Michael Dukakis
Michael Stanley Dukakis (f. 3. nóvember 1933) er bandarískur stjórnmálamaður úr Demókrataflokknum sem var fylkisstjóri Massachusetts á tveimur tímabilum, frá 1975 til 1979 og frá 1983 til 1991. Dukakis var frambjóðandi Demókrata í bandarísku forsetakosningunum 1988 en tapaði þar gegn George Bush, frambjóðanda Repúblikana.
Michael Dukakis | |
---|---|
Fylkisstjóri Massachusetts | |
Í embætti 2. janúar 1975 – 4. janúar 1979 | |
Vararíkisstjóri | Thomas P. O'Neill III |
Forveri | Francis W. Sargent |
Eftirmaður | Edward J. King |
Í embætti 6. janúar 1983 – 3. janúar 1991 | |
Vararíkisstjóri | John Kerry Evelyn Murphy |
Forveri | Edward J. King |
Eftirmaður | Bill Weld |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 3. nóvember 1933 Brookline, Massachusetts, Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Stjórnmálaflokkur | Demókrataflokkurinn |
Maki | Kitty Dukakis (g. 1963) |
Börn | 4 |
Háskóli | Swarthmore-háskóli Harvard-háskóli |
Undirskrift |
Uppvöxtur og menntun
breytaMichael Dukakis fæddist árið 1933 í Brookline á stórborgarsvæði Boston í Massachusetts. Báðir foreldrar hans voru grískir innflytjendur. Faðir hans hafði flust fimmtán ára gamall til Bandaríkjanna frá grísku þorpi í Tyrklandi árið 1912 og kunni þá enga ensku. Þrátt fyrir að koma bláfátækur til Bandaríkjanna hlaut faðir Dukakis inngöngu í læknadeild Harvard-háskóla og varð síðar vel stæður heimilislæknir.[1] Móðir Michaels Dukakis flutti til Bandaríkjanna árið 1913 og var fyrst grískættaðra kvenna í Haverhill í Massachusetts sem tók háskólapróf.[2]
Dukakis ólst upp á vel stæðu millistéttarheimili í Brookline. Hann var góður námsmaður og var virkur í skátahreyfingunni á unga aldri. Hann var álitinn leiðtogi meðal vina sinna en var þó ekki vinsæll í skóla sínum þar sem helstu klíkurnar voru í kringum nemendur af írskum ættum og gyðingaættum.[3]
Að loknu grunnnámi gekk Dukakis í Swarthmore-háskóla og útskrifaðist síðan með lagagráðu úr Harvard-háskóla með hæstu ágætiseinkunn. Þess á milli gegndi hann þjónustu í bandaríska hernum í Kóreu, þar sem hann lærði kóresku. Árið 1963 kvæntist Dukakis Kitty Dickson, sem var fráskilin og af gyðingaættum.[1] Fyrri kærasta Dukakis, Sandy Choen, hafði kynnt þau hvort fyrir öðru.[3] Hjónin eignuðust tvær dætur saman, auk þess sem Dukakis ættleiddi son Kitty úr fyrra hjónabandinu.[4]
Stjórnmálaferill
breytaDukakis hóf þátttöku í stjórnmálum að loknu lagaprófi, fyrst með kjöri í borgarstjórn Brookline árið 1959. Hann var síðan árið 1964 kjörinn á fylkisþing Massachusetts og bauð sig tvisvar fram í embætti saksóknara fylkisins, árin 1966 og 1970, en án árangurs.[3] Árið 1974 bauð Dukakis sig fram til embættis fylkisstjóra Massachusetts og náði kjöri. Bandaríkin voru á þessum tíma enn að jafna sig á Watergate-hneykslinu og heiðarleiki Dukakis féll því vel í kramið hjá kjósendum þrátt fyrir að stefna hans varðandi kynþáttajafnrétti í skólum þætti óljós.[1]
