Reiðhjól, oft einfaldlega kallað hjól, er farartæki sem knúið er áfram af vöðvum hjólreiðamannsins. Hjólreiðar eru stundaðar sem ferðamáti, sem íþrótt, og til afþreyingar og útivistar. Reiðhjól komu fram á sjónarsviðið á fyrri hluta 19. aldar og hafa síðan haft mikil áhrif á samfélagsþróun. Þau eru nú helsti samgöngumáti fólks í mörgum heimshlutum, en þau eru líka notuð sem líkamsræktartæki, sem leikföng, við lögreglustörf og sendlastörf og í íþróttakeppnum. Margar nýjungar í hönnun reiðhjóla hafa nýst við þróun annarra samgöngutækja (eins og bifreiða) til dæmis kúlulegan, uppblásin gúmmídekk, keðjuhjólið og teinagjörðin.

Skýringarmynd sem sýnir íslensk heiti á hlutum reiðhjóls.

Þegar hjólað er á litlum hraða, til dæmis 1-15 km/klst, er reiðhjólið orkusnjallasta farartæki sem er almennt í boði. [1][2] Samanburðarrannsóknir sem hafa fylgst með venjulegu fólki yfir áratugi og borið saman heilsufar og dánarlíkur hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem hjóla til samgangna lifa talsvert lengur. Dánarlíkur á tímabilinu voru 30% lægri hjá þeim sem hjóla en öðrum eftir að hafa leiðrétt fyrir ýmsar aðrar breytur svo sem aðra líkamsrækt, samfélagsstöðu, kyn og fleira. [3][4]

Ökutæki sem eru í grunninn hönnuð eins og reiðhjól en hafa hjálparvél eru flokkuð sem tegund af reiðhjólum, kölluð pedelecs á ensku, en sú flokkun er háð nokkrum skilyrðum samkvæmt tilskipun ESB, 2002/24. Skilyrðin eru að vélin sé bara virk ef stigið er á fótstigin, hámarksafl vélar sé 250W, og ennfremur minnki aflið úr vélinni eftir því sem hraðinn eykst, uns vélin veitir enga aðstoð við 25 km hraða á klukkustund. Rafmagnsreiðhjól með vél sem ber reiðhjólið áfram án þess að stíga þurfi á fótstigin eru þá skilgreind sem létt bifhjól.

 
Hjól sem gekk undir nafninu velociped eða veltipétur á Íslandi (úr dönsku: veltepetter).

Fyrsta hjólið þar sem tveimur teinahjólum var raðað í eina grind var fundið upp af þýska fríherranum Karli Drais sem fékk einkaleyfi á því árið 1818. Það var ekki með fótstigi heldur knúið áfram með því að spyrna fótunum í jörðina. Hægt var að snúa fremra hjólinu með stýri. Drais kallaði hjólið „hlaupavél“ (Laufmaschine). Fyrsta fótstigna reiðhjólið kann að hafa verið smíðað af skoska járnsmiðnum Kirkpatrick MacMillan árið 1839, þótt það sé umdeilt. Á 7. áratug 19. aldar bættu Pierre Michaux og Pierre Lallement við fótstigi sem fest var á sveifar við framhjólið sem var stærra en afturhjólið (veltipétur). Fyrsta reiðhjólið með keðjudrifi á afturhjólinu kom á markað í Bretlandi árið 1885.

Seint á 19. öld bættust síðan við nýjungar á borð við uppblásna hjólbarða og fríhjólið sem gerði það mögulegt að renna sér á hjólinu án þess að taka fæturna af fótstiginu, auk afturbremsunnar. Undir lok aldarinnar komu gírahjól og handbremsur fram á sjónarsviðið. Um aldamótin 1900 voru mörg hjólreiðafélög starfrækt í Evrópu og Norður-Ameríku og hjólreiðar urðu vinsæl íþrótt auk þess sem reiðhjólið varð sífellt mikilvægara samgöngutæki eftir því sem vegir bötnuðu.

