Dobbs gegn Jackson Women's Health Organization

Dobbs v. Jackson Women's Health Organization (2022) var umdeildur tímamótadómur í Hæstarétti Bandaríkjanna þar sem fjallað var um hvort að stjórnarskrá landsins verndi réttinn til þungunarrofs. Málið snerist um lögsókn Jackson Women's Health Organization gegn Thomas E. Dobbs, heilbrigðisfulltrúa Mississippi-ríkis. Málið var höfðað vegna laga sem bönnuðu flest þungunarrof eftir 15 vikna meðgöngu, nema í tilfellum læknisfræðilegrar neyðar eða fósturgalla. Hæstiréttur staðfesti lögin frá Mississippi með klofinni niðurstöðu. Niðurstaðan felldi þar með úr gildi tæplega 50 ára gömul dómafordæmi sem sett voru í málinu Roe v. Wade (1973) og Planned Parenthood v. Casey (1992). Þetta þýddi að stjórnarskráin verndaði ekki lengur réttinn til þungunarrofs og ákvörðunarvaldið um reglur um þungunarrof færist til einstakra ríkja.[1]

Drög að meirihlutaáliti lekið af Politico

breyta

Málflutningur fyrir Hæstarétti fór fram í desember 2021. Í maí 2022 birti fréttaveitan Politico drög að meirihlutaáliti dómarans Samuel Alito sem hafði verið lekið,[2] en þau drög samsvöruðu að mestu leyti loka ákvörðun dómsins.[3]

Þann 24. júní 2022 kvað dómstóllinn upp úrskurð með atkvæðum 6-3, þar sem fyrri niðurstöðum dómstólsins var hnekkt. Minni/smærri (e. smaller majority) meirihluti eða fimm dómarar, studdu álitið um að ógilda dóma í Roe og Casey.

 
John Roberts, forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna

Meirihlutinn taldi að þungunarrof væri hvorki stjórnarskrárbundinn réttur sem nefndur er í stjórnarskránni, né grundvallarréttur sem felst í hugtakinu um skipulagt frelsi (e. ordered liberty), eins og kom fram í Palko v. Connecticut (1937). Forseti Hæstaréttar, John Roberts, var sammála um að staðfesta lögin í Mississippi en tók ekki þátt í meirihlutaálitinu um að ógilda Roe og Casey. Mörg bandarísk vísinda- og læknasamfélög,[4] verkalýðsfélög,[5] ritstjórnir fréttamiðla,[6] flestir demókratar og margar trúarstofnanir (þar á meðal flestir gyðingar og mótmælendakirkjur) voru andvíg Dobbs-dómnum, á meðan kaþólska kirkjan, margar evangelískar kirkjur og margir repúblikanar úr stjórnmálunum studdu hann. Mótmæli brutust út frá báðum fylkingum vegna ákvörðunarinnar.[7][8][9]

Dobbs-dómurinn var víða gagnrýndur og leiddi til djúpstæðra menningarlegra breytinga í bandarísku samfélagi varðandi þungunarrof. Eftir úrskurðinn kynntu nokkur ríki strax takmarkanir á þungunarrofi eða tóku aftur upp lög sem Roe og Casey höfðu gert óvirk. Frá og með árinu 2024 eru þungunarrof verulega takmörkuð í 17 ríkjum, einkum í Suðurhluta Bandaríkjanna.[10] Í skoðanakönnunum innanlands jókst stuðningur við löglegt aðgengi að þungunarrofi um 10 til 15 prósentustig árið eftir.[11] Kosningar innan ríkja sem fram fóru í kjölfar úrskurðarins í Kansas, Montana, Kaliforníu, Vermont, Michigan, Kentucky og Ohio enduðu allar í þágu þungunarrofs (e. uniformly came out in favor of abortion rights), almennt með yfirgnæfandi mun þvert á stjórnmálin.[12]

Fjórtándi viðauki stjórnarskrárinnar

breyta

Fjórtándi viðauki stjórnarskrárinnar snýr að réttindum borgaranna. Viðaukinn kveður meðal annars á um að ekkert ríki skuli setja eða framfylgja lögum sem að skerða réttindi og friðhelgi ríkisborgaranna. Dómurinn byggir á þeirri túlkun að rétturinn til þungunarrofs sé ekki stjórnarkrárvarinn samkvæmt 14. viðauka bandarísku stjórnarkrárinnar. Túlkunin gefur til kynna að þungunarrof falli ekki undir persónulegt frelsi, í andstöðu við dóma Roe v. Wade og Casey v. Planned Parenthood þar sem þungunarrof eigi sér ekki djúpar rætur í sögu þjóðarinnar. Þegar fjórtándi viðaukinn var samþykktur var þungunarrof bannað í fjölmörgum ríkjum Bandaríkjanna.[13]

