Heimsókn Nixons til Kína 1972

Heimsókn Nixons til Kína 1972 var opinber heimsókn sem Richard Nixon, þáverandi forseti Bandaríkjanna, fór í til Alþýðulýðveldisins Kína árið 1972. Heimsóknin lagði grunninn að því að ríkin tvö tóku upp formlegt stjórnmálasamband nokkrum árum síðar. Þetta var í fyrsta sinn sem Bandaríkjaforseti heimsótti kínverska alþýðulýðveldið, sem Bandaríkin höfðu þangað til litið á sem eitt svarnasta óvinaríki sitt.

Maó Zedong, formaður kínverska kommúnistaflokksins, og Richard Nixon Bandaríkjaforseti takast í hendur.

Heimsóknin hefur haft langvarandi áhrif á enska tungu, en á tungumálinu er hugtakið „Nixon í Kína“ er stundum notað um óvæntar eða fordæmalausar aðgerðir sem stjórnmálamenn taka sér fyrir hendur.

Heimsóknin breyta

Sögulegur aðdragandi og undirbúningur breyta

Eftir seinni heimsstyrjöldina leið bandalag Bandaríkjanna og Sovétríkjanna undir lok þegar Sovétmenn komu sér upp kommúnískum leppríkjum í Austur-Evrópu og Kína varð jafnframt kommúnistaríki. Bandaríkjamenn litu á þetta sem ógn við ríkisöryggi sitt og óttinn við útbreiðslu kommúnismans átti sinn þátt í því að Richard Nixon, sem var þekktur andkommúnískur harðlínumaður, var valinn sem varaforsetaefni í framboði Dwights D. Eisenhower til forseta árið 1952. Þrátt fyrir þetta varð Nixon síðar fyrsti forseti Bandaríkjanna sem heimsótti Kína[1] og oft er bent á bætt samskipti Bandaríkjanna við Kína og Sovétríkin sem helstu afrek í utanríkismálum sem unnin voru á forsetatíð hans.[2]

Í júlí árið 1971 fór Henry Kissinger, þjóðaröryggisráðgjafi Nixons forseta, í leynilega heimsókn til Peking í tengslum við ferð sína til Pakistan og hóf þar undirbúning fyrir opinbera heimsókn Nixons til landsins næsta ár.

Fundurinn breyta

 
Richard Nixon Bandaríkjaforseti og Zhou Enlai forsætisráðherra Kína skála.

Á dögunum 21. febrúar til 28. febrúar árið 1972 heimsótti Richard Nixon Peking, Hangzhou og Sjanghæ. Nánast um leið og hann kom til kínversku höfuðborgarinnar fékk hann fundarboð frá Maó Zedong, formanni kínverska kommúnistaflokksins. Maó hafði þá verið fárveikur í níu daga án þess að Bandaríkjamenn vissu af því en leið nú nógu vel til að hitta Nixon. Þegar leiðtogarnir hittust í fyrsta sinn voru fyrstu orð Maós við Nixon (með milligöngu túlks): „Gamli vinur okkar, hann Chiang Kai-shek, yrði nú ekki hrifinn af þessu.“[3] Nixon var í eina viku í Kína en hitti Maó þó aðeins í þetta eina skipti.

Bandaríska utanríkisráðherranum William P. Rogers var ekki boðið á leiðtogafundinn. Einu Bandaríkjamennirnir sem sóttu fundinn ásamt Nixon voru túlkurinn Charles W. Freeman og Winston Lord, starfsmaður hjá þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna sem síðar varð sendiherra Bandaríkjanna í Kína. Til þess að skaða ekki orðspor Rogers var Lord síðar hreinsaður af öllum opinberum ljósmyndum sem teknar voru af fundinum.[4]

Nixon átti marga fundi með kínverska forsætisráðherranum Zhou Enlai. Zhou fylgdi Nixon meðal annars í skoðunarferð um Kínamúrinn. Undir lok heimsóknarinnar gáfu ríkin tvö sameiginlega út Sjanghæ-yfirlýsinguna, sem lýsti markmiðum þeirra í utanríkismálum og lagði grunn að milliríkjasambandi Bandaríkjanna og Kína í mörg ár. Áður hafði Kissinger lýst því yfir að Bandaríkjamenn myndu draga burt allan herafla sinn frá Taívan.[5] Í yfirlýsingunni hétu bæði ríkin því að vinna saman að því að taka upp formlegt stjórnmálasamband.

