Hanau er borg í þýska sambandslandinu Hessen og er með um 96 þúsund íbúa (2018). Borgin er hluti af stórborgasvæði Frankfurts og er heimaborg Grimmsbræðra.

Skjaldarmerki Hanau Lega Hanau í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Hessen
Flatarmál: 76,49 km²
Mannfjöldi: 96.000 (2018)
Þéttleiki byggðar: 1175/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 104 m
Vefsíða: www.hanau.de
Stjórnmál
Borgarstjóri: Claus Kaminsky (SPD)
næst kosið: 2003

Lega breyta

Hanau liggur við ána Main rétt fyrir austan Frankfurt, sunnarlega í Hessen. Næstu borgir eru Frankfurt am Main til vesturs (10 km), Würzburg til suðausturs (70 km) og Darmstadt til suðvesturs (20 km).

Orðsifjar breyta

Borgin hét upphaflega Hagenowe, sem merkir hólmagarður. Hagen merkir hér svæði sem er afmarkað og owe eða au merkir oftast flæðiengi, flæðiskógur en í þessu tilviki sennilega hólmi í ánni Main.[1]

Söguágrip breyta

Upphaf breyta

 
Philippsruh-kastalinn er safn í dag

1143 kemur heitið Hagenow fyrst við skjöl sem kastalavirki á hólma í ánni Main. Bærinn myndaðist hægt í kringum það. 1303 veitti Albrecht I konungur Hanau borgarréttindi. Í kjölfarið var farið að reisa varnarmúr. Borgin kom að öðru leyti lítið við sögu í þýska ríkinu. 1528 komu fyrstu lútersku predikararnir til Hanau og urðu siðaskiptin hægt upp úr því. Þau gengu friðsamlega fram, ólíkt því sem gerðist víða annars staðar. 1597 tók borgin við fjölda kalvinistum frá Frakklandi og var þá myndaður nýr bær fyrir þá (Hanauer Neustadt). Með þeim hófst mikil handverkskunnátta og handiðnaður.

30 ára stríðið breyta

 
Hanau 1655. Mynd eftir Matthäus Merian.

Í 30 ára stríðinu var Hanau að mestu hlutlaus, þar sem greifinn Philipp Moritz var of fáliðaður og getulaus til að aðhafast nokkuð. Nýborgin með kalvínistunum hélt hins vegar með vetrarkonunginum Friðrik V í Prag. Svíar hertóku borgina 1630 og krafðist Gústaf Adolf II að borgin skaffaði sér hermenn. Greifinn skrapaði saman fólki en þegar á reyndi stakk hann af og flúði til Hollands. Svíar sátu í borginni í átta ár. 1635 mættu Bæjarar með stóran her og sátu um borgina. Skömmu áður en stríðið skall á höfðu varnarmúrar borgarinnar verið gerðir upp og kom nú í ljós að borgin stóðst öll áhlaup Bæjara. Innan borgarinnar var ástandið skelfilegt. Hungrið sveið, enda höfðu þúsundir nærsveitarmenn flúið þangað í þokkabót. Bæjarar hurfu hins vegar næsta sumar, eftir 9 mánaða umsátur, þegar spurðist að her mótmælenda væri á leiðinni. 1638 hurfu Svíar einnig og borgin fór þá að dafna á ný.

Frakkar breyta

1736 dó greifalínan út og erfði þá Hessen-Kassel borgina. Í 7 ára stríðinu gekk greifinn af Hessen-Kassel til liðs við Prússa. 1759 hertóku Frakkar því borgina og héldu henni til 1762. Árið 1806 hertóku Frakkar borgina á ný í Napoleonsstríðunum. Þeir rifu niður alla borgarmúra og innlimuðu borgina í stórhertogadæmið Frankfurt, meðan Napoleon var við völd. 1813 átti sér stað orrustan við Hanau. Þar sigraði Napoleon sameinaðar hersveitir frá Bæjaralandi og Austurríki en hann var á leiðinni heim eftir mislukkaðan Rússlandsleiðangur. Frakkar yfirgáfu hins vegar borgina, sem verður hluti af Hessen.

Byltingartímar breyta

1821 sameinast gamla Hanau og nýja Hanau, sem stofnuð var 1597, (Altstadt og Neustadt) í eina borg. Á 19. öld átti sér stað mikil borgaravakning. 1830 mótmæltu íbúar ríkjandi stjórn og kröfðust stjórnarskrá og réttinda. Stjórnarskráin var þeim gefin, en greifarnir tóku hana smátt og smátt úr gildi á ný. En þetta varð þó til þess að mótmælin 1848 voru í lágmarki, þegar mótmæli í flestum öðrum borgum náðu hámarki. Stjórnarskráin var sett í gildi á ný og friður komst á. Sama ár fór fyrsta fimleikakeppni Þýskalands fram í Hanau. Samtímis var fimleikasamband Þýskalands stofnað þar í borg. Og enn sama ár fékk borgin járnbrautartengingu til Frankfurt. 1866 átti sér stað þýska stríðið. Prússar og Austurríkismenn áttust við og gekk Kjörprinsadæmi Hessen-Kassel, Hertogadæmi Nassau og Frjálsa borgin Frankfurt til liðs við Austurríki. En Prússar sigruðu og ákvað Bismarck kanslari að innlima Hessen-Kassel með borg Hanau, Hertogadæmi Nassau og Frjálsa borgin Frankfurt í Prússland. Prússar innlimuðu þá reyndar ekki allt Hessen: Stórhertogadæmið Hessen-Darmstadt var áfram sjálfstætt.