Röksemdir dómara

breyta
 
Samuel Alito, dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna

Dómurinn í Dobbs v. Jackson Women's Health Organization var álitinn marka stórt skref aftur frá fyrri fordæmum sem tengjast friðhelgi einstaklingsins. Meirihlutinn, sem samanstóð af dómurunum Samuel Alito, Clarence Thomas, Neil Gorsuch, Brett Kavanaugh og Amy Coney Barrett, taldi að stjórnarskráin verndaði ekki beinlínis réttinn til þungunarrofs. Í dómsniðurstöðunni byggðu þeir á sögulegum túlkunum og bentu á að þungunarrof væri hvergi tryggt í stjórnarskránni. Þeir sögðu að slíkt ætti að falla undir vald einstakra ríkja, frekar en að vera stjórnarskrárvarin réttindi. Þetta færði ákvörðunarvaldið frá alríkisstigi til einstakra ríkja og opnaði þar með á misræmi milli ríkja hvað varðar þungunarrof.[2]

 
Sonia Sotomayor, dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna

Dómararnir Stephen Breyer, Sonia Sotomayor og Elena Kagan voru ósammála þessari túlkun. Þau lögðu áherslu á að slík breyting gæti haft áhrif á önnur réttindi og bentu á að það væri hættulegt að veita ríkjum meiri stjórn yfir málum sem snúa að einkalífi einstaklinga. Þau vöruðu við því að dómurinn gæti sett hættulegt fordæmi með því að veikja verndun annarra réttinda sem tengjast persónulegu frelsi, eins og réttinum til samkynhneigðra sambanda og getnaðarvarna, þar sem þau réttindi byggjast einnig á túlkun fjórtánda viðaukans. Með því að færa ákvörðunarvaldið um þungunarrof til einstakra ríkja væri í raun verið að rýra sjálfræði kvenna á grundvelli búsetu.[14]

Viðbrögð og áhrif

breyta

Viðbrögð við niðurstöðu Hæstaréttar voru blendnar. Íhaldsfólk í Bandaríkjunum fagnaði ákvörðuninni eftir áratuga baráttu fyrir því að ná þessum breytingum fram. Aðrir óttast bakslag í fleiri málaflokkum í framhaldinu, svo sem í réttindum hinsegin fólks. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands lýsti vonbrigðum sínum með dómsniðurstöðuna. Hún sagði það sárt að sjá að Hæstiréttur hafi hnekkt Roe v. Wade. Þá sagði hún að auka þyrfti réttindi kvenna, ekki takmarka þau. Þau orð eru í takt við viðbrögð Barack Obama sem sagði að niðurstaðan væri árás á grundvallarréttindi.[15]

Joe Biden

breyta
 
Joe Biden flytur ávarp um niðurstöðu hæstaréttar.

Joe Biden Bandaríkjaforseti var mjög gagnrýninn á niðurstöðu Hæstaréttar. Biden kallaði ákvörðunina „öfgakennda hugmyndafræði“ sem setji heilsu og líf kvenna í hættu. Hann sagði að þessi ákvörðun Hæstaréttar ógni grundvallarréttindum og skapi hættulegt fordæmi. Forsetinn lofaði að gera allt sem hann gæti til að vernda réttinn til þungunarrofs, til dæmis með því að tryggja að konur geti ferðast á milli ríkja til að leita læknishjálpar og vernda aðgengi að lyfjum sem ljúka meðgöngu. Hins vegar bendir Biden á að einungis þingið geti endurheimt réttinn á landsvísu með lögum. Hann hvetur kjósendur til að styðja þingmenn sem vilja vernda rétt kvenna í komandi kosningum. Biden hvatti jafnframt til friðsælla mótmæla og hvatti fólk til að standa saman gegn ofbeldi.[16]

