Púertó Ríkó

(Endurbeint frá Puerto Rico)

Púertó Ríkó (formlegt heiti: Samveldið Púertó Ríkó; spænska: Estado Libre Asociado de Puerto Rico, enska: Commonwealth of Puerto Rico) er sérstakt sambandssvæði innan Bandaríkjanna, austan við Dóminíska lýðveldið og vestan við Jómfrúaeyjar í norðausturhluta Karíbahafs.

Estado Libre Asociado de Puerto Rico
Commonwealth of Puerto Rico
Fáni Púertó Ríkó Skjaldarmerki Púertó Ríkó
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Joannes Est Nomen Eius
(latína: Jóhannes er nafn hans)
Þjóðsöngur:
La Borinqueña
Staðsetning Púertó Ríkó
Höfuðborg San Juan
Opinbert tungumál spænska, enska
Stjórnarfar Samveldisland

Landstjóri Pedro Pierluisi
Bandarísk yfirráð
 • Afsal frá Spáni 10. desember 1898 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
162. sæti
9.104 km²
1,6
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
136. sæti
3.195.153
351/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 129,908 millj. dala (75. sæti)
 • Á mann 39.763 dalir (29. sæti)
VÞL (2015) 0.845 (40. sæti)
Gjaldmiðill Bandaríkjadalur (USD)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .pr
Landsnúmer +1-787 og 1-939

Eyjaklasinn er hluti Stóru-Antillaeyja, á milli Dóminíska lýðveldisins og Bandarísku Jómfrúaeyja. Aðaleyjan er Púertó Ríkó en eyjaklasanum tilheyra líka minni eyjar og rif, þar á meðal Mona, Vieques og Culebra. Höfuðborgin og stærsta borg landsins er San Juan. Íbúar eru 3,2 milljónir. Spænska og enska eru opinber tungumál stjórnsýslunnar, þótt spænska sé ríkjandi. Þar er hitabeltisloftslag og því tiltölulega jafn hiti árið um kring.

Taínóindíánar voru upprunalegir íbúar eyjarinnar. Kristófer Kólumbus gerði tilkall til eyjarinnar fyrir hönd Spánar í annarri ferð sinni til Ameríku 19. nóvember 1493. Spánverjar stofnuðu nýlendu á eyjunni og hnepptu frumbyggja hennar í þrældóm. Spánn hélt eyjunni næstu fjórar aldirnar þrátt fyrir tilraunir Hollendinga, Breta og Frakka til að leggja hana undir sig. Eftir ósigur Spánar í stríði Spánar og Bandaríkjanna létu þeir eyjarnar af hendi við Bandaríkjamenn með Parísarsáttmálanum 1898. Árið 1917 fengu íbúar Púertó Ríkó bandarískan ríkisborgararétt og 1948 fengu þeir rétt til að kjósa eigin landstjóra. Árið 1952 fékk Púertó Ríkó eigin stjórnarskrá sem sjálfstætt ríki í frjálsu sambandi við Bandaríkin en ríkið er samt sem áður innan lögsögu Bandaríkjaþings þar sem Púertó Ríkó hefur áheyrnarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkur Púertó Ríkó hefur barist fyrir sjálfstæðu ríki.

Efnahagur Púertó Ríkó byggist fyrst og fremst á iðnaðarframleiðslu. Landið er fátækara en fátækasta fylki Bandaríkjanna, Mississippi, en samanborið við Rómönsku Ameríku er það með mestu landsframleiðsluna. 41% íbúa eru undir alþjóðlegum fátæktarmörkum. Snemma árs 2017 lenti stjórn landsins í skuldavanda þegar útistandandi ríkisskuldabréf náðu 70 milljörðum á sama tíma og atvinnuleysi var 12,4%. Skuldin hafði safnast upp vegna áratugalangrar efnahagskreppu. Bandaríkjaþing skipaði nefnd til að hafa umsjón með endurskipulagningu efnahags Púertó Ríkó í upphafi ársins. Í september sama ár gekk fellibylurinn María á land og olli gríðarlegu tjóni. Björgunaraðgerðir gengu hægt til að byrja með og um 200.000 íbúar höfðu flutt til Flórída í nóvember.

Púertó Ríkó dregur heiti sitt úr spænsku Puerto Rico „rík höfn“. Íbúar kalla eyjuna oft Borinquén sem er dregið af heiti eyjunnar á máli Taínóindíána Borikén sem merkir „land hins hugdjarfa lávarðar“. Orðin boricua og borincano eru oft notuð yfir íbúa eyjarinnar. Eyjan hefur líka verið þekkt á spænsku sem isla del encanto „töfraeyjan“.

