Gestapo

Leynilögregla nasista

Gestapo (stytting á Geheime Staatspolizei eða „Leynilögregla ríkisins“[1]) var leyniþjónusta Þýskalands nasismans og Evrópu undir hernámi nasista í seinni heimsstyrjöld.

Höfuðstöðvar Gestapo á Prinz-Albrecht-Straße í Berlín.

Hermann Göring, þáverandi innanríkisráðherra Prússlands, stofnaði Gestapo árið 1933 sem deild innan prússnesku lögreglunnar.[2] Í upphafi var Gestapo persónulegt valdatæki sem Göring notaði til að ofsækja pólitíska andstæðinga sína. Frá og með 20. apríl 1934 var Gestapo stýrt af leiðtoga SS-sveitanna, Heinrich Himmler, sem var útnefndur foringi lögreglusveita í Þýskalandi árið 1936. Gestapo var þá að breytast í ríkisstofnun og undirdeild Sicherheitspolizei (Öryggislögreglunnar) frekar en að vera prússnesk héraðsstofnun. Frá og með 27. september 1939 var Gestapo stjórnað af öryggisstofnuninni Reichssicherheitshauptamt og var talin systurstofnun SS-öryggisþjónustunnar. Gestapo var falið að uppræta raunverulega og meinta andófsmenn innan og utan Þýskalands og andspyrnuhreyfingar á svæðum sem Þjóðverjar lögðu undir sig í stríðinu. Með grimmdarverkum sínum varð Gestapo þekkt fyrir hrottaskap og valdníðslu. Gestapo lék jafnframt lykilhlutverk í framkvæmd Helfararinnar, sér í lagi í gegnum B4-skrifstofuna sem Adolf Eichmann fór fyrir.

Gestapo var virk fram á síðustu daga nasistastjórnarinnar en stofnunin var fordæmd sem glæpasamtök í Nürnberg-réttarhöldunum.

Tilvísanir breyta

  1. Miller, Michael (2006). Leaders of the SS and German Police, Vol. 1. R. James Bender Publishing, bls. 502.
  2. „Hvað var Gestapo og hvað gerðu menn þar?“. Vísindavefurinn.