George H. W. Bush

41. forseti Bandaríkjanna
(Endurbeint frá George Herbert Walker Bush)

George Herbert Walker Bush (12. júní 192430. nóvember 2018) var 41. forseti Bandaríkjanna frá 20. janúar 1989 til 20. janúar 1993 fyrir repúblikana og þar áður varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Ronalds Reagan. Hann er faðir George W. Bush, sem varð 43. forseti Bandaríkjanna. Eitt af stærstu verkefnum ríkisstjórnar hans var Persaflóastríðið 1990 til 1991 í kjölfar innrásar Íraks í Kúveit, en sú tilfinning almennings í Bandaríkjunum fyrir því að hann hefði ekki lokið því með sæmd átti þátt í því að hann náði ekki endurkjöri 1992.

George H. W. Bush
Forseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 1989 – 20. janúar 1993
VaraforsetiDan Quayle
ForveriRonald Reagan
EftirmaðurBill Clinton
Varaforseti Bandaríkjanna
Í embætti
19. janúar 1981 – 20. janúar 1989
ForsetiRonald Reagan
ForveriWalter Mondale
EftirmaðurDan Quayle
Persónulegar upplýsingar
Fæddur12. júní 1924
Milton, Massachusetts, Bandaríkjunum
Látinn30. nóvember 2018 (94 ára) Houston, Texas, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiBarbara Pierce ​(g. 1945; d. 2018)
Börn6; þ. á m. George og Jeb
HáskóliYale-háskóli
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Æviágrip

breyta

George Herbert Walker Bush er kominn af auðugri ætt frá austurströnd Bandaríkjanna og ólst upp í Greenwich í Connecticut, þar sem efnafólk átti heima. Faðir hans, Prescott Bush, var bankastjóri á Wall Street og þingmaður fyrir Repúblikanaflokkinn á öldungadeild Bandaríkjaþings.[1] Bush stundaði framhaldsnám í einkaskólanum Phillips Andover Academy og varð þar kunnur íþróttamaður sem þótti með bestu fótboltaköppum í sögu skólans.[2]

Að loknu námi í Andover gekk Bush í bandaríska sjóherinn. Hann gegndi þjónustu í seinni heimsstyrjöldinni og þegar hann var 18 ára varð hann yngsti flugliðsforingi flotans.[2] Bush stjórnaði fjórum flugvélum á Kyrrahafsvígstöðvum stríðsins sem allar brotlentu eftir bardaga. Hann þurfti eitt sinn að nauðlenda á sjónum og missti alla áhöfn sína vegna skothríðar Japana en var sjálfum bjargað. Alls tók Bush þátt í 58 hernaðarleiðöngrum á styrjaldartímanum.[1]

Eftir að Bush lauk herþjónustu kvæntist hann kærustu sinni, Barböru Pierce. Hann hóf nám í Yale-háskóla, þar sem hann varð fyrirliði í hafnabolta og gekk í leynifélagið Skull and Bones, þar sem hann kynntist mörgum helstu vinum sínum. Eftir að Bush útskrifaðist úr Yale árið 1948 flutti hann ásamt Barböru til Texas og varð árið 1953 meðeigandi í olíufyrirtæki með fjárstuðningi frá frænda sínum.[2]

Stjórnmálaferill

breyta

Bush hóf afskipti af stjórnmálum árið 1964 þegar hann bauð sig fram á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Repúblikanaflokkinn í Texas. Hann kom fram sem stuðningsmaður hægrimannsins Barry Goldwater og talaði m.a. gegn lögum um aukin borgararéttindi og samningi um bann við kjarnorkutilraunum. Bush náði ekki kjöri, en hann seldi hlut sinn í olíuiðnaðinum fyrir 1,1 milljarð Bandaríkjadala. Árið 1965 var Bush kjörinn á fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir kjördæmi í Houston.[2]

Á árum sínum á fulltrúadeildinni kom Bush sér upp góðum samböndum við áhrifamenn í Washington, meðal annars við Lyndon B. Johnson forseta og Richard Nixon fyrrum varaforseta. Bush bauð sig aftur fram á öldungadeildina árið 1970 en tapaði fyrir Lloyd Bentsen. Nixon, sem þá var orðinn forseti Bandaríkjanna, útnefndi Bush í kjölfarið sendiherra Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna. Hann barðist þar fyrir áframhaldandi aðild Lýðveldisins Kína á Taívan að Sameinuðu þjóðunum en bað ósigur þegar Lýðveldinu var vikið úr stofnuninni og aðild Alþýðulýðveldisins Kína var viðurkennd þess í stað.[2]

