Paderborn (stundum nefnd Pöddubrunnur á íslensku) er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 151 þúsund íbúa (2019).

Paderborns
Skjaldarmerki Paderborns
Staðsetning Paderborns
SambandslandNorðurrín-Vestfalía
Flatarmál
 • Samtals179,6 km2
Hæð yfir sjávarmáli
110 m
Mannfjöldi
 • Samtals151.000 (2.019)
 • Þéttleiki800/km2
Vefsíðawww.paderborn.de

Paderborn er nær austast í norðvestarlega í Þýskalandi, talsvert fyrir austan Ruhr-héraðið. Næstu stærri borgir eru Bielefeld til norðurs (35 km), Hamm til vesturs (70 km) og Kassel til suðausturs (90 km).

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki Paderborg er tvískiptur. Fyrir neðan eru gular og rauðar lóðréttar línur til skiptis. Þær koma fyrir þegar á 13. öld. Fyrir ofan er gulur kross á rauðum grunni. Krossinn er tákn um hið gamla furstabiskupadæmi Paderborn. Skjaldarmerki þetta var tekið upp í núverandi mynd 1931.

Orðsifjar

breyta

Borgin hét Paderborna á 11. öld, Padrabrunno og Padresbrunnon þar áður. Þetta merkir brunnurinn (eða lindin) við ána Pader (Born og Brunnen er sama orðið). Á latínu hét staðurinn Patris brunna. 1241 var endanlega samþykkt að hafa ritheitið Paderborn.

Saga Paderborn

breyta
 
Líboríuskirkjan í Paderborn

Upphaf

breyta

Síðla á 8. öld var Karlamagnús í héraðinu til að berja á söxum. Hann lét reisa kastalavirki við uppsprettur árinnar Pader og settist þar að til skamms tíma. Í Paderborn hélt hann nokkur ríkisþing, þar til hann flutti aðsetur sitt til Aachen. Lokaorrusta Karlamagnúsar gegn söxum átti sér stað 794 á völlunum fyrir sunnan Paderborn. 799 tók Karlamagnús á móti Leó III páfa í Paderborn en páfi var á flótta undan óvinum sínum. Þeir stofnuðu þar biskupsdæmi til að kristna saxa og þar ákváðu þeir að krýna Karlamagnús til keisara. Krýningin fór fram ári síðar í Róm. Lúðvík hinn frómi, sonur Karlamagnúsar, sat að einhverju leyti í Paderborn. Þegar synir hans skiptu frankaríkinu milli sín í Verdun-samningnum, lenti Paderborn í þýska ríkinu. 836 voru jarðneskar leifar heilags Líboríusar fluttar frá Le Mans í Frakklandi til Paderborn sem tákn um vináttu borganna. Þetta eru elstu vináttubæjartengsl í Evrópu. 924 réðust Ungverjar á borgina, en hún stóðst áhlaup þeirra. Á 11. öld urðu tveir stórir brunar í borginni, árið 1000 og 1058. Í fyrra sinnið brann keisaravirkið og dómkirkjan, en í seinna sinn brann nær gjörvöll borgin. Þrír stórbrunar til viðbótar geysuðu í borginni, 1165, 1289 og 1340.

Siðaskiptin

breyta
 
Paderborn 1647. Mynd eftir Matthäus Merian.

Eftir enn einn stórbruna 1506 var ákveðið að mynda brunarvarnir í borginni. Í þeim tilgangi voru vatnsleiðslur lagðar frá ánni Pader um alla borg. 1525 urðu siðaskiptin í Paderborn. Borgarráð hélt þó fast við kaþólskuna, þannig að til æsinga og átaka kom. Nýja trúin var ekki formlega viðurkennd fyrr en 1555 en þá hafði legið við borgarastríði. 1580 hófst gagnsókn kaþólsku kirkjunnar í borginni. Fengnir voru jesúítar sem endurheimtu borgarbúa til gömlu trúarinnar. Jesúítar gengu svo langt að þeir handtóku leiðtoga lúterstrúarmanna og tóku þá af lífi. Hinn lúterski borgarstjóri var líflátinn 1604. Eftir það var kaþólska kirkjan einráð í borginni og var stjórnuð af furstabiskupi. 1614 stofnuðu jesúítar háskóla í borginni en hann var elsti háskólinn í Vestfalíu. Hann var lagður niður 1818. Í 30 ára stríðinu var Paderborn 16 sinnum hertekin, síðast 1646 af sameinuðum her frá Svíþjóð og Hessen. Við það tækifæri voru borgarmúrarnir rifnir niður. Íbúum fækkaði niður í 500.