Nancy Pelosi

breyta

Nancy Pelosi þáverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, gagnrýndi harðlega ákvörðun Hæstaréttar og sagði að þetta væri „myrk og öfgakennd“ niðurstaða undir forystu Repúblikana. Hún taldi Donald Trump og Mitch McConnell leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni helstu áhrifamennina í þessari niðurstöðu, sem nú veldur því að konur hafi minni réttindi en mæður þeirra höfðu. Pelosi varar við að þessi ákvörðun gæti leitt til takmarkana á fleiri réttindum, svo sem aðgengi að getnaðarvörnum og tæknifrjóvgun líkt og Clarence Thomas hafði gefið í skyn. Hún benti einnig á hræsni Hæstaréttarins með því að bera saman ákvörðunina við nýlegan dóm sem verndaði rétt fólks til að bera skotvopn, en takmarkar nú rétt kvenna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir varðandi eigin líkama.[17]

Mitch McConnell

breyta

Repúblikaninn Mitch McConnell, leiðtogi minnihlutans í öldungadeildinni lýsti þeirri skoðun sinni að Roe v. Wade hefði verið „úreltur eða rangur“. Hann bar saman úrskurðinn í Dobbs v. Jackson Women's Health Organization við ákvörðun Hæstaréttar í Plessy v. Ferguson (1896)  sem heimilaði aðskilnað kynþátta en var síðar felld úr gildi með Brown v. Board of Education (1954). McConnell notaði þetta dæmi til að undirstrika að fordæmi sé mikilvægt en geti á sama tíma verið óviðeigandi eða rangt. Hann telur að nú sé málið aftur komið án þann stað þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar munu taka ákvarðanir um þungunarrof. McConnell spilaði stórt hlutverk í núverandi samsetningu Hæstaréttar, meðal annars með því að standa í vegi fyrir tilnefningu Merrick Garland árið 2016 og tryggja að Donald Trump skipaði þrjá nýja íhaldssama dómara.[18]

Donald Trump

breyta
 
Mótmælandi beinir spjótum sínum að Donald Trump.

Donald Trump hefur eignað sér heiðurinn af því að hafa ,,drepið" Roe v. Wade. Hann segir að loksins hafi það tekist eftir 50 ár af mistökum. Hann segir að aðgerðir sínar hafi styrkt hreyfinguna sem er andvíg þungunarrofi og gert henni kleift að knýja fram takmarkanir á þungunarrofi í mörgum ríkjum. Trump gefur einnig í skyn að án hans hefði hreyfingin ekki náð þessum árangri og nefnir sérstaklega að hann hafi skipað íhaldssama dómara í Hæstarétt. Þrátt fyrir að hafa stuðlað að takmörkunum á þungunarrofi, segist Trump styðja undantekningar fyrir tilfelli þar sem líf móður er í hættu, eða ef um nauðgun eða sifjaspell sé að ræða.[19]

Lagaleg staða í ríkjunum eftir dóminn

breyta

Niðurstaða dómsins hafði tafarlaus áhrif á löggjöf í þrettán fylkjum þar sem ríkisþing þeirra höfðu þegar samþykkt sérstaka löggjöf (e. trigger laws). Þessi lög tóku gildi um leið og dómnum Roe v. Wade var snúið við og bönnuðu þungunarrof í flestum tilfellum. Slíkar löggjafir voru til staðar í þrettán ríkjum og tóku gildi samstundis eða skömmu eftir að Roe v. Wade var ógilt. Hins vegar voru nokkur þeirra lög tímabundið stöðvuð af dómstólum, eins og í Wyoming, Norður-Dakóta, og Utah, þar sem lögin tóku ekki strax gildi. Hin ríkin eru Idaho, Suður-Dakóta, Missouri, Oklahoma, Arkansas, Kentucky, Tennessee, Texas, Louisiana og Mississippi. Meirihluti þessara fylkja eru staðsett í suðurhluta Bandaríkjanna.[20]

Ríki þar sem þungunarrof er bannað að öllu leyti eða að hluta til

breyta

Hér má sjá yfirlit yfir hvaða ríki hafa bannað þungunarrof og með hvaða hætti bannið stendur:[21]