20. öldin breyta

1920 hertaka Frakkar borgina eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri, en þeir skiluðu henni fljótlega aftur. 1933 taka nasistar völdin. Í borginni var settur upp iðnaður fyrir stríðið, s.s. vopn og skotfæri. Fyrir vikið varð borgin fyrir gífurlegum loftárásum bandamanna. Þær verstu gerðust 19. mars 1945, en þá var borgin nær jöfnuð við jörðu. Öll miðborgin eyðilagðist en aðeins sjö hús stóðu eftir uppi. Aðeins 10 dögum seinna hertóku Bandaríkjamenn borgina bardagalaust, enda voru þar ekki nema 10 þús manns eftir. Bandaríkjamenn settu þar upp einar stærstu herstöð sína í Evrópu. Þegar mest var voru þar um 30 þúsund hermenn. Þeir síðustu yfirgáfu borgina ekki fyrr en 2008. Uppbygging borgarinnar var afar umdeild. Allar rústir voru fjarlægðar og öll skemmd hús rifin, þrátt fyrir áköf mótmæli íbúa, sem vildu endurreisa gömlu miðborgina eins og hún var. Sömuleiðis voru síðustu leifar borgarmúranna rifnir, gamli kastalinn og aðrar byggingar sem áður höfðu sett svip sinn á borgina. 1991 varð gífurleg sprenging af völdum vetnistanks í einni verksmiðjunni. Alls staðar í borginni brotnuðu rúður og þök skemmdust.

Frægustu börn borgarinnar breyta

 
Grimmsbræður eru frá Hanau

Viðburðir breyta

Brüder-Grimm-Märchenfestspiele er heiti á hátíð í Hanau þar sem ævintýri úr safnakistu Grimmsbræðra eru sýnd, annað hvort sem leikrit eða söngleik. Hér er um útihátíð að ræða, enda leiksýningar settar upp utanhúss. Hátíðin hóf göngu sína 1985 og dregur til sín um 80 þúsund áhorfendur þegar best lætur. Sýningartíminn er frá maí til júlí, stundum til ágúst. 2009 voru ævintýrin Öskubuska (söngleikur), Gamli soldáninn, Bláa ljósið og Meistaraþjófurinn sýnd. 2010 er ráðgert að sýna Mjallhvít (söngleikur), Púkinn með lokkana þrjá og Glerskórinn.

Lamboyhátíðin er þjóðhátíð borgarinnar. Hún er til minningar um umsátur bæríska hersins 1635-36, en herforingi Bæjara hét Lamboy. Umsátrið mistókst eftir 9 mánuði og síðan þá hafa borgarbúar minnst þessa atburðar á ýmsan hátt.

Byggingar og kennileiti breyta

 
Goldschmiedehaus
  • Maríukirkjan í Hanau kemur fyrst við skjöl 1316 og var helguð Maríu Magdalenu. Hún var stækkuð af Reinhard II greifa á 15. öld og var hann sjálfur grafin í henni 1451. Eftir hann voru afkomendur hans einnig grafnir, allt til 1612. Við siðaskiptin varð kirkjan lútersk og er hún það enn. Kirkjan skemmdist töluvert í loftárásum 1945. Eftir að hún brann niður, var tækifærið notað og gerður fornleifauppgröftur í henni. Kirkjan var svo endurreist 1951-63.
  • Philippsruhe er kastali greifanna í borginni. Hann var reistur 1700-1725 af Philipp Reinhard greifa fyrir vestan miðborgina, í Kesselstadt. Kesselstadt var innlimuð í Hanau 1907. Árið 1943 var allt innviðið flutt í Adolfseck-kastalann hjá Fulda af ótta við loftárásir. En kastalinn slapp við allar sprengjur, Adolfseck hins vegar ekki, og skemmdist því nokkuð af listaverkum. 1950 keypti Hanau kastalann og notaði hann sem ráðhús, þar sem ráðhúsið í miðborginni hafði eyðilagst í loftárásum. 1964 flutti ráðhúsið í nýja byggingu, þannig að 1967 var opnað sögusafn í kastalanum.
  • Goldschmiedehaus er gamalt ráðhús í borginni. Húsið var reist sem iðnaðarhús 1538. Seinna var húsið notað sem ráðhús í nokkrar aldir. En þegar Altstadt og Neustadt voru sameinaðar 1821, var húsið of lítið og flutti ráðhúsið þá annað. Þá var það notað af sögufélagi borgarinnar allt til seinna stríðs. Húsið brann niður loftárásum 1945 og stóðu aðeins ytri veggirnir eftir. Húsið var endurreist 1955-58 og er í dag notað fyrir skartgripasýningar.

Tilvísanir breyta

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 125.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Hanau“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.