Nýrri tímar

breyta

1802/03 var furstabiskupadæmið leyst upp og varð Paderborn þá prússnesk. Nokkrum árum síðar hertóku Frakkar borgina og héldu henni til falls Napoleons. Þá varð borgin prússnesk á ný. 1850 fékk Paderborn járnbrautartengingu á línunni Hamm – Kassel. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum bandamanna. Þær þyngstu voru gerðar 27. mars 1945, en þá eyðilagðist rúmlega 85% borgarinnar. 1967 varð Le Mans formlega vinabær Paderborn, en vinabæjarsambandið hafði staðið allt frá árinu 836. Af öðrum vinabæjum Paderborns má nefna Bolton í Englandi, Pamplona á Spáni og Debrecen í Ungverjalandi. 1972 er háskóli stofnaður í borginni á ný. 1996 sækir Jóhannes Páll II páfi borgina heim.

Íþróttir

breyta

Sigursælasta íþróttalið borgarinnar er Paderborner Untouchables sem keppir í hafnabolta og er margfaldur þýskur meistari og tvöfaldur Evrópubikarmeistari.

Paderborner Osterlauf er elsta víðavangshlaup Þýskalands, en það hefur verið haldið síðan 1947. Hlaupið er hálfmaraþon, 10 km og 5 km. Auk þess er keppt á línuskautum, handknúin reiðhjól og göngu (Nordic Walker).

Knattspyrnuliðið SC Paderborn 07 leikur sem stendur í 2. deild.

Vinabæir

breyta

Paderborn viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Abdinghofkirkjan
 
Gamla ráðhúsið
  • Líboríuskirkjan er dómkirkja borgarinnar. Fyrirrennarinn var reistur 799 er Karlamagnús stofnaði biskupsdæmið. Núverandi kirkjan er hins vegar frá 13. öld og helguð Maríu mey og heilögum Kiljan en seinna einnig heilögum Líboríusi. Turninn er 93 metra hár. Í kirkjunni er grafhvelfing. Hún er heila 32 metra á lengd og er með þeim allra stærstu í Þýskalandi. Þar eru jarðneskar leifar heilags Líboríusar geymdar. Helsta listaverk kirkjunnar er steindur gluggi með þremur hérum (Dreihasenfenster). Kirkjan skemmdist mikið bæði í 30 ára stríðinu og í loftárásum seinna stríðs.
  • Abdinghofkloster er gamalt kaþólskt klaustur í Benediktínusarreglu og helgað postulunum Pétri og Páli. Það var reist 1015 og var þekkt fyrir ágætt bókasafn, skóla, hjúkrun, verkstæði og listaverk. Þegar Frakkar hertóku landið 1803 á tímum Napoleons, var klaustrið lagt niður. Eftir Napoleonstímann komst byggingin í eigu prússa sem gerðu það að herstöð. 1945 eyðileggst bæði kirkjan og klaustrið í loftárásum. Kirkjan var endurreist en flest klausturhúsin voru rifin. Það sem eftir stóð var notað sem borgarskrifstofur. Í dag er kirkjan lútersk.
  • Gamla ráðhúsið í Paderborn var reist 1613-20 í endurreisnarstíl, kenndur við Weser. Það þjónar nú sem giftingarhús og fundarhús og í kjallaranum er ölkelduhús.

Heimildir

breyta