Fyrsta kjörtímabil Dukakis sem fylkisstjóra þótti ekki farsælt. Dukakis neitaði að vinna með spilltri flokksklíku Demókrata í Boston sem vön var að ráða mestu um mál fylkisins og bakaði sér því óvild flokkssystkina sinna. Hann erfði jafnframt mikinn tekjuhalla frá fyrri stjórn Massachusetts en var tregur til að hækka skatta til að koma fjármálum stjórnarinnar í lag. Dukakis fékk orð á sig fyrir að vera ósveigjanlegur, hrokafullur og ótraustverðugur og varð því óvinsæll meðal þingmanna fylkisins. Svo fór að Demókratar endurútnefndu Dukakis ekki sem frambjóðanda sinn í næstu kosningum og fylkisstjóratíð hans lauk því árið 1979.[3]
Dukakis vann næstu árin fyrir sér sem prófessor í stjórnmálafræði við Harvard-háskóla. Þar tamdi hann sér betri umgengnishætti og þegar hann ákvað að gefa aftur kost á sér í embætti fylkisstjóra árið 1982 sagðist hann hafa lært lexíu af ósigri sínum.[3] Eftirmaður Dukakis sem fylkisstjóri, Edward J. King, var viðriðinn mörg spillingarmál og því tókst Dukakis að vinna sér stuðning Demókrata á ný og sigra King í forvali flokksins fyrir kosningarnar. Þetta leiddi til þess að Dukakis sneri aftur á fylkisstjórastól í janúar 1983.[1]
Seinni stjórnartíð Dukakis í Massachusetts gekk mun betur en sú fyrri. Efnahagur fylkisins stóð í blóma á þessum tíma og Dukakis var duglegur að benda á að undir hans stjórn hefði „efnahagsundur“ átt sér stað í Massachusetts. Andstæðingar Dukakis töldu efnahagsfarsældina þó ekki vera honum að þakka og vændu hann jafnvel um að hafa stuðlað að brottflutningi fyrirtækja frá fylkinu. Dukakis varð engu að síður vinsæll fylkisstjóri og náði endurkjöri með yfirburðum árið 1986.[5]
Forsetakosningarnar 1988
breytaÁrið 1987 gaf Dukakis kost á sér í forvali Demókrataflokksins til að verða frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum næsta ár. Meðal keppinauta hans um tilnefninguna voru stjórnmálamenn á borð við Jesse Jackson, Al Gore og Joe Biden.[6] Dukakis þótti njóta góðs af störfum kosningastjóra síns, Johns Sasso, sem tókst að safna verulegum fjármunum í kosningasjóð Dukakis og tryggði honum stuðning öflugustu landssamtaka flokksins. Dukakis rak Sasso hins vegar eftir að Sasso dreifði myndbandsspólu þar sem ráðist var að Joe Biden fyrir að stela orðrétt hlutum úr einni ræðu sinni úr ræðu eftir breska stjórnmálamanninn Neil Kinnock.[1]
Dukakis vann forval Demókrata að endingu og valdi Lloyd Bentsen, öldungadeildarþingmann frá Texas, sem varaforsetaefni sitt í kosningunum. Mótframbjóðandi Dukakis úr Repúblikanaflokknum var sitjandi varaforseti Bandaríkjanna, George Bush. Í kosningunum kom Dukakis fram sem andstæðingur dauðarefsinga og stuðningsmaður frjálsra þungunarrofa. Hann gagnrýndi geimvarnaáætlun Ronalds Reagan forseta og mælti með lægri útgjöldum til hernaðarmála, minni hernaðarafskiptum erlendis og markvissari tilraunum til að framfylgja kjarnorkusamningum Bandaríkjanna við Sovétríkin. Hann lofaði jafnframt bættri umhverfisvernd, harðari baráttu gegn eiturlyfjum og alnæmi og bættri læknisþjónustu.[1]