Bush varð því næst formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins. Í því embætti kom hann Nixon forseta einatt til varnar á meðan Watergate-hneykslið var í hámæli. Til tals kom að Bush yrði varaforsetaefni í framboði Geralds Ford forseta í kosningunum 1976 en að endingu var gengið fram hjá honum. Í janúar 1976 útnefndi Ford Bush forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Í því embætti féllst hann á að leyfa rannsókn utanaðkomandi aðila á leyniþjónustunni vegna þrýstings frá hægrimönnum sem vildu sýna fram á að Sovétríkin hefðu náð hernaðarlegum yfirburðum gagnvart Bandaríkjunum þrátt fyrir að mat CIA benti ekki til þess.[2]

Bush var leystur frá störfum hjá CIA eftir að Demókratinn Jimmy Carter vann forsetakosningarnar 1976. Bush fór í kjölfarið að undirbúa eigið framboð fyrir Repúblikana í forsetakosningunum 1980 en í forvali flokksins fyrir þær kosningar tapaði Bush fyrir leikaranum og fyrrum fylkisstjóra Kaliforníu, Ronald Reagan. Í forvalinu gagnrýndi Bush efnahagsstefnu Reagans og kallaði hana „vúdú-hagfræði“. Þrátt fyrir ágreininginn á milli þeirra valdi Reagan Bush sem varaforsetaefni sitt í kosningunum, meðal annars til að friðþægja frjálslyndari arm Repúblikanaflokksins.[2]

Reagan og Bush unnu auðveldan sigur í forsetakosningunum. Bush tók því við embætti varaforseta Bandaríkjanna af Walter Mondale þann 20. janúar 1981.

Varaforseti Bandaríkjanna (1981–1989)

breyta

Þrátt fyrir að hafa áður gagnrýnt Reagan varð Bush dyggur stuðningsmaður hans á meðan hann var varaforseti. Bush stóð með Reagan í Íran-kontrahneykslinu, þar sem upplýst var um að Bandaríkjastjórn hefði selt Írönum vopn í skiptum fyrir lausn bandarískra gísla í Líbanon og hefði notað söluágóðann ólöglega til að fjármagna kontraskæruliða í Níkaragva. Líkt og Reagan kvaðst Bush ekkert hafa vitað af því að fénu hefði verið varið á þennan hátt.[3] Sem forseti átti Bush síðar eftir að gefa embættismönnum sem voru sakfelldir vegna málsins, þar á meðal varnarmálaráðherranum Caspar Weinberger, sakaruppgjöf. George Shultz, utanríkisráðherra í stjórn Reagans, staðhæfði síðar í endurminningum sínum að Bush hefði verið kunnugt um vopnasöluna til Írana.[4] Oliver North, sem fór í fangelsi vegna málsins, tók í sama streng og staðhæfði að Bush hefði lesið þúsundir minnisblaða þar sem fjallað var í smáatriðum um það hvernig fénu hefði verið ráðstafað.[5]

Þann 13. júlí 1985 tók Bush í átta klukkustundir við skyldum forsetaembættisins vegna veikinda Reagans og var þetta í fyrsta sinn sem varaforseti Bandaríkjanna hefur axlað embættisskyldur vegna tímabundinna forfalla forsetans.[6] Reagan og Bush unnu auðveldlega endurkjör í forsetakosningunum 1984, en þar voru andstæðingar þeirra úr Demókrataflokknum fyrrum varaforsetinn Walter Mondale og fulltrúadeildarþingkonan Geraldine Ferraro.

Forsetakosningarnar 1988

breyta
 
Bush varaforseti, Reagan forseti og Gorbatsjov leiðtogi Sovétríkjanna í New York árið 1988.

Reagan naut almennra vinsælda undir lok forsetatíðar sinnar og Bush var af mörgum álitinn sjálfsagður arftaki hans á forsetastól. Bush varð þó að berjast fyrir útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 1988. Meðal Repúblikana var harðasti keppinautur hans um útnefninguna öldungadeildarþingmaðurinn Bob Dole, sem skaut Bush ref fyrir rass með því að vinna í fyrstu forkosningum flokksins í Iowa á meðan Bush lenti í þriðja sæti.[7] Barátta Bush í forvalinu komst á réttan kjöl eftir að hann vann sigur gegn Dole í New Hampshire[8] og Bush tryggði sér í reynd útnefningu flokksins eftir afgerandi sigur í suðurríkjum Bandaríkjanna á svokölluðum „þrumuþriðjudegi“ þann 8. mars 1988.[9]

