Taívan

land í Austur - Asíu
(Endurbeint frá Formósa)

Lýðveldið Kína (hefðbundin kínverska: 中華民國, einfölduð kínverska: 中华民国; Wade-Giles: Chung-hua Min-kuo, Tongyong Pinyin: JhongHuá MínGuó, Hanyu Pinyin: Zhōnghuá Mínguó) er lýðræðisríki sem nær nú yfir eyjuna Taívan, Pescadoreseyjar, Kinmeneyjar og Matsueyjar undan strönd meginlands Kína. Nafnið Taívan, einnig ritað Tævan, er oft notað til að vísa til þessa ríkis en „Kína“ til að vísa til Alþýðulýðveldisins Kína á meginlandinu.

Lýðveldið Kína
中華民國
ZhongHuá MínGuó
Fáni Lýðveldisins Kína Skjaldarmerki Lýðveldisins Kína
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
中華民國國歌
Staðsetning Lýðveldisins Kína
Höfuðborg Taípei
Opinbert tungumál kínverska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Lai Ching-te
Varaforseti Hsiao Bi-khim
Forsætisráðherra Cho Jung-tai
Sjálfstæði
 • Stofnun 1. janúar 1912 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
140. sæti
36.193 km²
10,3%
Mannfjöldi
 • Samtals (2013)
 • Þéttleiki byggðar
52. sæti
23.373.517
644/km²
VLF (KMJ) áætl. 2014
 • Samtals 517,019 millj. dala (20. sæti)
 • Á mann 22.002 dalir (18. sæti)
VÞL (2014) 0.882 (21. sæti)
Gjaldmiðill Nýr Taívandalur
Tímabelti UTC +8
Þjóðarlén .tw
Landsnúmer +886

Taívan var áður þekkt sem „Formósa“. Íbúar voru aðallega taívanskir frumbyggjar þegar hollenskir og spænskir kaupmenn komu sér þar fyrir á 17. öld. Kínverski sjóræninginn Koxinga hrakti Hollendinga þaðan árið 1662 og stofnaði konungsríkið Tungning. Tjingveldið lagði eyjuna síðan undir sig árið 1683. Kína lét Japönum eyjuna eftir árið 1895. Lýðveldið Kína var stofnað á meginlandi Kína árið 1912 þegar síðasti keisarinn sagði af sér. Eftir lok Síðari heimsstyrjaldar fengu Kínverjar aftur yfirráð yfir eyjunni. Þegar kínverski kommúnistaflokkurinn náði völdum á meginlandi Kína árið 1949 fluttist stjórn þjóðernissinna undir forystu Chiang Kai-shek hershöfðingja til Taívan. Stjórnin gerir tilkall til alls Kína og lengi vel var hún eina alþjóðlega viðurkennda stjórn landsins.

Lýðveldið Kína var eitt af 51 stofnríkjum Sameinuðu þjóðanna og eitt af þeim fimm ríkjum sem sátu í upprunalega öryggisráðinu. Árið 1971 tók Alþýðulýðveldið Kína sæti þess hjá Sameinuðu þjóðunum og heldur því enn. Flest ríki ákváðu síðan að viðurkenna Alþýðulýðveldið Kína sem sjálfstætt ríki í stað Lýðveldisins Kína en Lýðveldið Kína er nú viðurkennt sem sjálfstætt ríki af 26 ríkjum. Alþýðulýðveldið Kína viðurkennir ekki yfirráð Lýðveldisins Kína yfir eyjunni og telur hana formlega vera 23. hérað Kína.

Á síðari hluta 20. aldar átti sér stað hröð iðnvæðing á Taívan og efnahagur landsins óx hratt. Taívan er einn af asísku tígrunum fjórum (ásamt Suður-Kóreu, Japan og Singapúr). Hátækniiðnaður Taívan er mikilvægur fyrir allan heim. Landið fær háar einkunnir fyrir fjölmiðlafrelsi, heilbrigðisþjónustu, menntun, efnahagsfrelsi og þróun.

