltíðir voru etnar sameiginlega. Stjórn Pol Pot var mjög vör um sig og umbar enga andstöðu. Fólk var metið sem andstæðingar eftir útliti sínu eða stöðu. Þúsundir stjórnmálamanna og embættismanna týndu lífi. Phnom Penh breyttist í draugaborg, á meðan fólk til sveita byrjaði að stráfalla vegna hungurs, sótta og beinna aftaka.
Það er deilt um hversu margir létu lífið í borgarastríðinu, hreinsununum eða seinna vegna innrásar Víetnama. Þeir eru til sem segja 300.000 hafa dáið, en varfærnislegar ágiskanir eru frá 750.000 upp í rúmlega 1½ milljón. Tvær til þrjár milljónir heyrast líka nefndar. Eftir á var haft eftir Pol Pot sjálfum að 800.000 hefðu látist, og hann var ekki líklegur til að ýkja fjöldann.
Hugmyndafræðin
breytaPol Pot tileinkaði sér blöndu af ýmsum róttækum hugmyndum, sem hann kallaði „Anka-kenninguna“. Hún var aðlöguð að þjóðernishyggju khmera-þjóðarinnar. Hann sá fyrir sér þjóðfélag jafningja sem lifðu á frumstæðum landbúnaði og taldi að alla nútímatækni bæri að banna, nema þá sem flokksforystan hefði beinlínis leyft. Með því að snúa aftur til jarðyrkju, átti fólkið að „hreinsast“ sem heild og verða grundvöllur fyrir kommúnískt þjóðfélag sem á endanum gæti aftur tekið nútímatækni í þjónustu sína. Hann skipaði Kambódíu í sveit með Kína í alþjóðastjórnmálum, en það var frekar af praktískum ástæðum: Keppinauturinn Víetnam var í bandalagi við Sovétríkin, svo bandalag við Kína var gagnlegt mótvægi fyrir Kambódíumenn.
Árið 1976 hætti Sihanouk sem konungur. Mönnum ber ekki saman um hvort hann ákvað sjálfur að hætta eða var látinn gera það, en hann hélt áfram að þjóna stjórnvöldum, m.a. með því að tala máli þeirra fyrir Sameinuðu þjóðunum þegar Víetnam réðst inn. Pol Pot gerðist forsætisráðherra, en Khieu Samphan varð forseti.
Í desember 1976 lýsti Pol Pot því yfir við aðra leiðtoga landsins, að Víetnamar skyldu skoðast sem óvinir. Varnir við landamærin voru styrktar og fólki sem stjórnvöld treystu ekki skipað að flytja lengra inn í landið. Þessar aðgerðir voru viðbrögð við ályktun á fjórðu ráðstefnu Kommúnistaflokks Víetnams, um „sérstakt samband“ Víetnams við Kambódíu og Laos og „hlutverk“ Víetnams í uppbyggingu og vörnum landanna tveggja.
Átök við Víetnam
breytaSamskiptin við Víetnama fóru versnandi á árinu 1977. Í byrjun árs svöruðu Kambódíumenn þreifingum á landamærunum, svo skærur hlutust af. Þeir reyndu að semja, en það gekk illa og átökin jukust. Þann 30. apríl hélt kambódíski herinn yfir landamærin til Víetnam, studdur af stórskotaliði. Þetta kann að hafa verið ætlað sem ógnun, en vakti í staðinn reiði landsmanna og stjórnvalda í garð Rauðu khmeranna. Í maí gerði víetnamski flugherinn loftárásir á Kambódíu. Eftir að hafa þvingað Laos í „vináttubandalag“ í júlí, þá fengu Víetnamar mjög umfangsmikil völd í landinu og Kambódíumenn bjuggust við að vera næstir í röðinni. Yfirmenn í hernum byrjuðu að segja undirmönnum sínum að vera við öllu búnir. Kambódíumenn bjuggust til þess að hertaka hluta af Víetnam, sem áður höfðu verið hlutar af Kambódíu, ef til stríðs kæmi - einkum héraðið Khmer Krom, þar sem íbúarnir börðust fyrir sjálfstæði undan Víetnam.
Í september 1977 réðst allstór herdeild frá Kambódíu inn í Víetnam og skildi eftir sig slóð eyðileggingar. Víetnamar sögðu yfir 1.000 manns hafa fallið eða særst. Þrem dögum seinna lýsti Pol Pot því fyrst yfir opinberlega að Kommúnistaflokkur Kampútseu væri kominn upp á yfirborðið og að landið væri kommúnistaríki. Í desember þóttust Víetnamar ekki eiga aðra kosti en að svara fyrir sig, og sendu 50.000 manna her inn í Kambódíu. Innrásinni var hrundið. Víetnamar hétu því að snúa aftur, með tilstyrk Sovétmanna. Þeir höfðu ætlað innrásinni að fara lágt, en Pol Pot nýtti sér sigurinn í áróðursskyni til þess að láta andstæðinginn lít út fyrir að vera veikari en hann var. Víetnamar reyndu að fá Kínverja til að þrýsta á Kambódíumenn, en þegar þeir neituðu, og eftir aðra misheppnaða lotu af samningaviðræðum, komust Víetnamar að þeirri niðurstöðu að þeir yrðu að búa sig undir stórt stríð.