Bush tryggði sér á endanum útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir kosningarnar og valdi Dan Quayle, öldungadeildarþingmann frá Indiana, sem varaforsetaefni sitt. Í forsetakosningunum var mótframbjóðandi Bush úr Demókrataflokknum Michael Dukakis, fylkisstjóri Massachusetts. Kosningabaráttan milli þeirra þótti einkennast af skítkasti og ómálefnalegri umræðu og var eitt alræmdasta dæmið um það Willie Horton-auglýsingin svokallaða, sem var hugarsmíð kosningastjóra Bush, Lee Atwater. Í auglýsingunni var sagt frá dæmdum morðingja í Massachusetts, Willie Horton, sem hafði fengið helgarorlof úr fangelsi og hafði þá nauðgað hvítri konu. Í auglýsingunni var skuldinni skellt á Dukakis þar sem hann hafði sem fylkisstjóri samþykkt lög sem heimiluðu tilteknum föngum að fá helgarorlof. Málið varð að einu helsta umræðuefni kosningabaráttunnar og stuðlaði að því að Dukakis bað fylgishrun, en hann hafði um skeið haft forskot á Bush í skoðanakönnunum.[10] Þar sem Willie Horton var blökkumaður var gjarnan bent á auglýsinguna sem dæmi um hundaflautustjórnmál þar sem alið var á kynþáttahyggju.[11]

Í kosningunum sigraði Bush Dukakis með afgerandi hætti og vann sigur í 40 af 50 fylkjum landsins.[6] Bush tók því við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar 1989. Hann var fyrsti sitjandi varaforseti Bandaríkjanna til að ná kjöri á forsetastól síðan Martin Van Buren var kjörinn forseti árið 1836.

Forseti Bandaríkjanna (1989–1993)

breyta

Þegar Bush tók við forsetaembættinu var hann í mun veikari stöðu en Reagan hafði verið við upphaf stjórnartíðar sinnar. Þrátt fyrir afhroð Dukakis í forsetakosningunum höfðu Demókratar aukið við meirihluta sinn á báðum deildum Bandaríkjaþings. Tekjuhalli ríkissjóðsins hafði aukist gríðarlega á stjórnarárum Reagans þar sem Reagan hafði aukið útgjöld til hernaðarmála verulega en staðið á sama tíma fyrir stórfelldum skattalækkunum. Í kosningabaráttunni 1988 hafði Bush látið fleyg orð falla: „Lesið af vörum mínum: Enga nýja skatta!“. Þetta kosningaloforð reyndist Bush erfitt þar sem tekjuhallinn hélt áfram að vaxa á fyrsta stjórnarári hans og Demókratar vildu leiðrétta hann með því að hækka skatta. Í júní 1990 neyddist Bush til að endurskoða skattastefnu sína og samþykkja fjárlög sem gerði ráð fyrir skattahækkunum til að koma jafnvægi á ríkisútgjöldin.[12] Lagðir voru nýir skattar á bensín, tóbak og nokkrar munaðarvörur en margir Repúblikanar töldu sig illa svikna af þessum viðsnúningi Bush og töldu hann stríða gegn efnahagsstefnu Reagans.[13][14][15]

Bush hélt áfram viðræðum Reagans við Míkhaíl Gorbatsjov, leiðtoga Sovétríkjanna. Á leiðtogafundi á Möltu árið 1989 lýstu Bush og Gorbatsjov því yfir að kalda stríðinu væri lokið. Bush var forseti þegar Sovétríkin voru leyst upp árið 1991 og Bandaríkin stofnuðu til stjórnmálasambanda við nýju ríkin sem tóku við af þeim.[16]

Árið 1990 skipaði Bush innrás í Panama til þess að handtaka einræðisherrann Manuel Noriega, sem lá undir ásökunum um að stýra alþjóðlegri eiturlyfjaverslun. Bush gaf fjórar ástæður fyrir innrásinni: Hann vildi gæta öryggis bandarískra ríkisborgara í Panama, stuðla að endurreisn lýðræðis í landinu, standa vörð um sáttmálann um Panamaskurðinn og koma Noriega í hendur réttvísinni.[17] Noriega var handtekinn og fluttur til Bandaríkjanna, þar sem hann hlaut fjörutíu ára fangelsisdóm.[16]

Persaflóastríðið

breyta
 
Bush heilsar bandarískum hermönnum í Sádi-Arabíu á þakkargjörðardegi árið 1990.

