Theravada-búddismi

(Endurbeint frá Theravada búddismi)

Theravada eða teravada (ath. að framburðurinn er aldrei þeravaða, tannmælt önghljóð, það er þ og ð, eru ekki til í neinum af þeim helstu málum sem notuð eru þar sem theravada-hefðin er ríkjandi, (palí, helgimálið), singalíska, taí, laoska og khmer) (á palí: theravāda; á sanskrít: स्थविरवाद sthaviravāda; , „kenning öldunganna“, eða „hin forna kenning“) er elsta trúarhefð búddista og hefur um aldir verið helsta trú íbúa Sri Lanka (um 70% íbúa fylgja þessari trúarhefð[1]) og einnig í flestum meginlandslöndum suðaustur Asíu, (Kambódíu, Laos, Mjanmar og Taílandi). Minnihlutahópar í suðaustur Kína og í Víetnam auk fleiri landa fylgja einnig þessari trúarhefð búddista. Endurvakning búddisma á Indland á síðustu áratugum hefur mjög aukið fjölda áhanganda en þeir eru taldir vera yfir 100 miljónir samanlagt. Önnur aðalgrein búddismans nefnist mahayana.

Dhamma-hjólið, tákn búddismans

Theravāda-trúarhefðin á rætur í þeim hópi sem nefndur er Vibhajjavāda[2]sem mótaðist um árið 250 f.Kr. á stjórnartíma Asoka keisara á Indlandi. Hugtakið „theravada“ er dregið af sanskrítarnafninu Tāmraparnīya, sem þýðir „Sri Lanka-arfleiðin“. Það er ekki með öllu ljóst hvenær farið var að kenna þessa hefð við Sri Lanka en fylgjendur hennar telja hana hafa mótast við þriðja þing búddista sem haldið var ár 250 f.Kr.

 
Munkar á pílagrímaferð.

Þar sem sanskrít var og er notað sem helgimál var hefðin upphaflega nefnd sthaviras en þeir sem nota palí kölluðu hana theras. Orðin „sthaviras“ (á sanskrit) og „theras“ (á palí) þýða bókstaflega öldungarnir.

Samkvæmt söguhefðinni var það Mahinda, einn af sonum Asoka Indlandskeisara, sem fyrstur boðaði búddisma á Sri Lanka á þriðju öld fyrir Krist. Eitt af því sem Mahinda gerði var að stofna þá munkareglu sem eru upphaf allra munkareglna í Theravada-búddisma.

Asoka keisari er einnig sagður hafa sent trúboða til lands sem nefnt var Suvannabhumi. Ekki ber sagnfræðingum saman um hvar þetta land var en það hefur verið á því svæði sem nú er láglendissvæði Burma, Taílands, Laos, Kambódíu eða Malaysíu.

Vitað er að sú þjóð er nefnd er Mon og búsett var á láglendissvæði núverandi Burma snerist til theravada-búddisma þegar á þriðju öld f.Kr. Fornleifafundir sýna að Mon-þjóðin hafði náin samskipti við suðurhluta Indlands og Sri Lanka á þesum tíma. Þjóðflokkur Burma tóku upp trú Mon-þjóðarinnar eftir að þeim tókst að leggja undir sig Thaton konungsríki Mon-þjóðarinnar árið 1057. Á sama hátt tók Taí-þjóðflokurinn upp trú Mon eftir að þeim tókst að leggja Haripunjaya, annað konungsríki Mon-þjóðarinnar undir sig árið 1292. Með theravada-búddismanum fylgdi stafagerð palí og er hún uppruni ritmála Taílands, Laos og Kambódíu. Palí hefur einnig haft gífurlega mikil áhrif á tungumál þessara landa, ekki ósvipað og latína á tungumál Vestur-Evrópu.

Heimspeki

breyta

Grundvallarhugmynd theravada-búddisma er sú að það sé ekki til neinn guð, lífið sé þjáning og sé endurtekið genum endurfæðingu einstaklingsins í alls kyns lífsformum og endurfæðingin stjórnist af gjörðum undanfarandi lífs. Þessi trúarhefð byggir á því sem á palí er nefnt Vibhajjavada, sem bókstaflega þýðir „kenningin um skilgreiningu“. Samkvæmt þessari kenningu er einungis hægt að öðlast innsýn gegnum reynslu, rannsókn og röksemdafærslu en ekki gengum blinda trú. Rit theravadin-hefðarinnar leggja þó einnig áherslu á nauðsyn þess að fara að ráðum viturra manna.

Takmark þeirra er fylgja theravada-hefðinni er frelsi frá þjáningunni. Það er hægt að uppná þessu frelsi gegnum nibbana, sem bindur endi á hina eilífu hringrás fæðingar, elli, sjúkdóma og dauða, samsara. Samkvæmt theravada-hefðinni er fljótasta leiðin (en ekki sú eina) til að uppná nibbana að fylgja kenningum Búddha og gerast Arhat (einnig skrifað Arahant) (Sá verðugi).

