Föníska
Föníska (eða fönikíska) var mál sem var talað í fornöld við strendur Miðjarðarhafs á svæði sem þá var kallað Kanansland (á fönísku, hebresku, arabísku og arameísku), Föníkía (í grísku og latínu) eða Pūt (á egypsku). Föníska er kanansmál, en þau eru grein af norðvestursemískum málum sem einnig telja hebresku, ammonísku, móabísku og edómísku.
Föníska var rituð með föníska stafrófinu sem er elsta staðfesta samhljóðastafróf heims. Grikkir og Etrúrar tóku síðar upp svipuð stafróf og Latínar þróuðu síðan latneska stafrófið út frá því etrúska. Áletranir með fönísku letri eru þekktar frá því seint á bronsöld en venja er að tala um frumkanansmál fram til 1050, en fönísku eftir það. Á 8. öld f.Kr. þróaðist púnverska sem afbrigði af fönísku. Púnverska var hugsanlega töluð í Norður-Afríku allt fram á 5. öld. Leifar af púnversku má enn finna í málum Berba.