Kristófer Kólumbus nefndi eyjuna San Juan Bautista til heiðurs Jóhannesi skírara en höfuðstaður hennar var nefndur Ciudad de Puerto Rico. Með tímanum fluttist nafn höfuðstaðarins yfir á eyjuna alla, sem varð þekkt sem Puerto Rico, en nafn eyjunnar á höfuðstaðinn, sem varð San Juan.

Í Parísarsáttmálanum 1898 breyttu Bandaríkin heiti eyjunnar í Porto Rico. Þessi útgáfa heitisins var notuð af erlendum fyrirtækjum og ríkisstjórn Bandaríkjanna. Heitinu var aftur breytt í Puerto Rico árið 1931.

Opinbert heiti landsins á spænsku er Estado Libre Asociado de Puerto Rico („frjálsa sambandsríkið Púertó Ríkó“) en á ensku er það Commonwealth of Puerto Rico („samveldið Púertó Ríkó“).

Landfræði

breyta
 
Ströndin við Patillas, í suðausturhluta Púertó Ríkó.

Púertó Ríkó nær yfir aðaleyjuna Púertó Ríkó og nokkrar smærri eyjar, þar á meðal Vieques, Culebra, Mona, Desecheo og Caja de Muertos. Af þessum fimm eru aðeins Culebra og Vieques byggðar árið um kring. Mona er óbyggð mestan hluta ársins fyrir utan starfsfólk Náttúru- og umhverfisauðlindadeildar Púertó Ríkó.[1] Það eru margar minni smáeyjar, eins og Monito-eyja við Monu,[2] Isla de Cabras og Isleta de San Juan, sem eru báðar í San Juan-flóa. Sú síðarnefnda er eina byggða smáeyjan, með þorp á borð við Gamla San Juan og Puerta de Tierra, og tengist við meginlandið með brúm.[3][4]

 
Dýptarkort NOAAA af Púertó Ríkó (2020).[5]

Samveldið Púertó Ríkó ræður yfir 13.800 km² landi. Þar af eru 8.900 km² á þurru landi og 4.900 km² vatn.[6] Púertó Ríkó er stærri en Delaware og Rhode Island. Lengd eyjunnar frá austri til vesturs er 180 km og mesta breidd hennar frá norðri til suðurs er 64 km.[7] Púertó Ríkó er minnst Stóru Antillaeyja. Eyjan er 80% af stærð Jamaíku,[8] rétt um 18% af stærð Hispaníólu og 8% af stærð stærstu eyjarinnar, Kúbu.[9]

Eyjan er að mestu fjalllend með stór strandhéruð í norðri og suðri. Meginfjallgarðurinn nefnist Cordillera Central. Hæsti tindur Púertó Ríkó er Cerro de Punta, 1.340 metrar á hæð.[6] Annar hár fjallstindur er El Yunque, einn af hæstu tindum fjallgarðsins Sierra de Luquillo í El Yunque-þjóðskóginum sem er 1.065 metra á hæð.[10]

 
Enlargeable, detailed map of Puerto Rico

Á Púertó Ríkó eru 17 stöðuvötn, öll manngerð, og meira en 50 ár sem flestar eiga upptök sín í Cordillera Central-fjallgarðinum.[11] Árnar á norðurhluta eyjarinnar eru flestar lengri og vatnsmeiri en ár á suðurhlutanum, þar sem sá hluti fær minni úrkomu.

Púertó Ríkó er mynduð úr hrauni sem myndaðist frá Krítartímabilinu til Eósen, með yngri jarðlögum frá Ólígósen og þaðan af yngri setlögum og karbónatlögum.[12] Mest af hellum og karstlandslagi á eyjunni er að finna í karbónatlögum á norðurhlutanum. Elsta bergið á eyjunni er um 190 milljón ára gamalt (frá Júratímabilinu) og er að finna í Sierra Bermeja í suðvesturhluta eyjarinnar. Hugsanlega var það sjávarbotn upprunninn í Kyrrahafi.

Púertó Ríkó liggur á mörkum Karíbahafsflekans og Norður-Ameríkuflekans, og hefur myndast við árekstra þessara fleka sem geta valdið jarðskjálftum, flóðbylgjum og skriðum. Þetta eru mestu jarðvár sem hætta er á í norðvesturhluta Karíbahafsins.