Afdrifaríkasti atburðurinn í utanríkismálum á stjórnartíð Bush var Persaflóastríðið árið 1991, sem hófst þegar Saddam Hussein, einræðisherra Íraks, gerði innrás í Kúveit. Þann 25. júlí 1990 hafði Saddam fundað með April Glespie, sendiherra Bandaríkjanna í Írak, sem hafði tjáð honum að Bandaríkin tækju ekki afstöðu til innbyrðis deilna Arabaþjóðanna. Saddam virðist hafa túlkað orð Glespie sem svo að stjórn Bush gæfi í reynd grænt ljós á innrásina.[18] Bush leit hins vegar á innrásina í Kúveit sem prófstein á hina nýju heimsskipan sem tæki við í kjölfar kalda stríðsins og átti að byggjast á fullveldi, landhelgi og sjálfstæði þjóða. Bandaríkin beittu efnahagsþvingunum gegn Írak og fóru síðan í gegnum allar helstu alþjóðastofnir til að byggja upp hernaðarbandalag til að frelsa Kúveit. Afraksturinn varð 34 ríkja hernaðarbandalag sem taldi meðal annars til sín voldugar Arabaþjóðir eins og Egyptaland og Sádi-Arabíu. Þann 16. janúar 1991 hófst Eyðimerkurstormsaðgerðin (e. Operation Desert Storm), þar sem herir bandalagsríkjanna réðust inn í Írak til að aflétta hernáminu í Kúveit.[19]

Eftir um einn mánuð og 116 þúsund árásarferðir var varnarkerfi Íraks nánast gereytt og íraskir hermenn voru hraktir út úr Kúveit. Í miðju stríðinu biðlaði Bush til íbúa Íraks að rísa upp gegn Saddam og steypa honum af stóli. Þar sem ljóst þótti að Írak hefði tapað stríðinu og ætti mögulega hernám vofandi yfir sér hófu hópar innan Íraks, einkum Kúrdar og sjítar, uppreisnir til að kollvarpa Saddam. Uppreisnirnar mistókust hins vegar þar sem uppreisnarmenn voru ósamstíga og þvert á væntingar þeirra sóttu herir bandalagsríkjanna ekki yfir landamærin til Íraks til að hjálpa þeim. Undir lok stríðsins var Saddam enn öryggur í sessi sem leiðtogi Íraks og mörgum sjítum þótti Bandaríkjastjórn hafa svikið þá með því að egna þá til uppreisnar en koma þeim síðan ekki til hjálpar.[19]

Forsetakosningarnar 1992

breyta

Bush naut gífurlegra vinsælda eftir sigurinn í Persaflóastríðinu og margir töldu nánast útrætt mál að hann yrði endurkjörinn í forsetakosningunum 1992.[20] Veður skipuðust hins vegar fljótt í lofti og í byrjun 1992 var farið að síga á vinsældir Bush vegna efnahagslægðar. Um 70 % aðspurðra töldu Bush ekki skilja vandamál venjulegra Bandaríkjamanna og um 58 % töldu efnahagsstefnu hans óraunhæfa. Hann var gagnrýndur fyrir að lækka fjárframlög til láglaunafólks og hika við að samþykkja frumvarp sem hefði tryggt tveimur milljónum Bandaríkjamanna atvinnuleysisbætur.[14] Á sama tíma voru sumir Repúblikanar óánægðir með Bush vegna skattahækkana hans. Andstæðingur Bush úr röðum Demókrata í forsetakosningunum 1992 var Bill Clinton, fylkisstjóri Arkansas, en auk hans var auðjöfurinn Ross Perot í sjálfstæðu framboði og naut um skeið meira fylgis í skoðanakönnunum en frambjóðendur stóru flokkanna.[21]

Bush þótti ekki standa sig vel í sjónvarpskappræðunum á móti Clinton og Perot. Sér í lagi kom það illa út fyrir hann þegar hann gat ekki með góðu móti svarað því hvaða áhrif efnahagskreppan hefði haft á hann sjálfan og þegar hann leit á úrið sitt á meðan Clinton svaraði sömu spurningu hnökralaust.[22] Í kosningunum í nóvember 1992 tapaði Bush endurkjöri fyrir Clinton. Bush hlaut 39.104.550 atkvæði á landsvísu, vann í 18 fylkjum og hlaut 168 kjörmenn en Clinton vann 44.909.889 atkvæði, vann 32 fylki auk höfuðborgarinnar og hlaut 370 kjörmenn. Ross Perot hlaut 19.743.821 atkvæði á landsvísu en vann ekki í neinum fylkjum og hlaut enga kjörmenn. Bush lét því af embætti þann 20. janúar 1993 þegar kjörtímabili hans lauk.[23]