Kosningabaráttan milli Dukakis og Bush þótti einkennast af skítkasti og ómálefnalegri umræðu og var eitt alræmdasta dæmið um það Willie Horton-auglýsingin svokallaða, sem var hugarsmíð kosningastjóra Bush, Lee Atwater. Í auglýsingunni var sagt frá dæmdum morðingja í Massachusetts, Willie Horton, sem hafði fengið helgarorlof úr fangelsi og hafði þá nauðgað hvítri konu. Í auglýsingunni var skuldinni skellt á Dukakis þar sem hann hafði sem fylkisstjóri samþykkt lög sem heimiluðu tilteknum föngum að fá helgarorlof. Málið varð að einu helsta umræðuefni kosningabaráttunnar og stuðlaði að því að Dukakis bað fylgishrun, en hann hafði um skeið haft forskot á Bush í skoðanakönnunum.[7] Þar sem Willie Horton var blökkumaður var gjarnan bent á auglýsinguna sem dæmi um hundaflautustjórnmál þar sem alið var á kynþáttahyggju.[8]
Í kosningunum var einnig gert mál úr því að eiginkona Dukakis, Kitty, hafði verið háð amfetamínpillum í 26 ár. Kitty sagði að eiginmaður hennar hefði ekki vitað af þessu fyrr en árið 1974 og að hún hefði hafið meðferð gegn neyslunni árið 1982. Dukakis hélt því fram að hann hefði staðið í þeirri trú að hún væri hætt í millitíðinni en andstæðingar hans töldu þetta ekki trúverðugt.[3]
Eitt alvarlegasta feilspor Dukakis í kosningabaráttunni varð þegar hann reyndi að bregðast við gagnrýni Bush um að hann væri reynslulaus í utanríkis- og hernaðarmálum og illa í stakk búinn til að leiða Bandaríkin í kalda stríðinu. Dukakis lét taka af sér myndir í herstöð í Michigan þar sem hann sat við stjórn skriðdreka. Myndirnar urðu hins vegar aðhlátursefni þar sem Dukakis var með of lítinn hjálm á höfði og þótti minna meira á dreng með leikföng en mögulegan leiðtoga Bandaríkjahers. Kosningateymi Bush gerði sér mat úr myndunum af Dukakis í skriðdrekanum og minnti kjósendur á að hann hefði mælt gegn auknum fjárframlögum til hersins.[9]
Í kosningunum í nóvember 1988 bað Dukakis afgerandi ósigur gegn Bush, sem hlaut 426 kjörmenn gegn 111 sem Dukakis hlaut.[10] Gengi Dukakis í kosningunum var engu að síður talsvert betra en frambjóðenda Demókrata í síðustu tveimur forsetakosningum á undan.[11]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 „Grískættaða forsetaefnið“. Morgunblaðið. 28. febrúar 1988. bls. 63.
- ↑ Ingibjörg Árnadóttir (1. júní 1988). „Maraþonmaðurinn“. Alþýðublaðið. bls. 7.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 „Álíka skáldlegur og reglustrika“. Dagblaðið Vísir. 27. ágúst 1988. bls. 30.
- ↑ Guðmundur Halldórsson (6. nóvember 1988). „Ísmaðurinn“. Morgunblaðið. bls. 22.
- ↑ Óli Björn Kárason (3. mars 1988). „„Kraftaverkið í Massachusetts"“. Morgunblaðið. bls. 22.
- ↑ „Ágætur verkstjóri en fremur sviplítill“. Morgunblaðið. 9. júní 1988. bls. 31.
- ↑ Gunnar Eyþórsson (31. janúar 1992). „George Bush og óvinir hans“. Dagblaðið Vísir. bls. 14.
- ↑ Ingibjörg Árnadóttir (25. nóvember 1992). „Veðjað á það vonda“. Alþýðublaðið. bls. 7.
- ↑ „Þegar frambjóðendur eyðileggja kosningabaráttuna“. Athygli. október 2016. Sótt 11. júní 2021.
- ↑ Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. bls. 400. ISBN 978-9935-9194-5-8.
- ↑ Jón Ásgeir Sigurðsson (1. desember 1988). „Helmingur kjósenda kaus gegn hinum frambjóðendunum“. Þjóðlíf. bls. 29-31.