Ríki Staða löggjafar Frekari upplýsingar
Alabama Ólöglegt Þungunarrof er bannað án undantekninga
Arkansas Ólöglegt Þungunarrof er bannað án undantekninga
Flórída Takmörkuð heimild Þungunarrof er bannað eftir sex vikna meðgöngu
Georgía Takmörkuð heimild Þungunarrof er bannað eftir sex vikna meðgöngu
Idaho Ólöglegt Þungunarrof er bannað með undantekningum vegna nauðgunar eða sifjaspella (ef það er tilkynnt til lögreglu)
Iowa Takmörkuð heimild Þungunarrof er bannað eftir sex vikna meðgöngu með undantekningum vegna nauðgunar eða sifjaspella
Indiana Ólöglegt Þungunarrof er bannað með undantekningum vegna nauðgunar eða sifjaspella
Kentucky Ólöglegt Þungunarrof er bannað án undantekninga
Louisiana Ólöglegt Þungunarrof er bannað án undantekninga
Mississippi Ólöglegt Þungunarrof er bannað með undantekningum vegna nauðgunar eða sifjaspella
Nebraska Takmörkuð heimild Þungunarrof er bannað eftir tólf vikna meðgöngu með undantekningum vegna nauðgunar eða sifjaspella
Norður-Karólína Takmörkuð heimild Þungunarrof er bannað eftir 12 vikna meðgöngu
Oklahoma Ólöglegt Þungunarrof er bannað án undantekninga
Suður-Dakóta Ólöglegt Þungunarrof er bannað án undantekninga
Suður-Karólína Takmörkuð heimild Þungunarrof er bannað eftir sex vikna meðgöngu með undantekningum vegna nauðgunar eða sifjaspella
Tennessee Ólöglegt Þungunarrof er bannað án undantekninga
Texas Ólöglegt Þungunarrof er bannað án undantekninga
Utah Takmörkuð heimild Þungunarrof er bannað eftir 18 vikna meðgöngu
Vestur-Virginía Ólöglegt Þungunarrof er bannað með undantekningum vegna nauðgunar eða sifjaspella (ef það er tilkynnt til lögreglu á fyrstu átta vikum meðgöngu)

Kosningar um réttinn til þungunarrofs

breyta
 
Auglýsingaspjöld fyrir kosningar um réttinn til þungunarrofs.

Samhliða forsetakosningunum 5. nóvember 2024 kusu tíu ríki um rétt til þungunarrofs. Í kjölfar þess að Hæstiréttur Bandaríkjanna ógilti Roe v. Wade, reyndist rétturinn til þungunarrofs vera eitt mest áberandi kosningamálið. Á síðustu tveimur árum hafa fylgjendur réttar til þungunarrofs unnið allar kosningar tengdar málinu. Sigur hefur jafnvel unnist í rauðum fylkjum á borð við Ohio, Kentucky, og Kansas.[22]

Flest frumvörp sem kosið var um miðuðu að því að vernda réttinn til þungunarrofs í löggjöf ríkjanna fram að um 24 vikna meðgöngu. Sjö ríki staðfestu réttinn til þungunarrofs. Meðal þeirra var Missouri, þar sem þungunarrof var áður bannað og er því fyrsta ríkið til þess að snúa við slíku banni. Í Flórída, Nebraska og Suður Dakóta verður þungunarrof enn bannað. Ríki sem kusu um réttinn til þungunarrofs í nóvember 2024 voru Arizona, Colorado, Flórída, Maryland, Missouri, Montana, Nebraska, Nevada, New York, og Suður-Dakóta.[22][23]

Fylki sem vernduðu réttinn til þungunarrofs

breyta
 
Gavin Newsom, ríkisstjóri í Kaliforníu

Mörg frjálslynd ríki reyndu að tryggja áframhaldandi réttindi kvenna til þungunarrofs. Í Kaliforníu hafa stjórnvöld styrkt rétt kvenna til þungunarrofs með lagabreytingu óháð framtíðarákvörðunum hæstaréttar. Stjórnvöld juku einnig fjárveitingar til málaflokksins. Gavin Newsom ríkisstjóri Kaliforníu sagði að með dóm hæstaréttar nytu konur ekki sama frelsis og karlar. Hann sagði einnig að farið væri með konur eins og annars flokks borgara í landinu. Lögin sem voru samþykkt í Kaliforníu í var ætlað að tryggja að aðilar frá öðrum ríkjum geti ekki höfðað mál gegn Kaliforníubúum sem framkvæma, aðstoða við eða undirgangast þungunarrof. Lögin eiga einnig að vernda konur frá öðrum ríkjum sem koma til Kaliforníu til að rjúfa meðgöngu.[24]