Einkahagir

breyta

Eiginkona Bush frá árinu 1945 var Barbara Pierce. Þau voru gift í 73 ár, þar til Barbara lést 18. apríl 2018. Þau eignuðust sex börn saman, en ein dóttir þeirra lést úr hvítblæði aðeins þriggja ára gömul.[24] Elsti sonur þeirra, George Walker Bush, var fylkisstjóri Texas frá 1995 til 2000 og forseti Bandaríkjanna frá 2001 til 2009. Annar sonur þeirra, Jeb Bush, var fylkisstjóri Flórída frá 1999 til 2007 og bauð sig fram í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 2016 en dró sig til hlés eftir slakt gengi.[25]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Hinn trúi þjónn“. Dagblaðið Vísir. 27. ágúst 1988. bls. 30.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 Guðmundur Halldórsson (6. nóvember 1988). „Staðgengillinn“. Morgunblaðið. bls. 22.
  3. Steinunn Böðvarsdóttir (9. nóvember 1988). „Hinn nýkjörni forseti Bandaríkjanna“. Dagblaðið Vísir. bls. 10.
  4. „George Bush vissi um vopnasöluna til Írans“. Dagblaðið Vísir. 1. febrúar 1993. bls. 9.
  5. Íris Erlingsdóttir (3. nóvember 1991). „Ég var blóraböggull“. Dagblaðið Vísir. bls. 11.
  6. 6,0 6,1 „Veit hvaða verki hann á að valda“. Morgunblaðið. 10. nóvember 1988. bls. 30-31.
  7. Ólafur Arnarson (9. febrúar 1988). „Bush beið mikið afhroð“. Dagblaðið Vísir. bls. 9.
  8. Heimir Bergsson (18. febrúar 1988). „Bush aftur kominn í efstu tröppuna“. Tíminn. bls. 12.
  9. Óli Björn Kárason (17. mars 1988). „Ár hinna glötuðu tækifæra“. Morgunblaðið. bls. 26.
  10. Gunnar Eyþórsson (31. janúar 1992). „George Bush og óvinir hans“. Dagblaðið Vísir. bls. 14.
  11. Ingibjörg Árnadóttir (25. nóvember 1992). „Veðjað á það vonda“. Alþýðublaðið. bls. 7.
  12. „Bush neyðist til að endurskoða skattastefnuna“. mbl.is. 28. júní 1990. Sótt 9. maí 2021.
  13. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. bls. 400. ISBN 978-9935-9194-5-8.
  14. 14,0 14,1 Íris Erlingsdóttir (9. febrúar 1992). „Bush í mótbyr“. Morgunblaðið. bls. 36-37.
  15. Karl Blöndal (14. nóvember 1990). „Bush orðinn Akkilesarhæll repúblikana“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
  16. 16,0 16,1 Bandaríkjaforsetar. 2016. bls. 401.
  17. Karl Blöndal (12. apríl 1992). „Enginn grætur Noriega“. Morgunblaðið. bls. 22.
  18. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Reykjavík: Mál og menning. bls. 291. ISBN 978-9979-3-3683-9.
  19. 19,0 19,1 Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. 2018. bls. 292.
  20. Guðmundur Halldórsson (10. mars 1991). „Eftir sigurinn“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
  21. „Milljarðamæringurinn sem ógnar endurkjöri Bush í forsetaembætti“. Tíminn. 21. maí 1992. bls. 7.
  22. „Sjónvarpskappræður í Bandaríkjunum Hnökralaus frammistaða færir Clinton nær“. mbl.is. 17. október 1992. Sótt 9. maí 2021.
  23. Bandaríkjaforsetar. 2016. bls. 402.
  24. Ævar Örn Jósepsson (18. apríl 2018). „Barbara Bush látin“. RÚV. Sótt 9. maí 2021.
  25. Tryggvi Páll Tryggvason (21. febrúar 2016). „Jeb Bush dregur sig í hlé“. Vísir. Sótt 9. maí 2021.


Fyrirrennari:
Ronald Reagan
Forseti Bandaríkjanna
(1989 – 1993)
Eftirmaður:
Bill Clinton
Fyrirrennari:
Walter Mondale
Varaforseti Bandaríkjanna
(1981 – 1989)
Eftirmaður:
Dan Quayle