Hun Sen
Hun Sen[1] (f. 4. apríl 1951 eða 5. ágúst 1952, heimildum ber ekki saman) er fyrrverandi forsætisráðherra Kambódíu og hefur verið helsti valdmaður í landinu allt frá 1979. Hann ber nú opinberan heiðurstitilinn Samdech Akkak Moha Sena Pedey Decho. Hann er helsti ráðamaður í Alþýðuflokki Kambódíu sem hefur verið við völd allt frá innrás Víetnama 1979 sem gerð var til að hrekja Rauðu khmerana frá völdum. Sjálfur hafði Hun Sen verið liðsmaður Rauðu khmeranna þar til að hann flúði land 1977.
Hun Sen | |
---|---|
ហ៊ុន សែន | |
Forsætisráðherra Kambódíu | |
Í embætti 30. nóvember 1998 – 22. ágúst 2023 | |
Þjóðhöfðingi | Norodom Sihanouk Norodom Sihamoni |
Forveri | Ung Huot |
Eftirmaður | Hun Manet |
Í embætti 26. desember 1984 – 2. júlí 1993 | |
Forseti | Heng Samrin (fyrir 1992) Chea Sim (1992—1993) Norodom Sihanouk (1993) |
Forveri | Chan Sy |
Eftirmaður | Norodom Ranariddh |
Annar forsætisráðherra Kambódíu | |
Í embætti 2. júlí 1993 – 30. nóvember 1998 | |
Forsætisráðherra | Norodom Ranariddh (1993–1997) Ung Huot (1997–1998) |
Forveri | Norodom Ranariddh sem eini forsætisráðherrann |
Eftirmaður | Hann sjálfur sem eini forsætisráðherrann |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 5. ágúst 1952 Kampong Cham, Kambódíu |
Þjóðerni | Kambódískur |
Stjórnmálaflokkur | Alþýðuflokkur Kambódíu |
Maki | Bun Rany (g. 1976) |
Börn | Kamsot, Manet, Mana, Manith, Many, Mali, Malis |
Undirskrift |
Unglingsár
breytaHun Sen er sonur fátækra bóndahjóna í Kampong Cham í austurhluta Kambódíu sem liggur að landamærum Víetnam. Menntaferill Hun Sen er óljós en sennilegast lauk hann einungis fimm ára barnaskóla. Hann tók hins vegar snemma þátt í pólitískri baráttu. Hann varð félagi í Kommúnistaflokki Kampútseu (sem varð þekktara undir gælunafni Sihanouk prins á hreyfingunni, á frönsku Khmer Rouge - Rauðu Khmerarnir) árið 1968. Hun Sen þótti harðsnúinn og fékk fljótlega forystustöður í hersveitum kommúnista í austurhluta Kambódíu. Hann særðist illilega nokkrum sinnum og missti meðal annars vinstra augað.
Fylgismaður Pol Pot
breytaÞegar Rauðu khmerarnir endanlega sigruðu yfir hermönnum Lon Nols og hertóku Phnom Penh 1. apríl 1975 var Hun Sen orðinn yfirmaður hersveita kommúnista í austurhluta Kambódíu. Rauðu khmerarnir höfðu þá ráðið yfir mest öllu landinu að stærstu borgunum undanteknum allt frá 1970. Með öllu er óljóst að hvaða marki Hun Sen tók þátt í þeim ofsóknum og morðum sem Rauðu khmerarnir undir forystu Pol Pots stunduðu eftir valdatökuna 1975. Hann sjálfur og stuðningsmenn hans hafa sem fæst orð um þennan tíma en andstæðingar hans haldi því fram að hann hafi tekið fullan þátt í aðgerðum stuðningsmanna Pol Pot. Hitt er vitað að Hun Sen flúði til Víetnam seint á árinu 1977. Þar var honum vel tekið og var hann sendur í pólitíska skólun til Hanoi.
Ráðamaður
breyta30. desember 1978 réðist 110000 manna herlið Víetnama inn í Kambódíu og tókst á skömmum tíma að hrekja Rauðu khmeranna út úr Phnom Penh og ná völdum i stórum hluta landsins. Þegar Víetnamar kynntu nýja stjórn 10. janúar 1979, og um leið stofnun Alþýðulýðveldisins Kampútsea, var Hun Sen gerður utanríkisráðherra, einungis 27 ára gamall, og hélt hann því embætti þangað til 1990. 1985 tók hann einnig við embætti forsætisráðherra og hefur gegnt því síðan að undanteknu 1992 og hluta af 1993 þegar landið var undir stjórn Sameinuðu þjóðanna.
Víetnamar höfðu fjölda hermanna í Kambódíu allt fram til 1993 og höfðu í raun tögl og hagldir á stjórn landsins. Það var þó ekki svo að stjórnin í Phnom Penh hafði yfirráð yfir öllu landinu. Skæruliðar Rauðu khmeranna héldu áfram skærum og höfðu yfirráð yfir Kardimommufjöllunum og allstóru svæði í vesturhluta landsins við landamæri Taílands. Árið 1982 mynduðu þeir bandalag við sveitir Sihanouk prins og hægristjórnmálamannsins og hershöfðingjans Son Sann og sameinuðust í baráttu gegn hernámi Víetnama. Vesturlönd, undir forystu Bandaríkjanna, og Kína studdu þetta bandalag og hélt það fulltrúastöðu Kambódíu í Sameinuðu þjóðanna þar til 1991. Sovétríkin og fylgiríki þeirra studdu Alþýðulýðveldið Kampútseu, meðal annars var Austur-þýska öryggislögreglan Stasi fengin til að byggja upp öryggisþjónustu í landinu og er hún enn mikilvægur valdaþáttur og tæki Hun Sen.