Stjórnin fellur
breytaSíðla árs 1978 réðust Víetnamar inn í Kambódíu með það fyrir augum að steypa stjórn Rauðu khmeranna. Á undan höfðu gengið hótanir og heitingar, svo Víetnamar sögðust vera í sjálfsvörn. Þó varð fljótlega ljóst að Víetnamar ætluðu sér meiri og lengri áhrif í landinu en þeir létu uppi. Kambódíski herinn tapaði, stjórnin féll og Pol Pot flýði til landamæra Taílands. Í janúar 1979 komu Víetnamar upp nýrri ríkisstjórn undir Heng Samrin. Sú stjórn samanstóð að mestu af Rauðum khmerum sem höfðu flúið land undan hreinsunum og ofsóknum. Á meðan endurskipulagði Pol Pot lið sitt á landamærasvæðunum. Herforingjastjórnin í Taílandi umbar umsvif Khmeranna, og notaði þá sem nokkurs konar stuðara til að halda víetnamska hernum frá landamærunum. Loks tókst Pol Pot að koma upp kröftugum sveitum á nýjan leik, með stuðningi Kínverja — sem háðu sitt eigið stríð við Víetnama um sömu mundir.
Á komandi árum reyndi Víetnamar að halda afgangnum af liði Pol Pot í skefjum, en reyndu ekki að eyða þeim. Þeir gátu nefnilega nýtt sér ógnina af þeim til að réttlæta áframhaldandi hersetu í Kambódíu. Þó héldu Rauðu khmerarnir áfram sæti sínu hjá Sameinuðu þjóðunum, því Vesturveldin vildu ekki fallast á að viðurkenna leppstjórn Víetnama í Kambódíu, og þar með stjórn kommúnista í Víetnam sjálfu.
Eftirleikurinn
breytaBandaríkjastjórn var andvíg innrás Víetnama í Kambódíu og studdu tvær andspyrnuhreyfingar þar á níunda áratugnum. Þær mynduðu bandalag við Rauðu khmerana, þrátt fyrir mjög ólíkar hugmyndir. Bandalagið var kallað Samsteypustjórn lýðræðislegrar Kampútseu. Rauðu khmerarnir nutu ennþá stuðnings Kínverja, og gagnrýnendur Bandaríkjastjórnar sögðu hana veita þeim óbeinan stuðning með því að styðja bandamenn þeirra, fyrir utan að leyfa þeim að halda sæti sínu við Sameinuðu þjóðirnar. Í desember 1984 gerðu Víetnamar stórt áhlaup á búðir Rauðu khmeranna og hinna uppreisnarhópanna, sem urðu fyrir þungum skakkaföllum.
Pol Pot flúði þá til Taílands og bjó þar í sex ár. Bækistöðva hans var gætt af taílenskum sérsveitarmönnum. Hann sagði sig opinberlega úr flokknum 1985, en hélt áfram að vera burðarásinn í honum og í and-víetnömsku andspyrnuhreyfingunni þótt daglegur rekstur hreyfingarinnar væri í höndum félaga hans, Son Sen.
Árið 1986 fæddist honum dóttirin Sitha. Árin 1986-1988 dvaldi hann löngum í Kína, þar sem hann sótti sér lækningar vegna krabbameins.
Víetnamar hurfu frá Kambódíu árið 1989 og Rauðu khmerarnir komu sér upp nýjum bækistöðvum í landinu, vestan við taílensku landamærin. Pol Pot sneri líka aftur, og neitaði að taka þátt í samningaviðræðum eða friðarferli, heldur hét því þess í stað að halda vopnaðri baráttu áfram gegn nýju ríkisstjórninni. Þeir litu svo á að forsætisráðherrann, Hun Sen, ætlaði sér hreint ekki að deila völdunum, hvað þá að afsala sér þeim. Rauðu khmerarnir héldu stjórnarhernum í skefjum til 1996, en þá fór að bera á liðhlaupi. Þar sem hreyfingin í heild vildi ekki semja um frið, þá tók ríkisstjórnin þá stefnu að semja við einstaklinga eða hópa innan hennar í staðinn.
Árið 1995 fékk Pol Pot heilablóðfall, og lamaðist í vinstri helmingi líkamans.
Þann 10. júní 1997 fyrirskipaði Pol Pot að Son Sen skyldi tekinn af lífi fyrir samningaviðleitni við stjórnvöld. Það var gert, og ellefu fjölskyldumeðlimir hans voru drepnir í leiðinni. Pol Pot neitaði að hafa gefið skipanir um þetta, en flúði til annarra bækistöðva, þar sem hann var handtekinn seinna af Ta Mok, einum af foringjum Rauðu khmeranna. Í nóvember 1997 voru haldin sýndarréttarhöld þar sem hann var dæmdur í ævilangt stofufangelsi fyrir dauða Son Sen.
Dauði
breytaAðfararnótt 15. apríl 1998 kom tilkynning um að Rauðu khmerarnir hefðu samþykkt að afhenda alþjóðlegum stríðsglæpadómstól Pol Pot. Hins vegar hefði hann andast í svefni síðar sömu nótt, á meðan hann beið þess að verða fluttur annað. Ta Mok hélt því fram að hjartað hefði gefið sig, en líkið var brennt áður en yfirvöld fengu að kryfja það eða skoða. Grunur leikur því á að hann hafi svipt sig lífi.
Sjá einnig
breytaTenglar
breyta- „Pol Pot: Svipmynd af fjöldamorðingja“. Lesbók Morgunblaðsins. 30. ágúst 1980. bls. 4-5; 16.