Ross Perot

Bandarískur viðskiptamaður og forsetaframbjóðandi (1930-2019)

Henry Ross Perot (27. júní 1930 – 9. júlí 2019) var bandarískur athafnamaður, milljarðamæringur og mannúðarvinur. Hann var stofnandi og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækjanna Electronic Data Systems og Perot Systems. Perot bauð sig sjálfstætt fram í bandarísku forsetakosningunum 1992 og fyrir Umbótaflokkinn í forsetakosningunum 1996. Í báðum kosningunum vann hann engin fylki og hlaut enga kjörmenn en framboð hans voru þó með þeim fylgismestu utan stóru stjórnmálaflokkanna í sögu Bandaríkjanna.

Ross Perot
Ross Perot árið 1986.
Fæddur27. júní 1930
Dáinn9. júlí 2019 (88 ára)
Dánarorsökúr hvítblæði[1]
ÞjóðerniBandarískur
MenntunHáskólinn í Texarkana
Bandaríski flotaskólinn
FlokkurUmbótaflokkurinn (1995–2000)
Repúblikanaflokkurinn (2000–2019)
MakiMargot Birmingham (g. 1956)
Börn5
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Ross Perot var sonur baðmullarkaupmanns frá smábænum Texarkana í Texas og ólst upp í sárri fátækt. Hann gekk í herskóla og gegndi fjögurra ára þjónustu í bandaríska sjóhernum en árið 1957 var hann ráðinn hjá tæknifyrirtækinu IBM sem sölumaður og var afar afkastamikill í því starfi. Árið 1962 hætti Perot störfum hjá IBM og stofnaði eigið fyrirtæki, EDS, með þúsund dollara bankaláni. Fyrirtækið efnaðist vel á næstu árum og árið 1969 hóf Perot að selja hlutabréf í því og græddi þannig verulegar fjárhæðir.[2]

Árið 1984 keypti General Motors EDS af Perot og réð Perot um leið sem stjórnanda til þess að reyna að koma lagi á fjárhagshalla fyrirtækisins. Ross mislíkaði skrifræðið innan GM og gagnrýndi óskilvirkni fyrirtækisins án afláts.[2] Hann lauk að endingu störfum hjá fyrirtækinu þegar GM greiddi honum 700 milljónir dollara fyrir síðasta eignarhlut hans í EDS til þess að losna við hann úr stjórninni.[3]

Perot var gagnrýninn á Víetnamstríðið og vakti athygli árið 1969 þegar hann reyndi að senda jólapakka til bandarískra stríðsfanga í Norður-Víetnam. Þegar tveir starfsmenn Perots voru fangelsaðir í Íran vegna samningsdeilna í kjölfar írönsku byltingarinnar 1979 borgaði Perot sveit málaliða til þess að fara til Írans og frelsa þá úr haldi. Björgunaraðgerð þeirra varð fyrirmyndin að bókinni Á arnarvængjum eftir spennusagnahöfundinn Ken Follet.[2]

Perot var þekktur fyrir að viðhalda ströngum reglum um klæðaburð meðal starfsmanna sinna, sem urðu að klæðast hvítum skyrtum með bindum á vinnustað og máttu ekki láta sér vaxa skegg.[1]

Forsetaframboð 1992

breyta
 
Ross Perot heilsar Bill Clinton, frambjóðanda Demókrataflokksins, við þriðju sjónvarpskappræður forsetaframbjóðendanna þann 19. október 1992. Við hlið þeirra stendur sitjandi forsetinn George H. W. Bush.

Perot lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali við Larry King á CNN í febrúar 1992 að hann hefði áhuga á að gefa kost á sér sem óháður frambjóðandi í forsetakosningunum 1992 ef hann næði nógu miklum stuðningi í öllum fylkjum Bandaríkjanna.[3] Perot steig fram sem pólitískur utangarðsmaður sem gæti barist gegn spillingu í Washington og beitt viðskiptaviti sínu til þess að koma lagi á fjármál ríkisins.[2] Hann sagðist ætla að spara ríkissjóðnum allt að 180 milljarða dollara á ári með því að uppræta sóun og misnotkun ríkisfjármuna. Perot talaði jafnframt fyrir auknu beinu lýðræði í bandarískum stjórnmálum með fjölgun þjóðaratkvæðagreiðslna og sagðist vilja koma á einróma stjórn með stofnun fjölda „rafeindaráðhúsa.“[3]

Margar tillögur Perots féllu vel í kramið meðal bandarískra kjósenda og í skoðanakönnunum mældist Perot um skeið með meira fylgi en bæði sitjandi forseti Bandaríkjanna, Repúblikaninn George Bush, og mótframbjóðandi hans úr Demókrataflokknum, Bill Clinton. Í þessum könnunum höfðaði Perot jafnt til hefðbundinna kjósenda beggja hefðbundnu stjórnarflokkanna.[2]