Eins gíra hjól voru algengust á fyrri hluta 20. aldar en um miðja öldina komu fram léttari þriggja gíra hjól með nafargírum. Slík hjól voru oft með dýnamóljósum, glitaugum og standara. Um 1970 jukust vinsældir reiðhjóla sem samgöngutækis mikið, sérstaklega í kjölfar alþjóðlegu olíukreppunnar. Snemma á 8. áratugnum urðu BMX-hjól vinsæl meðal táninga í Bandaríkjunum. Reiðhjól úr álblöndu urðu fyrst vinsæl um miðjan 9. áratuginn og skömmu síðar komu reiðhjól með stell úr koltrefjum á markað. Fyrsta fjallahjólið kom á markað árið 1981 og það var orðið mest selda reiðhjólategundin í Bandaríkjunum um aldamótin 2000.

Saga reiðhjólsins á Íslandi

breyta

Knud Zimsen segir frá því í endurminningum sínum, að Guðbrandur Finnbogason verslunarstjóri hafi átt fyrsta reiðhjólið, sem kom til Íslands. Hjólagrindin var úr járni, en hjólin úr tré með járngjörðum. Ekkert drif var á því, og þess vegna ekki hægt að hjóla upp í móti. Þetta hjól er nú á Þjóðminjasafninu. Guðmundur Sveinbjörnsson átti annað hjól af svipaðri gerð. 1892-1893 bættust tvö önnur hjól við, átti Teitur Ingimundarson úrsmiður annað, en Elías Olsen bókhaldari hitt. Var framhjólið á því mjög stórt, en aftari hjólið sáralítið. Tók það hinum mjög fram, enda safnaðist fólk saman til að horfa á hann aka á því umhverfis Austurvöll. Þessi hjól voru kölluð veltipétur eða Velociped. Og í blaðagrein einni hraðfóti. [5] [6] Keppni í hjólreiðum var haldin á þjóðhátíð í Reykjavík 1898 og hjólað frá Melshúsi á SeltjarnarnesiBræðraborg. Þrír tóku þátt[7]. Upp úr aldamótunum 1900 fengust bresk (Humber m.m.), þýsk (Holsatia) og bandarísk (Laclede) reiðhjól í ýmsum verslunum og var talið að reiðhjól í Reykjavík skiptu hundruðum [8].

Fyrstu sérverslanir og verkstæði fyrir reiðhjól á Íslandi urðu til á millistríðsárunum með stofnun Fálkans 1916, Arnarins 1925 og Óðins 1930. Fálkinn hóf sölu á reiðhjólum undir eigin merki 1916, en hjólin voru að mestu framleidd í Danmörku og samsett á Íslandi. Í Síðari heimsstyrjöld hóf Fálkinn eigin framleiðslu á reiðhjólum sem stóð fram á 6. áratug 20. aldar.[9]

Ýmsar hjólategundir

breyta

Tilvitnanir

breyta
  1. "Johns Hopkins Gazette", 30. ágúst 1999
  2. Whitt, Frank R.; David G. Wilson (1982). Bicycling Science (Second edition. útgáfa). Massachusetts Institute of Technology. bls. 277–300. ISBN 0-262-23111-5.
  3. "Archives of Internal Medicine", 2000
  4. Andersen, Lars Bo (2000). „All-Cause Mortality Associated With Physical Activity During Leisure Time, Work, Sports, and Cycling to Work“. American Medical Association: 1621–1628. ISSN 0003-9926.
  5. Reiðhjólið; grein í Fálkanum 1946
  6. Aflfræði-nýjungar síðustu 10 árin; grein í Nýju öldinni 1899
  7. Þjóðminningarhátíðir. Ísafold 3/8 1898. s. 194.
  8. Reiðhjólin. Ísafold 14/7 1904. s. 187.
  9. „Óskar Dýrmundur Ólafsson (2008). Reiðhjólið á Íslandi í 100 ár. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. maí 2015. Sótt 9. júní 2015.

Tenglar

breyta


   Þessi íþróttagrein sem tengist tækni er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.