Ríkisþing New York hefur samþykkt lög sem styðja við rétt kvenna til þungunarrofs. Það er gert með því að veita læknum vernd sem ávísa og senda þungunarrofslyf til sjúklinga í ríkjum þar sem þungunarrof er bannað eða verulega takmarkað. Lögin tryggja að yfirvöld og dómstólar í New York muni ekki aðstoða önnur ríki við að sækja heilbrigðisstarfsmenn til saka sem hafa aðstoðað íbúa viðkomandi ríkis, svo lengi sem heilbrigðisstarfsmaðurinn fylgir lögum New York. Lögin voru samþykkt með miklum meirihluta í báðum deildum þingsins. Löggjöfin kemur í kjölfar þess að fjórtán ríki hafa nánast alfarið bannað þungunarrof og beint athyglinni að þeim sem aðstoða konur við að fá aðgang að þjónustunni. New York ríki stefnir þannig að því að vernda heilbrigðisstarfsfólk og stuðla að því að konur frá öðrum ríkjum hafi aðgang að þungunarrofslyfjum, jafnvel þar sem slík aðstoð er takmörkuð.[25]

Möguleg lagaleg úrræði

breyta
 
Mótmælendur sem eru fylgjandi réttinum til þungunarrofs.

Möguleikinn á að lögfesta (e. codify) Roe v. Wade hefur verið ræddur á alríkisstigi, sem leið til að tryggja réttinn til þungunarrofs á ný með sérstakri löggjöf. Slíkt myndi fela í sér að lög um rétt kvenna til þungunarrofs tækju gildi á landsvísu, óháð staðbundnum lögum. Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur lýst yfir stuðningi við slíka löggjöf og sagðist áætla að „Roe verði lögfest að nýju,“ jafnvel þó að úrskurðurinn hafi fallið með Dobbs.[26]

Hins vegar er óvíst hvort slík löggjöf gæti orðið að veruleika í ljósi mikils pólitísks ágreinings um málið, en löggjöfin myndi þurfa samþykki bæði fulltrúadeildarinnar og öldungadeildarinnar, auk stuðnings forsetans, til að öðlast gildi.[27] Andstæðingar gætu einnig leitað leiða til að lögfesta frekar þungunarrofsbann á alríkisstigi, sem myndi setja verulegar skorður við réttinum um allt land.

Önnur lagaleg úrræði gætu byggt á réttindum til ferðafrelsis eða jafnréttis. Til dæmis gætu konur eða heilbrigðisstofnanir kært lög ríkja og haldið því fram að þau brjóti á stjórnarskrárvörðum réttindum til ferðafrelsis eða persónufrelsis. Þau sem ferðast til annarra ríkja til að fara í þungunarrof, þar sem það er löglegt, gætu því kært ríki sem refsa þeim sem ferðast út fyrir ríkjamörk í þessum tilgangi. Ef slík mál kæmu fyrir dómstóla gæti Hæstiréttur þurft að skera úr um hvort ríki hafi rétt til að takmarka ferðafrelsi einstaklinga til að sækja löglega heilbrigðisþjónustu annars staðar í Bandaríkjunum.[28]

Nú hafa sum ríki sett reglur sem takmarka notkun lyfja til þungunarrofs, jafnvel þótt FDA (Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna) hafi samþykkt þau á alríkisstigi. Þetta gæti skapað lagaleg átök ef ríki reyna að hindra aðgang að þessum lyfjum, jafnvel þegar þau eru send frá öðrum ríkjum. Ef ríki sem banna lyf til þungunarrofs beita sektum eða refsingum fyrir innflutning þeirra gæti það talist skerðing á yfirráðum alríkisins á sviði lyfjaframboðs, sem gæti orðið að álitaefni fyrir Hæstarétt.[29]