Niðurstöður breyta

Fyrir fundinn höfðu Bandaríkin viðhaldið þeirri stefnu að þrátt fyrir klofning Kína í Alþýðulýðveldið Kína á meginlandinu og Lýðveldið Kína á Taívan eftir kínversku borgarastyrjöldina væri aðeins til eitt lögmætt kínverskt ríki. Nixon og stjórn fengu Kínverja til að fallast á að leita að friðsamri lausn á deilu ríkjanna tveggja og á pólitískri stöðu Taívans. Yfirlýsing þeirra fól í sér að Bandaríkin og Alþýðulýðveldið sáu sér fært að leggja til hliðar deilur sem höfðu þar til komið í veg fyrir að ríkin kæmu sér upp formlegu stjórnmálasambandi.[6] Bandaríkin viðhéldu stjórnmálasambandi við Lýðveldið Kína á Taívan til ársins 1979, en það ár riftu Bandaríkjamenn því sambandi og komu sér formlega upp sambandi við Alþýðulýðveldið.

Eftir heimsókn Nixons flutti hann ræðu þar sem hann lýsti því sem heimsóknin hefði í för með sér fyrir ríkin tvö:

 
Þetta var vikan sem breytti heiminum, því það sem við sögðum í þessari yfirlýsingu skipti hvergi nærri eins miklu máli og það sem við munum gera á komandi árum til að reisa brú yfir þær 16.000 mílur og 22 ár af fjandskap sem hafa forðum sundrað okkur. Og það sem við höfum sagt í dag mun reisa þá brú.
 
 
— Richard Nixon[7]

Nixon samdi margar bækur um störf sín á alþjóðavettvangi. Sú síðasta var bókin Beyond Peace, sem fjallar um samkeppnishæfni Bandaríkjanna á alþjóðasviðinu og hvernig hún breyttist eftir hrun kommúnismans.

Eftirmálar breyta

Max Frankel, blaðamaður hjá The New York Times, vann til Pulitzer-verðlaunanna fyrir umfjöllun sína um heimsóknina.

Óperan Nixon in China eftir John Adams árið 1987 var byggð á heimsókn Nixons til Kína.

Tilvísanir breyta

  1. Stephen E. Ambrose. Nixon, the triumph of a politician 1962-1972 (New York, NY: Simon and Schuster, 1989): 439.
  2. Joan Hoff. Nixon reconsidered (New York, NY: BasicBooks, 1994) : 182.
  3. Richard M. Nixon, The Memoirs of Richard Nixon (New York: Warner Books, 1978), p. 1060
  4. Kissinger: Years of Upheaval p. 65
  5. http://www.upi.com/Audio/Year_in_Review/Events-of-1972/1972-Election/12305688736666-2/#title"Nixon Goes to China". Tilgået 2009-04-15. 2009-05-05.
  6. Nixon's China's Visit and "Sino-U.S. Joint Communiqué"
  7. http://www.upi.com/Audio/Year_in_Review/Events-of-1972/1972-Election/12305688736666-2/#title "Nixon Goes to China". Accessed 2009-04-15. Archived 2009-05-05.

Ítarefni breyta

  • Burr, William (1999) The Kissinger Transcripts, New Press
  • MacMillan, Margaret (2007) Nixon & Mao: The Week that Changed the World, Random House
  • Mann, James (1999)About Face, Knopf
  • Nixon, Richard (1978) RN: The Memoirs of Richard Nixon, Grosset & Dunlap
  • Tyler, Patrick (1999) A Great Wall, Public Affairs
  • Dallek, Robert (2007). Nixon and Kissinger : partners in power. New York: HarperCollins. ISBN 0060722304.
  • Drew, Elizabeth (2007). Richard M. Nixon. New York: Times Books. ISBN 0805069631.
  • Kadaré, Ismail (1989) The Concert

Tenglar breyta