Í júlí 1992 tilkynnti Perot óvænt að hann hygðist hætta við framboð sitt. Hann lýsti því yfir að hann vildi koma í veg fyrir að enginn frambjóðandi fengi meirihluta í kjörmannaráðinu og að fulltrúadeild Bandaríkjaþings yrði þá falið að velja forsetann. Jafnframt sagðist hann gefa stóru flokkunum tveimur tækifæri til að sýna að þeim væri alvara í efnahagsmálum. Með því að draga framboð sitt til baka kom Perot í veg fyrir að mótframbjóðendur hans og fjölmiðlar héldu áfram að rannsaka feril hans til að grafa upp upplýsingar sem gætu komið höggi á hann. Hann losaði sig einnig við stjórnarteymi kosningabaráttu hans sem hann var ekki ánægður með. Þrátt fyrir að vera hættur við framboð hélt Perot þó áfram að koma fram opinberlega og fjármagna kosningaherferðina.[4]

Í október tilkynnti Perot að hann væri hættur við að hætta við og myndi bjóða sig fram eftir allt saman. Hann tilkynnti jafnframt að stríðshetjan James Stockdale yrði varaforsetaefni hans í kosningunum.[5] Með þessum viðsnúningi hafði Perot hins vegar tapað tiltrú margra stuðningsmanna sinna og mældist nú langt á eftir Clinton og Bush í skoðanakönnunum. Perot hafði komist á kosningaseðil í öllum fylkjum Bandaríkjanna og fékk því að taka þátt í sjónvarpskappræðum forsetaframbjóðendanna og með góðri frammistöðu sinni þar vann hann sér aftur nokkurn stuðning. Framboð hans náði þó aldrei aftur þeim meðbyr sem það hafði haft við upphaf ársins.[6]

Þegar forsetakosningarnar 1992 voru haldnar hlaut Perot 19% atkvæða og lenti í þriðja sæti á eftir Clinton, sem hlaut 43% atkvæða, og Bush, sem hlaut 37,4%.[7] Perot sótti fylgi um allt landið en þar sem hann hlaut ekki meirihluta atkvæða í neinu fylki hlaut hann engin atkvæði í kjörmannaráðinu sem kýs forsetann. Framboð Perots var engu að síður eitt fylgismesta óháða framboð í bandarískri stjórnmálasögu.

Ross Perot var örvhentur líkt og þeir Bush og Clinton.

Forsetaframboð 1996

breyta

Perot bauð sig aftur fram til forseta í forsetakosningunum 1996, í þetta sinn fyrir nýstofnað stjórnmálaafl, Umbótaflokkinn.[8] Í þessum kosningum náði Perot aldrei jafnmiklu fylgi og árið 1992 og á kjördag lenti hann í þriðja sæti á eftir Clinton forseta og Bob Dole, frambjóðanda Repúblikana. Í þetta sinn hlaut Perot 8,4% atkvæða gegn 40,7% sem Dole hlaut og 49,2% sem Clinton hlaut.[7]

Dauði

breyta

Ross Perot lést þann 9. júlí árið 2019 úr hvítblæði sem hann hafði greinst með fyrr sama ár.[9]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Milljarðamæringurinn Ross Perot látinn“. mbl.is. 9. júlí 2019. Sótt 17. júlí 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „Ross Perot: Hvítt hús óskast“. Vikan. 11. júní 1992. bls. 28; 30-31.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Milljarðamæringurinn sem ógnar endurkjöri Bush í forsetaembætti“. Tíminn. 21. maí 1992. bls. 7.
  4. „Blaðamenn grafast fyrir um skuggahliðar á Ross Perot“. Tíminn. 7. júlí 1992. bls. 5.
  5. „Bréf frá 9 ára skólastúlku réð úrslitum“. Dagblaðið Vísir. 2. október 1992. bls. 8.
  6. Guðmundur Halldórsson (18. október 1992). „Teflir Perot kosningunum í tvísýnu?“. Morgunblaðið. bls. 12-13.
  7. 7,0 7,1 „Forsetaframbjóðandinn Ross Perot látinn“. Viðskiptablaðið. 9. júlí 2019. Sótt 17. júlí 2021.
  8. Guðmundur Halldórsson (20. ágúst 1996). „Perot hyggst ekki kosta framboð sitt“. Morgunblaðið. bls. 18.
  9. Daníel Freyr Birkisson (9. júlí 2019). „For­ríki for­seta­fram­bjóðandinn Ross Perot látinn“. Fréttablaðið. Sótt 17. júlí 2021.