Nokkur ólík heiti hafa verið notuð yfir eyjuna Taívan í gegnum tíðina. Portúgalskir landkönnuðir nefndu hana Ilha Formosa („falleg eyja“) um miðja 16. öld. Smám saman varð heitið Formósa almennt heiti yfir eyjuna á Evrópumálum.

Heitið Taívan eða Tayouan kemur úr Sirayamáli frumbyggja eyjarinnar og merkir „útlendingar“. Það var notað yfir sandrif þar sem Hollenska Austur-Indíafélagið reisti verslunarstöðina Fort Zeelandia á fyrri hluta 17. aldar þar sem nú stendur borgin Tainan. Verslunarstöðin og nágrenni hennar varð höfuðstaður eyjarinnar og nafnið varð því smám saman að heiti yfir eyjuna sjálfa í kínversku.

Opinbert heiti landsins er Lýðveldið Kína. Upphaflega notaði stjórn þess við styttu útgáfuna „Kína“. Um miðja 20. öld var stundum notað heitið „þjóðríkið Kína“ eða „frjálsa Kína“ til aðgreiningar frá alþýðulýðveldinu á meginlandinu sem var kallað „kommúnistaríkið Kína“ eða „rauða Kína“. Eftir að landið missti sæti sitt hjá Sameinuðu þjóðunum til alþýðulýðveldisins árið 1971 hefur það almennt verið kallað Taívan eftir stærstu eyjunni.

Landafræði

breyta
 
Gervihnattamynd af Taivan

Taívan er eyja undan strönd meginlands Kína í Kyrrahafi. Hún gengur einnig undir nafninu Formósa, en portúgalskir sjómenn kölluðu hana Ilha Formosa sem þýðir „falleg eyja“ á portúgölsku. Eyjan er 349 km löng og 144 km breið. Flatamál hennar er 35 883 km2. Hæsta náttúrulega hæð frá sjó er tindur Júshan (Yushan) fjalls, tæpir fjórir kílómetrar (3,952 m). Eyjan er fjalllend og er þakin hitabeltis- og heittempruðum gróðri.

Stjórnsýslueiningar

breyta

Stjórnarskrá lýðveldisins var samin árið 1947 þegar stjórnin réði enn yfir meginlandshluta Kína. Samkvæmt henni skiptist Kína því í héruð, sérstök sveitarfélög, sérstök stjórnsýsluhéruð og sjálfstjórnarhéruð (Mongólíu og Tíbet) sem fengu mjög mikla sjálfstjórn.

Þegar stjórn lýðveldisins hörfaði til Taívan gerði hún því tilkall til yfirráða yfir svæði sem taldi 35 héruð, 12 sérstök sveitarfélög, 1 stjórnsýsluhérað og 2 sjálfstjórnarhéruð. Lýðveldið hefur aðeins raunveruleg yfirráð yfir Taívanhéraði og eyhluta Fuijan-héraðs.

Frá 1949 hafa verið gerðar nokkrar breytingar á stjórnsýslueiningum undir stjórn lýðveldisins. Taípei varð sérstakt sveitarfélag árið 1967 og Kaohsiung árið 1979. Völd héraðsstjórnanna tveggja voru minnkuð og flutt að hluta til miðstjórnarinnar. Árið 2010 voru Nýja Taípei, Taichung og Tainan gerð að sérstökum sveitarfélögum. Nú skiptist stjórnsýsla Taívan því þannig:

Stig Tegund Alls
1. Sérstakt sveitarfélag
(直轄市 zhíxiáshì) (6)
Hérað (省 shěng) (2) (minnkuð völd) 22
2. Héraðshöfuðborg
(市 shì) (3)
Sýsla (縣 xiàn) (13)
3. Umdæmi (區 ) (170) Sýsluhöfuðborg
(縣轄市 xiànxiáshì) (12)
Bæjarfélag
(鎮 zhèn) (40)
Sveitarfélag
(鄉 xiāng) (146)
368
4. Borgarþorp (里 ) Sveitaþorp (村 cūn) 7.835
5. Hverfi (鄰 lín) 147.877