Tilvísanir

breyta
  1. „Dobbs v. Jackson Women's Health Organization | Constitution Center“. National Constitution Center – constitutioncenter.org (enska). Sótt 27. október 2024.
  2. 2,0 2,1 Supreme court of the United States (desember 2021). „DOBBS, STATE HEALTH OFFICER OF THE MISSISSIPPI DEPARTMENT OF HEALTH, ET AL. v. JACKSON WOMEN'S HEALTH ORGANIZATION ET AL“ (PDF).
  3. „10 key passages from Alito's draft opinion, which would overturn Roe v. Wade - POLITICO“. web.archive.org. 4. maí 2022. Afritað af uppruna á 4. maí 2022. Sótt 27. október 2024.
  4. „Leading medical groups file amicus brief in Dobbs v. Jackson“. American Medical Association (enska). 21. september 2021. Sótt 27. október 2024.
  5. Eleanor Mueller; Nick Niedzwiadek (júní 2022). „Unions wade gingerly into abortion after SCOTUS ruling“. Politico.
  6. Flood, Brian (10. október 2022). „Abortion: NY Times, Washington Post, LA Times editorial boards solidly pro-choice but mum on limits“. Fox News (bandarísk enska). Sótt 27. október 2024.
  7. „Ob-Gyns Say More People Are Dying Since Dobbs Overturned Right to Abortion“. The New Republic. ISSN 0028-6583. Sótt 27. október 2024.
  8. Kim Bellware; Emily Guskin (júní 2023). „Effects of Dobbs on maternal health care overwhelmingly negative, survey shows“. The Washington Post.
  9. Rachael Robertson (júní 2023). „A Year Later, Doctors Feel Impact of Dobbs Decision 'Every Single Day'. Medpage Today.
  10. McCann, Allison; Walker, Amy Schoenfeld (24. maí 2022). „Tracking Abortion Bans Across the Country“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 27. október 2024.
  11. Kate Zernike (júní 2023). „How a Year Without Roe Shifted American Views on Abortion“. New York Times.
  12. „Abortion rights have won in every election since Roe v. Wade was overturned“. NBC News (enska). 9. ágúst 2023. Sótt 27. október 2024.
  13. „Amdt14.S1.6.4.3 Abortion, Dobbs v. Jackson Women's Health Organization, and Post-Dobbs Doctrine“. júní 2024.
  14. „Dobbs v. Jackson Women's Health Organization | Constitution Center“. National Constitution Center – constitutioncenter.org (enska). Sótt 27. október 2024.
  15. „Niðurstaða Roe gegn Wade afleiðing valdatíðar Trumps - RÚV.is“. RÚV. 24. júní 2022. Sótt 9. nóvember 2024.
  16. Greve, Joan E. (24. júní 2022). „Biden condemns US supreme court's 'tragic error' of overturning Roe v Wade“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Sótt 9. nóvember 2024.
  17. „Nancy Pelosi and others react to Supreme Court overturning Roe v. Wade“. TODAY.com (enska). 24. júní 2022. Sótt 9. nóvember 2024.
  18. Reporter, Darragh Roche US News (28. júní 2022). „Mitch McConnell Suggests Roe v. Wade Precedent Was 'Outdated or Wrong'. Newsweek (enska). Sótt 9. nóvember 2024.
  19. „Trump: 'I was able to kill Roe v. Wade'. NBC News (enska). 17. maí 2023. Sótt 9. nóvember 2024.
  20. „The Aftermath of U.S. Supreme Court's Dobbs: Where Are the States in Fall 2022? - Jackson Lewis“. www.jacksonlewis.com (enska). 1. apríl 2023. Sótt 27. október 2024.
  21. Sherman, Carter; Witherspoon, Andrew; Glenza, Jessica; Noor, Poppy; Glenza, Andrew Witherspoon with additional reporting by Jessica (6. nóvember 2024). „Tracking abortion laws across the United States“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Sótt 9. nóvember 2024.
  22. 22,0 22,1 Sherman, Carter (26. september 2024). „Where will abortion be on the ballot in the 2024 US election?“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Sótt 27. október 2024.
  23. Quinn, Melissa; Hubbard, Kaia (7. nóvember 2024). „Map shows how abortion measures fared on the ballot in the 2024 election - CBS News“. www.cbsnews.com (bandarísk enska). Sótt 9. nóvember 2024.
  24. „Kalifornía styrkir rétt kvenna til þungunarrofs - RÚV.is“. RÚV. 25. júní 2022. Sótt 27. október 2024.
  25. Gísladóttir, Hólmfríður (21. júní 2023). „New York slær skjald­borg um lækna sem að­stoða við þungunar­rof - Vísir“. visir.is. Sótt 27. október 2024.
  26. House, The White (24. júní 2022). „Remarks by President Biden on the Supreme Court Decision to Overturn Roe v. Wade“. The White House (bandarísk enska). Sótt 10. nóvember 2024.
  27. Leonard, Kimberly. „Chuck Schumer is forcing a vote on abortion rights so voters can 'see which side every senator stands on.' Here are 5 things to know“. Business Insider (bandarísk enska). Sótt 10. nóvember 2024.
  28. Justin Rex (Júní 2024). „The Supreme Court Overturned Roe V. Wade in 2022. Here's the State of Abortion Rights Now in the US“. US News.
  29. Zettler, Patricia J.; Sarpatwari, Ameet (24. febrúar 2022). „State Restrictions on Mifepristone Access — The Case for Federal Preemption“. New England Journal of Medicine (enska). 386 (8): 705–707. doi:10.1056/NEJMp2118696. ISSN 0028-4793.