Samkvæmt kenningum theravada-greinarinnar er hægt að uppná nibbana innan eins lífs en fyrir þá flesta tekur það ómældan fjölda endurfæðinga þar sem viska bætist við visku að losna undan þjáningu samsara.

Helgirit

breyta

Samkvæmt theravada-hefðinni er Tipitaka (sem einnig er nefnt Palí ritsafnið vegna þess að það var skráð á talmálinu palí og ekki ritmálinum sanskrít) mikilvægustu textar og þeir sem eru næstir orðréttum kenning Gátama Búdda. Tipitaka er elsta sögulega safn texta um kenningar búddisma og á rætur að rekja til fyrsta þings búddista sem haldið var á 5. öld f.Kr. Tipitaka (sem þýðir körfurnar þrjár) skiptist í þrjá hluta:

  • Vinaya-pitaka – ögunakarfan; þar sem er að finna ævisögu Búdda og aðrar frásögur en einkum siðareglur munka og nunna.
  • Sutta-pitaka – sútrakarfan; helstu kenningar Búdda og nánustu fylgismanna hans í formi samtala og ræðna ásamt bundnu máli og dæmisagna.
  • Abhidhamma-pitaka – karfa hinnar hreinu kenningar; nákvæm skilgreining af sálfæði búddismans, skrifuð í þurrum lærdómsstíl andstætt við ritstíl hinna tveggja karfanna.

Sutta og Vinaya-hlutar Tipitaka er að miklu leyti samstæðar þeim textum sem er að finna í svo nefndum Agamas-textum sem eru grundvallartextar mahayana-hefðarinnar. Fræðimennum ber því saman um að þetta séu elstu textar búddismans. Sennilegast bárust palíritsafnið til Sri Lanka þegar á tímum Ashoka Indlandskeisara (f. 301 f.Kr., d. 232 f.Kr.). Þeir voru hins vegar ekki skráðir á blað fyrr en á síðustu öld f.Kr. heldur voru varðveittir í munnlegri hefð.

Greinar innan mahayana-hefðarinnar hafa allmikinn fjölda frásagna — sútra — sem ekki er að finna í Tripitaka, theravada búddistar líta á þær sem apókrýf verk, það er að þær séu ekki orð Búdda. Það ber einnig a hafa í huga að búddistar álíta ekki þessi verk heilög eða æðri opinberanir á þann hátt sem kristnir menn líta á Biblíuna eða múslímar á Kóraninn.

Leikmenn og munkar

breyta
 
Ungum dreng eru færð ný föt

Af hefð hefur theravada-hefðin gert talsverðan mun á kröfum til venjulegra leikmanna annars vegar og munka (og áður einnig nunna) hins vegar sem hafa valið að helga líf sitt andlegri viðleitni. Þó möguleiki leikmanna til andlegs vaxtar sé viðurkenndur í theravada þá er allt önnur áhersla á það í mahyana og vajrayana hefðunum.

Hlutverk leikmanna er einkum að safna safna verðleikum (sem á palí er nefnt punna), til dæmis með því að gera góðverk. Að færa munkum mat og aðrar gjafir, gefa klaustrum og musterum gjafir, brenna reykelsi og kveikja á kertum við líkneski af Búdda og lesa úr trúarritum eru meðal helstu leiða til að safna verðleikum.

Karlar geta orðið munkar þegar þeir hafa náð tvítugsaldri. Yngri drengir geta þó gengið í klaustur allt frá sjö ára aldri, þeir raka höfuðið og ganga í rauðgulum klæðum eins og munkarnir. Sumir þessara drengja velja þegar þeir ná tvítugsaldri að gerast munkar en jafn algengt er að þeir yfirgefi klaustrin og gerast leikmenn.

Í þeim löndum þar sem theravada er ráðandi er það venja að allir ungir menn gerist munkar í ákveðin tíma. Getur það verið allt frá nokkrum vikum til nokkurra ára. Að yfirgefa munkaregluna er ekki litið hornauga af theravada búddistum. Sögulega hafa munkaklaustrin verið einu menntastofnanirnar í theravada-löndunum og eru enn mikilvægar í því samhengi.

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. CIA The World Factbook: Sri Lanka Geymt 24 desember 2018 í Wayback Machine.
  2. Sjá t.d. Lance Cousins, „On the Vibhajjavādins“, Buddhist Studies Review 18, 2 (2001).

Heimildir

breyta
  • Coogan, Michael D. (ritstj.), The Illustrated Guide to World Religions (Oxford: Oxford University Press, 2003). ISBN 1-84483-125-6.
  • Schumann, Hans W., Handbuch Buddhismus: Die zentralen Lehren – Ursprung und Gegenwart (München: Diederichs, 2000). ISBN 3-7205-2153-2.
  • Stee Hagen, Buddhism Plain and Simple (Broadway, 1998). ISBN 100767903323

Tenglar

breyta