Mahāyāna
Mahajana eða Mahayana er orð úr sanskrít sem þýðir „farið mikla“, „stóri vagninn“ eða „hin mikli farkostur“ og er ein af tveimur aðalgreinum búddismans, en hin er Theravada. Hefðirnar tvær skildust að á fyrstu öld eftir Krist, en kenningarnar sem einkenna mahajana voru settar fram þegar á fjórðu öld f.Kr.
Mahajana-hefðin heitir á sanskrít महायान 'mahāyāna, kínversku: 大乘, Dàshèng; japönsku: 大乗, Daijō; kóreönsku: 措铰, Dae-seung; víetnömsku: Đại Thừa; tíbetönsku: theg-pa chen-po og á mongólsku: yeke kölgen.
Mahajana er ekki ein samstæð kenning eða trúfélag heldur fremur samheiti yfir margar ólíkar hefðir og einkennist af fjölmörgum kenningum og heimspekilegum hugmyndum. Fyrir utan það safn kenninga Búdda sem nefnt er Tripitaka-textarnir hafa hinar ýmsu hefðir innan mahajana fjölmörg önnur helgirit og túlkanir sem eru allfrábrugðnar og sumar andstæðar sameiginlegum grundvallarritum búddismans
Grundvallarkenningin sem aðskilur mahajana frá theravada-hefðinni er kenningin um shunjata, „eðli tómleikans“. Shjunjata er túlkun á einni af grunnhugmyndum alls búddisma, kenningunni um anatman eða anatta. Samkvæmt þessari kenningum er ekki til neitt eiginlegt „sjálf“ eða „sál“ sem sé sé kjarni einstaklingsins á mismunandi tilverustigum.
Samkvæmt theravada-hefðinni ber að skilja anatman þannig að sjálfsmeðvitun og persónuleiki séu fjötrar og blekking. Þegar einstaklingurinn hefur losnað undan þessari blekkingu losnar hann undan hringrás endurfæðingar og dvelur í nirvana.
Samkvæmt mahajana-hefðinni hafa hvorki lífverur né önnur fyrirbæri sjálfstæða tilveru en fá form og einkenni í samspili við önnur fyrirbæri. Shunjata er hinn hreini raunveruleiki allra hluta, fyrirbæra og lífvera án birtingarforms og einkenna. Fyrir mahayana-búddista er það miklu virðingarmeira og eftirsóknarverðara að gerast bodhisattva en verða arhat og ná nirvana sjálfur sem er kjarni Theravada-kenningarinnar. Bodhisattva er sá sem er upplýstur en kýs að fresta nirvana og í þess stað velur að aðstoða aðra í andlegri þróun. Hann rýfur því ekki samsara heldur áfram að vera í hringrás endurfæðingarinnar.
Í viðbót við Tripitaka-textana nota mahayana-búddistar allmarga seinni tíma helgitexta, allflestir þeirra skráðir um ár 100 e.Kr. Mahayana-búddistar nota hugtök úr indverska tungumálinu sanskrít og helgirit þeirra, ásamt Tripitaka, eru upphaflega á því tungumáli. Þar að auki eru ýmsar greinar innan mahayana sem nota hugtök úr öðrum málum. Innan mahayana eru margar greinar sem hafa mjög mismunandi túlkun á ýmsum atriðum kenningarinnar og aðferðum að uppná uppljómun. Má þar nefna ýmsar vajrayana-greinar sem einkennast mjög af dulúð og leyndardómum, tíbetskan búddisma sem hefur orðið fyrir miklum áhrifum frá vajrayana, zen (sem heitir Tjan á kínversku og sön á kóresku) sem einkum snýst um hugleiðslu, og grein hins Hreina lands sem treystir helst á aðstoð búddans Amitabha við að ná nirvana.
Mahayana-greinar búddisma eru megintrú eða mikilvæg trúarbrögð í Japan, Kína, Kóreu, Mongólíu og Víetnam.
Heimildir
breyta- Coogan, Michael D. (ritstj.), The Illustrated Guide to World Religions (Oxford: Oxford University Press, 2003). ISBN 1-84483-125-6.
- Lopez, D., Prisoners of Shangri-La: Tibetan Buddhism and the West (Chicago: University of Chicago Press, 1998).
- Schumann, Hans W., Handbuch Buddhismus: Die zentralen Lehren – Ursprung und Gegenwart (München: Diederichs, 2000). ISBN 3-7205-2153-2.
- Stee Hagen, Buddhism Plain and Simple (Broadway, 1998). ISBN 100767903323