Á árunum 1979 til 1989, á tíma Alþýðulýðveldisins, ríkti í landinu formlega flokksræði þar sem Byltingarflokkur Kambódískrar alþýðu (sem stofnaður var í Víetnam 1979) var eini löglegi stjórnmálaflokkurinn. Árið 1991 skipti flokkurinn um nafn og hefur heitið síðan Alþýðuflokkur Kambódíu.[2] Hun Sen hefur verið forystumaður flokksins allt frá 1985.
Um haustið 1991 tókst að ná friðarsamningi milli allra helstu fylkinga í Kambódíu og tók þá við yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna (UNTAC) fram að kosningum 1993. Rauðu khmerarnir yfirgáfu samningana 1992 og héldu áfram allt einangraðri baráttu fram til 1997. Niðurstaða kosninganna 1993 var að flokkur stuðningsmana Sihanouk prins, FUNCINPEC[3], vann mikinn sigur. Þrátt fyrir það mynduðu þeir samvinnustjórn með Alþýðuflokki Kambódíu og urðu foringjar flokkanna, Hun San og Ranariddh prins (sonur Sihanouks) báðir forsætisráðherrar. Árið 1997 framkvæmdu stuðningsmenn Hun Sen valdarán í landinu og voru hundruðir stuðningsmanna og leiðtoga FUNCINPEC drepnir. Þrátt fyrir það voru kosningar á ný 1998 og voru þá þessir tveir flokkar nokkuð jafnsterkir og mynduðu stjórn á ný. En í raun hafði Alþýðuflokkurinn styrkt stöðu sína mjög með því að setja sína menn á allar valdstöður ekki síst á landsbyggðinni. Hafa þeir haldið því áfram og er nú landið í raun aftur orðið einflokksríki þó svo að aðrir flokkar séu formlega leifðir og frjálsar kosningar haldnar.
Fyrir utan að vera aðalráðmaður Kambódíu er Hun Sen einnig sá alríkasti í landinu. Hann, ásamt konu sinni og börnum og nánustu samstarfsmönnum innan flokksins, hefur sölsað undir sig námur, landsvæði og aðrar eignir auk þess að njóta stöðugs straums mútufjár allstaðar að í þjóðfélaginu.[4]
Kosningar 2023 og afsögn
breytaÍ þingkosningum sem haldnar voru árið 2023 lét Hun Sen banna helsta stjórnarandstöðuflokki landsins, Kertaljósaflokknum, að taka þátt. Andstaða við stjórn Hun Sen í kosningunum var því lítil sem engin.[5] Í aðdraganda kosninganna gaf Hun Sen til kynna að hann hygðist láta af embætti forsætisráðherra og láta völdin ganga til sonar síns, Hun Manet.[6] Eftir kosningarnar, þar sem flokkur Hun Sen vann öll þingsætin, tilkynnti Hun Sen þann 26. júlí að hann myndi segja af sér og skipa Hun Manet nýjan forsætisráðherra landsins í ágúst.[7]
Einkamál
breytaHun Sen kvæntist Bun Rany árið 1976 í hópvígslu skipulagðri af Rauðu Khmerunum, þau höfðu þó valið að kvænast andstætt mörgum öðrum á þessum tíma þar sem stjórnvöld völdu maka.[8] Þau hjón eiga sex börn og er ein dóttirin ættleidd. Það vakti talsverða athygli 2007 þegar sú dóttir gerði kunnugt að hún væri lesbísk og Hun Sen gerði tilraun til að afættleiða hana.[9][10][11]
Neðanmálsgreinar
breyta- ↑ Hun er ættarnafn og Sen persónunafn, og er það í samræmi við nafnhefðir flestra þjóða í austurhluta Asíu að hafa ættarnafnið fyrst.
- ↑ Um 1991 hættu ráðamenn í Phnom Penh að nota nafnið Kampútsea - Kampuchea í alþjóðasamskiptum og í þess stað nota Kambódía - Cambodia, Cambodge. Innanlands hafa þeir alltaf notað Kampútsea. Alþýðuflokkur Kambódíu heitir á khmer (með latneskru letri) Kanakpak Pracheachon Kâmpuchéa, á ensku Cambodian Peoples Party og frönsku Parti du peuple cambodgien.
- ↑ FUNCINPEC er skammstöfun á frönsku nafni flokksins og er allmennt notað í Kambódíu Front Uni National pour un Cambodge Indépendant, Neutre, Pacifique, et Coopératif,
- ↑ „Cambodia's Family trees“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 31. október 2007. Sótt 14. mars 2009.
- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (16. maí 2023). „Stjórnarandstaða fær ekki að bjóða sig fram“. RÚV. Sótt 31. júlí 2023.
- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (23. júlí 2023). „Freistar þess að framlengja valdatíð óendanlega“. RÚV. Sótt 31. júlí 2023.
- ↑ Dagný Lind Erlendsdóttir (23. júlí 2023). „Hyggst segja af sér og skipa son sinn í embætti“. RÚV. Sótt 31. júlí 2023.
- ↑ „Ræða sem Hun Sen hélt 2007 og talar þar m.a. um líf sitt“. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. september 2007. Sótt 14. mars 2009.
- ↑ PM disowns daughter for being gay Geymt 7 júní 2008 í Wayback Machine - CNN, 2007-10-30
- ↑ Hun Sen disowns his lesbian daughter - Bangkok Post, 2007-10-31
- ↑ Cambodia's leader Hun Sen severs ties with adopted gay daughter -[International Herald Tribune, 2007-10-30
Heimildir
breyta- Chandler, David. A History of Cambodia (Westview Press, 2007). ISBN 0813343631
- Ponchaud, François. Une brève histoire du Cambodge (Siloë). ISBN 2842314174.