San Fermín-jarðskjálftinn 1918 átti sér stað 11. október 1918 og er áætlaður hafa verið 7,5 stig á Richter.[13] Upptök hans voru undan strönd Aguadilla, nokkrum kílómetrum undan norðurströnd Púertó Ríkó. Honum fylgdi flóðbylgja sem olli miklu eignatjóni og eyðilagði meðal annars brýr. Talið er að 116 hafi farist og eignatjónið hafi verið um 4 milljónir dala. Sein viðbrögð stjórnvalda áttu þátt í að skapa stjórnarkreppu og leiddu meðal annars til uppgangs Flokks þjóðernissinna.

Þann 7. janúar 2020 reið annar stór jarðskjálfti yfir eyjuna, 6,4 að stærð. Eignatjón var metið 100 milljón dalir.[14][15]

Púertó Ríkó-djúpállinn er stærsti og dýpsti djúpáll Atlantshafsins. Hann er um 114 km norðan við Púertó Ríkó á mörkum Karíbahafsflekans og Norður-Ameríkuflekans.[16] Hann er 270 km langur.[17] Þar sem hann er dýpstur, í Milwaukee-dýpinu, er hann næstum því 8.400 metra djúpur.[16]

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta

Í Púertó Ríkó eru engar sýslur líkt og í mörgum bandarískum fylkjum. Landið skiptist í 78 sveitarfélög. Sveitarfélögin skiptast í hverfi (barrios) og hverfin í umdæmi.

 
Sveitarfélög Púertó Ríkó

Heimildir

breyta
  1. Cortés Zavala; María Teresa & José Alfredo Uribe Salas (2014). „Ciencia y economía del guano: La isla mona en puerto rico, siglo XIX“. Memorias: Revista Digital de Historia y Arqueología Desde el Caribe. 11 (22): 81–106. doi:10.14482/memor.22.5948.
  2. Schärer-Umpierre, Michelle T.; og fleiri (2014). „Marine Managed Areas and Associated Fisheries in the US Caribbean“. Marine Managed Areas and Fisheries: 140.
  3. Helmer, Etienne (2011). „La ciudad contemporanea, una polis sin politica?“. Boletin Cientifico Sapiens Research. 1 (2): 88.
  4. Esterrich, Carmelo (2009). „Edenes insostenibles: El campo de la ciudad en la intentona cultural de los cincuenta“. CENTRO: Journal of the Center for Puerto Rican Studies. 21 (1): 180.
  5. „Bathymetric Data Viewer“. maps.ngdc.noaa.gov. Sótt 23. febrúar 2021.
  6. 6,0 6,1 „The World Factbook – Puerto Rico#Geography“. Cia.gov. Sótt 30. október 2011.
  7. „Welcome to Puerto Rico!“. topuertorico.org. Sótt 30. desember 2007.
  8. „The World Factbook – Jamaica“. CIA. Sótt 24. apríl 2008.
  9. „The World Factbook – Cuba“. CIA. Sótt 24. apríl 2008.
  10. „Caribbean National Forest – El Yunque Trail # 15“. GORP.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. ágúst 2010. Sótt 14. ágúst 2010.
  11. „Los Lagos de Puerto Rico“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. desember 2004. Sótt 29. júní 2007.
  12. Andrzej Pisera; Michael Martínez; Hernan Santos (maí 2006). „Late Cretaceous Siliceous Sponges From El Rayo Formation, Puerto Rico“. Journal of Paleontology. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. janúar 2009. Sótt 6. maí 2008.
  13. „Earthquake History of Puerto Rico“. U.S. Geological Survey. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. júlí 2007. Sótt 11. september 2007.
  14. „Live updates: Puerto Rico earthquake“. Cnn.com. 7. janúar 2020. Sótt 25. maí 2020.
  15. Rosa, Alejandra; Mazzei, Patricia (6. janúar 2020). „Earthquake Strikes Puerto Rico, Toppling a Well-Known Natural Wonder“. The New York Times.
  16. 16,0 16,1 Uri ten Brink. „Explorations: Puerto Rico Trench 2003 – Cruise Summary and Results“. National Oceanic and Atmospheric Administration. Sótt 20. nóvember 2009.
  17. „NOAA Ocean Explorer: Puerto Rico Trench“. Oceanexplorer.noaa.gov. Sótt 14. ágúst 2010.
   Þessi Bandaríkja-tengda grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.